10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

164. mál, Löggildingarstofa ríkisins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Mér datt í hug að gera örstutta athugasemd í framhaldi af því sem hæstv. dómsmrh. sagði í lok ræðu sinnar, að á komandi ári og með samþykkt þeirra fjárlaga sem nú er verið að fjalla um á hv. Alþingi er þeirri stofnun sem hér um ræðir ætlað — nú hef ég vissan áhuga fyrir því að hv. fyrirspyrjandi fylgist aðeins með umræðunni — að standa undir öllum kostnaði við rekstur sinn. Hvað þýðir það? Hvað mun það auka þann mismun sem hv. fyrirspyrjandi var að benda á að væri í tengslum við þær stofnanir sem staðsettar eru hér á suðvesturhorninu til að þjóna landsbyggðinni? Það er rétt að ég lesi það sem segir í fjárlagafrv. um Löggildingarstofuna og við hvað hún skuli búa á næsta ári:

„Sú breyting verður á högum stofnunarinnar að henni er gert að standa undir rekstrargjöldum með tekjum af starfseminni. Til þess þurfa tekjurnar að hækka um 77% eða úr 6 millj. í rúmar 11 millj. og eru það áætluð gjöld stofnunarinnar. Þau voru 8 millj. 560 þús. kr. á fjárlögum 1987 og hækka því um 37%.“

Það sem hér er verið að leggja til og það sem hv. fyrirspyrjandi mun sjálfsagt samþykkja eftir stuttan tíma er að kostnaður þeirra sem þurfa á þjónustu þessa fyrirtækis að halda muni aukast um 77%. Það sem verið er að kvarta undan og benda réttilega á nú rétt fyrir samþykkt fjárlaga verður miklu kostnaðarmeira eftir að búið er að samþykkja þau fjárlög sem nú eru til umfjöllunar.