10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

169. mál, atvinnuleyfi erlendra leiðsögumanna

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Það varð mikil óheillaþróun í atvinnuréttindamálum íslenskra leiðsögumanna sl. sumar og lýsir í raun miklu skilningsleysi á eðli þessa mikilvæga og krefjandi starfs sem reyndar skiptir sköpum um þá mynd sem erlendir gestir okkar fá af landinu. Í flestum nærliggjandi löndum eru reglur um að jafnvel þó að erlendar ferðaskrifstofur komi með hópa inn í landið skal einn innfæddur leiðsögumaður vera með í ferðinni.

Frumforsenda þess að þessi atvinnugrein blómstri er að vel sé að henni búið á öllum sviðum og að til starfa veljist ætíð hæfasta fólkið. Félag leiðsögumanna hefur um árabil staðið fyrir öflugri fræðslustarfsemi því til fárra eru gerðar aðrar eins kröfur um þekkingu á öllu milli himins og jarðar, þekkingu sem útlendingar hafa alls enga möguleika til að afla sér.

Herra forseti. Ferðaþjónustan er atvinnugrein sem við bindum miklar vonir við og treystum að færi þjóðinni síauknar gjaldeyristekjur og mörgum atvinnu á næstu árum. Að gefnu tilefni vil ég því minna á að við verðum að standa að öllu leyti betur að uppbyggingu ferðaþjónustunnar með því t.d. að standa við lögbundin framlög til Ferðamálaráðs og velja ætíð hæfasta fólkið til starfa að ferðamálum.