10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

169. mál, atvinnuleyfi erlendra leiðsögumanna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er hreyft afar mikilsverðu máli og ég þakka hv. fyrirspyrjendum fyrir að koma því að á Alþingi. Hæstv. félmrh. hefur í svari sínu upplýst okkur um að lausn væri í sjónmáli, viðunandi að mati Félags leiðsögumanna m.a., en ráðherrann gat ekki um í hverju sú lausn væri fólgin og væri æskilegt ef ráðherrann gæti bætt úr því.

Einnig kom fram í svari ráðherrans að annað ráðuneyti, ráðuneyti samgöngumála, færi með lög um ferðamál og ætti að gera ákveðnar kröfur skv. þeim lögum. Ég tel að hér sannist það enn og aftur hve mikið skortir á eðlilega samræmingu varðandi náttúruverndarmál í landinu því að það er ekki síst sá þáttur sem skiptir hér máli.