10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

169. mál, atvinnuleyfi erlendra leiðsögumanna

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft út af fyrir sig þörfu máli, en ég held að menn ættu að hugleiða hina hliðina. Hún er sú að stór hluti af íslenskum ferðamönnum er með íslenska leiðsögumenn erlendis. Þeir starfa gjarnan án þess að fá leyfi til að vera leiðsögumenn erlendis. Það leiðir af sjálfu sér að maður íhugar hvort það eigi að gilda tvenns konar reglur, eitt fyrir erlenda ferðamenn sem koma hingað og annað fyrir Íslendinga sem ferðast erlendis. Ég veit til þess að það fara stórir hópar til útlanda og í flestum ef ekki öllum tilfellum fylgja þeim íslenskir leiðsögumenn. Það má spyrja sem svo: Vilja menn að Íslendingar hafi ekki með sér innlenda leiðsögumenn? Þetta er ekki síður innlegg í þetta mál en spurningin um hvort útlendingar eigi að fá að vera leiðsögumenn hér.