10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

169. mál, atvinnuleyfi erlendra leiðsögumanna

Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin og vona að það verði þá breytingar til batnaðar um veitingu atvinnuleyfa fyrir erlenda leiðsögumenn hér á landi og það sé tekið vel eftir því ákvæði laganna að starfsmenn séu ekki fengnir utan lands frá ef hægt er að fá menn til starfsins innan lands. Svo furðulegt sem það kann að vera virðist ekki hafa verið ljóst frá hendi félmrn. hvort erlendu leiðsögumennirnir sem hér starfa þurfi atvinnuleyfi eða ekki. Ég sjálf tel engan vafa leika á því og vil því spyrja hæstv. félmrh. hvort hún telji nokkra leið að túlka ákvæði laganna um atvinnuréttindi útlendinga á þann veg að erlendir leiðsögumenn þurfi ekki atvinnuleyfi hér á landi. Þá finnst mér skipta öllu máli að ef ferðaskrifstofurnar hafa ekki atvinnurekstrarleyfi, sem getur vel verið að sé, sé alveg ótvírætt að allir leiðsögumenn sem hér starfa þurfi atvinnuleyfi, óháð því hvort þessar ferðaskrifstofur hafi sótt um atvinnurekstrarleyfi eða ekki. Það er tvöfalt lögbrot ef um það er að ræða. Mér finnst að það verði að vera alveg ljóst til þess að Ferðamálaráð, sem er undir samgrn., geti framfylgt ákvæði reglugerðar nr. 175 frá 1983, um eftirlit með skipulögðum hópferðum erlendra aðila til Íslands í atvinnuskyni. Reglugerðin gerir m.a. ráð fyrir að Ferðamálaráð gangi úr skugga um að erlendir leiðsögumenn hafi tilskilin atvinnuleyfi á Íslandi. Það er því nauðsynlegt að þetta atriði sé mjög skýrt af hálfu félmrn.

Við verðum að taka öll mál varðandi ferðaþjónustuna mjög föstum tökum. Varðandi leiðsögumenn sem fara með hópa um landið tel ég raunar nauðsynlegt að í hverjum hópi sé skylt að séu íslenskir leiðsögumenn eða leiðsögumenn sem hafa fengið menntun hér á landi því við megum alls ekki missa alla stjórn á þessum málum í hendur erlendra hagsmunaaðila. Það er mjög hæpið að þeir muni setja náttúruvernd á oddinn eins og Íslendingar ættu að gera.

Og aðeins vegna orða hv. 11. þm. Reykn. Þær reglur eru mjög víða erlendis að skylt sé að hafa leiðsögumenn frá viðkomandi landi þó að leyft sé að hafa erlenda leiðsögumenn með hópunum. Það gildir í flestum tilfellum á þeim stöðum þar sem Íslendingar eru. En mér finnst það ekki breyta nokkru hvaða reglur gilda annars staðar. Við þurfum að gæta þess að reglurnar hér á landi séu þannig að við séum ánægð með þær.