20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

13. mál, framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda og sömuleiðis í svari hæstv. samgrh. að ég heimilaði flugmálastjóra að taka upp viðræður við heimamenn um að aðilar þar tækju að sér framkvæmdir við byggingu 1. áfanga Egilsstaðaflugvallar en þó án skuldbindinga um að tilboði þeirra yrði tekið. Ákvörðun um það yrði tekin af ráðuneytinu að loknum viðræðum.

Þegar ég tók þessa ákvörðun var sjáanlegt að ríkisstjórnarskipti voru að fara fram og eins og fram kom í samtali mínu við flugmálastjóra lagði ég áherslu á að þessum viðræðum yrði hraðað þannig að ákvörðun yrði tekin sem allra fyrst og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er ekki sparnaður í því að hefja framkvæmdir í svartasta skammdeginu.