10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

175. mál, kjötbirgðir og útflutningsbætur

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykn. hefur beint til mín spurningum um kjötbirgðir og útflutningsvörur. Óhætt er að fullyrða að á liðnu ári hafa verið gerðar meiri ráðstafanir til að draga úr kjötbirgðum kindakjöts en um langt skeið, enda er það svo að þær eru nú minni en á undanförnum árum. Leitað hefur verið eftir upplýsingum um hversu miklar þær eru nú í byrjun þessa mánaðar og samkvæmt þeim eru þær um 400 tonn en það er, eins og ég sagði áður, minna en um langt skeið. Þegar upplýsingar um þetta liggja endanlega fyrir verður reynt að gera sér grein fyrir hvað er unnt að gera við þær. Er óhætt að taka undir með hv. 11. þm. Reykn. að sumt af þessu kjöti a.m.k. hlýtur að fara í vinnslu þar sem um er að ræða vöru sem ekki er hægt að selja beint til neytenda. Stór hluti af þessu er einnig svonefndur O-flokkur sem er of feitt kjöt til að hæfa neytendamarkaði.

Um síðari spurninguna, um útflutningsleyfi, er það að segja að landbrn. veitir útflutningsheimildir þó að ekki sé tryggt að fjármagn fáist til greiðslu útflutningsbóta þegar í stað. Ástæðan er fyrst og fremst tvíþætt. Í fyrsta lagi er það ávinningur að minnka birgðir sem fyrst til þess að ekki hlaðist á þær geymslukostnaður og í öðru lagi eru ýmsir markaðir þannig að þá verður að nýta þegar færi gefst og útflutningurinn því að eiga sér stað tafarlaust, en það hefur verið lögð mikil áhersla á það af hálfu landbrn. að þannig væri að verki staðið að yrði sem allra hagkvæmust útkoma úr dæminu í heild.

Það hefur verið náin samvinna milli fjmrn. og landbrn. í þessum efnum, einnig við Stéttarsamband bænda, en þessir aðilar allir eiga fulltrúa í svonefndri framkvæmdanefnd búvörusamninga sem um þessi mál fjallar.