10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

176. mál, staðgreiðslulán vegna sauðfjárafurða

Fyrirspyrjandi (Hreggviður Jónsson):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir fsp. til landbrh. um staðgreiðslulán vegna sauðfjárafurða:

„1. Hve há staðgreiðslulán vegna sauðfjárafurða voru veitt á árinu 1985 og 1986 og hve há eru þau lán áætluð á árinu 1987?

2. Voru staðgreiðslulán afgreidd 15. des. 1985 og 1986 og verða þau afgreidd 15. des. 1987, sbr. 29. gr. búvörulaga?

3. Hvernig fer útreikningur á ákvörðun staðgreiðsluláns fram?

4. Hvernig hefur innheimta staðgreiðslulana farið fram og hvaða vexti bera þau?

5. Hverjir hafa séð um innheimtu staðgreiðslulána?

6. Hvaða greiðslutryggingar er farið fram á vegna staðgreiðslulána og eftir hverju fer mat á veðhæfni greiðslutryggingar? Ef veð eru tekin fyrir staðgreiðslulánum í afurðum, með hvaða hætti er veðsett og eftir hvaða lögum er farið?

7. Voru eftirstöðvar af staðgreiðslulánum frá árinu 1985, ógjaldfallin lán eða vanskil innheimtar við veitingu staðgreiðslulána 1986? Verður svo í ár vegna lána 1987?"