10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

177. mál, fjármögnun lána vegna sauðfjárafurða

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. 11. þm. Reykn. að það er nauðsynlegt að reyna að hafa þessi mál sem markvissust og hagkvæmust. Á það hefur verið lögð áhersla, en lögin hafa ekki verið nema stuttan tíma í gildi og vissulega er eðlilegt að reynslan kenni mönnum að eitthvað megi betur fara.

En afurðalán hafa aldrei numið 75%. Þau voru 72–74% eftir því við hvað var miðað, hvort það var miðað við sjóðagjöld einnig eða ekki ofan á heildsöluverðið. En viðskiptabankarnir greiddu hluta af sínu viðbótarláni við það sem Seðlabankinn lagði fram ekki fyrr en eftir aramót, sumir hverjir a.m.k., þannig að raunverulega varð prósentan aldrei svona há fyrir áramót. Ég hef ekki heyrt sláturleyfishafa nú kvarta undan því að prósenta viðskiptabankanna sé óeðlilega lág miðað við staðgreiðslulánin.

Ég varð ekki var við að þeir sem nú ráða mestu í Borgarafl. stæðu á móti því að Seðlabankinn hætti við afurðalánin heldur var það krafa samstarfsflokks okkar framsóknarmanna í fyrrv. ríkisstjórn að færa afurðalánin frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna. Ég get tekið undir með hv. 11. þm. Reykn. að æskilegra væri að hafa það áfram í Seðlabankanum, en það voru talin þung rök fyrir því að það væri ekki hlutverk Seðlabankans að annast slík mál.