10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

195. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Við þm. Borgarafl. erum andvígir þessum sérstaka skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þessi skattur, eins og kom fram í framsögu hæstv. fjmrh., var í fyrsta sinn lagður á á arinu 1979. Hann hefur einkenni þeirra skatta sem við höfum oft tekið upp á árum áður, þ.e. tímabundinna skatta sem eru lagðir á til að leysa ákveðin vandamál það árið en hafa síðan tilhneigingu til þess að verða eilífir. Við mundum miklu frekar vilja að athugað yrði um eignarskatt á atvinnuhúsnæði almennt og kannað hvort ekki væri hægt að dreifa þessum skatti yfir á annað atvinnuhúsnæði, t.d. iðnaðarhúsnæði. Ég sé í sjálfu sér ekki neina ástæðu til að taka sérstaklega fyrir verslunar- og skrifstofuhúsnæði og leggja sérstakan eignarskatt á það, en undanskilja allt annað atvinnuhúsnæði slíkum sérstökum eignarskatti.

Ég hefði gaman af að fá svör við því hvort skrifstofuhúsnæði í eigu stjórnmálaflokka ber uppi þennan sérstaka skatt og mundi gjarnan vilja heyra svör hæstv. fjmrh. við því.