10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um söluskatt ásamt með síðari breytingum. Hér ræðir um lög nr. 10 frá 1960.

Þetta er eitt þriggja frumvarpa sem öll verða til umræðu á þessum deildarfundi. Hin tvö fjalla um breytingu á tollalögum og vörugjaldi. Þar sem þessi þrjú frv. eru að mörgu leyti efnislega ósundurslítanleg og nátengd hef ég í hyggju að ræða þau hér öll að svo miklu leyti sem umræðuefnið er eitt og vænti þess að þm. geti fjallað um þau öll í senn hér á eftir að svo miklu leyti sem það er efnislega óaðskiljanlegt. Þetta er bæði eðlilegt vegna þess hversu samtengd þessi þrjú mál eru og eins ekki síður þar sem með þessu sparast dýrmætur tími á hinu háa Alþingi. Ég sagði að við það mundi sparast dýrmætur tími á hinu háa Alþingi og vil þá fara nokkrum orðum um það mál.

Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir hversu seint mörg stórmál hafa komið fram hér á Alþingi. (Forseti: Má ég biðja hv. ræðumann um að doka aðeins við. Það hefur komið fram ósk um það frá stjórnarandstöðunni að fundinum verði frestað í fimm mínútur. Ef ræðumanni er það ekki mikið á móti skapi hef ég það í hyggju að verða við þeim tilmælum.) Ég verð að sjálfsögðu við slíkum tilmælum forseta. — [Fundarhlé.]