10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

196. mál, söluskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil koma upp og taka undir orð þeirra stjórnarandstöðuþm. sem hér hafa talað. Það er afleitt að þau vinnubrögð skuli hafa verið höfð á þinginu sem raun ber vitni og miður að hæstv. fjmrh. skyldi ekki hlusta á þingskapaumræðu, sem var í nokkrar klukkustundir í morgun, þar sem þm. komu hver á fætur öðrum í ræðustól til að lýsa yfir óánægju sinni með vinnubrögðin og skipulagsleysið. Það höfðu flestir verið boðaðir á fleiri en einn fund og margir jafnvel á þrjá í morgun á sama tíma, ýmist í nefndum eða á fund í Sþ., og urðu menn að velja eftir geðþótta og smekk og mikilvægi mála hvar þeir reyndu helst að mæta. Síðan hefur enginn tími gefist til að gaumgæfa þessi fjarskalega mikilvægu mál, þær stóru kerfisbreytingar og þær miklu skattaálögur sem við stöndum frammi fyrir að fara að kynna okkur og ræða, og það er náttúrlega afleitt.

Ég styð að þessi mál verði tekin hvert fyrir sig og síðan þurfa þau mjög gaumgæfilega umfjöllun í nefnd og tíma til þess að þm. geti almennilega kynnt sér þau áður en þau koma hingað til 2. umr. Annað væri gersamlegt ábyrgðarleysi af hálfu þm. og slíkt er að sjálfsögðu ekki hægt að fara fram á af ráðherrum eða stjórn þingsins.