20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í B-deild Alþingistíðinda. (133)

19. mál, erlend nöfn á íslenskum fyrirtækjum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og ég efast ekkert um hans góða vilja til þess að reyna að sporna við þessum hvimleiða sið sem hér er að festa rætur. Ég get reyndar ekki tekið undir að það geti skipt miklu máli hvort einhver staður sem heitir Shang-hai er skrifaður með a-i eða æ-i. Jafnfánalegt þykir mér þegar þeir Hafnfirðingar, vinir mínir, geta skýrt veitingastað Gaflinn með því að hafa bandstrik á milli svo að það heiti Gafl-inn. Þeim sem ekki skilja ensku skal til upplýsingar sagt að inn þýðir krá og þar með er seinni hluti orðsins orðin enska.

En nú hef ég áður spurt tvo hæstv. ráðherra vegna þessa máls og í þetta sinn ber svo við að hæstv. núv. viðskrh. er jafnframt dómsmrh. og sem slíkur hefur hann með að gera skrásetjara samkvæmt þeirri lagagrein sem hér er um rætt, sem eru eins og hann réttilega sagði sýslumenn, bæjarfógetar og borgarfógetinn í Reykjavík, hver í sínu lögsagnarumdæmi. Getum við þess vegna ekki vænst að hæstv. ráðherra beiti sér nú fyrir því af verulegri alvöru á báðum vígstöðvum að íslenskum lögum sé framfylgt að þessu leyti?

Við erum öll sammála um verndun íslenskrar tungu og menningar, a.m.k. í hátíðarræðum, en látum það samt viðgangast að íslensk fyrirtæki geri yfirbragð íslenskra byggðarlaga, eins og forstöðumaður Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns sagði í umræddri grein sem hæstv. ráðherra minntist á, „eins og smáborg í miðríkjum Bandaríkjanna“.

Ég vil einnig benda á aðra ágæta grein í sama blaði frá 7. okt. sl. þar sem Erlingur Kristjánsson, húsasmiður í Mosfellsbæ, segir m.a. um byggðarlag sitt:

„En ég vil segja eftirfarandi við ráðamenn Mosfellsbæjar“, og nú les ég með leyfi forseta, „í nútíð og framtíð: Ef þið viljið treysta ásjónu og ímynd byggðarlagsins út á við, þá forðist að leyfa fyrirtækjum og verslunum hvers kyns útlendar eða innlendar lágkúrur í nafngiftum.“

Það er nefnilega þannig með þetta mál að skynugir Íslendingar vilja ekki þessi erlendu nöfn á fyrirtækjum sínum og Alþingi hefur marglýst vilja sínum þannig að í þessu efni eru þjóð og þing einhuga. Það er einfaldlega framkvæmdarvaldið sem bregst, herra forseti.

Nokkur hluti af þessu vandræðamáli er einnig fjárhagslegur vegna þess að menn eru hættir að selja vörur, menn eru að selja vörumerki, og kaupendur láta blekkjast af því að vörur sem eru e.t.v. engu betri en aðrar sambærilegar eru einfaldlega í svokölluðu fínu merki. Hefur þetta gengið svo langt að jafnvel verslanirnar og fyrirtækin sjálf bera nöfn þessara sömu merkja. Hér er því verið að leika sér á ýmsum vígstöðvum, herra forseti. Ég treysti nýskipuðum hæstv. viðskrh. og dómsmrh. til þess að ganga feti framar en forverar hans hafa gert og hreinsa íslensk byggðarlög af þessum leiða sið.