10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

196. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Sá er hængur á tímafrekum umræðum um tímaskort að klukkan tifar og tíminn eyðist. (SvG: Þú hefðir betur séð það fyrr.) Það er hverju orði sannara að ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir hversu seint stór og viðamikil mál eru fram komin. Þessi gagnrýni er fyllilega réttmæt og þýðir ekki að vera með nein undanbrögð í því efni. Það er staðreynd að undirbúningur þessarar skattkerfisbreytingar reyndist mun tímafrekari en áformað var í upphafi, jafnvel þó að að þessum málum hafi verið unnið myrkranna á milli vikum og mánuðum saman. Ég dreg enga dul á að mér þykir þetta miður. Þetta er ekki gert af ráðnum hug til að sýna Alþingi Íslendinga óvirðingu og ég biðst velvirðingar á því að þurfa að leggja svo stór og viðamikil mál fram með svo naumum undirbúningstíma.

Við erum hér að ræða frv. til l. um breytingar á lögum um söluskatt. Ég mun að sjálfsögðu verða við því að ræða það mál fyrst og fremst, en kemst ekki hjá því engu að síður að víkja að hinum málunum einfaldlega vegna þess að innbyrðis rökrétt samhengi þeirra er slíkt að hjá því verður ekki komist.

Um þessi þrjú frumvörp má segja að þótt skattkerfisbreytingar sem í þeim felist séu umfangsmiklar og komi víða við eru þær engu að síður einfaldar. Auk þess eru hugmyndirnar í sjálfu sér ekki nýjar af nálinni. Þær má rekja flestar ef ekki allar til starfsáætlunar ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram um leið og stjórnin tók við fyrir hálfu ári. Enn fremur voru þessar tillögur áréttaðar í fjárlagafrv. sem lagt var fram í októberbyrjun. Í stórum dráttum eru þess vegna umfang og meginatriði þessa máls kunn frá því á liðnu sumri.

Eins og ég nefndi áðan er hér gerð tillaga um einhverja veigamestu kerfisbreytingu á sköttum sem gerð hefur verið um áratuga skeið. Markmiðin með þessum breytingum eru m.a. eftirfarandi: Fækkun undanþága og samræmdur söluskattur. Jafnframt lækkun tolla og afnám sex annarra gjalda. Í þriðja lagi öruggari tekjuöflun ríkissjóðs. Í fjórða lagi stórbætt skattaskil. Og í fimmta lagi lækkun verðlags á mjög þýðingarmiklum og umfangsmiklum vöruflokkum.

Þessar breytingar koma til framkvæmda um leið og tekið verður upp staðgreiðslukerfi skatta. Með þessum aðgerðum og ákvörðun um 22% virðisaukaskatt, sem stefnt er að að verði tekinn upp í ársbyrjun 1989 þegar gamla söluskattskerfið verður afnumið, með þessum umfangsmiklu breytingum er lokið stærsta þættinum í endurskoðun skattakerfisins í samræmi við þau boðorð samstarfssamnings stjórnarinnar að skattlagning verði þar með gerð einfaldari, réttlátari og skilvirkari.

Mikilvægur þáttur þessara aðgerða felst í víkkun núverandi söluskattsstofns þannig að söluskattur leggist á allar neysluvörur. Fyrsta skrefið í þá átt var stigið sl. sumar þegar söluskattur var á ný lagður á tölvur og farsíma, sérstakur 10% söluskattur var lagður á ýmis matvæli frá 1. ágúst sl. og á sérfræðiþjónustu frá 1. sept. sl. Jafnframt var boðað að um næstu áramót yrði stigið annað skref til að víkka enn skattstofninn og samræma hann með því að gera söluskattsskyldar þær neysluvörur sem undanþegnar eru söluskatti eða bera sérstakan söluskatt. Loks er fyrirhugað að síðasta skrefið verði stigið með upptöku virðisaukaskatts í ársbyrjun 1989.

Á síðustu árum hefur greinilega komið í ljós að söluskattskerfið uppfyllir ekki lengur þær kröfur um öryggi í framkvæmd og eftirlit með innheimtu sem verður að gera til þessa mikilvægasta tekjustofns ríkisins. Í því sambandi hefur einkum verið bent á hversu hinar fjölmörgu undanþágur frá skattskyldunni gera framkvæmd erfiða og óörugga. Mikill fjöldi undanþága, sem m.a. er afleiðing uppsöfnunaráhrifa söluskattsins í framleiðslustarfseminni, mælir með því að upp verði tekinn virðisaukaskattur.

Vorið 1986 skilaði áliti sérstök nefnd skipuð af þáv. fjmrh. sem kannaði orsakir og umfang skattsvika. Í ábendingum sínum um leiðir til úrbóta er höfuðáhersla lögð á nauðsyn þess að einfalda skattakerfið. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Einfalda þarf skattalögin, fækka undanþágum og afnema margs konar frádráttarliði þannig að skattstofnar verði skýrir og afmarkaðir og greiðsluskylda auðreiknanleg. Einföldun skattalaga og fækkun undanþága og frádráttarliða auðveldar öll skattaskil virkara skatteftirlits. Um leið þarf að fækka skatttegundum og gæta þess að einstakir skattstofnar séu ekki ofnýttir.“

Á sínum tíma uppfyllti söluskatturinn að mörgu leyti ágætlega þær kröfur sem almennt eru gerðar til neysluskatta. Skattstofninn var stór, undanþágur voru fáar, skatthlutfallið var lágt og framkvæmdin var einföld og ódýr. Öll þessi atriði eru forsendur nauðsynlegs öryggis í framkvæmd skattheimtu af þessu tagi.

Allt frá árinu 1970 hefur eðli söluskattsins hins vegar verið að breytast. Ástæðurnar eru margvíslegar. Ég nefni nokkrar:

Í kjölfar fríverslunarsamninga Íslands við EFTA og EB á fyrri hluta 8, áratugarins lækkuðu tolltekjur ríkisins mjög verulega vegna afnáms verndartolla. Þetta tekjutap var að mestu leyti bætt með hækkun söluskattshlutfallsins. Minnkandi tollvernd og hækkun söluskattshlutfallsins jók á hinn bóginn uppsöfnunaráhrif söluskatts þar sem hann lagðist á vélar, þjónustu, viðhald og ýmis aðföng innlends samkeppnisiðnaðar. Ef ekkert hefði verið að gert hefði samkeppnisstaða innlendra framleiðenda, jafnt á innanlandsmarkaði sem erlendis, versnað að miklum mun. Og nú bið ég menn að minnast þess að fá hagkerfi í grennd við okkur eru jafnopin eða jafnháð milliríkjaviðskiptum og okkar.

Til að bæta úr þessu var gripið til þess ráðs að undanþiggja í stórum stíl vélar og tæki til samkeppnisiðnaðar frá tollum og söluskatti. Á sama hátt hefur söluskattur verið felldur niður af ýmsum vélum og tækjum til fiskvinnslu og landbúnaðar í því skyni að skapa þessum atvinnugreinum betri starfsskilyrði. Þá var í vaxandi mæli farið að undanþiggja neysluvörur söluskatti, m.a. í því skyni að halda vísitöluhækkunum í skefjum. Lokaskrefið í þessu undanþágufargani var síðan stigið haustið 1978 þegar matvörur voru undanþegnar söluskatti til þess þá að halda aftur af fyrirsjáanlegum launahækkunum og hafa áhrif á vísitölu. Þannig hefur skattsviðið smám saman verið að þrengjast, en það hefur óhjákvæmilega leitt til síhækkandi hlutfalls, fjölgunar undanþága, síversnandi innheimtu með þeim afleiðingum að söluskattskerfið er í molum.

Það segir sig sjálft að þeim mun hærra sem skatthlutfallið er þeim mun meiri verður ásókn í undanþágur, enda ljóst að skatturinn getur haft afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja og framleiðsluvara gagnvart keppinautum. Þessi þróun hefur þannig torveldað eftirlit með skilvísri skattheimtu og vafalaust ýtt undir tilhneigingu til undandráttar.

Herra forseti. Með þessu frv. er mörkuð ný stefna í þessum efnum. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að efla öryggi í framkvæmd söluskatts að svo miklu leyti sem slíkt er mögulegt án nýs neysluskattakerfis sem tekur meira mið af þörfum atvinnulífs og samkeppnishæfni en söluskatturinn getur eðli málsins samkvæmt gert. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið markað þá stefnu og áréttað hana að þessu sinni að virðisaukaskattur verði tekinn upp í ársbyrjun 1989.

Þær breytingar sem söluskattsfrv. felur einkum í sér eru þessar:

Matvæli verða að nýju að fullu söluskattsskyld. Það er staðreynd að mínu mati að engin einstök aðgerð hefur grafið jafnmikið undan framkvæmd og eftirliti með skilum á söluskatti og afnám söluskatts á matvæli gerði á sínum tíma. Ástæðan er einfaldlega sú að mjög erfitt er og í reynd oft óframkvæmanlegt að halda söluskattsskyldum og söluskattsfrjálsum vörum aðgreindum á smásölustigi. Til að ákvarða söluskattsstofn hefur m.a. verið notast við sérstakar flóknar reiknireglur sem aldrei eru nákvæmar, auk þess sem það er bæði erfitt og tímafrekt að koma við nauðsynlegu eftirliti með að þeim sé framfylgt. Þessu fylgir stóraukin fyrirhöfn, bæði fyrir þá sem innheimta söluskatt og einnig og ekki síst þá sem standa eiga skil á honum í ríkissjóð, svo og skattayfirvöld. Út af fyrir sig jókst þetta vandamál nú í haust þegar sérstakur söluskattur, 10%, var lagður á matvæli önnur en kjötvörur, mjólkurvörur og grænmeti, en þá lá þó a.m.k. fyrir að hann skyldi verða tímabundinn og stefnt að því að einfalda kerfið um næstu áramót.

Um það er engin spurning að þegar undanþágur söluskatts af matvælum hafa verið felldar niður verður söluskattsuppgjör matvöruverslana miklum mun einfaldara. Jafnframt verður eftirlit skattyfirvalda með söluskattsskilum miklum mun auðveldara en nú er. Á þessu leikur ekki minnsti vafi. Þeir sem halda öðru fram hafa annaðhvort ekki kynnt sér málið nægilega vel eða tala þar gegn betri vitund. Það er kannski ástæða til að líta aðeins nánar á þetta atriði því að þetta er vissulega grundvallaratriði.

Þeim matvöruverslunum sem ekki hafa aðstöðu til að halda söluskattsskyldri og söluskattsfrjálsri sölu aðgreindri á sölustigi er samkvæmt reglugerð heimilt að skipta heildarveltu sinni með óbeinum hætti í söluskattsskylda og söluskattsfrjálsa sölu. Þetta er gert á þann hátt að innkaupum á skattfrjálsum vörum, vörum sem bera 25% sölugjald og vörum sem bera 10% sérstakan söluskatt á að halda aðgreindum í bókhaldi og útsöluverð þeirra er síðan reiknað á hverju uppgjörstímabili. Skattaðilar geta valið um þrjár meginaðferðir við að skipta heildarveltu í skattskylda og skattfrjálsa sölu, en í reynd, þegar menn líta á framkvæmdina, verða þessar reglur miklum mun flóknari. Fyrsta aðferðin er sú að skipta heildarveltu í sömu hlutföllum og er á milli reiknaðs útsöluverðs innkaupanna í hverjum skattflokki á tímabilinu. Önnur aðferð er að reikna útsöluverð söluskattsfrjálsra innkaupa og annars skattskylda vöruflokksins, en hinn skattskyldi vöruflokkurinn er síðan fundinn með því að draga fyrrnefndu vöruflokkana frá heildarveltunni. Þriðja aðferðin er að reikna útsöluverð beggja skattskyldu flokkanna og síðan er skattfrjálsa salan fundin með því að draga útsöluverð þeirra frá heildarveltunni.

Það er ljóst að þeir aðilar sem gera upp eftir þessum aðferðum þurfa að leggja á sig aldeilis ómælda vinnu við söluskattsuppgjör í hverjum einstökum mánuði. Einnig er ljóst að flóknar reglur um uppgjör auka hættur á villum og valda mun meiri vinnu skattyfirvalda við eftirlit. M.ö.o.: Skattskilin eru flókin og þau eru tímafrek. Skattaeftirlitið er óöruggt og í sumum greinum verður því nánast ekki við komið. — Lítum aðeins á það atriði.

Söluskattseftirliti skattyfirvalda eins og það er framkvæmt má í grófum dráttum skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi er um að ræða undirbúningsskoðun sem skattstofurnar framkvæma. Það felst í því að mánaðarlegar skýrslur eru yfirfarnar, augljósar villur, reikningsskekkjur, lagfærðar. Þá eru fylgiblöð þeirra sem selja bæði skattfrjálsar og skattskyldar vörur yfirfarin ef ástæða þykir til. Loks er gengið úr skugga um hvort allir skráðir söluskattsskyldir aðilar hafi skilað skýrslum og áætlað á þá hafi þeir ekki skilað. Á þessu stigi er ekki hægt að tala um ítarlega og gagnrýna skoðun heldur fyrst og fremst undirbúning fyrir tölvuvinnslu, álagningu og gerð innheimtuskrár.

Í öðru lagi eru söluskattsskýrslur bornar saman við ársreikninga framteljenda. Þessi samanburður er unninn á skattstofum þegar ársreikningar hafa borist. Með honum gefst færi á eftirliti með söluskattsskilum í heild að því tilskildu að skatt- og reikningsskil viðkomandi fyrirtækja séu með eðlilegum hætti. Þennan samanburð er reynt að framkvæma árlega hjá sem flestum skattaðilum.

Í þriðja lagi fer fram skoðun á bókhaldi þar sem söluskattsskyld fyrirtæki eru borin saman við bókhald þeirra. Þessar athuganir hafa fyrst og fremst verið á vegum rannsóknardeildar ríkisskattstjóra, en þeim er einnig sinnt af sérstökum eftirlitsmönnum aðeins á stærri skattstofunum.

Af þessu stutta yfirliti má ráða að niðurfelling undanþága frá söluskatti og ein álagningarprósenta á alla vöruflokka í stað þriggja áður gerbreytir aðstæðum til öflugra skatteftirlits. Starfsmenn á skattstofum, sem nú þurfa að eyða miklum tíma í að yfirfara fylgipappíra með söluskattsskýrslum, geta snúið sér að sínu verki, að söluskattsendurskoðun og virkara eftirliti með bókhaldi fyrirtækja. Jafnframt leiðir þessi breyting til mikillar einföldunar í uppgjöri á söluskatti hjá matvörukaupmönnum. Þetta ætti enn frekar að stuðla að bættum skattskilum.

Í þessu samhengi mætti nefna eitt atriði að því er varðar framkvæmd málsins. Sú hugmynd hefur verið reifuð og rædd, án þess að um hana hafi enn verið tekin ákvörðun, að nú sé rétti tíminn að nota tækifærið, þegar lækkun og einföldun tollakerfisins kemur til framkvæmda, að fela tollþjónustunni, sem þá hefur miklu færri verkefnum að sinna, að annast framkvæmd og eftirlit með söluskattsinnheimtu og síðar virðisaukaskattsinnheimtu. Ef þetta yrði gert færum við í því efni að góðu fordæmi grannþjóðar okkar Dana sem tóku þennan þátt upp þegar tollabylting varð hjá þeim við inngöngu í Efnahagsbandalag þannig að tollþjónustunni var þá falið eftirlit með virðisaukaskatti sem talið er eitt hið einfaldasta, skilvirkasta og fullkomnasta sem þekkist. Þarna væri um það að ræða að starfsfólk sem þegar hefur nokkra þjálfun í þessum störfum fengi nýtt verkefni, en það er eitt meginatriði þessarar breytingar, annars vegar einföldun kerfisins og hins vegar öruggari innheimta með eftirliti sem við yrði komið.

Í tengslum við þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á söluskattslögum hafa komið fram spurningar um hvort ekki ætti að skylda smásölufyrirtæki, t.d. þau sem væru yfir ákveðinni stærð, til að nota löggilta búðarkassa sem á fagmáli heita víst nú orðið sjóðvélar. Raunar er það svo að skv. 17. gr. söluskattslaga er ráðherra heimilt að ákveða að í öllum verslunum, sölu- og afgreiðslustöðum þar sem söluskattur er innheimtur skuli notaður peningakassi. Þetta mál var á sínum tíma kannað rækilega í nefnd sem skipuð var í júní árið 1980 af þáv. fjmrh., hv. þm. Ragnari Arnalds, til að gera tillögur um bætta innheimtu söluskatts. Í skýrslu nefndarinnar, sem var skilað í mars 1981, kemur m.a. fram að nefndin taldi þetta bestu trygginguna fyrir réttu uppgjöri söluskatts á staðgreiðslusölu. Á þessum tíma treysti nefndin sér þó ekki til að mæla með því að kassanotkun yrði gerð að skyldu, fyrst og fremst vegna þess að heildarvelta samkvæmt búðarkassa eða sjóðvél og söluskattsskyld velta var á þeim tíma engan veginn sú sama. Hvers vegna? Jú, vegna hinna fjölmörgu undanþága frá söluskatti, ekki hvað síst á matvælum. Nefndin gerði hins vegar tillögur um breytingar á lögum og reglugerð um söluskatt sem m.a. gengu út á auknar kröfur um tekjuskráningu.

Með þeim breytingum sem hér er lagt til að komi til framkvæmda nú um áramótin verða aðstæður gerbreyttar. Þess vegna hef ég ákveðið að láta kanna sérstaklega hvort ekki sé nú rétt, miðað við gerbreyttar aðstæður, að stíga skrefið til fulls og framkvæma tillögur þessarar nefndar um skyldu smásöluaðila yfir ákveðinni lágmarksstærð til að nota löggilta peningakassa.

Aðrar breytingar, sem frv. felur í sér, eru að söluskattur verði á ný lagður á heilsuræktarstofur, nuddstofur, ljósastofur, aðgangseyri að íslenskum kvikmyndum og fleiri skemmtunum, sem um nokkurt skeið hafa verið undanþegnar söluskatti, og kaup á einkaflugvélum og eldsneyti fyrir þær.

Þá er í þriðja lagi fallið frá skiptingu sölugjalds í almennan söluskatt 20%, söluskattsauka 2,5%, orkujöfnunargjald 1,5% og húsnæðisgjald 1%.

Í fjórða lagi er rétt að geta þess að 6. og 7. gr. laganna, sem fjalla um undanþágur, eru felldar saman í eina grein og hún gerð fyllri þar sem gert er ráð fyrir að heimild fjmrh. skv. 20. gr. gildandi laga til að undanþiggja vörur eða þjónustu söluskatti verði afnumin. Af þessu leiðir að undanþágur sem rekja má til þessarar heimildar falla niður. Þær undanþágur sem ákveðnar hafa verið með þessum hætti og ekki þykir rétt eða gerlegt að afnema í söluskattskerfi er því að finna í 3. gr. frv. sem við nú ræðum.

Eins og fram kemur í athugasemdum með fjárlagafrv. fyrir árið 1988 er talið óeðlilegt að í fjárlögum sé kveðið á um víðtækar heimildir til niðurfellingar, lækkunar eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda og söluskatts. Þetta hefur verið lenska á undanförnum árum eins og 6. gr. fjárlaganna ber vitni um. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að fjárlög eru afgreidd með öðrum hætti en venjuleg lög og því vafasamt að ákveða í þeim efnisreglur um skattaleg málefni. Miklu eðlilegra er að hafa þessar heimildir í viðkomandi skattalögum. Í samræmi við það er í 4. gr. frv. að finna ýmsar undanþáguheimildir sem annars hefur verið að finna í 6. gr. fjárlaga. Á sama hátt er lagt til að undanþáguheimildir sem nú eru í sérlögum, t.d. lögum um Jarðboranir hf., Vísindaráð og Vísindasjóð, verði framvegis í lögum um söluskatt þar sem þær eiga í raun heima. Með þessum hætti verður söluskattslöggjöfin heildstæðari en ella.

Loks er gerð tillaga um að færa ýmsar lágmarksfjárhæðir laganna upp í samræmi við verðlagsþróun. Þá er þess að geta að samhliða frv. verður lagt fram lagafrv. sem felur í sér hækkun á sérstökum söluskatti af sérfræðiþjónustu sem ákveðin var með brbl. nr. 68 frá 1987 úr 10% í 12%. Í sambandi við það mál ber þó að geta þess að til greina kemur einfaldlega sú málsmeðferð í umfjöllun þingnefndar að brtt. verði fluttar um þetta efni við lagafrv. um söluskatt fremur en að flytja um það sérstakt frv. eða flytja um það brtt. við fyrirliggjandi þingmál sem í umfjöllun eru hjá hv. fjh.- og viðskn.

Þær breytingar á söluskatti sem felast í þessum frv. eru sem fyrr segir nátengdar umfangsmiklum breytingum á lögum um tollskrá og vörugjald. Jafnhliða samræmingu söluskatts og víkkun skattstofns verða tollar lækkaðir og sex mismunandi vöru- og aðflutningsgjöld lögð niður. Í stað þeirra verður tekið upp eitt vörugjald, 14%, sem leggst á nokkra skýrt afmarkaða vöruflokka. Lítum nánar á hvernig þessi kerfisbreyting tengist hvað öðru.

Í fyrsta lagi er ástæða til að rifja upp að í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er kveðið sérstaklega á um nauðsyn þess að endurskipuleggja tollamál með það fyrir augum að stefna að lækkun tolla og samræmdri álagningu. Jafnframt að stokka aðflutningsgjaldakerfið upp og fækka gjöldum í því skyni að einfalda álagningu og tryggja sem mest samræmi milli innlends vöruverðs og innflutningsverðs. Loks átti að stíga lokaskrefið í afnámi tolla af hráefnum til innlendrar framleiðslu, auk þess sem tollar af rekstrarvörum ýmist lækkuðu eða féllu alveg niður. Í framhaldi af þessari stefnumörkun ríkisstjórnarinnar fól fjmrh. sérstökum starfshópi að undirbúa það verk. Þessi stefnumörkun var áréttuð í fjárlagafrv. þar sem jafnframt var ákveðið að kerfisbreytingin tæki gildi frá 1. jan. 1988.

Um innbyrðis tengsl þessara aðgerða, breytinga á tollakerfi, vörugjaldskerfi og söluskattskerfi, er fjallað í þeim frumvörpum þremur sem hér eru á dagskrá. Þessi endurskoðun og einföldun á tolla- og vörugjaldskerfinu tengist enn fremur þeim breytingum sem verða á söluskattskerfinu um næstu áramót þar sem hluta af því tekjutapi sem ríkissjóður verður fyrir með tollalækkunum og afnámi vörugjalds verður mætt með tekjum, í fyrsta lagi af breiðari söluskattsstofni. Þessi þrjú frv. verður því að meta að því er áhrif þeirra varðar í heild sinni og spyrja: Hverjir eru meginþættir þessarar kerfisbreytingar og hver eru áhrif hennar í heild annars vegar á tekjur ríkissjóðs og hins vegar á verðlag í landinu?

Með þessari uppstokkun á aðflutningsgjaldakerfinu er gert ráð fyrir að tollakerfið verði í stórum dráttum byggt á tveimur tekjustofnum, almennum tollum og samræmdu vörugjaldi, í stað margra smærri gjaldstofna. Þannig eru felld niður skv. frv. eftirtalinn gjöld:

Sérstakt vörugjald af innflutningi og innlendri framleiðslu sem voru 24 og 30%. Vörugjald af innflutningi og innlendri framleiðslu sem voru 7 og 17%. Sérstakt byggingariðnaðarsjóðsgjald sem var 1/2% og sérstakt tollafgreiðslugjald sem var 1%. Jafnframt eru hæstu tollar lækkaðir úr 80% niður í 30% að tóbaki og bensíni undanskildu. Þá er gert ráð fyrir því að fella matartolla nær undantekningarlaust niður, en hámarkstollar á þeim eru nú 40%. Loks er áformað að stíga lokaskrefið í átt til samræmingar í álagningu aðflutningsgjalda á atvinnurekstur með því að fella niður tolla og vörugjald af vélum, tækjum og varahlutum ýmiss konar til landbúnaðar og þjónustuiðnaðar.

Sérstök ástæða er til að staldra við þann þátt málsins sem lýtur að niðurfellingu tolla á matvæli. Eins og fyrr segir er gert ráð fyrir að fella með öllu niður slíka tolla. Á því er þó ein undantekning, sem rétt er að vekja athygli á, og hún er þessi: Gert er ráð fyrir því að því er varðar innflutt ferskt grænmeti að á því verði 30% tollur, a.m.k. fyrst um sinn. Hins vegar eru uppi hugmyndir um það, sem enn hafa ekki verið formaðar í tillöguformi en ræddar í ríkisstjórn og þar er samkomulag um, að í stað 30% tolls á innflutt grænmeti verði tekin upp önnur skipan í líkingu við þá sem tíðkast m. a. annars staðar á Norðurlöndum, nefnilega sérstakt innflutningsgjald á innflutt grænmeti sem verði í ólíkum flokkum eftir tegundum og breytist síðan eftir árstímum vegna þess að gjaldið á að hafa þann tilgang að veita innlendum framleiðendum nokkra vernd á markaðnum þegar innlent grænmeti er á boðstólum en lækka hins vegar mjög verulega til að tryggja neytendum sem hagstæðast innflutningsverð á þeim árstímum þegar innlendir framleiðendur eru ekki á markaði með sína framleiðslu. Þetta er reyndar hugmynd sem áformað er að gildi einnig um innlenda kartöfluframleiðslu og komi þá í staðinn fyrir hvort tveggja, sérstaka tollvernd eða gömlu handaflsstjórnunina, þ.e. að beitt verði sérstökum höftum og bönnum.

Í gildandi tolla- og vörugjaldskerfi gætir víða mikillar mismununar í skattlagningu vörutegunda sem þó gegna svipuðu eða nákvæmlega sama hlutverki í heimilishaldi. Sumar vörur bera háa tolla og vörugjöld, en aðrar sambærilegar vörur hvorugt. Þessi kerfisbreyting hefur í för með sér talsverða röskun á verðhlutföllum hér innan lands. Þess eru dæmi að einstakar vörutegundir lækki um meira en helming í verði meðan aðrar hækka um 15–20%. Um þetta er rétt að nefna nokkur dæmi, þ.e. dæmi um áætlaðar verðbreytingar. Þannig má nefna dæmi um vörur sem ekki munu taka neinum verðbreytingum. Dæmi um slíkt eru: mjólk, skyr, smjör, dilkakjöt, gosdrykkir, sápur og þvottaefni, föt og skófatnaður, húsgögn, áfengi og tóbak, bifreiðar, skólavörur. Í annan stað má nefna dæmi um vörur sem ætla má að hækki í verði við þessa kerfisbreytingu. Ég nefni nokkur dæmi: alifugla- og svínakjöt á bilinu 5–10%, nautakjöt á bilinu 10–15%, innflutt nýtt grænmeti 7%, kaffi 2–3%, sykur 13%, brauð u.þ.b. 13%, egg 5–10% o.s.frv. Vörur sem lækka í verði eru hins vegar mjög margar og sem dæmi um það má nefna: niðursoðna og þurrkaða ávexti sem lækka um 35%, fryst og niðursoðið grænmeti sem lækkar um 15%, haframjöl og heilhveiti sem lækkar um 9%, ýmsar hreinlætisvörur sem lækka mjög verulega, á bilinu 25–47%, ýmis algeng heimilistæki lækka mjög verulega, sem dæmi um það má nefna borðbúnað, sjónvörp, myndbandstæki, hljómflutningstæki, frystikistur, skólaritvélar, íþróttavörur, sem lækka á bilinu 10–40% , bifreiðavarahlutir um 20%, hjólbarðar um 20%, hreinlætistæki um 45%, blöndunartæki um 30% og margvíslegar aðrar byggingarvörur um 30% o.s.frv.

Þetta þýðir m.ö.o. verulega breytingu á verðhlutföllum í verðmynduninni innan lands í átt til samræmingar við verðhlutföll sem tíðkast í grannlöndum okkar. Hjá þessu verður ekki komist nema með því að ganga þvert á þann megintilgang breytingarinnar að einfalda álagningu og bæta eftirlit með innheimtu aðflutningsgjalda og jafnframt samræma verðhlutföll á hliðstæðum vörum. Það segir sig sjálft að áhrif svo umfangsmikilla breytinga eru ákaflega vandmetin. Þetta á jafnt við um áhrifin á tekjuhlið ríkissjóðs og raunar ekki síður verðlagsáhrifin eins og þau koma fram í vísitölum framfærslu- og byggingarkostnaðar.

Núverandi aðflutningsgjöld eru að sjálfsögðu hluti þess skattstofns sem söluskatturinn leggst á. Lækkun aðflutningsgjalda leiðir því ein og sér til lækkunar á söluskattsstofni og þar með til tekjutaps ríkissjóðs. Með þessum fyrirvörum er áætlað að ríkissjóður verði af tekjum sem nema rúmlega 4,5 milljörðum kr. vegna þessara tollalækkana og niðurfellingar gjalda. Þessu tekjutapi verður annars vegar mætt með upptöku nýs vörugjalds, hins vegar með hluta af auknum söluskattstekjum vegna breikkunar söluskattsstofns. Þannig er tekjutapið, sem hlýst af lækkun aðflutningsgjalda, vegið upp með víkkun söluskattsstofnsins jafnhliða því sem tekna er aflað til hliðarráðstafana. Það er afar mikilvægt að skýrt komi fram að þessar kerfisbreytingar fela ekki í sér á nokkurn máta aukna skattbyrði á almenning frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. heldur er einungis verið að færa tekjuöflun á milli einstakra tekju- og gjaldstofna. M.ö.o.: þeir rúmlega 2 milljarðar kr. sem kerfisbreytingin skilar umfram álagningu fjárlagafrv. fara rakleiðis út aftur í auknum niðurgreiðslum á helstu nauðsynjavörum, hærri ellilífeyri og auknum barnabótum. Skattbyrðin er því óbreytt fyrir og eftir breytinguna.

Á hinn bóginn standa vonir til þess að kerfisbreytingin auðveldi skatteftirlit, geri innheimtuna um leið skilvirkari. Þetta ætti að leiða til bættra skattskila þegar á næsta ári og færa ríkissjóði þar með eitthvað auknar tekjur. Þetta kalla ég hins vegar ekki aukna skattbyrði heldur minni skattsvik. Hér er um að ræða að innheimta í einföldu kerfi í ríkissjóð söluskatt sem hefur verið á lagður en samkvæmt margvíslegu mati ekki komist til skila. (SvG: Hvað ætli það sé nú stór upphæð?) Ég bendi hv. fyrirspyrjanda á að kynna sér það í svokallaðri skattsvikaskýrslu sem unnin var undir verkstjórn Þrastar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Dagsbrúnar. (SvG: Er ekki rétt að ráðherra segi okkur frá því hvað þetta þýðir í þessu efni?) Ég vísa hv. þm. á að kynna sér mat þeirrar nefndar á því. Ef ég man rétt var það svo metið á verðlagi ársins 1986 að það kynni að nema 1,3 milljörðum. Vera má að þetta sé verðlag ársins 1985. Þetta má vafalaust meta á yfir 2 milljarða á verðgildi ársins 1988.

Eðlilegt er að spurt sé: Hvaða áhrif hefur svo víðtæk kerfisbreyting aðflutningsgjalda og söluskatts á verðlag í landinu og þá alveg sérstaklega á framfærslukostnað heimila? Þær umfangsmiklu breytingar sem hér eru gerðar tillögur um hafa auðvitað mikil áhrif á vöruverð. Heildaráhrif þessara breytinga á verðvísitölur að teknu tilliti til niðurgreiðslna, sem raðgerðar eru alls 1250 millj. kr., eru þessar: Framfærsluvísitala mun ekki breytast. Byggingarvísitala lækkar um rúmlega 2%. Lánskjaravísitala lækkar um tæplega 1%. Breytingar á vöruverði verða í meginatriðum þessar: Mikilvægustu búvörur hækka ekki í verði. Aðrar matvörur ýmist lækka, standa í stað eða hækka. Tollalækkanir og afnám hinna ýmsu vörugjalda leiða jafnframt af sér lækkun fjölmargra vörutegunda. Þar á meðal er ýmis matvara, hreinlætis- og snyrtivörur, borðbúnaður og búsáhöld, íþróttavörur og hljómtæki, reiðhjól og ritvélar, barnavagnar og barnastólar svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Hvað segir þetta okkur þá um framfærslukostnað heimilanna? Það segir okkur að heildaráhrifin af öllum þessum aðgerðum valda ekki hækkun á framfærslukostnaði. Það er ákaflega mikilvægt þegar menn taka afstöðu til þessara breytinga að almenningur sé ekki blekktur með villandi upplýsingum um stóraukin útgjöld vegna þessara aðgerða því að sannleikurinn er sá að útgjöld meðalfjölskyldu á Íslandi, hjóna með tvö börn, eins og þau mælast í vísitölu framfærslukostnaðar, haldast óbreytt. Það er kjarni málsins.

Það er auðvitað rétt, og hefur aldrei verið undan dregið í mínum málflutningi, að matarútgjöld heimila hækka með þessum breytingum. Það er hins vegar argasta blekking að halda því fram að matarútgjöld hækki um fjórðung. Hið rétta í því máli er að matarreikningur meðalfjölskyldu á Íslandi gæti hækkað um 7% þegar upp er staðið. Helstu nauðsynjar, mjólk, skyr, smjör og dilkakjöt, hækka ekki við þessar breytingar. Aðrar kjötvörur á bilinu 5–10%. Önnur matvæli ýmist hækka eða lækka og lækka verulega sum. Þannig lækka ýmsar innfluttar matvörur vegna niðurfellingar tolla og vörugjalda, t.d. niðursuðuvörur af ýmsu tagi. Innflutt nýtt grænmeti hækkar hins vegar um 7%, brauð og nýir ávextir um 13%. En ég endurtek: Að jafnaði hækkar matvælaliðurinn í vísutölu framfærslukostnaðar um 7% við þessa breytingu.

Og hvaða fjárhæðir erum við þá um að tala? Þetta eru um 1800 kr. á mánuði hjá þessari sömu vísitölufjölskyldu, hjónum með tvö börn. Það eru auðvitað peningar. En hvað kemur á móti þessum 1800 kr. á mánuði í auknum útgjöldum? Á móti kemur lækkun á fjölmörgum öðrum nauðsynjavörum því þótt það sé auðvitað rétt að menn borði ekki hreinlætisvöru eða frystikistur eða teppi eða barnavagna eru þetta engu að síður vörur sem ganga inn í heimilishald allra fjölskyldna í landinu. Þessar vörur og raunar fjölmargar aðrar vörur sem vega þungt í heildarútgjöldum lækka svo mikið í verði að heildarútgjöld vísitölufjölskyldunnar haldast óbreytt.

Nú kann einhverjum að koma spánskt fyrir sjónir að framfærslukostnaður geti haldist óbreyttur þrátt fyrir 7% hækkun matvælaútgjalda. Skýringin á þessu er einföld. Hún liggur í því að matvælaliðurinn í framfærsluvísítölunni vigtar minna en fjórðung af heildarútgjöldum vísitölufjölskyldunnar samkvæmt neyslugrunni sem fundinn er með sérstakri könnun frá árinu 1978 og vegur enn minna í útgjaldamynstri vísitölufjölskyldunnar samkvæmt nýjum vísitölugrunni sem byggður er á neyslukönnun heimilanna á þessu ári.

Skoðum lítið dæmi um ársútgjöld vísitölufjölskyldunnar. Þau eru í dag talin vera rétt innan við 1300 þús. kr. eða rúmlega 100 þús. kr. á mánuði. Af þessu eru matarútgjöld rétt tæplega 300 þús. kr. á ári eða 24 þús. kr. á mánuði. Tæplega 1 milljón fer þá í annað en mat á vísitöluheimilinu eða um 80 þús. kr. á mánuði. Hvaða áhrif hefur skattkerfisbreytingin áformað um áramót á þessar tölur? Matarútgjöld hækka samkvæmt því um 22 þús. kr. miðað við heilt ár, þ.e. 1800 kr. á mánuði eins og ég nefndi áðan.

Önnur útgjöld lækka hins vegar um sömu krónutölu þannig að framfærslukostnaður í heild er óbreyttur með öllu. Þannig lítur þá dæmið út frá sjónarhóli þessarar umræddu fjölskyldu, hjóna með tvö börn.

Lítum á annað atriði. Nú er það auðvitað svo að neysluvenjur fólks eru misjafnar og það er svo undarlegt með þessa blessaða vísitölufjölskyldu að hún virðist eiga sér fáa formælendur og vera heldur vinafá. Samt sem áður er hún engu að síður þverskurður af fjölskyldum í landinu og neysluútgjöldum þeirra. Og þá má spyrja sem svo: En hvað með aðrar fjölskyldur? Fjölskyldur með fleiri börn? Fjölskyldur eldra fólks? Og svarið er þetta: Þótt þessar aðgerðir komi út á sléttu gagnvart meðalfjölskyldunni hefur ríkisstjórnin ákveðið að til viðbótar við auknar niðurgreiðslur skuli varið 600 millj. kr. á næsta ári í auknar lífeyrisgreiðslur og barnabætur. Þessari fjárhæð verður varið þannig að u.þ.b. helmingur hennar rennur til að hækka lífeyrisgreiðslur um áramótin þannig að heildarhækkun bótagreiðslna verði 7%, þ.e. jafnmikil og nemur áætlaðri hækkun á matvælum vegna þessara aðgerða. Hinn helmingur fjárhæðarinnar verður notaður til að hækka barnabætur og barnabótaauka um 10% frá áramótum. Jafnframt verður ákveðinni fjárhæð varið til að hækka skerðingarmörk í barnabótaauka sérstaklega, en hann er tekjutengdur, ef börn eru fleiri en eitt. Þessi hækkun barnabóta og barnabótaauka, hækkunin ein, samsvarar 5000 kr. á hvert barn á ári að meðaltali. Með þessum viðbótaraðgerðum til tekjujöfnunar er því enn frekar dregið úr áhrifum hækkunar á matvælaútgjöld að þessu sinni hjá barnmörgum og tekjulágum fjölskyldum. Þetta eru staðreyndir málsins að því er varðar annars vegar meðalfjölskylduna, hins vegar barnmargar fjölskyldur og í þriðja lagi þá sem hafa tekjur sínar frá almannatryggingakerfinu.

Það er rétt að geta þess hér að barnabætur eru greiddar út með um 64 þús. börnum. Hækkun barnabóta og barnabótaauka svarar því til, eins og ég sagði, miðað við þessar upphæðir, um 5 þús. kr. á ári á hvert barn, þ.e. þegar miðað er við að til hækkunar barnabóta og barnabótaauka verði varið um 320 millj. sem skiptist þannig að 280 millj. verði varið til sérstakrar 10% hækkunar barnabóta og barnabótaauka, en um 40 millj. til hækkunar skerðingarmarka ef börn eru fleiri en eitt.

Þá er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt staðgreiðslukerfi skatta, þ.e. því frv. sem lagt hefur verið fram til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt, er gert ráð fyrir að barnabætur verði greiddar út á tímabilinu frá 15.-20. jan. fyrir fyrsta ársfjórðung. Fyrir hjón með tvö börn, annað yngra en sjö ára, yrði janúargreiðslan tæplega 16 þús. kr. án barnabótaauka.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég nefna tvö atriði sem mér finnst ástæða til að nefna sérstaklega. Í fyrsta lagi hefur því verið haldið fram að stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum taki ekki nægilega tillit til manneldissjónarmiða. Þessi gagnrýni kemur m.a. fram í fróðlegri blaðagrein eftir Jón Gíslason, formann Manneldisfélags Íslands, í Morgunblaðinu í gær. Þar er þeim sem hér stendur í ræðustól jafnvel borið á brýn að vera ötull talsmaður hagsmunasamtaka í landbúnaði fremur en almennra neytenda. (EgJ: Það er bara svona!) Mér hefur verið legið á hálsi fyrir ýmislegt, hv, skrifari, um dagana, en þetta er í fyrsta skipti að ég held sem þessari skoðun er hreyft, a.m.k. opinberlega. Burtséð frá þessu get ég hins vegar tekið undir margt sem í greininni er sagt. Ég er t.d. sammála þeirri skoðun greinarhöfundar að það þjóni tæplega viðurkenndum sjónarmiðum manneldis að halda feitmeti að landsmönnum, jafnvel þótt ég verði að viðurkenna það líka að mér þyki það harla gott. Gildir þá einu hvort um er að ræða kjöt eða mjólkurafurðir.

Hitt er svo annað mál að stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Það var einfaldlega ekki hægt að láta manneldissjónarmið ráða ferðinni, a.m.k. ekki að þessu sinni, að því er varðar þá kerfisbreytingu sem hér um ræðir. Aftur á móti má hiklaust halda því fram að manneldissjónarmið hafi þrátt fyrir allt haft veruleg áhrif á niðurstöðuna og þar nefni ég t.d. að vörugjald var ekki fellt niður af sælgæti og gosdrykkjum og fleiri slíkum vörum sem flokka má undir óhollustuvörur. Uppi voru hugmyndir um að ganga lengra í þessa átt, hafa vörugjaldið hærra í þessum vöruflokkum, en þær náðu ekki fram að ganga. Að gefnu tilefni, vegna þess að mér er tjáð að þetta atriði hafi komið til umræðu í utandagskráreða þingskapaumræðu í hv. Ed. í dag, þar sem spurst var fyrir um hvers vegna álagning hins samræmda vörugjalds upp á 14% væri miðuð við heildsöluverð, þá er það einmitt þáttur þessa máls. Við höfum búið við tvöfalt vörugjald í þessum skilningi, þ.e. eitt vörugjald og síðan vörugjaldsálag á ýmsar óhollustuvörur. En þetta vörugjald, sem ekki er launungarmál að hefur innheimst illa, var lagt að því er varðaði innlenda framleiðslu, sælgæti og gosdrykki, aðeins á 80% gjaldstofn af endanlegu framleiðsluverði innlendrar verksmiðju. Nú hefur þessari reglu verið breytt eins og allar slíkar reiknireglur hafa verið afnumdar þannig að gjaldið er lagt á 100% gjaldstofn sem þýðir þá að vörugjald á óhollustuvörur sem svo eru kallaðar, eins og gosdrykki, sælgæti og aðrar fleiri svipaðar vörur, er í reynd í 17% gjaldi og hefur því ekki verið lækkað í verði, en hlutfallslega er það hækkað meira en á aðrar vörur af þessum sökum. Og til þess um leið að sami gjaldstofninn sé lagður á að því er varðar vörugjaldið, bæði að því er varðar innlenda og erlenda framleiðslu, þá er það gert með þeim hætti að afnumin er reiknireglan upp á 80% sem þýðir þá að til samræmis er hún lögð á hjá báðum aðilum á sama grunn sem er þá þessi 26% breyting frá 80 og upp í 100% .

Þá er þess að geta að ýmsar af þeim matvörum sem hiklaust má telja til hollustufæðis hækka mun minna en fram kemur í þessari umræddu blaðagrein.

Þar má nefna brauð og egg sem hækka um 10–15% en ekki 25% eins og þar er haldið fram. Innflutt nýtt grænmeti hækkar um 7% og nýir ávextir um 13% ef lækkun og niðurfelling tolla og vörugjalds skilar sér að fullu til neytenda. Ég fellst því ekki á þær fullyrðingar að manneldissjónarmið hafi verið fótum troðin í þessari ríkisstjórn. Það eru ekki rétt rök. Hins vegar er rétt að þau hafa ekki verið ráðandi um þessa breytingu og það er með ráðum gert einfaldlega vegna þess að eitt grundvallaratriði þessarar stefnubreytingar í tolla-, vörugjalds- og söluskattsmálum er að þar eigi fyrst og fremst að stefna að einfaldri og öruggri framkvæmd, en ef við viljum sinna einhverjum öðrum markmiðum, hvort heldur þau eiga að vera t.d. að örva fyrirtæki til fjárfestingar eða tryggja samkeppnishæfni atvinnuvega eða skapa einhverja séraðstöðu einhverjum hópum, eigi það að gerast með öðrum hætti.

En það er fleira sem heyrir undir manneldi en matvælin sjálf. Það má kannski einnig líta á að fjölmargar aðrar vörur, sem ýmsir mundu halda fram að heyrðu undir hollustu, lækka stórlega í verði eftir þessar breytingar. Leyfist mér að nefna nokkur dæmi.

Ég nefni t.d. tæki til íþróttaiðkana, sem lækka um 26%, hluti og búnað til fimleika og frjálsra íþrótta, sem lækka um 26%, hluti og búnað fyrir borðtennis, ákaflega holl iðja ekki satt, um 46%, ísskautar og hjólaskautar lækka um 33%, golfkylfur, sem sumum þykir vera í ætt við hollustuíþrótt, a.m.k. fyrir innisetulið sem hreyfir sig lítið, lækka um 46%, taflborð og taflmenn lækka um 46% og er ákaflega hollt út frá manneldissjónarmiðum eins og ýmsir hér inni vita mætavel. Íþróttaskór og fatnaður breytist ekki í verði fremur en annar fatnaður og skór. Nú heyrir það kannski ekki undir manneldi að lækka mjög verðlag á hvers kyns hlutum, amboðum og ífærum til barnauppeldis. Ég nefni barnareiðhjól og varahluti sem lækka um 48%, barnavagna og varahluti í þá sem lækka um 42%, barnabílstólar 16%. Ég veit ekki hvort barnapelar og barnasnuð heyra undir manneldi. Þeir hlutir lækka um 45% alla vega.

Þess má svo geta að við alla þessa útreikninga er gert ráð fyrir sama álagningarhlutfalli fyrir og eftir breytingu og tollum miðað við samninga okkar við EFTA og Evrópubandalagið. Vörur frá Asíu, Afríku og Ameríku fá í sumum tilvikum á sig ytri tolla á bilinu 0–30%, en það kemur út af fyrir sig ekki þessu máli við.

Hitt atriðið, sem mér finnst sérstök ástæða til að nefna að gefnu tilefni, er nauðsyn þess að vel sé fylgst með framkvæmd þessara breytinga um áramótin. Þetta á alveg sérstaklega við um þau tilvik þar sem vöruverð á að lækka vegna tollalækkunar og eða niðurfellingar vörugjalda. Það er auðvitað alltaf einhver hætta á að þessar lækkanir skili sér ekki að fullu til hins almenna neytanda. Besta leiðin til að draga úr þessari áhættu er að efla verðskyn neytenda. Viðskrh. hefur raunar þegar falið Verðlagsstofnun að gera sérstakar ráðstafanir til að undirbúa verðkannanir í verslunum fyrir og eftir áramótin og koma þeim upplýsingum jafnhraðan á framfæri við neytendur. Þetta er ákaflega brýnt og mikilvægt að vel sé að því staðið. Auk þess er mikilvægt að koma upplýsingum um líkleg áhrif skattabreytinganna á almennt verðlag á framfæri við neytendur eins fljótt og kostur er til að stuðla að enn virkara verðlagseftirliti.

Herra forseti. Ég vil að lokum minnast á eitt atriði til viðbótar sem mikið hefur verið fjallað um á undirbúningsstigum þessa máls. Þeirri skoðun hefur margsinnis verið hreyft hvort ekki væri æskilegt og beinlínis hagkvæmt frá sjónarhóli þjóðarbúsins og neytenda að ganga enn lengra í átt til lækkunar á tollum. Rökin fyrir þessu eru aðallega tvenns konar.

Í fyrsta lagi að með enn frekari lækkun á svokölluðum ferðamannavörum, þ.e. þeim vörum sem Íslendingar á ferðalögum erlendis gjarnan kaupa þar fremur en hér á landi, muni þessi verslun færast inn í landið. Þetta muni hafa í för með sér að á móti tolltekjutapi ríkissjóðs að einhverju leyti muni koma auknar söluskattstekjur.

Í öðru lagi má halda því fram að núgildandi tollaskipan, þar sem enn er viðhaldið hærri tollum gagnvart þeim löndum sem við höfum ekki gert fríverslunarsamninga við, geti í mörgum tilvikum komið í veg fyrir hagkvæmari innkaup en ella. M.ö.o.: menn séu beinlínis neyddir til að sækja á óhagstæðari og dýrari markaði vegna þess hversu misjöfn tollmeðferðin er. Þótt ekki hafi unnist tími til að taka nægilegt tillit til þessara sjónarmiða áður en tollfrv. var lagt fram var ríkisstjórnin sammála um það á fundi sínum sl. föstudag að þetta væri mál sem vert væri að skoða í meðfórum Alþingis og þingnefndar sérstaklega. Ég hef þess vegna undirbúið að kynna nokkrar viðbótartillögur í hv. fjh.- og viðskn. þar sem reynt yrði að koma til móts við þetta sjónarmið. Þessar tillögur eru ekki viðamiklar, eru ekki til þess fallnar að tefja meðferð máls, en þær væru eða gætu verið að mínu viti nokkur skref í átt til eðlilegri viðskiptahátta og ættu jafnframt að stuðla enn frekar að lækkun vöruverðs hér á landi.

Herra forseti. Með þeim breytingum á tolli, vörugjaldi og söluskatti sem áformaðar eru um næstu áramót er stefnt að verulegri einföldun á núgildandi skattakerfi. Með þeim næst betra samræmi milli verðhlutfalla bæði hér innan lands og ekki síður milli innlendrar og erlendrar vöru en undanfarin ár og jafnvel áratugi, en eðlileg verðhlutföll milli einstakra vörutegunda hafa vissulega meira og minna brenglast í þessum leifum frá haftabúskap fyrri ára. Hitt er jafnljóst að þegar litið er á verðmyndun í landinu í samhengi blasir víða við verulegt misræmi í verðlagningu. Það má telja fullvíst að þetta misræmi hafi óheppileg áhrif á eðlilega verðmyndun, bæði með óhagkvæmari innkaupum og hærra vöruverði en ella. Enn fremur hefur það vafalaust í mörgum tilvikum ýtt undir óæskilega viðskiptahætti og þannig í reynd stuðlað að undandrætti frá skatti. Þess vegna er löngu orðið tímabært að vinda ofan af þessu kerfi og gera það auðveldara í framkvæmd og eftirliti, en það er megintilgangurinn með þessari kerfisbreytingu.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.