10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1342)

196. mál, söluskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það var fróðlegt að hlusta á hæstv. fjmrh. Hann taldi sig reyndar hafa svarað öllum þeim spurningum sem að honum hefði verið beint, en það gerði hann ekki. E.t.v. heyrir hann í mér núna, en ég er ekki viss.

Hann svaraði t.d. ekki spurningu minni um það hvers vegna fulltrúi fjmrn. taldi sér ekki fært að mæta á ráðstefnu Manneldisfélags Íslands til að hlusta á þau sjónarmið sem þar ríktu. Og ég varð satt að segja hneyksluð á orðfæri hæstv. ráðherra um manneldisstefnu. Hann talaði um sannfæringu, hann talaði um trúboð, hann talaði um að stjórnvöld ættu ekki að stýra neyslu fólks. Hvað í ósköpunum heldur hæstv. ráðherra að hann sé að gera þegar hann verðleggur matvæli? Ætli fólk kaupi ekki það sem það telur sig hafa efni á fyrst og fremst, jafnvel fremur en leita hollustu? Ég tala nú ekki um þegar heilbrigðisfræðsla er af svo skornum skammti að það er kannski erfitt að átta sig á hvar hollustan liggur. Veit hæstv. ráðherra hvað fátækt fólk, t.d. í löndum Efnahagsbandalagsins, borðar? Veit hann hvers konar fæðusamsetning það er og hefur hann einhvern grun eða vitneskju um hversu hollustusamleg sú fæða er og næringarrík? Veit hann hvar mörk næringarskorts eru og þess að vera sæmilega alinn? Greinilega ekki. Er hæstv. ráðherra á móti — og ég vil spyrja hann núna — er hann á móti íslenskri heilbrigðisáætlun sem hæstv. heilbrmrh. Guðmundur Bjarnason hyggst leggja fram á þessu þingi og hefur þegar boðað m.a. mig og marga aðra til að ræða á þingi í febrúarbyrjun, sérstöku heilbrigðisþingi? Í þessari áætlun felst einmitt má segja ákveðin stýring sem stjórnvöld ætla að taka sér á hendur bæði með fræðslu og líka með verðstýringu, t.d. matvæla. Er hæstv. ráðherra þar með að lýsa yfir vantrausti á rannsóknir og reynslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar? Hvað segir hann t.d. um þá staðreynd að íslensk börn hafa mun fleiri skemmdar tennur en jafnaldrar þeirra í nágrannalöndunum og þá á ég við Norðurlöndin og jafnvel Bretland, en þeir eru næstmestu sykurætur í heimi? Við eigum metið. Ástæðan fyrir þessum tannskemmdum er m.a. álitin vera mikið sykurát auk þess sem tannhirða er léleg. Við verjum mestu fé í tannviðgerðir af nágrannalöndum okkar t.d. Hvað er ráðherrann eiginlega að rugla? (Gripið fram í.) Já, ég er hreinlega hneyksluð á þessu. Ég verð að segja það.

Í öðru lagi svaraði hann mér reyndar ekki heldur um það hvort hæstv. ríkisstjórn, hann sjálfur eða ráðuneytið hefðu ráðfært sig við þá fjölskyldunefnd sem ríkisstjórnin skipaði sérstaklega til að sinna málefnum fjölskyldunnar. Þeir þurftu þess kannski ekki frekar en þeir þurftu að ráðfæra sig við Manneldisfélag Íslands þegar þeir voru einmitt að leggja drög að verðlagningu á matvælum. Þeir höfðu ekki tíma til þess. Þeir voru svo önnum kafnir við verðlagninguna.

Hann svaraði mér ekki heldur um afstöðu sína til núverandi fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins sem ég hef miklar áhyggjur af, miklar áhyggjur, og ekki síst, hæstv. ráðherra, vegna landsbyggðarinnar því að það er ekki margt sem er meira metið í fjölmiðlun á landsbyggðinni en einmitt Ríkisútvarpið. Hafi hann ekki tekið eftir því á ferðum sínum frægum um landið ætla ég að segja honum það núna því að ég hef iðulega heyrt það á ferðum mínum þó ekki hafi ég haldið 100 fundi í einni lotu. Ég er satt að segja líka hneyksluð á þessu frelsisrugli í hæstv. fjmrh. sem svo sannarlega þyrfti afruglara við í sjónvarpsmálunum. Ég bið hann um að svara mér frekar þessum spurningum sem ég bar fram. En að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu nema hann gefi tilefni til þess aftur.