10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

196. mál, söluskattur

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu allt saman rétt sem hæstv. ráðherra las hér upp um skattamálin og síst ætla ég að bera það af mér að ég sé samþykkur ýmsu því sem gert hefur verið til einföldunar. Í fyrri ræðu minni tók ég sérstaklega fram að ég gleddist yfir því að við fengjum hér til afgreiðslu frv. til breytinga á tollalögum og tollskrá og þarf ég ekki að endurtaka það. Það vita víst þeir sem vilja vita að það tel ég vera mjög gott mál.

En hæstv. ráðherra láðist að lesa upp eitt ákvæði — ég man þetta held ég nokkurn veginn. Það var tekið skýrt og rækilega fram að leitast yrði við að jafna halla ríkissjóðs, svokallaðan halla sem raunar hefur nú enginn verið eftir því sem ég var að upplýsa hér áðan, á þrem árum. Ég vona að það komi á daginn þegar skýrsla hallanefndarinnar svonefnd kemur fram. En sem sagt yrðu tekin þrjú ár í það að leitast við að jafna þennan halla en ekki eitt ár. Það var að sjálfsögðu gert að kröfu okkar sjálfstæðismanna. Ég féllst á að það mætti reyna að lækna þennan svokallaða halla á þremur árum.

Ég tel raunar að það sé engin goðgá að í landi, sem er með jafnmikla uppbyggingu og við erum, sé einhver halli á ríkisfjármálum ár hvert. Mér skilst að t.d. í Japan, þar sem hraðast er sótt fram, sé halli á fjárlögum hvorki meira né minna að jafnaði en 6% af landsframleiðslu, ekki af fjárlögum, af landsframleiðslu. Í Þýskalandi er þetta jafnaðarlega um 3%. Ég veit eiginlega ekki um neitt vestrænt land, en ég verð kannski upplýstur um það ef einhver hér veit um það, sem rekur ríkissjóð með svokölluðu hallaleysi eða með afgangi. Ég held að það sé bara ekkert móðins lengur, það þekkist ekki. En kannski veit einhver hér inni um slíkt land. (Fjmrh.: Noregur. Níu milljarðar núna.) Já, Gro Harlem er að reyna þetta núna en mér skilst nú að verðbólgan sé ansi mikið á uppleið þar og erfiðleikarnir séu ærnir. Norska krónan fellur svona álíka og blessaður dollarinn og þá segja menn: Er ekki halli hjá Bandaríkjamönnum? Það er alveg rétt. Hann hefur verið á allri öldinni nema tvö ár, held ég, þegar Hoover kom af stað heimskreppunni með hallalausum fjárlögum og Carter verðbólgunni með hallalausum fjárlögum. En það hefur nú ekki verið nema þau tvö ár. Hérna stendur orðrétt í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Jafnvægi í ríkisfjármálum verði náð á næstu þrem árum. Tekjuöflun ríkisins verði gerð einfaldari, réttlátari og skilvirkari. Útgjöld ríkissjóðs verði endurskoðuð þannig að gætt verði fyllsta aðhalds og sparnaðar og að þau vaxi ekki örar en þjóðarframleiðslan. Skattatekjur nýtist sem best í þágu almennings.“

Þegar gengið var frá fjárlögunum á liðnu hausti var við þetta miðað að það þyrfti ekki að ná hallanum niður nema á þrem árum. Það samþykktum við allt saman í þingflokki Sjálfstfl. en síðan gátum við auðvitað ekki samþykkt fjárlög sem við aldrei höfðum séð. Og það er rétt að segja má að það hafi verið fyrstu dagana í októbermánuði sem við fengum um þetta vitneskju. Ég gat þess áðan að við fengum þá vitneskju nákvæmlega 9. okt., eða a.m.k. ég, vitneskju um að búið væri að brjóta upp fjárlögin sem við samþykktum vegna þess að komin væri ný skýrsla frá Þjóðhagsstofnun sem sýndi að við værum að fara þráðbeint á hausinn og þess vegna þyrfti að innheimta einhver lifandis skelfingar ósköp af nýjum sköttum af þjóðinni þegar harðnaði á dalnum. Ég er ansi hræddur um að það verði erfitt að láta þetta dæmi ganga upp að ætla sér að ná þessum svokallaða halla niður á einu ári í stað þriggja.

Ég hef margsagt það og það er ekkert launungarmál, ég hef svarað bæði blöðum og öðrum því þegar ég hef verið að því spurður hvort ég mundi fallast á skattalögin, nýjar skattlagningar, að ég gæti ekki fallist á neitt sem ég ekki hefði séð, sem ég hefði ekki hugmynd um hvað stæði í. Það er fyrst í gær sem ég get farið að átta mig á því og núna um helgina. Þess vegna er ég ekki fær um að taka ábyrgð á einu eða neinu sem ég aldrei hef haft aðstöðu til að kynna mér. Það ætti að vera þannig um aðra þm. að vera ekki að fallast á eitt eða neitt fyrr en þeir vissu eitthvað um það. Þetta er ósköp einfalt mál. Þannig stendur þetta, nákvæmlega eins og ég sagði: Ég ber ekki á þessari stundu ábyrgð á neinu öðru en því sem ég samþykkti, þ.e. upprunalegu fjárlögunum, ekki þeim nýju.