10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

196. mál, söluskattur

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. kom inn á það í ræðu sinni síðast að ferðamenn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af verðlagi á Íslandi og enn fremur vitnaði hann til þess, sem hann hefur reyndar margoft ítrekað í fjölmiðlum undanfarið, að í því gósenlandi sem er fram undan þegar búið er að breyta tollskránni og vörugjaldinu, þá muni verðlag hér innan lands verða með þeim hætti að Glasgow-ferðir muni algjörlega leggjast af.

Ég er hérna með þrjú reiknuð dæmi á blaði sem mig langar til að skýra hv. þingheimi frá. Ég er ekki lengi að því, herra forseti, og bið velvirðingar. Við skulum taka sem dæmi vöru sem kostar 105 kr., cifverð í Glasgow og á Íslandi. Við skulum láta liggja að því að innkaupsverðið sé hið sama, 105 kr. Í Glasgow er enginn tollur og ekkert vörugjald. Álagning er 60%. Það eru 63 kr. og þar með er varan komin upp í 168 kr. Síðan kemur 15% söluskattur í Glasgow sem er 25 kr. og þar með kostar varan 193 kr. Við skulum taka Ísland 1988, Ísland, land hæstv. fjmrh., það gósenland sem hann er að boða að verði hér á næstunni. Varan kostar 105 kr. Síðan kemur 15% tollur. Ja, það er ekki mikið, ekki nema 16 kr. og varan kostar 121 kr. Síðan kemur 14% vörugjald, 17 kr. og varan kostar nú 138 kr. Síðan kemur álagningin, 60%, hún er eins og í Glasgow — og nú er þó oft að álagning er yfirleitt lægri hér á Íslandi en víða erlendis þannig að ég hugsa að hér sé ekki hallað á hæstv. fjmrh. — það gerir 83 kr. og varan er komin upp í 221 kr. Síðan kemur 25% söluskattur, 55 kr. og varan er komin upp í 276 kr., kostaði 193 í Glasgow. Skyldu nú ekki margar húsmæðurnar fara til Glasgow til þess að sækja vöru sem væri þetta miklu ódýrari?

Við skulum taka annað dæmi sem er raunhæfara. Með þeim mikla flutningskostnaði sem er til Íslands er ekki óeðlilegt að cif-verð vörunnar sé verulega hærra en í Glasgow. Við skulum taka sem dæmi að cif-verð vörunnar sé 115 kr. Ég held að það sé mjög varlega áætlað og tollur sé nú 30%, sem verður á mjög mörgum vörum. Það gerir 35 kr. og varan er nú komin í 150 kr. Síðan kemur það sem ég ætla að koma mjög ítarlega inn á á eftir, að vörugjaldið er ekki 14%, það er 171/2%. Það gerir 26 kr. Þá er varan komin í 176 kr. (Forseti hringir.) Ég bið forláts, hæstv. forseti, ég er alveg að verða búinn. Síðan kemur álagningin, 106 kr. og varan er nú komin í 282 kr. Síðan kemur söluskatturinn, 70 kr. og varan er komin í 352 kr. Hún er nærri 80% dýrari en í Glasgow. Og ætlar svo hæstv. ráðherrann að halda því fram að Glasgow-ferðir leggist af?