10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

198. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Fyrst örfáar athugasemdir varðandi ræðu síðasta hv. ræðumanns.

Um dæmin sem hv. þm. nefndi um öryggismál, svo sem eins og öryggishjálmar, eins um rafbúnað ýmiss konar, ræsikerfi, ljósabúnað í 30% tollflokki, þá segi ég það með fyrirvara um að ég er ekki algerlega viss í minni sök en hygg þó að hér séum við að tala um ytri tollinn, 30%, gagnvart öðrum en EFTA-svæðum. Ég tel mig vita þetta að því er varðar tollflokkinn 65.06, öryggishjálmar. Hann er í 0-tolli í EFTA-flokkum og ætti þá að vera það, nema um hrein mistök sé að ræða, nema að því er varðar viðskiptasvæði utan fríverslunarsamtaka. Þ.e. ef þessi varningur kemur alla leið frá Japan væri hann sennilega í 15% flokki og það gæti eins átt við aðra þessa flokka því að almenna reglan er sú algerlega að því er varðar tollskrána að öryggisvörur eru í 0-flokki. Því aðeins að þær séu fluttar inn utan EFTA-svæðis væri um annað að ræða.

Hv. þm. Júlíus Sólnes beindi til mín spurningu, sem varðaði reyndar umræðuefni frá fyrri tíð, þ.e. um vörugjöld. En fyrst verð ég að gera eina alvarlega athugasemd við hans mál. Hann fræddi okkur með lestri upp úr vörugjaldsskrá og ég heyrði ekki betur en það vottaði fyrir hneykslan í röddinni þegar hann fjallaði um varalit og snyrtivörur. Ungur maður lærði ég það af hagsögubókum að bandarískar konur settu í andlitið á sér af þess konar dóti svo mikið magn að það samsvaraði þáverandi þjóðartekjum Indverja sem nú munu vera eitthvað á 8. hundrað milljónir. Þetta er m.ö.o. ekkert smáglingur og ekki lítill liður í útgjöldum heimilanna. (JúlS: Ég hef ekkert við það að athuga.) Það gleður mig að heyra það.

En spurningin var sú hvað það mundi þýða ef sú stefna hefði verið tekin upp að leggja samræmt vörugjald á allar vörur, sérstaklega allar innfluttar vörur. Samkvæmt skýrslum um innflutning á árinu 1987 er almennur vöruinnflutningur upp á 45,4 milljarða á fob-verði sem er 51 milljarður og 70 millj. cif. Þetta mundi þýða að ef við hefðum tekið þann kost að leggja almennt vörugjald á allan þennan innflutning reiknast mér svo til að hann hefði mátt helminga um það bil, þ.e. úr fyrra vörugjaldi 171/2 niður í um það bil 8–81/2%. Og værum við þá mikið nær eða hvað? Væri þetta skynsamlegri stefna? Við skulum athuga að vörugjaldið, sem hér er lagt til, leggst á ákaflega fáa og afmarkaða gjaldstofna. T.d. eru öll matvæli undanþegin og það hefði sitt að segja á matvælaverð ef á það legðist 81/2% vörugjald. Öll lyf og læknisvörur, hjúkrunarvörur af hvaða tagi sem er yrðu undanþegin og það hefði sitt að segja og gæti m.a. haft nokkuð alvarleg tekjumismununaráhrif ef þeim sem sjúkir eru, þurfa á þessu að halda, væri gert að borga 81/2% vörugjald. Undanþegið er allt timbur og reyndar megnið af byggingarvörum. Það hefði haft talsvert alvarlegar afleiðingar á byggingarvísitölu sem samkvæmt þessum heildarkerfisbreytingum lækkar en hefði hækkað ef þessi kostur hefði verið valinn og þar með komist inn í lánskjaravísitölu sem hefði hækkað og þar með t.d. öll greiðslubyrði af skuldum þar sem aftur á móti sú leið sem valin var leiðir til þess að lánskjaravísitalan lækkar. En þá er eftir að geta þess að ef við hefðum fjölgað gjaldendum vörugjalds úr um það bil 20 í 700, eins og eitt sinn voru uppi hugmyndir um, eða í tugi þúsunda, eins og þessi tillaga fæli í sér, er hætt við því að það sjónarmið að tryggja örugga innheimtu gjaldsins væri farið fyrir bí. Í fljótu bragði virðist mér því að þetta væri ekki góð tillaga.

Að öðru leyti sé ég nú ekki ástæðu til að staldra við margt í þessum umræðum. Það er ljóst að okkur hv. 7. þm. Reykv. ber ekki nákvæmlega saman um tölur um skattadæmið. Það dæmi verður að sjálfsögðu útkljáð svo óyggjandi verður í umfjöllun nefndar. Ég nenni ekki að endurtaka það í þriðja sinn.

Það gladdi mig að heyra að við erum að mörgu leyti sammála að því er varðar nauðsyn þess að hafa fjárhag ríkissjóðs traustan og ég hygg að það byggi á sömu forsendum og að við teljum að það sé ekki grundvöllur til að standa á til framtíðar út frá sjónarmiðum þeirra sem vilja standa vörð um velferðarríki og um samneyslu, sameiginlegar framkvæmdir og þar með byggðastefnu að slíkt viðgangist.

Um manneldisstefnuna er greinilega nokkur ágreiningur. Hv. þm. gat sér þess til að það væri þó einhver þjóðlegur strengur sem hrærðist í brjósti fjmrh. þar sem um væri að ræða að tolli á nefróbaki væri stillt í hóf. Mér kom nú í hug af því tilefni að hv. þm. er greinilega minnugur þess að einhver mesti neftóbaksneytandi þjóðarinnar og öflugasti verkalýðsleiðtogi þjóðarinnar hefur nú yfirgefið flokkinn hans. (SvG: Hann er farinn úr flokknum.) Farinn úr flokknum og þá er það sjónarmið fyrir bí. (SvG: Kannski þetta sé ástæðan.) Kannski þetta sé ástæðan, kannski hann sé að nálgast eitthvað flokk fjmrh., þessi mikli neftóbaksneytandi.

Að öðru leyti svaraði hv. ræðumaður spurningum sínum sjálfur. Hann spurði: Hvers vegna gætum við ekki verið hér saman milli hátíða og eftir áramótin og velt fyrir okkur tollum? Svarið er nefnilega að það er ekki gæfulegt að hafa tollskrána opna fram í mars eða apríl. Var ekki einhver að kvarta undan því að kannski væri óþarflega mikið hamstur í búðum?

Hv. þm. Júlíus Sólnes beindi til mín þeirri spurningu hvort það væri ekki góð hugmynd að fella flutningsgjöldin, sem eru há, út úr álagningargrunni tolla og vörugjalds og miða við fob fremur en cif. Munurinn á þessu tvennu er alls um 11% og allir vita að fragtgjöld á Íslandi eru há, enda einokunaraðstaða í þeim bransa ólíðanlega mikil. En á það er þá að líta að þegar stefnt er að upptöku virðisaukaskatts er virðisaukaskattur þeirrar tegundar að innskatturinn leggst á öll aðföng og þetta gæti þess vegna aðeins staðið í eitt ár. Þessi hugmynd var skoðuð og rædd í alvöru og niðurstaðan varð þó þrátt fyrir allt sú að það dæmi gengi ekki upp.

Önnur ábending var hins vegar um ytri tolla og þá vil ég aðeins minna á að ég lýsti því í ræðu minni hér fyrr í dag að það kæmi vel að mínu mati til álita að skoða það mál í nefnd. Niðurstaðan í þessu tollafrv. var sú að ytri tollar eru á bilinu 10–25%. Það var m.ö.o. ekki tekin sú afstaða að samræma og lækka ytri tolla. Það er rétt ábending hjá hv. þm. að eins og nú háttar til að því er varðar gjaldeyrisþróun og gjaldmiðlaþróun á gjaldeyrismörkuðum, dollars, væru forsendur fyrir því að breyta nokkuð innflutningsmynstrinu og ná hagkvæmari innkaupum, ef við beindum viðskiptum okkar meira í vesturátt, og því marki mundum við sennilega ná ef við tækjum upp samræmda ytritollastefnu á bilinu um 5% sem kemur vissulega til álita að gera en er ekki mjög stór útgjaldaauki þegar saman fer hagkvæmni í verslun. Nú eru þetta að vísu tímabundnar aðstæður. Það getur verið flókið mál að því er varðar fríverslunarsamninga o.s.frv. En þetta er sjónarmið sem ég hef hreyft og komið mjög til álita. Þótt ekki hafi tími unnist til að ná niðurstöðu í því máli væri verðugt viðfangsefni að taka það til rækilegrar skoðunar í nefnd.

Að svo mæltu þakka ég öllum, sem þátt hafa tekið í þessari umræðu, fyrir málefnalegar og fróðlegar umræður og nota tækifærið til að bjóða hæstv. forseta góða nótt.