10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Við 1. umr. þess frv. til laga sem liggur hér frammi á þskj. 114 gerði ég örfáar athugasemdir sem ég vildi aðeins rifja upp, ekki síst vegna ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. Ég lagði ekki höfuðáherslu á efni frv. heldur minnti á samþykkt þáltill. þeirrar sem hann nefndi áðan, sem samþykkt var á síðasta þingi, um að ríkisstjórnin beitti sér fyrir undirbúningi að lögum um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks. Þarf ekki að endurtaka það sem hann sagði. Ég gerði allar sömu athugasemdir sem hann gerði og rakti nokkuð sögu þessa máls hér í þingsölum.

Mér finnst, og ég hef oft áður talað um það, mikilvægt bæði fyrir nýja þm. og jafnvel gleymna þm. að þegar mál eru borin fram sé rakin saga þeirra hér í þingsölum sé hún einhver. Þess vegna minnti ég á að upphafsmaður þessa máls var hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson og síðan hefur núv. hæstv. félmrh. margsinnis flutt mál þessa efnis og hv. fyrrv. þm. Gunnar G. Schram og þeir kunna að vera fleiri. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt fyrir okkur öll að fá yfirlit yfir sögu mála sé hún einhver svo að við séum ekki að samþykkja hvað eftir annað sömu málin. Ég er ekki að segja þetta af neinni illgirni eða pólitísku offorsi og er fús til að virða það að hér er 1. flm. þm. sem ekki hefur verið hér áður nema sem varamaður stuttan tíma, en þarna finnst mér reyndar að mætti líka koma til kasta starfsfólks þingsins. Mér finnst ekkert að því að það bendi þm. á hafi mál komið áður við sögu þingsins.

Þetta eru þær formlegu athugasemdir sem ég hef við þetta mál að gera. Hins vegar vil ég vegna ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar upplýsa það, sem ég áttaði mig ekki á þegar ég tók til máls um daginn, að ég beindi máli mínu til hæstv. félmrh. ekki síst vegna þess að nú þótti mér hægt að höfða til hennar fyrri mála. Hún tók að vísu ekki til máls þar sem umræðu var frestað, en benti mér á í einkasamtali að þetta heyrði alls ekki undir embætti hennar heldur hæstv. fjmrh. Til þess að hæstv. félmrh. sé ekki hér á ferðinni í þessu máli vil ég upplýsa þetta vegna þess að það eru greinilega fleiri en ég sem ekki áttuðu sig á því og hér er hæstv. fjmrh. því miður ekki í þingsölum.

Að öðru leyti lýsi ég því yfir að við alþýðubandalagsmenn erum auðvitað sammála efni frv. Hinu get ég ekki leynt að ég á ekki alveg gott með að átta mig alltaf á stefnu Kvennalistans í þessum málum. Ég hef verið þm. nógu lengi til að hafa heyrt að þær gera ekki mikið með að húsmæður sem einungis vinna heima fái t.d. laun, það sé mjög í blóra við stefnu kvenfrelsiskvenna. Við breytingar á skattalöggjöf var allt kapp lagt á að konur sem vinna heima hefðu sem allra minnst réttindi varðandi skatta og þær konur sem úti unnu stórhækkuðu í sköttum við breytingar sem þá voru gerðar og átti það að vera mikið atriði um að við fyndum þá frelsiskennd að hafa minna fé milli handa. Nú er lagt til af þeirra hálfu að heimavinnandi húsmóðir njóti lífeyrisréttinda. Einhvern veginn finnst mér þetta allt stangast á. Það er mín skoðun og það getur vel verið að það sé mitt skilningsleysi. En ég fagna frv. og mun að sjálfsögðu greiða því atkvæði mitt.