10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka vinsamleg orð sem hafa fallið um það frv. sem við kvennalistakonur höfum flutt hér og ýmsar ábendingar og aðfinnslur hafa komið fram í máli þessu sem ég tel rétt að svara.

Frv. var lagt fram að mestu í sama formi og það var flutt í á sl. ári, en í millitíðinni hafði launaflokkur sá sem tilgreindur er í frv. að iðgjaldsgreiðslur skuli miðast við fallið niður við kjarasamninga og af athugunarleysi var ekki breytt um orðalag. En vitaskuld er ekkert hægara en að breyta þessu orðalagi og nota aðra sambærilega viðmiðun þegar málið kemur til umfjöllunar í nefnd, sem ég vona vissulega að það geri, og þar sem ekkert mat liggur fyrir á húsmóðurstörfum til launa verður að taka mið af einhverju sem sýnist skynsamlegt og raunhæft í þeim efnum.

Hv. 3. þm. Reykv. lagði fram nokkrar spurningar í umræðunni fyrr hér og þar á meðal hvort markmið frv. væri að hafa þau áhrif að fleiri konur yrðu heimavinnandi. Ég get varla ímyndað mér að sá fjöldi kvenna sem er úti á vinnumarkaðnum í dag sé þar eingöngu til að sækja sér lífeyrisréttindi. Þess vegna held ég að þær hópist ekki heim til að hugsa um börn og bú þó að þetta frv. yrði að lögum. Aðalatriðið og aðalmarkmiðið er að þær konur sem af einhverjum ástæðum geta ekki eða kjósa ekki að vinna launuð störf utan heimilisveggja hafi sömu mannréttindi og aðrir þegnar þjóðfélagsins og njóti áþekkrar umbunar fyrir unnin störf á elliárum.

Hv. 3. þm. Reykv. spurði einnig hvort ætlað væri að þessi lífeyrisréttindi yrðu sameign hjóna og hvort þau skyldu gilda um fólk í óvígðri sambúð sem jafna mætti til hjúskapar. Ég sé ekki annað en sömu reglur hljóti að gilda um þessi lífeyrisréttindi sem önnur. Kannski hef ég ekki skilið þessa spurningu rétt, en ég vil þá fá nánari útskýringu á hvað vakti fyrir hv. þm. með henni.

Hv. 2. þm. Vesturl. hafði af því nokkrar áhyggjur að lífeyrisgjaldagreiðslur vegna lífeyrisréttinda húsmæðra yrðu sveitarfélögum útgjaldaauki. Það er sjálfsagt alveg rétt að það gæti orðið. En við skulum bara snúa dæminu við. Hvað spara þessar konur viðkomandi sveitarfélagi í beinum útgjöldum ef sveitarfélagið kynni nú að þurfa t.d. að sjá fyrir börnum þeirra á dagheimilum og taka upp á sína arma það ellihruma fólk sem þær hugsa um eða annað fólk sem þær hafa í sinni umsjá sem yrði þá að vista á stofnunum eða á annan hátt? En sami hv. þm. drap réttilega á að lífeyrismál, sjúkratryggingar og orlof húsmæðra þyrfti að færa til sama vegar og með launþega í landinu. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Og það er furðulegt hve treglega gengur að þoka þessum málum í réttlætisátt.

Hv. 13. þm. Reykv. átaldi að ekki væri rakið í grg. það sem áður hefði verið borið fram á hv. Alþingi um lífeyrisréttindi heimavinnandi fólks. Það er alveg rétt hjá hv. þm. og það má sjálfsagt rekja það til reynsluleysis míns í þingmennsku að hafa ekki athugað þetta. Ég hafði reyndar hugsað mér eftir á að skýra þetta mál ef ég kæmi hér aftur upp, en hún gerði það í fyrri umræðu og gerði það aftur núna svo að ég ætla ekki að lengja mál mitt með því.

En það vekur furðu manns þegar lesið er um þessi mál í þingtíðindum að það eru allir sammála um að sjálfsagt sé að rétta hlut heimavinnandi fólks, en það er alltaf eitthvert „en“ í því, eitthvert „en“ sem strandar á. Það skyldi þó ekki vera að það væri það sem hv. 16. þm. Reykv. nefndi í sinni ræðu um þetta mál á dögunum þegar hún vitnaði til þeirra daga er hún barðist fyrir því við kjarasamninga að húsmóðurreynsla væri metin til starfsréttinda eða starfsaldurs við launuð störf, en þá sagði hún, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta samkomulagsatriði milli Sóknar og atvinnurekenda olli allt að því taugaáfalli á sumum launaskrifstofum. Svo afleitt var það. Mér finnst ekki að þetta hafi verið mikið mál eða gert launaútreikninga mjög erfiða, enda held ég ekki að það hafi verið það sem raunverulega var að. Það var hitt að hér var verið að fara inn á hættulega braut. Það var verið að meta vinnu sem hingað til hafði verið svo lítils metin. Það var hættan.“

Ég vil þá minna á að tvisvar hafa kvennalistakonur borið fram hér á hv. Alþingi tillögur um að heimilisstörf yrðu metin til starfsreynslu og nefnd var skipuð um það og skilaði áliti, en mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert neitt frekar í málinu, að þetta sé nokkurs staðar notað.

Hv. 2. þm. Vestf. hafði upp nokkrar efasemdir um röðun á lífeyrisréttindunum, að það gæti verið eðlilegt að konur sem væru í hálfu starfi hlytu einhverja umbun því að kannski kynni kona sem væri í minna en hálfu starfi að enda með meiri lífeyrisrétti en hún. Það má vel vera að þetta sé rétt og þetta þarf allt að skoða betur þegar þetta mál kemur til umfjöllunar í nefnd.

Mér er líka ljóst að það eru fleiri en eingöngu heimavinnandi húsmæður sem standa utan lífeyriskerfisins og á málum þeirra þarf að taka, en það er ekkert sem kemur í veg fyrir að það sé gert þó að þessu sé kippt í lag.

Heimavinnandi húsmæður hafa ekki verið kröfuhópur hingað til og þær gjalda þess. Þess vegna er þetta frv. borið fram til að skapa þeim aukin réttindi og réttindi sem þær ekki hafa nú. Ég vænti þess að frv. fái góða umfjöllun og starf heimavinnandi húsmæðra verði metið þannig að það verði þeim til hagsbóta á efri árum.

Mér skildist á hv. 13. þm. Reykv. að það væri ekki víst að frv. ætti heima í félmn. þegar því verður vísað til nefndar. Ég legg það í úrskurð hæstv. forseta að hafa uppi á því hvar það ætti þá frekar heima. Mér var sagt að vísa því til félmn.