10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég verð að biðja hv. 5. þm. Vesturl. afsökunar á því að ég veit ekki hvort ég heyrði allt sem hann sagði. Það var svo mikið skvaldur hérna framan við en ég skal reyna að svara því sem ég heyrði alla vega.

Hann spurði um kostnaðarhliðina á þessu. Ég tók það fram í mínu máli að mér hefði ekki verið unnt að gera neina kostnaðaráætlun um þetta vegna þess að þetta fólk er ekki inni neins staðar. Það er ekki einu sinni hægt að finna hvað það er margt. Atvinnustaða þess er slík að það er ekki til á neinum skrám sem slíkt og þess vegna er ekki hægt að finna það út. Ég á ekki von á að þetta hafi neinn verulegan kostnað í för með sér því að það mætti frekar kalla þetta tilfærslu innan þjóðfélagsins því að þetta fólk gegnir störfum sem annars yrði í mörgum tilfellum að greiða af sveitarfélögum og ríki. Ég reikna því ekki með að þetta yrði neinn teljandi kostnaður.

Í öðru lagi spurði hann um — ég verð að biðja afsökunar, ég verð að biðja þig að endurtaka. (Gripið fram í: Hvort það sama gilti um karlmenn.) Hvort það sama gilti um karlmenn. Ég tók það fram í minni framsöguræðu að það sama skyldi gilda um karlmenn sem gegndu þessum störfum. Ég held ég hafi ekki neinu við það að bæta, þá sem sinna heimilis- og húsmóðurstörfum. Ég held ég hafi ekki neinu frekar við það að bæta. Það stendur skýrum stöfum í grg.