10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

168. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér hefur verið mælt fyrir frv. um breytingar á lögum frá 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands. Þessi gömlu lög, sem eru komin til ára sinna, gætu vissulega þurft endurskoðunar við í ljósi ýmissa þátta, þar á meðal ákveðinnar óvissu sem ríkir um túlkun þeirra í sambandi við nýtingu landhelgi okkar og önnur tengd lög sem eru frá því um svipað leyti, en þau mál voru rædd á síðasta þingi, þar á meðal um rétt útlendinga til þess að gerast þátttakendur í íslenskri fiskvinnslu og íslenskum fiskiðnaði. Hér er vissulega ekkert slíkt á ferðinni heldur er þetta mál flutt af góðum hug til nágrannaþjóða sem, eins og hv. fyrri flm. þessa máls hefur rakið, studdu okkur, og þá sérstaklega Færeyingar, í okkar landhelgisbaráttu á sínum tíma. Ég tek fyllilega undir að við þurfum að rækta samstarf við þessa granna okkar og það fremur en við aðrar þjóðir og Alþingi Íslendinga hefur tekið ákveðin skref í því sambandi með því að gerast aðill að Vestnorræna þingmannaráðinu, þar sem samskipti milli þessara grannþjóða eru til sérstakrar meðferðar, og ég hygg að reynslan af starfsemi þess ráðs þingmanna frá þessum þremur löndum hafi þegar orðið gagnlegt.

Ég tel hins vegar að það þurfi að gæta sín vel áður en tekin eru ákvarðandi skref með lagabreytingu um þessi efni. Í fyrsta lagi sú ákvörðun sem í því fælist að veita þessum þjóðum fortakslaus sérréttindi í sambandi við rétt til fiskveiða innan landhelginnar eða til að vera undanþegin því ákvæði sem um er fjallað í 1. gr., þ.e. að landa hér afla og eiga samskipti við okkur með þeim hætti. Ég held að við þurfum að taka á þessu máli í samhengi við ýmis önnur hagsmunamál sem hafa verið til umræðu á milli þessara landa að undanförnu. Hv. 1. flm. gat einmitt um eitt slíkt málefni sem tengist báðum umræddum þjóðum, en það er spurningin um skiptingu á loðnustofninum á Norður-Atlantshafi þar sem óútkljáð eru þýðingarmikil mál sem varða okkar hagsmuni og samskipti við þessar grannþjóðir okkar. Þetta snertir sérstaklega Grænland en þó með óbeinum hætti einnig Færeyjar sem hafa fengið hlutdeild í loðnuveiðum á hafsvæðum norður af Íslandi og skipting á þessum þýðingarmikla veiðistofni er óleyst.

Ég vil út af fyrir sig alls ekki mæla með því að við gerum réttindi af því tagi sem hér er gerð tillaga um að einhverri verslunarvöru. Ég er ekki að tala um það í því samhengi. En við hljótum samt að taka á samskiptamálum með tilliti til okkar eigin hagsmuna um náskyld efni í rauninni þar sem er hagnýting á sjávarauðlindum á þeim hafsvæðum sem undir þessi ríki heyra.

Þetta vildi ég segja hér. Ég teldi eðlilegt að um mál af þessu tagi væri ekki aðeins fjallað í sjútvn., eins og hér er lagt til, heldur að það væri einnig tekið til meðferðar á vettvangi utanrmn. Alþingis, ekki með formlegum hætti heldur í tengslum við ýmis efni, sem þar eru rædd og sem tengjast nýtingu fiskistofna, og önnur samskipti milli þessara grannþjóða.