20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

26. mál, heildarendurskoðun sóttvarnarlöggjafarinnar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili varð nokkur umræða um lög um varnir gegn kynsjúkdómum frá 1978 svo og önnur gildandi lög sem taka til smitsjúkdóma, en þau eru orðin býsna gömul. Tilefni þessara umræðna voru fyrirhugaðar lagabreytingar á kynsjúkdómalögum vegna eyðnisjúkdómsins.

Það er að mati allra sem til þekkja bæði eðlilegt og reyndar löngu tímabært að endurskoða öll þau lög er varða sóttvarnir og kynsjúkdóma og færa þau til samræmis við nútímaþekkingu og starfshætti. Einnig þykir eðlilegt að líta á smitsjúkdóma sem heild við lagasetningu þannig að heildstæð löggjöf nái til allra smitsjúkdóma en frávik og sérstaða verði mörkuð með reglugerðum. Um þetta fluttu þingkonur Kvennalista ásamt öðrum þingkonum stjórnarandstöðu svohljóðandi till. til þál. í febrúar 1986, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á heilbrmrh. að láta fara fram svo fljótt sem unnt er endurskoðun og samræmingu á þeim lögum sem taka til smitsjúkdóma. Lagt verði fram frv. þar að lútandi eigi síðar en á næsta þingi.“

Við umræður um þessa till. komu fram upplýsingar hjá þáv. hæstv. heilbrmrh. þess efnis að tekin hefði verið ákvörðun um að endurskoða sóttvarnarlöggjöfina í heild sinni og hygðist hún skipa nefnd til þessa verkefnis. Í febrúar 1987 bar ég síðan fram fsp. um það hvenær heilbrmrh. hefði skipað nefnd til að annast verkefnið og hvað liði störfum nefndarinnar. Í svari ráðherra þá kom fram að nefndin hefði verið skipuð 27. nóv. 1986, einnig hverjir ættu sæti í henni. Þegar spurt var hafði nefndin einungis starfað stuttan tíma og því eðlilega lítið af störfum hennar að frétta. Ég vil því endurtaka þessa fsp. mína nú á nýju þingi og spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. á þskj. 26:

„1. Hvað líður störfum þeirrar nefndar sem heilbrigðisráðherra skipaði 27. nóv. 1986 til að gera heildarendurskoðun á sóttvarnarlöggjöfinni?

2. Hvenær hyggst nefndin ljúka störfum?"