10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er orðinn árviss viðburður að frv. orðrétt samhljóða þessu sé borið fram hér á hinu háa Alþingi. Fyrir þá nýja þm. sem komið hafa til liðs skal það upplýst um þetta mál að ástæðan fyrir því að það er flutt ár eftir ár eftir ár er að borgarstjórinn í Reykjavík og meiri hluti borgarstjórnar Reykjavíkur vill ekki lúta lögum um heilbrigðisþjónustu sem hið háa Alþingi hefur samþykkt. Hver ráðherrann á fætur öðrum hefur látið bjóða sér að bera fram þetta frv. ár hvert og ég vil spyrja hæstv. heilbrrh.: Hversu lengi á þetta grín að ganga?

Ég held að áður en okkur verður frekar misboðið hér á hinu háa Alþingi verði heilbrigðisyfirvöld að gera þetta upp við sig: Á að afnema lög um heilbrigðisþjónustu nr. 84 frá 1986 eða á að halda áfram að láta Reykjavík og Garðakaupstað líðast að hundsa lög um heilbrigðisþjónustu? Um það snýst þetta mál.