10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Einhverjum kann að virðast svo við fyrstu sýn að hér sé á ferðinni mál sem ekki sé ástæða til að aðrir hv. þm. ræði en fulltrúar Reykvíkinga og þá þeir sem gæta eiga hagsmuna Garðakaupstaðar og hæstv. heilbrrh. En svo er ekki. Það kemur auðvitað öllum hv. alþm. við hvernig lög um heilbrigðisþjónustu eru starfrækt eða virt í landinu og ég verð að segja eins og er að mér hefur lengi þótt það býsna óeðlilegt, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið, að ákveðin sveitarfélög, fáein sveitarfélög, skuli ár eftir ár eftir ár þrjóskast við með þessum hætti að taka upp hið nýja fyrirkomulag sem búið er að vera lögbundið um árabil. Og ég vil leyfa mér að halda því fram að í raun og veru sé það merki um vanþróaða þjónustu á þessu sviði að haldið er með þessum hætti í gamalt fyrirkomulag sem ákveðið var á einni tíð að breyta. Það liggur við að manni detti í hug að það sé ástæða fyrir hæstv. heilbrrh. að fá til þess stuðning í ríkisstjórninni að taka upp sérstakt þróunarverkefni fyrir þessi svæði til þess að koma hér á skikkanlegri og nútímalegri heilsugæslu á grunnþrepi þeirrar þjónustu.

Það er almennt viðurkennt að fátt er líklegra til þess að leiða til sparnaðar í heilbrigðisþjónustunni í heild sinni en öflug og vel skipulögð starfsemi á undirstöðuþrepum. Því er ekki til að dreifa að mínu mati hér á þessu svæði þar sem skipulagið er allt úr böndum og ekki um regluleg hverfi með eðlilegum þjónustusvæðum að ræða.

Það var búið að vinna talsvert að því á sínum tíma að taka upp þetta kerfi hér í Reykjavík er mér kunnugt um, en ég hygg að það starf hafi að mestu leyti ónýst sökum þess að ákveðnir aðilar hafa spyrnt við fótum og þrjóskast við að framkvæma lögin eins og þau eru í gildi.

Ég bendi einnig á það að þau sveitarfélög sem tekið hafa upp þessa þjónustu á síðustu árum smátt og smátt, þar í hópi eru nokkuð stór bæjarfélög sem breyttu úr sambærilegu kerfi og hér hefur verið við lýði yfir í heilsugæslustöðvar eða heilsugæslukerfi, til að mynda Akureyri, telja af því góða reynslu. Það er viðurkennt og ég hygg að það sé auðvelt að leiða að því vitni ef menn vilja, að þar eru menn almennt ánægðir með þann árangur sem þetta kerfi hefur skilað. Að vísu hefur það í sumum tilfellum væntanlega kostað sveitarfélögin eitthvað meiri peninga. En þjónustan er betri og það er um flesta hluti betra skipulag.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrmrh.: Hefur verið gerð einhver úttekt á kostnaði sem því er samfara að þetta fyrirkomulag hefur ekki fengist tekið upp hér í Reykjavík og þá á ég við heildarkostnað með tilliti til þjónustunnar sem veitt er? Það er ekki nægjanlegt að horfa bara á kostnað eins aðila í þessu sambandi, til að mynda hvort sveitarfélagið kemur ofurlítið betur eða ofurlítið lakar út, heldur hvernig samfélagið í heild, sveitarfélag og ríki, hvað þessi þjónusta í heild sinni kostar með hinu mismunandi fyrirkomulagi og hver greiðir hvað. Ég held líka að það sé óheppilegt fyrir ýmissa hluta sakir sem hægt væri að tíunda, svo sem eins og starfsaðstöðu þeirra sem sinna þessari þjónustu, að hafa þetta mismunandi fyrirkomulag í einu eða tveimur sveitarfélögum á landinu. Ef hæstv. heilbrrh. verður að óskurn sínum og viðræður hans við Garðakaupstað skila þeim árangri að þar verði tekið upp skipulag samkvæmt heilbrigðislögunum verður Reykjavík orðin eina sveitarfélagið á landinu, ef ég hef skilið rétt, sem mundi áfram vera á undanþágum hvað þetta snertir og það er að mínu mati mjög óeðlilegt fyrirkomulag. Það er ekkert þannig vaxið í Reykjavík öðrum stærri sveitarfélögum fremur sem réttlætir það eða rökstyður að þetta fyrirkomulag eigi ekki að takast upp þar eins og annars staðar. Ég undirstrika því það sem mína afstöðu að það hljóti að vera algjörlega tímabundin undanþága sem Alþingi veitir með þessum hætti og það eru auðvitað ómarkviss vinnubrögð að gera þetta ár eftir ár eftir ár án þess að fyrir liggi einhvers konar áætlun eða einhver niðurstaða um það hvenær menn ætli þá að láta lögin taka gildi. Ég hefði miklu frekar viljað afgreiða hér tveggja eða þriggja ára undanþágu fyrir Reykjavík og þess vegna Garðakaupstað ef því hefði verið samfara samþykkt áætlun, samkomulag ríkis og sveitarfélaga um að að þeim tíma liðnum yrði hið nýja fyrirkomulag tekið upp, enda hefði þá verið unnið að því á þeim tíma. En þetta eru handabakavinnubrögð að mínu mati að afgreiða þetta alltaf í tímahraki fyrir hver áramót því að það er virkilega stórt mál sem skiptir miklu, bæði hvað varðar þjónustuna við almenning og eins útgjöld sem eru auðvitað geysistór til þessa málaflokks, hvernig skipulag heilbrigðisþjónustunnar er. Og ég endurtek það: Það hefði verið fróðlegt ef hæstv. heilbrmrh. gæti upplýst eitthvað um kostnað í þessu sambandi.