10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

203. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það skal vera örstutt. Einungis til að bæta einu atriði við þá umræðu sem hér hefur farið fram vil ég benda á að fyrrv. hæstv. ráðherrar hafa talað um forvarnarstarf, menn hafa talað fjálgum orðum um forvarnarstarf í heilbrigðismálum. Hvernig er komið forvarnarstarfi í kynfræðslumálum, tannverndarmálum, áfengisvarnamálum og hverju sem heiti hefur? Ástæðan fyrir því að þetta er allt í skötulíki hérna hjá okkur er að þetta er óskipulagt. Og þetta verður ekki skipulagt nema gegnum heilsugæslukerfið. Ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. að lokum: Hvernig ætlar hann að samræma forvarnarstarf í heilbrigðismálum ef áfram á að hafna lögum um heilbrigðisþjónustu á þéttbýlissvæðunum?