10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Tveir fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa komið í ræðustól og lýst því yfir að þeir telji því ekkert til fyrirstöðu að mál þetta verði tekið til 2. umr. með eðlilegum hætti í kvöld. Hv. síðasti ræðumaður talaði um að komið hefðu tilmæli frá hæstv. ríkisstjórn um þá málsmeðferð að einungis yrði mælt fyrir nál. meiri hl. Ég kannast ekki við að slík tilmæli komi frá ríkisstjórninni og á ég ekki hlut að slíkri beiðni ef um það hefur verið rætt og það vildi ég láta koma fram. Ef þetta eru tilmæli frá stjórnarandstöðuflokkunum og fulltrúar tveggja þeirra hafa lýst yfir að það sé ekki að þeirra beiðni þessi málsmeðferð stendur aðeins eftir að það sé Borgarafl. sem hefur þá beiðni í frammi að húsnæðismálin verði ekki tekin fyrir með eðlilegum hætti á dagskrá deildarinnar í kvöld.