10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1412)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég held að mér sé farið eins og öðrum þm. að vera farin að hugsa upphátt eftir þennan langa dag.

Hér var borin fram ósk af hálfu hæstv. forseta þess efnis að hér yrði einungis hlýtt á meirihlutaálit nefndar um frv. ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál. Þetta mun ekki rétt samkvæmt því sem hér hefur komið fram. Ríkisstjórnin hefur ekki óskað þess. Hæstv. félmrh. kannast ekkert við það.

Hæstv. forseti sagði jafnframt að um þetta hefði orðið samþykki á fundi með formönnum þingflokkanna. Það er heldur ekki rétt samkvæmt því sem fram hefur komið frá formanni þingflokks Kvennalistans. Ég hlýt því að spyrja eins og lítið barn: Hver hefur samþykkt hvað? Hvað samþykkti ríkisstjórnin að biðja um og hverju samþykkti stjórnarandstaðan að verða við?

Sá grunur læðist að mér að ekki sé einleikið að í báðum tilvikum er um framburð konu að ræða. Hér er um hæstv. félmrh. að ræða, sem er kona, og hér er um þingflokksformann Kvennalistans að ræða sem einnig er kona. Og ég hlýt að spyrja: Er ekkert mark tekið á þessum konum? Þær hafa báðar talað sínu máli svo að ekki verður um villst. Ég get sennilega ekki ætlast til að mikið mark verði heldur tekið á mér.

En ég vil líka spyrja hv. forseta: Kannast einhver við fordæmi þess að það sé kallað sprell af hálfu samráðherra annars ráðherra í ríkisstjórn ef menn fylgja sínum málum fast eftir? Ég minnist þess ekki. Gæti það líka verið vegna þess að umræddur ráðherra er kona? Þetta eru bara hugleiðingar. Mér finnst einhvern veginn að þetta sé ekki alveg einleikið.

Ýmislegt hefur gerst í ríkisstjórnum sem hér hafa setið að völdum að undanförnu og á undanförnum árum og þau ár sem ég hef fylgst með stjórnmálum. Ég man aldrei eftir, hversu vitlaus asnaspörk sem hæstv. ráðherrar hafa framið, að nokkur vogaði sér að kalla það sprell.

Ég held, herra forseti, að nú sé nóg komið í kvöld. Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða þingheimi upp á. Mér er farið eins og hv. þm. Ég hef ekki augum barið þau nefndarálit sem var verið að leggja á borðið hjá okkur og að sjálfsögðu krefst ég þess að fá að lesa þau. Annars er eins gott að fara heim. Ekkert okkar er umræðuhæft um þau mál. Ég held að það væri best, herra forseti, að fresta þessum fundi um sinn, komast að því hver bað um hvað og hver samþykkti hvað og reyna að ákveða hvernig framhald þessa fundar verður.