10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hl. félmn., en meiri hl. skipa auk þess sem hér stendur hv. 5. þm. Norðurl. v., hv. 17. þm. Reykv., hv. 3. þm. Suðurl. og hv. 3. þm. Austurl.

Þetta mál er búið að vera í meðförum nefndarinnar frá því í byrjun nóvember og hefur fengið mikla umfjöllun. Nefndin hefur haldið tíu bókaða fundi um frv. og sendi það allmörgum aðilum til umsagnar 3. nóv. sl. Svör við beiðnum nefndarinnar um umsagnir bárust frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Landssambandi lífeyrissjóða, Húsnæðisstofnun ríkisins, Landssambandi verslunarmanna, Félagi fasteignasala, BSRB og Lífeyrissjóði verslunarmanna. Enn fremur barst svar frá félmrn. um túlkun frv. með tilliti til reglugerðar.

Nefndin boðaði einnig nokkra aðila á sinn fund, m.a. Hallgrím Snorrason hagstofustjóra, sem veitti forstöðu nefnd sem samdi núgildandi lög nr. 54 1986, svo og framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins, Sigurð E. Guðmundsson, Hilmar Þórisson skrifstofustjóra, Grétar J. Guðmundsson, forstöðumann Ráðgjafarstöðvar Húsnæðisstofnunar, og Katrínu Atladóttur deildarstjóra.

Þá hafa einnig á síðari stigum komið á fund nefndarinnar Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ, og Pálmi Kristinsson framkvæmdastjóri. Það var eðlilegt að boða þessa aðila á fund nefndarinnar þar sem var farið yfir þær umsagnir, sem þessi samtök höfðu gefið nefndinni, sem voru viðamiklar.

Eins og sjá má af þessari upptalningu taldi nefndin nauðsynlegt að fá sem gleggsta mynd af viðhorfum aðila til frv. sem hér er til umræðu á þskj. 47.

Gildandi lög eru reist á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og fyrrv. ríkisstjórnar í febrúarsamningunum 1986 sem gerir ráð fyrir að lífeyrissjóðir í landinu kaupi skuldabréf af byggingarsjóðunum fyrir um 55% af ráðstöfunarfé sínu, en á því byggist réttur einstaklinga til lána úr byggingarsjóðunum skv. núgildandi lögum. Aðilar vinnumarkaðarins töldu að ef breyta þyrfti núgildandi lögum þyrfti að hafa samráð við þá um þær breytingar eins og samið var um þegar þessi lög voru sett á sínum tíma. Gert er ráð fyrir samningum við alla lífeyrissjóði til tveggja ára í senn og á þessu hausti var samið við samtök lífeyrissjóða í landinu um skuldabréfakaup fyrir árið 1989 og 1990 sem er undirstaða svara við þeim umsóknum sem nú liggja óafgreiddar hjá Húsnæðisstofnun. Aðeins fáir lífeyrissjóðir hafa gengið endanlega frá samningum þetta tímabil og er það vissulega áhyggjuefni og má e.t.v. skýra það með því að beðið er eftir því hvaða breytingar Alþingi kann að gera á núgildandi lögum.

Svör umsagnaraðila eða viðmælenda verða ekki rakin í nál. eða í þessari framsögu, en þau liggja öll saman fyrir í skjölum nefndarinnar. Rétt er að það komi skýrt fram að með frv. og þeim breytingum sem nefndin hefur gert á því og nefndin leggur til að verði samþykktar eru ekki gerðar neinar grundvallarbreytingar á húsnæðislánakerfi því sem komið var á vorið 1986. Með frv. er þó tekið fyrsta skrefið til að koma því jafnvægi á í húsnæðiskerfinu sem að er stefnt í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála virðulegrar ríkisstjórnar. Heildarendurskoðun þessa kerfis hlýtur að verða næsta skref í máli þessu með tilliti til fenginnar reynslu og fjölda ábendinga sem fram hafa komið innan þings og utan.

Nefndin hefur komið sér saman um brtt. sem eru í samræmi við þann tilgang frv. að tryggja betur forgang þeirra til lána sem eru í brýnni þörf fyrir lánafyrirgreiðslu og takmarka sjálfvirkni útlána og draga úr þenslu á fasteignamarkaði. Frv. með þeim breytingum, sem hér eru lagðar til, mun hins vegar létta nokkuð á kerfinu með því að veittar eru heimildir til að skerða lán til þeirra er eiga fyrir fullnægjandi húsnæði og veita slíkum aðilum lán á lakari kjörum en þeim sem skipa forgangshópana. Kemur í því efni hvort tveggja til greina að stytta lánstíma og hækka vexti. Einnig gerir frv. ráð fyrir að unnt verði að færa í forgangsröð nokkurn hóp fólks sem á íbúð fyrir en býr í raun vegna þrengsla eða sérstaklega erfiðra fjölskylduástæðna við síst betri kjör en ýmsir sem ekki eiga íbúð fyrir. Þetta er veigamikið atriði.

Loks gerir frv. ráð fyrir heimild til að synja þeim um lán sem eiga fyrir fleiri en eina íbúð, en samkvæmt upplýsingum sem bárust frá Húsnæðisstofnun voru það um 40 aðilar af þeim 10 300 sem sótt höfðu um lán frá 1. sept. 1986 til nóvember sl.

Mikilvægasta grein frv. er þó fyrir margra hluta sakir 2. gr. þess eins og félmn. hefur gengið frá henni, en þar er kveðið á um breytta skipan varðandi svör Húsnæðisstofnunar til umsækjenda. Með þeirri tilhögun sem frv. gerir ráð fyrir með þessari breytingu er komið í veg fyrir að útgáfa svonefndra lánsloforða Húsnæðisstofnunarinnar verði áfram sú uppspretta efnahagslegrar þenslu og hækkunar að margra dómi á fasteignamarkaðnum sem verið hefur. Auk þessa er stofnuninni ekki gert að skuldbinda sig fjárhagslega nokkur ár fram í tímann sem er sjálfsagt mikilvægt atriði miðað við þessar aðstæður. Frá sjónarhóli almennrar efnahagsstjórnar er hér um mikilvægt atriði að ræða þótt hitt sé rétt að með þessu móti fá umsækjendur ekki jafnskjótt og áður örugga vitneskju um hvenær þeir fá sín lán afgreidd og hvernig. Það er mikill galli sem þó vegur ekki upp kosti þeirrar breytingar sem nefndin leggur hér til.

Í þeirri heildarathugun á húsnæðislánakerfinu, sem nefndin telur nauðsynlegt að ráðast í, eru nokkur atriði öðrum fremur sem brýnt er að tekin verði til sérstakrar athugunar.

Í fyrsta lagi ber að nefna nauðsyn þess að tryggja fjárhagsstöðu húsnæðislánakerfisins til frambúðar þar sem nú er sýnt að vaxtamunurinn er orðinn miklu meiri en talið hefur verið að kerfið þyldi. Raunar er brýnt að þegar verði gerðar ráðstafanir til að minnka þann mun sem eru á teknum og veittum lánum Húsnæðisstofnunarinnar. Ákvörðun um það er á valdi ríkisstjórnarinnar og kallar því ekki á lagabreytingu nú. En ég undirstrika að að sjálfsögðu er aðalatriðið að styrkja húsnæðislánakerfið. Á því veltur framtíð þess.

Í öðru lagi þarf að kanna hvort grundvöllur geti verið fyrir því að flytja hluta verkefna Húsnæðisstofnunarinnar yfir í bankakerfið með samningum við lífeyrissjóði og bankastofnanir. Ég minni á að í núgildandi lögum eru ákvæði sem heimila húsnæðismálastjórn að leita slíkra samninga við bankakerfið, en á það hefur ekki reynt til þessa. Í þessu sambandi kemur til athugunar með hvaða hætti húsnæðisbætur í skattkerfinu geti komið í stað niðurgreiðslu vaxta. Það er mikilvægt mál sem ég vænti að bæði ríkisstjórn og alþm. hafi áhuga á. Jafnframt er rétt að kanna að nýju hugmyndir um að binda lán Húsnæðisstofnunarinnar við einstaklinga í stað íbúða. Þetta hefur verið til umræðu bæði þegar núgildandi lög voru sett og eins kemur þetta skýrt fram í áliti ýmissa samtaka sem hafa gefið umsögn um frv. sem hér er til umræðu. Þá kemur einnig til greina að skoða það að skipta heildarlánsfé milli kjördæma í samræmi við framlag lífeyrissjóða í einstökum kjördæmum.

Þá telur nefndin að þarft sé að kanna möguleika á sérstökum lánaflokkum til styttri tíma en almennt gerist og með breytilegum kjörum til að koma til móts við þarfir einstakra hópa sem ekki þurfa á stórum lánum til mjög langs tíma að halda. Ýmis fleiri atriði væri hægt að nefna sem fram hafa komið bæði í umsögn til nefndarinnar og einnig í umræðum í þjóðfélaginu.

Nefndin telur í sambandi við þetta mál að heildarendurskoðun á þessu kerfi verði hafin og er ekkert óeðlilegt að ætla að slíkri endurskoðun yrði að mestu lokið fyrir upphaf næsta Alþingis, þ.e. haustið 1988.

Herra forseti. Á sérstöku þskj. flytur meiri hl. félmn. brtt. við allar greinar frv. og tel ég ekki nauðsynlegt að fara ofan í þær. Þær eru einfaldar og skýra sig sjálfar, en að sjálfsögðu þarf að setja um þetta reglugerð.

4. gr. frv., um breytilega vexti, er felld út þar sem meiri hl. félmn. telur að ríkisstjórnin hafi nægar heimildir til vaxtaákvarðana í 30. gr. laga nr. 54 1986. Meiri hl. félmn. leggur áherslu á að reglugerðir um framkvæmd þessarar lagabreytingar verði gefnar út jafnskjótt og auðið er eftir að lög þessi hafa verið samþykkt. Það er hægt að geta þess að í allflestum umsögnum frá umsagnaraðilum, ekki síst frá heildarsamtökum vinnumarkaðarins og Húsnæðisstofnunar, kom fram krafa um að reglugerðir um lagabreytingarnar liggi fyrir þannig að hægt sé að átta sig í upphafi á hvernig framkvæma á þessa lagabreytingu.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu frv. Minni hlutar nefndarinnar munu skila sérálitum sem þegar hafa komið fram. Ég vil geta þess að Steingrímur J. Sigfússon, sem ekki á sæti í félmn., fulltrúi Alþb., sat alla fundi nefndarinnar og mun að sjálfsögðu gera grein fyrir afstöðu sinni.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja frekar þetta mál. Ég tel það óþarft. Þetta mál hefur verið mikið í umræðu og er ástæðulaust að lengja umræður við upphaf 2. umr. um frv. sem ég hef talað nokkuð um. Ég þakka nefndarmönnum svo og Steingrími Sigfússyni fyrir góð störf og ágæta samvinnu um meðferð þessa máls í félmn. Nd. Nefndin hefur ekki tafið afgreiðslu þessa máls á einn eða neinn hátt. Það hefur fengið í alla staði eðlilega þinglega meðferð og hefur verið reynt að vanda til þess að átta sig á viðhorfi einstaklinga og samtaka um hvernig að þessu máli þarf að standa. Ég vænti þess að hv. þingdeild geri slíkt hið sama og vandi það svo að það þurfi ekki að fara út og suður að afgreiða þetta mál á eðlilegan hátt.