10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (1425)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það dyljist engum, eins og hæstv. félmrh. vék að, að með þessu frv. færast aukin verkefni yfir til sveitarfélaga. En um hitt er miklu frekar hægt að deila hvort með þessu færast aukin völd yfir til sveitarfélaga. Ég verð að segja alveg eins og er að þó að það sé mikið umrætt mál í gegnum árin að færa verkefni og völd yfir til sveitarfélaganna, auka sjálfstæði þeirra og efla þau, þá slær það mig svo að þessi breyting, sem hér er lögð til, sé býsna ólánleg aðferð eða býsna ólánlegt upphaf á slíkri þróun.

Í fyrsta lagi eru þar auðvitað einungis tínd til nokkur tiltekin verkefni en ekki er um heildarsamkomulag eða heildarniðurstöðu að ræða á endanlegri verkefnaskiptingu. Enn fremur er tiltölulega lítt mótað með hvaða hætti hin fjármálalegu samskipti þessara aðila í heild sinni skuli vera í framtíðinni, sem best sést á því að gert er ráð fyrir sérstakri tímabundinni deild við Jöfnunarsjóð til að leysa úr mestu agnúunum sem menn sjá að muni koma upp í tengslum við þessa verkefnatilfærslu.

Ég tel einnig að þau verkefni sem valin eru séu umdeilanleg og sum hver að mínu mati alls ekki æskileg. Ég nefni sérstaklega mál eins og tónlistarfræðslu og uppbyggingu íþróttamannvirkja. Ég held að við þessar breytingar sé jafnvel miklu frekar hætta á að um mismunun milli sveitarfélaga verði að ræða en í ýmsum öðrum málaflokkum. Ég hefði til að mynda talið að hreinni verkefnaskil milli ríkis og sveitarfélaga í skóla- eða menntamálum hefðu verið nær því að stilla öll sveitarfélög í landinu af á sæmilegum jafnréttisgrundvelli vegna þess að í fjölmörgum sveitarfélögum úti um landið er það svo að sæmilega uppbyggður grunnskóli er e.t.v. einasta þjónustufyrirtæki hins opinbera í viðkomandi sveitarfélagi eða á viðkomandi svæði og jafnvel þokkalega fyrir þeim hlutum séð. Hér hefði að sjálfsögðu orðið að taka tillit til landfræðilegra aðstæðna, en að því breyttu held ég að uppbygging á því sviði sé jafnari um landið en hún er í mörgum öðrum málaflokkum.

Í Il. kafla frv. er fjallað um breytingu á íþróttalögum. Þar er lagt til að uppbygging íþróttamannvirkja og opinber stuðningur við mannvirki íþróttafélaga og félagasambanda innan ÍSÍ og UMFÍ skuli alfarið vera í verkahring sveitarfélaga. Það er sömuleiðis mjög merkileg klausa í umsögn um þessa grein neðst á bls. 11. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með frumvarpi þessu er ekki gerð tillaga um að sveitarfélögin taki ein að sér að styrkja rekstur íþróttahreyfingar með fjárframlögum. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að nokkur landssambönd fái sérstaka fjárveitingu á fjárlögum undir liðnum Ýmis íþróttamál. Þá mun ríkið einnig a.m.k. á næsta ári taka að hluta til þátt í byggingu þeirra íþróttamannvirkja sem flokkast sem skólamannvirki.“

M.ö.o. er beinlínis boðað að það geti orðið tímabundin ráðstöfun, jafnvel einungis til næsta árs, að ríkið taki þátt í þeim hluta íþróttamannvirkjanna sem tengist uppbyggingu skóla í landinu. Og hvað er þar með sagt? Það er sagt, virðulegi forseti, að jafnvel strax við næstu áramót hætti ríkið alfarið þátttöku við uppbyggingu íþróttamannvirkja í landinu. Og hvað þýðir þetta, virðulegi forseti?

Nú er það þannig að sá sem hér talar er fóstraður í einni tiltekinni sýslu landsins, Norður-Þingeyjarsýslu. Þar eru allmörg sveitarfélög og þrjú nokkuð stór kauptún. Þetta er heil sýsla með 1700 íbúum. En í þessari sýslu er eitt einasta samþykkt íþróttamannvirki, sundlaugin á Raufarhöfn. Það er ekkert íþróttahús sem er samþykkt, engin önnur viðurkennd íþróttaaðstaða sem stenst lágmarkskröfur. Og hvað er verið að segja með þessu, virðulegi forseti? Jú, það er verið að segja að þarna sé heil sýsla sem er gjörsamlega á eftir með alla uppbyggingu á þessu sviði. Og hvernig verður aðstaða þessara sýslunga minna gagnvart ýmsum öðrum, borið saman við ýmsa aðra þegar ríkið einn góðan veðurdag ákveður að hætta allri þátttöku í uppbyggingu þessa málaflokks? Ef við tökum okkur bílferð úr Norður-Þingeyjarsýslu og keyrum yfir í Suður-Þingeyjarsýslu, þá háttar hins vegar þannig til að þar eru ein fjögur eða fimm fulluppbyggð íþróttahús, tvær eða þrjár ef ekki fjórar fullsamþykktar sundlaugar o.s.frv. Þar er sem sagt dæmi um næstum því hið gagnstæða þar sem heil sýsla og flestöll sveitarfélög eru eiginlega búin að ljúka allri uppbyggingu á þessu sviði, svona miðað við það sem menn gera ráð fyrir að verði í nánustu framtíð.

Það gefur auðvitað auga leið, og hv. þm. þurfa væntanlega ekki frekari vitna við um það, að ef þessi snögga breyting gengur í gegn án nokkurra ráðstafana mun það koma mjög misjafnt niður á sveitarfélögunum, jafnvel heilum svæðum þannig að uppbyggingu sé kannski að mestu leyti lokið með þátttöku ríkisins á einum stað, en nánast öll verkefni á þessu sviði eftir annars staðar. Það eru auðvitað í mörgum tilfellum fámennari og veikari sveitarfélögin sem þarna hafa dregist aftur úr, hafa ekki haft bolmagn til þess að leggja í þessa uppbyggingu sem skyldi, en það er að mínu mati ekki þar með sagt að það eigi að skilja þau eftir úti á köldum klaka um aldur og ævi. Menn hafa einmitt frekar gert ráð fyrir því að smátt og smátt tækist að byggja þar einnig upp þjónustu á þessu sviði. Hafandi rakið þetta dæmi, sem ég tek ekki eingöngu af staðkunnugleika því að þarna þekki ég sæmilega vel til og treysti mér til að fullyrða að ég fari hér með rétt mál, þá vil ég segja það strax að að mínu mati gengur ekki að gera svona breytingu sem raskar þeirri kostnaðarþátttöku ríkisins sem viðgengist hefur um áratuga skeið í svona málaflokkum án þess að með einhverjum hætti sé tekið tillit til aðstöðu sveitarfélaganna þegar svona breyting er gerð. Það verður m.ö.o. að gera einhvers konar úttekt á því á hvaða vegi hvert og eitt sveitarfélag, hvert svæði er statt hvað þessa uppbyggingu varðar og reikna síðan hreinlega út einhvers konar vísitölu eða stuðul fyrir það hvernig sveitarfélagið stendur, sem síðan er tekið tillit til, annaðhvort í gegnum Jöfnunarsjóð eða með einhverjum öðrum hætti. Hér er ég í raun fyrst og fremst að tala um stofnkostnað og uppbyggingu þessara mannvirkja. Reksturinn er svo alveg annar kafli sem auðvitað þarf líka að huga að vegna þess að þar eru aðstæður einnig misjafnar.

Þetta mætti reyndar til sanns vegar færa og heimfæra upp á fleiri verkefni sem meiningin er að flytja til. Þar má taka bæði IlI. kafla, um félagsheimili, og ekki síður V. kafla frv., um dagvistarheimili. Þar er á ferðinni málaflokkur sem við vitum að er geysileg þörf fyrir úrbætur í. Ég held að það sé óæskilegt, burt séð frá hvaða skoðun menn kunna að hafa á því hvort þetta verkefni eigi að vera á hendi ríkisins eða sveitarfélaganna, að taka burtu þann hvata til uppbyggingar á þessu sviði sem þó hefur falist í framlögum ríkisins. Ég segi það sem mína skoðun að ætli ríkið að kippa algjörlega að sér hendinni með þátttöku í stofnkostnaði þá ætti að koma inn á móti fast framlag til rekstrar þessara mannvirkja, ákveðin hlutdeild ríkisins í rekstrarkostnaði dagvistarheimila. Það gæti að mörgu leyti verið skynsamlegri ráðstöfun að mínu mati, herra forseti, að ríkið kæmi inn í rekstur samþykktra dagvistarstofnana með tiltekinni fastri upphæð á hvert vistunarpláss sem séð hefði verið fyrir með viðunandi hætti. Það yrði gott fyrirkomulag að því leyti að það mundi eftir sem áður hvetja sveitarfélögin til að leysa þessi mál með sem hagkvæmustum hætti, því að þau ættu allan hag af því að gera það, og ná þannig niður sinni kostnaðarþátttöku, en ríkisframlagið yrði bundið hverju einasta plássi sem þau kæmu upp og yrði þar af leiðandi svipaður hvati og e.t.v. ekki óvirkari hvati en bein þátttaka ríkisins í uppbyggingu mannvirkjanna. Í þessu sambandi vil ég minna á, virðulegi forseti, að fyrir þessu þingi liggur frv. til laga um ríkisframlag til sveitarfélaga vegna dagvistunar barna á forskólaaldri. Flm. þess er hv. þm. Ásmundur Stefánsson, sem sat á Alþingi hér á dögunum og lagði þá fram þetta frv.

Ég held að það viti allir að þjóðfélagshættir hafa breyst með á þann veg að það er mjög mikil nauðsyn á því að úr þessum málum sé leyst. Þau eru víða í ólestri og hafa margir haft um það mörg orð en kannski orðið minna úr athöfnum. Þær áætlanir sem settar hafa verið upp um uppbyggingu á þessu sviði hafa farið úr skorðum, aðallega vegna ónógra framlaga ríkisins. Hitt dylst þó engum að aukin atvinnuþátttaka í landinu, sem hefur leitt til þess í hraðvaxandi mæli á síðustu árum að báðir foreldrar vinna utan heimilis, hefur auðvitað skilað gífurlegum verðmætum í þjóðarbúið, líka til ríkiskassans, þannig að ef það ætti að ganga til baka og við ættum t.d. að færa atvinnuþátttökuna niður á það stig sem hún var kannski fyrir 15 árum, þá er ég hræddur um að ríkið mætti leggja ærið mikið á sig til að missa ekki allar þær tekjur sem af slíku mundi leiða. Ætli það kæmi þá ekki í ljós að eins og 500 eða 1000 millj. á ári í dagvistarheimili væri harla góð fjárfesting fyrir þjóðarbúskapinn til að gera þessa miklu atvinnuþátttöku mögulega með sæmilega viðunandi hætti fyrir alla málsaðila. Herra forseti. Þrátt fyrir það að ég sé ekkert að neita því að það gæti verið ágætisfyrirkomulag að sveitarfélögin sjái um þennan rekstur, þá held ég því miður að aðstæðurnar kalli á þátttöku ríkisins til þess að hvetja menn í uppbyggingu á þessu sviði, a.m.k. þangað til hún er komin í viðunandi horf.

Ég held einnig að það væri spor verulega aftur á bak ef ríkið hætti að taka þátt í uppbyggingu á rekstri tónlistarskóla. Mér segja fróðir menn á því sviði að það sé eitt af fáum sviðum íslenska mennta- og fræðikerfisins sem talið er til fyrirmyndar víða um lönd og jafnvel tekið sem dæmi um það hvar hafi vel til tekist og hvar hafi verið gróska og myndarleg menningarstarfsemi sem ekki hafi bara skilað sér í fræðslu barna og ungmenna heldur líka jafnvel í öflugu tónlistarlífi ungra sem fullorðinna víða um land.

Ég held að aðstaða sveitarfélaganna verði að þessu leyti mjög erfið. Menn vita að sveitarfélögin hafa í flestum tilfellum þurft að sækja sér starfskrafta út fyrir sínar heimabyggðir. Mjög mikið af erlendu starfsfólki hefur verið fengið til starfa við þessa fræðslu. Ég óttast að mörg sveitarfélög muni ekki ráða við það verkefni að halda þessari fræðslu uppi með skikkanlegum hætti eða ekki gera það af ýmsum ástæðum.

Það er nú svo að mörg sveitarfélög í landinu, hvort sem menn gera sér grein fyrir því eða ekki, hafa ótrúlega miklar byrðar af því að halda nánast uppi atvinnustarfseminni sjálfri. Þar eru í mörgum tilfellum hagsmunir atvinnulífs og sveitarfélags svo nátengdir að þar verður varla skilið á milli. Þar gengur það einfaldlega þann gang, hvort sem það er nú æskilegt eða ekki, að það hefur forgang að hjól atvinnulífsins snúist. Þær þarfir sem atvinnulífið kallar á hafa forgang og þess vegna vilja það gjarnan verða hlutir eins og þeir að tryggja það að viðkomandi fiskiskip haldist í heimabyggð eða að höfnina næstum að segja reki ekki á haf út, eða hvaða orðalag maður á nú að nota um það ástand sem þar er víða að finna. Þessi verkefni lenda í forgangi og ýmis önnur, sem eru kannski dæmigerð fyrir efni þessa frv., ýmis verkefni á sviði þjónustu og skólamála og fræðslu, þau mæta þá afgangi.

Ég tel t.d. VII. kafla, sem er um byggingu og rekstur byggðasafna, vera mjög dæmigerðan fyrir það mál. Það er ekki mál sem ég held að sveitarstjórnarmenn, sem eiga yfir höfði sér kosningar, setji alveg sérstaklega á oddinn ef tómur er hjá þeim kassinn. Það er nú einfaldlega þannig og þetta þekkja menn og þetta vita menn. Þetta er því gjarnan spurning um það hvaða stefnu menn vilja hafa, til hvaða verkefna menn vilja reyna að hvetja sveitarfélögin.

Hitt finnst mér miklu nær lagi að hlutur eins og vatnsveitur færist alfarið yfir á sveitarfélögin, enda kannski ekki mikil rök fyrir því að taka þann þátt út úr frekar en ýmislegt annað í beinum verklegum framkvæmdum sem sveitarfélögin annast af þessu tagi. Ég er því vissulega ekki að segja að hér sé ekki líka að finna hluti sem eru næsta sjálfsagðir, enda gef ég mér þá að að því verði staðið á jafnréttisgrundvelli þannig að sveitarfélögin standi jafnrétt eftir.

Síðan er það örlítið um X. kafla, sem fjallar um þær ráðstafanir sem gera á í tengslum við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að tryggja nú að þetta gangi skaplega fyrir sig, a.m.k. skár en ella. Þar er í fyrsta lagi rætt um að stofna sérdeild sjóðsins til að greiða til jöfnunar milli sveitarfélaga vegna aukins kostnaðar þeirra í kjölfar breytinganna frá ársbyrjun 1988. Þarna er um opið ákvæði að ræða, það segir ekkert hversu lengi eða hvort ætlast sé til að þessi sérdeild a-liðar starfi endalaust við sjóðinn. Ég geri ráð fyrir því að sú sé meiningin og bið þá hæstv. ráðherra sem voru hér áðan, a.m.k. á meðan þeir mæltu fyrir málinu, að svara mér eða leiðrétta mig ef svo er ekki. Síðan er í b-lið fjallað um uppgjörsdeild sem skal starfa á árunum 1988 til og með 1991 og greiða sveitarfélögum og félagasamtökum framlög vegna áfallinna skuldbindinga ríkissjóðs er rætur eiga að rekja til framkvæmda til ársloka 1987 við félagsheimili, íþróttamannvirki og dagheimili.

Hér er sem sagt eingöngu gert ráð fyrir því að um fjögurra ára skeið verði greitt upp í þessar skuldir úr þessari deild, þeim væntanlega lokið. Ég geri ráð fyrir, þó að það komi ekki fram beint í orðalagi greinarinnar, að það sé meiningin að gera þetta dæmi upp, enda heitir þetta uppgjörsdeild. En þá komum við aftur að því sem ég vék að í upphafi: Hvers eiga þá þau sveitarfélög að gjalda, ef við stillum dæminu þannig upp, sem ætluðu sér að byrja á framkvæmd 1. jan. 1988?

Við skulum segja að tvö sveitarfélög hlið við hlið hafi bæði ætlað að byggja íþróttahús. Þau hafa um nokkurra ára skeið fengið 5000 kr. frá ríkinu til þess að hefja framkvæmdir en svo átti stóri draumurinn að rætast núna rétt um þetta leyti. Annað sveitarfélagið var svo heppið að fá ekki 5000 heldur 500 þús. kr. árið 1987 og hóf framkvæmdir núna í desember. Það var tekin skóflustunga með pompi og pragt og mokað upp úr holu. Þar með telst framkvæmdin sjálfsagt hafin og að einhverju leyti a.m.k. kemst þá það sveitarfélag inn undir þessi ákvæði sem hér eru sett. A.m.k. er það ljóst að þær framkvæmdir sem komnar voru fyrir áramót 1987 falla þarna undir. En sveitarfélag sem byrjar 2. jan. eða 1. jan. 1988 fær ekki neitt. Ég sé ekki á þessu frv. og grg. þess að það sé í raun og veru meiningin að taka tillit til þessa, eins og ég vék að í upphafi, nema þá ef vera skyldi með einhvers konar jöfnun úr sérdeild sjóðsins sem þó er ekkert skilgreind að þessu leyti. Ekki á nokkurn hátt.

Þetta finnst mér vera hinn stóri lausi endi í öllu þessu máli, herra forseti, og ég treysti því að hæstv. ráðherrar séu nú að hlusta, með hvaða hætti ætla menn að tryggja að þessi verkefnatilflutningur, við þann tíma sem hann ber að, komi í framtíðinni ekki til með að valda mismunun milli sveitarfélaga vegna þess hversu misjafnlega þau eru á vegi stödd? Þetta finnst mér vera stóra málið í þessum efnum. Ég hef litlar áhyggjur af því að góðar ríkisstjórnir, sem við fáum vonandi í framtíðinni, verði ekki sanngjarnar og lagfæri það ef eitthvert misvægi hefur komist á verkefni og tekjur ríkis og sveitarfélaga við þessa breytingu, að þá muni menn ekki af sanngirni reyna að lagfæra það á næstu árum. En ég hef mjög stórar áhyggjur af þessu ef menn ekki ætla sér strax í upphafi að tryggja það að mismunandi uppbyggingarstig hinna ýmsu þátta þjónustunnar í upphafi valdi ekki mismunun að þessu leyti.

Herra forseti. Ég hefði talið að það væri nauðsynlegt, ekki bara að stofna sérstaka sjóði við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem út af fyrir sig er góðra gjalda vert, heldur gera rækilega úttekt á þessum málum og í beinu framhaldi af því að ráðstafa sérstaklega annaðhvort fé eða ganga frá heimildum til þess að greiða í framtíðinni það sem til þarf til að tryggja jafna aðstöðu sveitarfélaganna að þessu leyti.

Ég vil spyrja þá hæstv. ráðherra sem hér eru til svara hvort það sé fullt samræmi í þessu frv. annars vegar og þeim lagabreytingum sem það felur í sér og þeim verkefnum sem munu færast yfir á sveitarfélögin ef fjárlagafrv. verður samþykkt óbreytt. Eru til dæmi um verkefni sem mundu, ef fjárlagafrv. verður samþykkt, færast yfir á sveitarfélögin þó að hér séu ekki lagabreytingar lagðar til í þeim efnum eða að e.t.v. þurfi ekki lagabreytingar?

Ég ætla að nefna hér lið sem ég hef stundum nefnt í mínum þingflokki við nokkra kátínu og það er eyðing meindýra. Mér hefur einhvern veginn skilist svo að fjárlagafrv. gerði frekar en hitt ráð fyrir því að það verkefni lendi á næsta ári yfir á sveitarfélögin alfarið, þ.e. að ríkið hætti að taka þátt í að endurgreiða útlagðan kostnað á því sviði. Ég bið þá hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef ég fer rangt með en ég finn ekkert um meindýraeyðingu í þessu frv., enda þarf það e.t.v. ekki til. Nú hafa menn sennilega litlar áhyggjur af meindýraeyðingu, a.m.k. hv. þm. Reykv. sem kannast helst við hana af þeim dæmum að það eru skotnir nokkrir mávar hér við Tjörnina á hverju ári og kannski eitrað einstöku sinnum fyrir rottur (Gripið fram í: Og minkur í Elliðaáunum.) og einstöku sinnum mink sem er að angra laxana í Elliðaánum. En það er nú engu að síður þannig í þessari sýslu t.d. sem fóstraði ræðumann að þar er þetta verkefni meiri háttar mál, eins og nú er sagt á íslensku, fyrir sveitarfélögin, bindur kannski býsna stóran hluta af útsvarstekjum þeirra. Hér á verðbólgutímanum gat skapast meiri háttar fjármagnstap af þeim sökum. Ég er ekkert viss um að það sé mjög réttlátt ef það er meiningin að skella þessu verkefni yfir á sveitarfélögin og hætta að endurgreiða þeim útlagðan kostnað því á hvaða sveitarfélögum skyldi þetta nú bitna harðast? Jú, fámennustu og gjarnan strjálbýlustu og landmestu sveitarfélögunum. Þeim er væntanlega eins og að ýmsu öðru leyti lögbundin sú skylda að halda uppi þessum tilteknu störfum.

Nú erum við að tala um þá staðreynd sem alls staðar er að verki í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, í samskiptum Alþingis og sveitarfélaga, að annar aðilinn setur lögin en hinn á að framkvæma þau. Alþingi setur lög og leggur kvaðir á herðar aðila eins og sveitarfélögum um að framfylgja þeim. Eins og menn þekkja er í sveitarstjórnarlögum, væntanlega í 6. gr., talinn upp langur, langur listi yfir öll þau verkefni sem sveitarfélögunum ber að framkvæma, ber að sjá um, annast lögunum samkvæmt. Þetta eru þær aðstæður sem þessir aðilar búa við í öllum sínum samskiptum. Þess vegna er það feiknalega mikilvægt, virðulegur forseti, að frá öllum þessum samskiptum sé þannig gengið að það ríki sem mest traust og sá aðilinn sem er á móttökuendanum, ef svo má að orði komast, í þessu dæmi geti treyst því að hann njóti sannmælis og sanngirni.

Ég verð að segja að þó að ég telji að sumar þessara breytinga séu góðra gjalda verðar, aðrar ekki, þá hef ég þá tilfinningu fyrst og fremst að of illa sé um þann þátt búið að fjárhagsleg staða sveitarfélaganna verði jafngóð og skyldi eftir þessar breytingar.

Ég er alveg viss um það, og það er held ég öll þjóðin og væntanlega allur þingheimur orðinn sannfærður um, að hæstv. ríkisstjórn er að stórauka skatta í landinu. Hún hefur frá valdatöku sinni aukið skattheimtu í landinu um 8500 millj. kr. Á sama tíma er hún að færa verkefni yfir til sveitarfélaganna. Hún er að létta af sér verkefnum yfir á sveitarfélögin en tekur gífurlega aukna skattheimtu í ríkiskassann.

Hvað eiga sveitarfélögin að fá í staðinn? Þau eiga að fá minni þjófnað af hálfu ríkisins af lögbundnum tekjum sínum. Lögbundnar tekjur sveitarfélaganna úr Jöfnunarsjóði skulu skerðast minna en áður var gert. Þetta er nú allt örlætið af hálfu löggjafans. Þetta eru kaupin sem boðið er upp á. Vandinn er bara sá að kaupandinn eða þiggjandinn, sveitarfélögin, eru í þessu dæmi ekki í stöðu til þess að gera mikið í málinu því að það er löggjafinn sem ætlar að framkvæma þetta. Hvað sem um samþykktir og stuðning einhverra landshlutasamtaka má segja, og ég ætla ekkert að draga það í efa að þau séu upp til hópa ánægð með þetta, þá verð ég að segja það sem mína persónulegu skoðun og mína pólitísku sannfæringu að hér er ekki mjög sanngjarnt að hlutunum farið, að það er ekki mjög gott hvernig sveitarfélögin eiga að fara út úr þessu dæmi. Ég tel þetta ekki réttlátt og ekki skynsamlegt. Hefðu sveitarfélögin ekki búið við jafnherfilega vonda ríkisstjórn og þau gerðu sl. fjögur og hálft ár og hefðu þau átt sinn Jöfnunarsjóð óskertan í dag, þá hefði engri ríkisstjórn dottið í hug að gera þetta svona. Engri. Þá hefði mönnum ekki dottið í hug annað en að færa sveitarfélögunum tekjustofna til þess að standa undir þessum verkefnum. En vegna þess að það var búið að stela þessu af þeim í fjögur og hálft ár þá finnst mönnum allt í lagi að gera þetta svona.

Þetta er náttúrlega alveg eins og þegar hæstv. fjmrh. bauð mönnum upp á það að hann skyldi hætta við að leggja á þá matarskattinn ef þeir yrðu þægir og semdu um lágt kaup. Mér finnst þessi skiptimyntaraðferð, þessi hýðingarformúla sem ég hef stundum kallað svo og felst í því að menn koma til fólks og segja: Ég ætla að hýða ykkur öll 50 vandarhögg á næsta ári, en ef þið verðið góð, ef þið sættið ykkur við lítið þá er ég að hugsa um að hætta við það eða kannski fækka þeim ofan í 20. Mér finnst þetta vera hliðstæð samskipti og ekki til þess fallin að auka tiltrú manna á að þetta gangi farsællega fyrir sig í framtíðinni.

Ég hef því allverulegar efasemdir, herra forseti, um það að þessar breytingar beri að með þeim hætti að það verði til farsældar. Ég tel að sumir þessir málaflokkar væru a.m.k. um sinn betur komnir hjá ríkinu af þeim ástæðum sem ég hef gert nokkuð sæmilega grein fyrir.