10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Herra forseti. Það er með þetta frv. eins og mörg önnur að það ber að með nokkuð skjótum hætti og því er kannski ekki hægt að fjölyrða um það í smáatriðum því þetta er stærra mál en svo að maður kynni sér það nægilega á þeim tíma sem til þess hefur verið gefinn. Það vekur nokkra furðu að slíkar ákvarðanir skuli fyrst birtast í fjárlagafrv. og þau frv. sem renna svo stoðum undir það birtist nokkrum mánuðum seinna. Maður hlýtur að spyrja hvort þær ákvarðanir sem birtust í fjárlagafrv. hafi ekki verið ígrundaðri en svo að frumvörpin væru ekki til og því þau var þá ekki lagt fram.

Í sjálfu sér er maður ekki á móti þeim markmiðum sem koma fram á bls. 7, um aukna ábyrgð og vald heim í héruð o.s.frv. Það samrýmist auðvitað ákaflega vel valddreifingarsjónarmiðum Kvennalistans. En á móti kemur það að valddreifing sem kemur ofan frá er kannski ekki mjög mikils virði. Það hvarflar að manni að nú hefði verið gott að hafa hér samþykkt frv., sem lagt var fram á Alþingi í fyrra af kvennalistakonum, um möguleika íbúa í sveitarfélögum til að greiða atkvæði um mál ef nógu margir íbúar bæðu um það. Ég efast ekki um að íbúar hinna ýmsu sveitarfélaga kunna að hafa á því skoðanir hvernig þessari verkaskiptingu væri best háttað. Það er ekki endilega víst að stjórnmálamenn eða embættismenn sjái það ljósast hvernig því væri best hagað.

Sveitarstjórnarmenn sem slíkir eru líka toppur á ísjaka. Æskilegast væri að svona mál væru kynnt þannig að fólk gæti látið í ljós hug sinn í einhvers konar kosningum í kjölfar umfjöllunar þessara mála. Þetta ber að allt með dálítið einkennilegum hætti.

Síðan á að varpa bæði framkvæmdum og ábyrgð yfir á sveitarfélög án þess að tryggja þeim um leið að þau geti tekið fjárhagslegar ákvarðanir eða ákvarðað sína tekjustofna. Það hvarflar að manni að bera þetta saman við hlut kvenna. Þær eru kallaðar til ábyrgðar og sagt að standa sig, en um leið háttar þannig málum að þær hafa ekki fjárhagslegt sjálfstæði og fer oft lítið fyrir ábyrgð og framkvæmdum þegar fjárhagslegt sjálfstæði er ekki fyrir hendi.

Hvað snertir þau verkefni sem á að flytja er athyglisvert að eina verkefnið sem hafa borist öflug mótmæli gegn virðist nú vera í einhverri endurskoðun, þ.e. tónlistarskólarnir. Það segir manni nokkuð um að ef þrýstingur hópa getur nægt til að breyta þarna ákvörðunum sé kannski ekki að málum staðið eins og best hefði mátt vera. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það hafa verið mjög samhljóma ályktanir frá öllum þeim sem að tónlistarmálum starfa, tónlistarkennurum, tónlistarskólastjórum o.s.frv. Þeir hafa allir sent inn öflug mótmæli gegn þessu og tala þar margir af reynslu því að þeir muna margir þá tíma þegar þessi mál voru á höndum sveitarfélaga og þekkja þá baráttu sem þeir urðu þá að heyja til að koma sínum málum fram. Það er einu sinni svo að þau mál sem ekki er hægt að sýna fram á efnahagslegan ábata af eða mælanlegan gróða eiga erfiðara uppdráttar þegar kemur að útdeilingu fjármagns og það gildir ekki um tónlistina eina. Því er kannski ekki að undra að það fólk sem að þeim málum starfar sé hvað mest uggandi um sinn hag. Ég held að það blandist engum hugur um að bili vatnsleiðsla og hús verði vatnslaus verður gengið í að laga þá vatnsleiðslu, en það er ekki víst að sami þrýstingur skapist þó eitthvert barn geti ekki farið í tónlistarnám.

Það virðist öllum bera saman um að þetta muni leiða til stórkostlegrar hækkunar skólagjalda í tónlistarskólum og þykir mörgum nóg um nú þegar, því að það geta varla kallast í anda jafnréttis til náms hver skólagjöld eru sem þarf að inna af hendi nú þegar í tónlistarskólum. Það skýtur nokkuð skökku við að vera með tilfærslum og ráðstöfunum að stefna í að skólagjöld stórhækki, en um leið er boðað að fram muni koma frv. um tónlistarháskóla. Því hlýtur maður að spyrja hvort það geti virkilega verið stefnan að háskóli, hvert sem hlutverk hans er, og hvort fólk kemst inn í þann skóla eigi að vera háð efnahagslegri afkomu fólks. Nú er það svo að það munu engir eiga möguleika á að komast inn í tónlistarháskóla sem ekki hafa stundað tónlistarnám frá barnsaldri þannig að efnahagur foreldra kann þarna að skipta miklu þegar kemur að því að velja sér nám.

Það vekur athygli líka þegar maður les frv. og því er lýst hverjir hafi verið í hinum ýmsu nefndum sem hafa fjallað um þessar breytingar og tillögur að maður kemst ekki hjá því að taka eftir að þar hefur ekki átt sæti ein einasta kona. Það á sér eðlilegar skýringar. Þær eru mjög fáar í sveitarstjórnum, enn færri í nefndum og ráðum og stjórnum ýmiss konar þannig að það er svo sem ekkert einkennilegt við að þær hafi ekki ratað upp í þær stöður að teljast þess maklegar að eiga þátt í þessari vinnu. En því hlýtur það sömuleiðis að hvarfla að manni í framhaldi af því að þessi verkefnaskipting hefði kannski verið með nokkrum öðrum hætti hefði svo sem eins og ein kona komið þar nærri því þarna eru mál sem varða konur afskaplega miklu, eins og dagvistarheimili, eins og heimaþjónustan, heimahjúkrun og heimilishjálpin. Ég hugsa að flestar konur hefðu borið nokkurn ugg í brjósti yfir því að færa þessi verkefni yfir á sveitarfélögin. Það kann vel að vera að menn geti haldið því fram með nokkrum rétti að þetta sé ekki þung byrði að bera. En það skyldi þó ekki stafa af slælegum framgangi í þessum málum? Það eru ekki mikil útgjöld í málaflokkum sem engir peningar eru lagðir í. Enn léttara hlýtur það að vera fyrir ríkið að tala léttilega um að þetta sé ekki þungur baggi þar sem ríkið hefur ekki einu sinni staðið við sínar skuldbindingar að nokkru marki í þessum málaflokki. Það er því mjög auðvelt að ímynda sér að þeim finnist þetta svo sem lítil þúfa sem þarna er verið að velta.

Í sambandi við Jöfnunarsjóð er ekkert sem bendir til þess í frv. að þar sé um neina tryggingu að ræða til handa sveitarfélögum. Maður hlýtur að vona að það verði þannig tekið á málum Jöfnunarsjóðs að það verði tryggðar tekjur sveitarfélaga til að standa straum af þessum auknu útgjöldum, en sum málin sem þarna eru þola þó sjálfsagt ekki að falla undir sveitarfélögin án þess að þar komi til einhver eyrnamerking fjár þannig að tryggt sé að fari í þá málaflokka sem eru fluttir. En meðan að sveitarfélögin ekki, eins og ég sagði áðan, ráða meira sjálf um sínar tekjuöflunarleiðir hlýtur það að vera þeim nokkurt áhyggjuefni að eiga að taka við verkefnum og auknum útgjöldum með þessu móti.