10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur svarað þeim fyrirspurnum sem hér hafa verið bornar fram og ég sé ekki ástæðu til að bæta þar neinu við. Ég sá þó ástæðu til að koma í ræðustólinn vegna orða hv. þm. og fyrrv. félmrh. sem talaði áðan, 1. þm. Vesturl.

Hv. þm. bar fram nokkuð þungar ásakanir á félmrn. sem ég hlýt að svara og get varla látið kyrrt liggja að ráðuneytið liggi undir að ósekju þó ég láti mig vissulega minna máli skipta ásakanir hv. þm. í minn garð og á störf mín sem ráðherra.

Hv. þm. talaði um að kynningu á þessum tillögum væri mjög ábótavant og ef ég skildi hann rétt hefði félmrn. algerlega brugðist í því efni. Skýringuna taldi hann vera að ég sem félmrh., óreynd í sveitarstjórnarmálum, hefði verið svo upptekin í því að setja mig inn í sveitarstjórnarmálin að ég hefði gleymt að koma á framfæri kynningu á þessum tillögum.

Nú er ekki langt síðan hv. þm. var félmrh. þannig að hann hlýtur að minnast þess að í maí sl. á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga, áður en síðasta ríkisstjórn fór frá og þegar hv. þm. var félmrh., var ákveðið hvernig að þessari kynningu yrði staðið og þeirri ákvörðun hefur verið framfylgt. Á þeim samráðsfundi var samþykkt að Samband ísl. sveitarfélaga mundi hafa með höndum kynningu á þessum tillögum. Þetta hefur verið gert og hefur það m.a. verið gert í gegnum landshlutasamtökin. Einnig var það á miðju sumri að félmrn. og Samband ísl. sveitarfélaga sáu um það í sameiningu að senda öllum sveitarstjórnarmönnum þær tillögur sem lágu fyrir og voru það einmitt Samband ísl. sveitarfélaga og félmrn. sem greiddu kostnað af þessu. Ég tel því að þetta séu óréttmætar ásakanir í garð félmrn. og taldi því nauðsynlegt, herra forseti, að koma því á framfæri hvernig að þessari kynningu hefur verið staðið og að það hefur verið framfylgt þeirri ályktun sem var gerð á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga í þessu efni.