10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess vegna orða síðasta ræðumanns að fram komi að sú ákvörðun sem var tekin um að þessi verkefnatilfærsla ætti sér stað um þessi áramót var tekin af ríkisstjórn sem við eigum bæði aðild að, bæði ég og hv. þm. Það var sameiginleg ákvörðun Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. að þessi tilfærsla ætti sér stað um þessi áramót þó að ég geti vissulega tekið undir það með síðasta ræðumanni að æskilegt hefði verið að meiri tími hefði gefist í þessa verkefnatilfærslu. En þetta var sameiginleg niðurstaða þeirra stjórnarflokka sem styðja þessa ríkisstjórn. Ég vænti þess að hv. þm. styðji einnig að þessi verkefnatilfærsla eigi sér stað núna, enda er það ákvörðun þessara þriggja flokka.