12.12.1987
Efri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

Vinnubrögð í efri deild

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Úr því að menn eru að gaufa við fundarhald á laugardagseftirmiðdegi og ef það er óskað eftir því af flm. eins frv. að það verði tekið fyrir hlýtur það að hafa sinn gang ef hæstv. forseti er tilbúinn að halda fundi áfram. En ég held að það sé alveg nauðsynlegt og ég vil beina því til hæstv. forseta að fundahöldin á komandi dögum verði skipulögð nákvæmlega þannig að menn hafi hugmyndir um það sem á að taka fyrir og brýnt að við vitum öll hvað ætlunin er að taka inn af málum stjórnarinnar og að einstakir þm., m.a. stjórnarandstöðunnar, geti komið að sínum málflutningi en hann verði ekki út undan eins og gerðist í málinu um háskóla á Akureyri sem hv. 7. þm. Reykn. hafði hugsað sér að tala um.

Það gengur ekki að vera með þennan losarabrag á þingstörfum. Þetta eru mikil mál og viðkvæm. Það er margt fólk sem þarf að að koma, 63 alþm. og auk þess starfslið þingsins og fleiri. Þess vegna þarf að vanda sig við skipulagninguna og sinna henni af alúð og ekki kasta til hennar höndunum með neinu kæruleysi.

En herra forseti. Þar sem ósk liggur fyrir um það frá flm. eins frv. sem hér liggur fyrir að hans mál verði tekið hér til umræðu vil ég fyrir mitt leyti taka fram að ég tel að hans ósk sé í alla staði mjög eðlileg, úr því að verið er að hafa fundi á laugardegi á annað borð.