12.12.1987
Efri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (1458)

157. mál, húsnæðislánastofnanir

Guðmundur Ágústsson:

Ég vil bæta hérna við nokkrum orðum. Það er ein staðreynd við núverandi húsnæðiskerfi. Það er að kerfið er hrunið. Þá er spurt hvað eigi að koma í staðinn. Það frv. sem við leggjum fram er okkar lausn í því máli. Önnur lausn hefur ekki verið boðuð. Það sem er verið að gera núna er það að stoppa upp í slitinn sokk með því frv. sem hæstv. félmrh. er að leggja fram. Hérna er heilsteypt tillaga í tveimur hlutum sem við teljum að geti komið að gagni og sé það eina rétta í þeirri stöðu sem er í dag.

Hv. 14. þm. Reykv. ræddi um almenna bankakerfið. Að bæta ofan á það teljum við ekki vera lógískt. Bankakerfið þolir ekki meira. Til viðbótar kemur að í bankakerfinu er bindiskylda og aðrar kvaðir sem leggja þungar byrðar á það kerfi. Það sem við leggjum hins vegar til er að það verði húsbankar og þeir gefi út húsnæðisbréf sem verði til sölu á almennum markaði.

Hv. 9. þm. Reykn. taldi að þarna yrði brask á bréfum. Ég mótmæli því þar sem þetta á ekki neina líkingu við þann fjármagnsmarkað sem nú er. Þessi bréf væru eins og ríkisskuldabréfin. Við teljum að ef hægt verði að koma upp mjög öflugum húsnæðisbönkum hafi þær stofnanir traust og bréf sem þær gefa út hafi sama gildi og ríkisskuldabréf í dag.

Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þeirra andmæla sem fram hafa komið við frv. okkar bæði frá 14. þm. Reykv. og 9. þm. Reykn.

Annars kom ljóst fram í þeirra máli að þeir væru innst inni sammála því að breyta kerfinu og í einhverri líkingu við það sem við erum hér að boða og fagna ég því og vonast eftir því, þegar mál þetta verður tekið í nefnd, að þeir komi þá með brtt. sem þeir telja æskilegar.