12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Það eru nú sorglega þunnskipaðir bekkir hér þegar rædd eru húsnæðismál á hinu háa Alþingi. Það væri ekki verra til að mynda að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur og einnig sakna ég þess að formaður félmn. sé okkur nær þegar við ræðum þessi mál. Það er að vísu svo að það frv. sem hér er til umræðu ... (Forseti: Það munu verða gerðar ráðstafanir til að kalla á þá í þingsal, ráðherra og formann félmn. Þeir munu vera í húsinu.) Já, það er gott, virðulegur forseti. Það er eins og ég ætlaði að fara að segja (Forseti: Ráðherrann er kominn.) að frv. var í upphafinu ekki mjög burðug aðgerð til að leysa vanda húsnæðiskerfisins og er það eða á að verða það enn þá síður nú ef marka má þær brtt. sem meiri hl. félmn. leggur til. Ég held að það sé ljóst að þau takmörkunarákvæði, sem frv. upphaflega fól í sér, skerðast, ganga til baka með þeim breytingum sem meiri hl. félmn. leggur til og 1. gr. frv. mun samkvæmt brtt. í raun skipta miklu minna máli en hún hefði getað gert ef b-liður 1. gr. eins og hann er í frv. hefði náð fram að ganga og orðið að lögum. Takmörkunarmöguleikarnir samkvæmt 1. gr. hefðu komið til með að felast fyrst og fremst í ákvæði b-liðar, þ.e. að takmarka lánsmöguleika þeirra sem áttu fyrir mikla íbúðareign skuldlitla eða skuldlausa, án frekari skilgreininga á því. Nú hefur þessum lið í raun og veru verið kippt burtu samkvæmt brtt. meiri hl. og eftir standa eingöngu ákvæði a- og c-liðar frv., þ.e. heimildir til að takmarka lán til þeirra sem eiga fleiri en eina íbúð og til þeirra sem eiga fullnægjandi íbúðarhúsnæði skuldlaust eða skuldlítið og stærra en 180 m2 brúttó að frádregnum bílskúr. Það er góðra gjalda vert og ekkert nema gott um það að segja að menn vilji reyna að draga þarna ákveðin mörk. Efnislega er ég því sammála að það sé rétt að láta þá mæta afgangi sem eiga fyrir fleiri en eina íbúð og eða eiga skuldlaust eða skuldlítið húsnæði í ágætu ástandi sem er stærra en 180 m2 að frádregnum bílskúr. En ég hygg að það sé alveg ljóst, ef samsetning þeirra sem sótt hafa um lán til Húsnæðisstofnunar á undanförnum árum er skoðuð, að þessi tvö ákvæði skipta næsta litlu máli í öllum þeim fjölda sem þar sækir um. Það hefur verið nefnt að það gætu verið um 40 umsækjendur af fleiri þúsund sem féllu undir ákvæði a-liðarins og væntanlega eru þeir ekki mjög margir heldur sem verða útilokaðir með ákvæðum um að eiga íbúðarhúsnæði stærra en 180 m2 skuldlaust eða skuldlítið. En látum það vera.

Það hefði að mínu mati, ef menn hefðu viljað virkilega nota ákvæði um stærð íbúðarhúsnæðis og eða efnahagsstöðu eða eign manna, verið mjög nauðsynlegt að setja um það skýrar reglur með hvaða hætti það yrði leyst í sundur hverjir væru þarna í meiri þörf en aðrir og eins og margoft hefur verið bent á er íbúðareignin ein og skuldastaða á íbúðareigninni einnig mjög takmarkaður mælikvarði á það. Það eru til einfaldar leiðir til að breyta nettóeign í íbúðum og færa á þær skuldir sem fram hafa komið og ef menn vilja reyna að gera þetta með markvissum hætti held ég að sé nauðsynlegt að taka tillit til efnahagsstöðu manna í víðtækara samhengi eins og margoft hefur verið bent á.

Hvað varðar ákvæði 3. gr. eru þau efnislega óbreytt að mínu mati eða að mestu leyti óbreytt í brtt. meiri hl. eins og þau eru í frv. Það segir í 3. gr. frv., með leyfi forseta, að heimilt sé að láta útlán ganga fyrir til þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn svo og vegna viðbygginga og endurbóta og orkusparnaðar og þegar um er að ræða þá sem eiga íbúð fyrir er heimilt að láta fjölskyldustærð og skuldlausan eignarhluta í fyrri íbúð hafa áhrif á biðtíma eftir lánum til þeirra innbyrðis þannig að þeir sem verr eru settir að þessu leyti gangi fyrir hinum. Þetta skildu menn svo að þar með væri átt við að heimilt væri að færa einstaklinga úr víkjandi hópi í forgangshópinn og ég lít svo á að brtt. meiri hl. feli hið sama í sér nema að þar er orðalagið orðið svofellt, með leyfi forseta:

„Á sama hátt er húsnæðismálastjórn heimilt að láta úthlutun lána til þeirra ganga fyrir sem eiga fyrir ófullnægjandi íbúð og þurfa að skipta um húsnæði af fjölskylduástæðum.“

Það er að vísu ekki sérstaklega nefnt að skuldastaða eigna komi þarna til, en ákvæðið er opið og segir að nánari reglur skuli setja um þetta í reglugerð.

Það var óskað eftir því í hv. félmn. að fá svör frá ráðuneyti um hvernig menn hygðust fara með þessi heimildarákvæði ef að lögum yrðu, hvaða reglugerðir mundu fylgja til þess að menn gætu betur glöggvað sig á um hversu mikla takmörkun gæti orðið að ræða á grundvelli þessara ákvæða, og nefndinni barst bréf frá ráðuneytinu fyrir alllöngu sem breytti ekki miklu um þekkingu nefndarinnar á því hvernig með þetta yrði farið. Því var niðurstaða sú að félmn. skrifaði aftur bréf 8. des. sl. og ítrekaði þá óskir um ákvæði væntanlegra reglugerða ef þær brtt. sem þá voru til umfjöllunar í félmn. næðu fram að ganga. En málinu lauk engu að síður þannig að það var afgreitt frá nefndinni án þess að nokkur svör hefðu borist frá ráðuneytinu um þetta efni.

Nú er það ekki vegna þess að a.m.k. ég tortryggi eða dragi í efa góðan vilja ráðuneytisins til að fara af sanngirni með þessi heimildarákvæði og að því leyti sé mér að vanbúnaði að afgreiða þessar heimildir, en hitt er öllum ljóst að það skiptir máli gagnvart því um hversu mikla forgangsröðun hópa verður hér að ræða hvernig menn kjósa til að mynda að skilgreina hugtök eins og „ófullnægjandi íbúð“ og „fjölskylduástæður“ í þessu sambandi.

Ég tel að 1. gr. frv., eins og ég hef þegar rakið, virðulegur forseti, skipti í raun og veru hverfandi litlu máli þó að hún sé eðlileg að því leyti til að þar er um visst réttlætismál að ræða, að leitast við að takmarka fremur lánsmöguleika þeirra sem best eru staddir, en það er 3. gr. sem gæti haft umtalsverð áhrif, þ.e. gagnvart því hvernig þeir raðast upp sem bíða lána, bíða eftir svörum eða eiga að fá lán á næstu árum. Í því gæti aðalefni þessara breytinga falist að raða upp innbyrðis á biðlistunum sem eru langir og verða það væntanlega á næstu árum ef svo heldur fram sem horfir. Þess vegna hefði verið æskilegt og kannski kemur það fram í máli hæstv. félmrh., sem ég geri ráð fyrir að taki þátt í þessum umræðum á eftir, hvernig hið háa ráðuneyti hyggst nota sér heimildarákvæði 3. gr. til að raða upp eða endurraða þeim hópum sem bíða eftir lánsloforðum og lánum frá Húsnæðisstofnun.

Frsm. 1. minni hl. félmn. hefur þegar gert grein fyrir brtt. sem ég er meðflm. að með hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og varðar 2. gr. frv. og þarf litlu við hennar umfjöllun að bæta. Ég lýsti því þegar við 1. umr. að mér litist ekki vel á þær hugmyndir sem menn hefðu um breytingar á skyldum Húsnæðisstofnunar til að svara umsækjendum og minnti þar á reynsluna af hinum svonefndu „OK-bréfum“ og þeim fyrirvörum sem menn hafa haft á um að skuldbinda stofnunina með slíkum hætti langt fram í tímann þó án þess að gefa endanleg svör.

Nú hefur meiri hl. félmn. komið sér saman um ákveðið orðalag í þessu efni og ég sé ekki að það breyti miklu um frá frv. Það eina sem bæst hefur við í raun er að í bráðabirgðasvari sem yrði sent út skv. brtt. skal koma fram að lánið sé háð þeim skilyrðum að lífeyrissjóðir þeirra sem sæki um hafi fullnægt samningum við Húsnæðisstofnun um ráðstöfunarfé til Byggingarsjóðs ríkisins og síðan berist endanleg svör, eins og áður var gert ráð fyrir í frv., eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu.

Ég tel, eins og fram kemur í brtt. okkar á þskj. 237, að það sé í raun með öllu ástæðulaust að senda út eitthvert sérstakt bráðabirgðasvar og er alveg ljóst að stofnunin ræður ekki við það. Það gengur ekki upp miðað við núverandi aðstæður að senda út skuldbindandi svör til allra sem sækja um strax þremur mánuðum eftir að umsókn berst. Bæði er fjárhagsstaða stofnunarinnar gagnvart framtíðinni ekki svo ljós að það sé hægt, þegar biðtíminn er kominn hátt á annað ár eða orðinn fast að tveimur árum, jafnvel kominn á þriðja ár, og þá eru líka uppi allar þær hættur sem bent hefur verið á um að þessi bindandi svör svo langt fram í tímann verði mönnum tilefni til að útvega sér fé með öðrum og óhagstæðari hætti og mönnum sé þannig e.t.v. mjög lítill greiði gerður að fá þessi plögg í hendur. Það er mín tilfinning að æskilegast væri að stofnunin sendi ekkert frá sér nema þá það sem lýtur beint að tæknilegum atriðum við móttöku umsókna og það að öll gögn hafi borist í hendur fyrr en að endanleg svör berast. Ég hefði einnig talið eðlilegt að menn settu hreinlega inn í lögin í beinu samhengi við þessa grein ákvæði um að það væri með öllu óheimilt að framselja slík svör eða að lánastofnunum væri óheimilt að veita mönnum lán með tryggingu í eða á grundvelli þeirra lánsloforða sem þeir hefðu fengið hjá Húsnæðisstofnun.

Ég bar fram þessi sjónarmið í hv. félmn., en þau hlutu þar ekki stuðning, m.a. af þeim ástæðum, skildist mér, að menn töldu að það væri óheimilt og þyrfti ekki lagabreytingar til að framselja lánsloforð. Út af fyrir sig dreg ég það ekki í efa þar sem þau eru bindandi gagnvart viðkomandi umsækjendum, en ég hefði talið það skynsamlegt til þess að það lægi ljóst fyrir að lánastofnunum öðrum væri beinlínis óheimilt að lána mönnum á grundvelli svara frá Húsnæðisstofnun. En ég tel þó að ef sú brtt., sem við hv. þm. Kristín Einarsdóttir flytjum, næði fram að ganga væri í raun og veru minni ástæða en ella til að setja slík lagaákvæði, sem sagt að það fyrirkomulag yrði upp tekið að þeir sem ekki fengju lán, þeir sem yrði synjað fengju svör, en síðan fengju menn endanlegt svar um afgreiðslutíma lánsins og lánsfjárupphæðina eigi síðar en ári áður en fyrsti hluti lánsins kæmi til útborgunar. Að öðru leyti yrði mönnum ekki svarað. Það er líka, eins og margoft hefur verið bent á, öllum fyrir bestu að útlánareglurnar séu sem einfaldastar þannig að hver og einn geti í raun svarað fyrir sig um hvort hann á lánsmöguleika hjá stofnuninni eða ekki.

Virðulegur forseti. Ég tel að þó að frv. sé í raun og veru óskaplega lítið spor í þá átt að bæta úr því ástandi sem er í húsnæðiskerfinu sé það góðra gjalda vert og ég get stutt það með þeim fyrirvörum sem ég hef gert grein fyrir nema ákvæði 2. gr. Ég treysti mér ekki til að standa að því, ef á að breyta henni á ' annað borð, að gera það með þessum hætti.

Það hefði síðan verið nauðsynlegt og er í raun óhjákvæmilegt að ræða nokkuð stöðu húsnæðismálanna í víðara samhengi þegar þau koma til umfjöllunar á Alþingi og burt séð frá efni þessa frv. sérstaklega. Þar vil ég ítreka það, sem ég sagði við 1. umr. þessa máls, að ég tel að það sem mönnum hafi í raun fyrst og fremst mistekist á síðustu árum, þegar þeir hafa verið að breyta lögum og breyta fjárhagslegri stöðu húsnæðislánakerfisins, sé að taka samhliða á hinum félagslega þætti íbúðarhúsnæðis í landinu. Ég held að það sé alveg borin von að það verði náð utan um þennan málaflokk og þar verði farsællega tekið á málunum nema menn hafi allt undir og hafi samhengi hlutanna í huga. Ég er viss um að ástand húsnæðismálanna, ástand fasteignamarkaðarins til að mynda á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóann og einnig á mörgum öðrum stærri þéttbýlisstöðum, er jafnslæmt og raun ber vitni fyrst og fremst vegna þess að þrýstingur ýmissa hópa, sem ekki fá þá úrlausn sem eðlilegt væri í gegnum félagslegt húsnæðiskerfi, er fyrir hendi og er mjög mikill. Þar má nefna hópa eins og námsmenn sem vegna þess að ekki er séð fyrir húsnæðismálum þeirra með skikkanlegum hætti, hvorki við Háskóla Íslands né við ýmsar aðrar æðri menntastofnanir, eiga ekki annan kost en að fara út á leigumarkaðinn eða fasteignamarkaðinn eins og hann er og berjast þar fyrir möguleikum sínum og rétti sínum til að búa í sæmilegu húsnæði.

Ef séð væri með eðlilegum hætti fyrir húsnæðisþörf t.d. framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu þannig að stúdentagarðar eða leiguhúsnæði af einhverju tagi væri fyrir hendi í nægjanlegum mæli hygg ég að bara sá þáttur mundi breyta miklu um ástandið á leigumarkaðnum. Sömu sögu mætti segja frá stöðum eins og Akureyri og víðar.

Það mætti svo nefna fjöldamarga aðra hópa sem eðli málsins samkvæmt horfa fyrst og fremst til hins félagslega hluta húsnæðislánakerfisins um úrlausn og nægir að nefna það samstarf átta aðila á þessu sviði þar sem menn hafa tekið sig saman um og haldið ráðstefnu um húsnæðismál og hafa jafnvel gert drög að frv. um nýjan félagsíbúðasjóð. Það segir meira en mörg orð um þær áhyggjur sem ýmsir aðilar hafa af húsnæðismálunum og þess vegna er alveg óhjákvæmilegt að það verði ekki látið sitja við þá litlu plástra sem hér á að afgreiða með þessu frv. á húsnæðiskerfinu heldur vindi menn sér í það verkefni, sem reyndar stóð alltaf til að fylgdi ráðstöfunum í húsnæðismálum, bæði sem gripið var til vorið 1985 og eins frá árinu 1986, að halda beint áfram yfir í hinn félagslega hluta íbúðalánakerfisins og endurskoða lögin um Byggingarsjóð verkamanna og hlutverk hans. Ég vænti þess að hæstv. félmrh. sé mér í raun sammála um að þetta tvennt verði ekki slitið úr samhengi. Það er ekki hægt að fjalla um hinn almenna hluta íbúðalánakerfisins og verkefni Byggingarsjóðs ríkisins eins og einangrað fyrirbæri. Það hefur of mikil gagnvirk áhrif hvað á annað hvernig ástandið er í Byggingarsjóði verkamanna og hvernig þeim verkefnum, sem honum eru ætluð lögunum samkvæmt, er sinnt. Það er fjarri öllu lagi að sá sjóður hafi verið efldur eins og til stóð, eins og honum er ætlað hlutverk með lögum og hlýtur að verða keppikeflið á næstu árum að eðlileg hlutföll séu milli þeirrar fyrirgreiðslu sem veitt er í gegnum Byggingarsjóð ríkisins annars vegar og Byggingarsjóð verkamanna hins vegar.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að aðstæður á Íslandi kalli á að býsna stór hluti íbúðarhúsnæðis sé undir formerkjum af því tagi sem gert er ráð fyrir að húsnæði sem byggt er eða keypt á kjörum Byggingarsjóðs verkamanna kallar á. Ég tel alveg ljóst hvað stöðu landsbyggðarinnar snertir að þar eru aðstæður nú og hafa kannski lengi verið með þeim hætti að mikil þörf er fyrir leiguhúsnæði, þörf fyrir að menn geti tímabundið eða til lengri tíma fengið húsnæði á tryggum kjörum án þess að festa fjármagn í því sem eigendur. Ég er alveg viss um að eitt stærsta atriðið til að tryggja byggð í öllu landinu, til að koma í veg fyrir þá byggðaröskun sem verið hefur og við blasir ef ekki verður að gert er að koma húsnæðismálunum í betra horf en raun ber vitni. Ég held, þó að ég viti að hæstv. félmrh. er mikill áhugamaður um kaupleiguíbúðir, að þar þurfi meira til. Ég held að þær gætu orðið liður í því að leysa þau mál en einungis hluti. Ég spyr hæstv. félmrh. hvað líður áformum hæstv. ráðherra um endurskoðun hins félagslega hluta íbúðalánakerfisins, hvað líður áformum um kaupleiguíbúðir og aðrar aðgerðir á sviði félagslegra íbúða. Væntir hæstv. ráðherra þess að það muni kosta aðrar eins hremmingar að koma einhverjum lagaákvæðum í gegnum ríkisstjórn og þetta litla frv. hefur kostað? Hafa einhverjar ákvarðanir verið teknar í hæstv. ríkisstjórn um hvenær og þá hvað verði lagt til í þeim efnum? Er þess að vænta á þessu þingi að gripið verði til ráðstafana og jafnvel lögð fram lagafrv. sem snerta hlutverk Byggingarsjóðs ríkisins?

Ég tel það svo, hæstv. forseti, í raun bagalegt ef þessari umfjöllun Alþingis um húsnæðismálin fyrir jólaleyfið lýkur án þess að meiri upplýsingar verði lagðar fram um fjárhagsafkomu og horfur byggingarsjóðanna til lengri tíma litið. Ég saknaði þess nokkuð í starfi hv. félmn. að þar voru ekki fyrir hendi mikil gögn um þessi efni. Nú vita menn að vaxtamunur sem er á innlánum og útlánum byggingarsjóðanna, þ.e. þeim lánum sem þeim er gert að taka annars vegar og þeim lánum sem þeir lána út hins vegar, er mikill og velta þessara sjóða er mjög stór og verður það væntanlega á næstu árum, geysimikið fé úr lífeyrissjóðum landsmanna rennur í gegnum húsnæðislánakerfið út til lántakenda. Þar á milli er verulegur vaxtamunur sem byggingarsjóðunum er gert að bera. Eins og ríkisframlögin eru nú um stundir gefur það auga leið að fjárhagsstaða sjóðanna verður á tiltölulega stuttum tíma mjög neikvæð. Ef um venjulegan fyrirtækjarekstur væri að ræða yrði það væntanlega orðað svo að sjóðirnir yrðu á stuttum tíma gjaldþrota ef svo heldur sem horfir. Þess vegna var í þessu frv., þegar það var lagt fyrir Alþingi, heimild í 4. gr. til að ákveða mismunandi vexti á útlánum, jafnvel innan hvers einstaks lánaflokks. Nú hefur verið fallið frá því að afgreiða slíka heimild og brtt. meiri hl. félmn. gera ekki ráð fyrir að slíkt ákvæði verði samþykkt.

Það var af þessu tilefni sérstaklega sem frv. var lagt fram með heimild til að breyta vöxtum, með það í huga að slíkar ráðstafanir yrðu látnar ganga að einhverju leyti á móti þeim mikla vaxtamun sem er á milli þeirra lána sem sjóðirnir taka og útlánanna, en sérstaklega í ljósi þess að nú hefur orðið niðurstaðan að falla frá því að ákveða slíka heimild tel ég óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra, og hefði út af fyrir sig verið æskilegt að hæstv. fjmrh. hefði líka tekið þátt í umræðum um þau efni, hvað menn hyggjast þá fyrir úr því að niðurstaðan verður sú að afgreiða hér ekki heimildir til að breyta vöxtum. Hvað hyggjast menn þá fyrir? Er t.d. þess að vænta að hæstv. ríkisstjórn leggi þá til aukin bein framlög úr ríkissjóði til byggingarsjóðanna til að vega upp þarna á móti? Eins og menn vita er ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að staðið verði við þær hugmyndir sem menn höfðu um þátttöku ríkissjóðs í fjármögnun húsnæðislánakerfisins þegar gengið var frá samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og þegar samið var við lífeyrissjóðina. Nú liggur það jafnframt fyrir að það stendur ekki til að breyta útlánavöxtum með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í upphafi þegar frv. var lagt fram. Þess vegna, virðulegur forseti, tel ég mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um þessi efni.

Ég vil svo spyrja líka: Hefur verið gerð t.d. á því einhver framtíðarspá hvað vaxtamunurinn gæti orðið mikill til að mynda á næstu 10–15 árum, til að mynda fram til aldamóta, hvað stórar fjárhæðir, miðað við núverandi veltu sjóðanna og núverandi vaxtamun, gæti orðið þar um að ræða? Mér er kunnugt um hliðstætt dæmi frá Lánasjóði ísl. námsmanna þar sem sá sjóður hefur verið látinn taka jafnvel erlend lán og innlend á háum vöxtum en lánar út vaxtalaust eins og menn vita. Þar hafa menn reynt að gera sér grein fyrir því, miðað við núverandi umfang starfseminnar og horfur, hvaða velta, hvaða fjárhæðir gætu verið á ferðinni í þessum vaxtamun. Þetta skiptir mjög miklu máli, virðulegur forseti, hvort sem þessar breytingar, sem hér eru nú lagðar til, koma til með að hafa meiri eða minni áhrif, minni eða enn þá minni liggur mér við að segja því það er alveg ljóst að þetta skiptir tiltölulega litlu fyrir fjárhagsdæmið í heild sinni hjá þessum sjóðum. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi einhverjar upplýsingar til að færa okkur um þessi efni. Ef ekki teldi ég mjög nauðsynlegt að þetta mál yrði í öllu falli kannað áður en frv. yrði gert að lögum frá þinginu og áður en fjárlög verða afgreidd því það er tækifæri til að koma þeim leiðréttingum á framfæri í sambandi við fjárhag byggingarsjóðanna sem menn telja nauðsynlegt að gera í gegnum fjárlögin við afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót.