12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt að mál verði dálítið betur skýrð en mér virðist að hafi komið fram.

Í fyrsta lagi: Er búið að tryggja að fá fjármagn í byggingarsjóðinn?

Í nál. hv. meiri hl. félmn. segir: „Aðilar vinnumarkaðarins töldu að ef breyta þyrfti núgildandi lögum yrði samráð haft við þá um þær breytingar, en gert er ráð fyrir samningum við alla lífeyrissjóði til tveggja ára í senn. Á þessu hausti er samið við samtök lífeyrissjóða um skuldabréfakaup fyrir árin 1989 og 1990. Aðeins fáir lífeyrissjóðir hafa gengið endanlega frá samningum þetta tímabil, og er það áhyggjuefni.“

Þetta segir í nál. hv. meiri hl. félmn. Sé þetta ekki tryggt, sé ekki fjármögnunin trygg er það gjörsamlega marklaust sem við erum að gera hér. Og mér er spurn: Með þessari vaxtastefnu, sem hæstv. ríkisstjórn hefur haft forustu um, geta hv. þm. eða hæstv. ríkisstjórn gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir séu gráðugir í að lána fé sitt með 7% vöxtum eins og mig minnir að tilkynnt hafi verið að samið hafi verið um? Það var gert áður en þessi kollsteypa í vaxtamálum varð.

Það er nauðsynlegt við þessa umræðu að þetta sé upplýst og því vil ég spyrja hæstv. félmrh. að því hvort tryggt sé að lífeyrissjóðirnir kaupi þessi skuldabréf af byggingarsjóðnum fyrir 55% af ráðstöfunarfé sínu. Sé það ekki, hvernig verður þá sjóðurinn fjármagnaður? Það er málið.

Eins og þetta er nú í bankakerfinu eru víxilvextir komnir upp í 34% og af verðtryggðum lánum 9,5% og jafnvel þar yfir, jafnvel upp í 111/2% að mér skilst. Eins og fram hefur komið eru ríkisvíxlarnir nú með 41,3% miðað við 90 daga víxla, hækkuðu á tíu daga millibili úr 39,6 upp í 41,3%. Ég verð að segja að ég skil ekki hvernig þeim markmiðum verður náð að gera kjarasamninga skynsamlega en sprengja upp vextina, fjármagna húsnæðismálakerfið með sæmilegu móti. Ég óttast að hæstv. ríkisstjórn geri sér ekki grein fyrir hvernig hún nær landi í þessu máli.

Það eru að mörgu leyti athyglisverðar brtt. sem Borgarafl. hefur lagt fram þó að ég geri mér ekki grein fyrir því á stuttum tíma hvernig það mundi verka í þjóðfélaginu og hvort það er framkvæmanlegt. En það er lofsvert framtak að koma fram með slíkar brtt. til umfjöllunar til athugunar því að ég sé ekki betur en að því miður stefni í að þetta frv., miðað við ástand í vaxtamálum og fjármálum, leysi ekki þann vanda sem er ætlast til.

Ég ætla ekki að hafa hér langt mál, en ég kemst ekki hjá því að ræða um 2. gr. frv. Í brtt. á þskj. 237 frá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni segir, með leyfi forseta:

„Umsækjendur, sem ekki uppfylla skilyrði laga þessara um lánveitingu skv. 13., 14., 18. og 25. gr., skulu innan þriggja mánaða frá því að umsókn er lögð inn fá svar ef um synjun er að ræða.“

Þetta er alveg sjálfsagt mál, en ég er ekki alveg sammála aftur á móti seinni partinum. Ég held að það sé hægt að setja reglur, sem verði auglýstar í blöðum, þannig að menn sjái alveg fyrir fram hvort þeir koma til með að fá lán eða lán ekki ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði. Hins vegar þurfa þeir að fá synjunarbréf sem hafa ekki rétt. Þann hátt, sem hefur verið, að þessi grái markaður og jafnvel fleiri hafa verið að kaupa lánsloforðin með afföllum, verður að koma í veg fyrir. Ég átta mig ekki á þessu eins og það er í brtt. frá báðum aðilum, bæði frá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur og Steingrími Sigfússyni og meiri hl. félmn., því að ef svar kemur með árs fyrirvara er hætt við því að þetta fari á þennan markað. Ég spyr hæstv. ráðherra eða hv. frsm. meiri hl. félmn. hvort, eins og brtt. er, það tryggi að þessi lánsloforð haldi ekki áfram að fara á hinn gráa markað eða í veðdeildir bankanna með afföllum með þeim afleiðingum að þeir sem byggja eða kaupa, það sé nokkurn veginn fyrir fram séð, lendi í svipaðri súpu og þeir sem keyptu eða byggðu á árunum 1980–1986. Ég vil líka spyrja hæstv. félmrh. að því hvort sá hópur verði utangarðs. Það hafa margir fengið úrlausn. Nokkrir sjá til lands, en það er líka stór hópur sem horfir fram á það með breyttri vaxtastefnu, með þeirri okurlánavaxtastefnu sem ríkir, að þeir sem sáu til lands sjá nú fram á gjaldþrot. Í sambandi við afgreiðslu frv. er nauðsynlegt að það komi fram með hvaða hætti hæstv. ríkisstjórn ætlar að bjarga þessu fólki.

Þegar húsnæðismálafrumvarpið var samþykkt fyrir tveimur árum var ég í félmn. og var með fyrirvara út af afgreiðslu þess frv. um að það yrðu gerðar ráðstafanir til að koma til móts við þetta fólk. Ég hlýt að minna á það og enn fremur að spyrjast fyrir um hvort nú eigi endanlega að ganga frá því fólki sem er með lausaskuldir víða e.t.v. á 36% vöxtum a.m.k. og jafnvel meira ef það eru víxlar sem þarf að framlengja með tveggja, þriggja mánaða fresti. Það hlýtur að verða áhyggjuefni fyrir alla. Ég veit að hæstv. félmrh., sem nú er, er öll af vilja gerð til að leysa þessi mál. En hvernig ætlar ríkisstjórnin, sem hún er í samstarfi með, hæstv. fjmrh., að standa að þessum málum? Ég fæ margar hringingar þessa dagana frá þessu fólki og það spyr: Ætlið þið virkilega að skilja okkur eftir? Er það meiningin? Og kemur það ekkert fram einu sinni í þingsölum? Og er þessi vaxtastefnuvitleysa varanleg? — Ég á ekki svör og því bið ég um svör.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.