12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (1468)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið nú þegar, en ég hafði að sjálfsögðu gert ráð fyrir að hv. talsmaður meiri hl. félmn. mundi svara þeim sem hafa lagt fram fyrirspurnir og skilað hafa nál. eða sérálitum varðandi frv. sem hér er til umræðu og að hæstv. félmrh. sýndi þeim hinum sömu þá virðingu að taka til máls í umræðunni og veita þeim nokkur svör þannig að þessi umræða geti haft eðlilegan framgang, en það ætlar að verða endi á þessari umræðu, sem reyndar er ekki séð fyrir endann á, svipað og með upphafið sem var býsna sögulegt því það þurfti að mæla fyrir frv. með afar afbrigðilegum hætti sl. fimmtudagskvöld til að leysa verkfall hæstv. félmrh. gagnvart ríkisstjórn Íslands og heimila hv. talsmanni meiri hl. félmn. að mæla fyrir nái. Nú tökum við sem sagt upp þráðinn að nýju á laugardegi og höfum kannski ekki öll alveg í huga þá merku framsögu sem hv. þm. Alexander Stefánsson hafði fyrir meirihlutaáliti félmn. en sem full ástæða er til að ræða eins og ýmsa aðra þætti þessa máls sem halda mætti varðandi forsöguna að væri stórt í sniðum varðandi breytingar á húsnæðislánakerfinu, en þegar farið er að líta á textann, og gildir það bæði um frv. eins og það kom upphaflega fram en enn frekar um þær till. sem nú liggja fyrir frá meiri hl. félmn., er hér að fæðast lítil mús. Það mundi vera kallað á slangurmáli „mini-mús“ sem er í fæðingu í sambandi við húsnæðismálin.

Það er sannarlega með fádæmum að það skuli leiða til verkfalla ráðherra í ríkisstjórn Íslands að koma fram þeim örlitlu leiðréttingum sem þetta frv. þó felur í sér varðandi húsnæðislánakerfið og það skuli þurfa að skerast í odda á þessu stjórnarheimili rétt í upphafi samstarfs á því kærleiksríka heimili með þeim hætti sem gerst hefur í sambandi við frv., en það hófst með braki og brestum eins og menn rekur kannski minni til með óvenjulegum hætti í hv. þingdeild þann 26. október sl. þegar hæstv. félmrh. mælti fyrir stjfrv. sem átti að vera að forminu til en reyndist vera, bæði samkvæmt orðum hæstv. ráðherra sjálfs og ég tala nú ekki um þeirrar umræðu sem fylgdi á eftir, frv. félmrh. um þetta efni, þessar leiðréttingar, þessar sáralitlu leiðréttingar en góðar svo langt sem þær ná að vissu leyti á agnúum meingallaðs húsnæðislánakerfis og því fjárhagsöngþveiti sem þetta kerfi býr við og stefnir í hraðbyri með enn meiri hraða en áður hefur legið fyrir þrátt fyrir að Alþfl. fer nú með þessi mál öðrum flokkum fremur í ríkisstjórn með fjmrh. og hæstv. félmrh.

En það skal sannarlega ekki standa á okkur stjórnarandstæðingum, a.m.k. gildir það um þá sem við höfum heyrt í hér, talsmenn stjórnarandstöðunnar, að stuðla að þeim litlu lagfæringum sem hér er verið að leggja til í sambandi við þessi mál og tryggja að það nái fram að ganga með eðlilegum og þinglegum hætti fyrir jólahlé þingsins, en það er auðvitað jafnnauðsynlegt að þjóðin, fólkið utan veggja Alþingis átti sig á hver óvera er hér á ferðinni miðað við þann gífurlega vanda sem við blasir í þessum málum og þá ríku þörf sem fyrir liggur að tekið verði á húsnæðismálakerfinu með heildstæðri endurskoðun sem lofað var af meiri hluta fyrrv. ríkisstjórnar og með stuðningi Alþb. í félmn. þessarar hv. deildar þann 23. apríl að mig minnir vorið 1986 þar sem teknar voru ákvarðanir, þar sem álit lá fyrir um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem stutt var af Alþingi af yfirgnæfandi meiri hluta og talið horfa til bóta en öllum var ljóst að var samt stórum annmörkum háð og gera þurfti frekari ráðstafanir, margháttaðar, í beinu framhaldi af samþykkt þeirra laga til að taka á þeim agnúum sem menn enn standa frammi fyrir óleystum. Það komu fram bindandi loforð stjórnarflokkanna, fulltrúa þeirra í félmn. Nd. Alþingis vorið 1986, að það yrði gert og tilteknir tíu tölusettir liðir og það skyldi undirbúið frv. fyrir haustþingið 1986 og lagt þar fyrir þannig að síðasta Alþingi, síðasta þing tæki á þessum málum. En efndirnar á þessu hátíðlega loforði urðu nákvæmlega engar. Málinu var vísað til milliþinganefndar um húsnæðismál, en þar þæfðust fulltrúar stjórnarflokkanna fyrir með skipulegum og skilmerkilegum hætti gegn því að taka á þessu máli efnislega og milliþinganefndin skilaði áliti, sem birtist í skýrslu til Alþingis í febrúar 1987, þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar þáverandi skiluðu séráliti og bentu á þau hraklegu vinnubrögð sem meiri hl. í þessari milliþinganefnd, fulltrúar þáverandi ríkisstjórnarflokka, Framsfl. og Sjálfstfl., höfðu staðið fyrir og ég mun rifja það aðeins betur upp á eftir.

En svo að við reynum að ná aðeins þræði frá sl. fimmtudagskvöldi get ég ekki sleppt því vegna þess að ég vænti þess að hv. þm. Alexander Stefánsson eigi eftir að koma upp og svara ekki aðeins mínu máli og ábendingum heldur þeim sem hafa lagt fram beinar fyrirspurnir til hans og mælt hafa fyrir minnihlutaálitum eða sérálitum varðandi það frv. sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. benti á það og meiri hl. í sínu áliti að fjárhagsmál húsnæðismálakerfisins eru í algerri óvissu, ekki aðeins til lengri tíðar litið heldur þau markmið sem ríkisstjórnin hefur þó stungið út fyrir árin 1989 og 1990. Það kemur fram með eftirfarandi orðum í nál., með leyfi virðulegs forseta:

„Á þessu hausti var samið við samtök lífeyrissjóða um skuldabréfakaup fyrir árin 1989 og 1990. Aðeins fáir lífeyrissjóðir hafa gengið endanlega frá samningum þetta tímabil og er það áhyggjuefni.“

Hver er staða þessa máls? Hversu margir lífeyrissjóðir hafa gengið frá samningum endanlega og hversu háar upphæðir liggja þannig skuldbindandi fyrir af hálfu lífeyrissjóðanna varðandi kaup á skuldabréfum byggingarsjóða ríkisins? Það hlýtur að vera krafa okkar að fá upplýsingar um þá stöðu við þessa umræðu og ég vænti að hv. þm. Alexander Stefánsson fyrrv. félmrh. og hæstv. núverandi félmrh. veiti okkur upplýsingar um þetta því að þetta er eitt af því stóra, ekki síst þegar á að fara að taka afstöðu til fjárlaga fyrir komandi ár og þeirra markmiða sem þar hafa verið sett fram af ríkisstjórninni eða eigum við að segja af hæstv. fjmrh. Alþfl. því að það virðist vera með þetta frv. um húsnæðismálin að einnig það hafi ekki verið stjfrv. í eiginlegum skilningi heldur meira og minna einkafrv. hæstv. fjmrh. Ég treysti því að hæstv. félmrh. geri þetta sem hefur sýnt á fyrri þingum að hún fylgist býsna vel með í húsnæðismálunum og hefur ekki sparað orðin á Alþingi fyrr og síðar til að reyna að varpa ljósi á þann mikla vanda sem þar er við að fást og ég hef oft tekið undir með hæstv. ráðherra um þau efni og tek undir með ráðherranum varðandi þau áform sem hún hafði með sínu frv., þeirri litlu mús sem þar skreið fram en hefur nú verið halaklippt af meiri hl. félmn. að verulegu leyti, en þó nóg til þess að hæstv. félmrh. hefur hætt verkfalli sínu gagnvart ríkisstjórn Íslands og ákveðið að sitja áfram í embætti.

Hv. frsm. meiri hl. félmn. og nál. sem hann mælti fyrir segja: „Heildarendurskoðun þessa kerfis hlýtur að vera næsta skref í máli þessu með tilliti til fenginnar reynslu og fjölda ábendinga sem fram hafa komið innan þings og utan.“

Þetta er hv. þm., áður félmrh., sem stóð að því eða sú ríkisstjórn sem hann var í að gefa hátíðleg loforð í aprílmánuði 1986 um að á þessum málum skyldi tekið, ekki nú í einhverri framtíð heldur á liðnu þingi, fyrir síðustu kosningar þar sem því var heitið að það yrði skilað inn frv. um framtíðarstefnu í húsnæðismálum, m.a. hvernig tekið yrði á vanda þessara mála. En væntanlega hefur hæstv. fyrrv. ráðherra þarna í huga, þegar talað er um „fengna reynslu og fjölda ábendinga sem fram hafa komið“, m.a. ábendingar frá hæstv. núverandi félmrh. sem liggja fyrir fjölmargar, m.a. frá þinginu 1986–1987 þegar hæstv. ráðherra skilaði sem þm. og reyndar á þinginu þar á undan séráliti í félmn. Nd. Alþingis, skilaði séráliti varðandi þá breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem þá var til umræðu fyrir hönd Alþfl. Það hlýtur að vera ein af þeim ábendingum sem meiri hl. félmn. hefur í huga, þær áherslur Alþfl. 21. apríl 1986 á þskj. 1007 frá 108. löggjafarþingi. Þar er tekið undir lagabreytinguna sem til stóð, tekið undir frv., en segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:

„Það sem á skortir“, segir talsmaður Alþfl., núverandi hæstv. félmrh., „er þó að aukið verði verulega fjármagn til félagslegra íbúðabygginga og opnaðar verði fleiri leiðir í húsnæðismálum til að auðvelda þeim húsnæðisöflun sem við lakastar aðstæður búa, að staðið verði við“, og ég vænti að menn leggi við eyru, hafi opnar hlustir, „fyrirheit um viðunandi lausn á greiðsluvanda þeirra sem byggðu eða keyptu á árunum 1980–1985“.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. var að inna eftir þessu með réttu í máli sínu áðan. Að staðið verði við fyrirheit um viðunandi lausn á greiðsluvanda þeirra sem byggðu eða keyptu á árunum 1980–1985. Hæstv. félmrh. mun vafalaust gera okkur skýra grein fyrir því hér og talsmaður meiri hl. félmn. hvernig ríkisstjórnin nú þegar hefur markað stefnu í þessum málum og hvað hún ætlar að gera á næstu dögum í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og fjármál byggingarsjóðanna til að standa við það fyrirheit sem er bókað í séráliti Alþfl. frá árinu 1986 og undirritað af núverandi hæstv. félmrh.

En virðulegur forseti. Það er fleira sem minnst er á þarna. Ég vitna þar aðeins í einn tölulið í viðbót þar sem segir: "Alþfl. telur þó rétt að flytja brtt. um eftirfarandi atriði“ — og það er tölul. 2 sem snertir einmitt þetta efni: „Endurgreiðsla komi á hluta af kostnaði við öflun íbúðarhúsnæðis til þeirra sem keyptu eða byggðu á árunum 1980–1985.“

Ætli væri ekki rétt fyrir hæstv. félmrh. og Alþfl. að rifja upp þessar tillögur og þessar áherslur varðandi vanda þessa fólks?

En það er fleira merkilegt sem kom fram í áliti meiri hl. félmn. og hv. þm. Alexander Stefánsson mælti þarna fyrir. Það er eitt af markmiðunum, sem ég vil fá aðeins nánar útskýrð, meginmarkmiðum með þessu frv. hér, þriðja markmiðið að mig minnir, að draga úr þenslu á fasteignamarkaði. Ég bið hv. þm. Alexander Stefánsson að skýra nánar fyrir okkur með hvaða hætti því markmiði er náð með frv. að draga úr þenslu á fasteignamarkaði. Þetta er útfært í nál. á bls. 3 sem dreift var á fimmtudagskvöldið þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Mikilvægasta grein frv. er þó fyrir margra hluta sakir 2. gr. þess. Þar er kveðið á um breytta skipan varðandi svör Húsnæðisstofnunar til umsækjenda. Með þeirri tilhögun 2. gr. sem frv. gerir ráð fyrir er komið í veg fyrir að útgáfa svonefndra lánsloforða Húsnæðisstofnunar verði áfram sú uppspretta efnahagslegrar þenslu og hækkunar á fasteignamarkaðnum sem verið hefur.“

Þetta er úr meirihlutaálitinu. Ég bið um nánari útlistun á þessu, sérstaklega í ljósi þess að ekki hefur verið fallist á það sjónarmið talsmanns 1. minni hl. nefndarinnar og sem fram kemur í brtt. hv. 12. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e. að vera ekki að unga út einhverjum loforðum, ótímabundnum svörum frá húsnæðismálastjórn, nema þá um synjun sé að ræða, sem hafa engin tengsl við endanleg lánsloforð. Þetta er slík framsetning mála að það er með fádæmum ef meiri hl. í félmn. og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ætla að standa svona að verki. Og ég spyr og bið um að fá skýr svör við því frá hæstv. ráðherra og hv. 1. talsmanni meiri hl. félmn.: Með hvaða hætti tengist þetta markmiðinu um þenslu á fasteignamarkaði og hvaða tryggingu hefur ríkisstjórnin og talsmenn hennar fyrir því að þau svör sem á hér að lögleiða að húsnæðismálastjórn veiti, sendi frá sér, verði ekki áfram á uppboðsmarkaði, braskmarkaðnum, og leiði til efnahagslegrar þenslu áframhaldandi? Hvaða ástæða er til að gefa út slík svör sem enginn veit hvenær rætast fyrir viðkomandi umsækjendur?

Hæstv. viðskrh. er staddur við umræðuna, sem er sannarlega ánægjulegt, og hann er hagfróður maður, búinn að vera forstjóri Þjóðhagsstofnunar um lengri tíma. Það væri mjög fróðlegt að hann kæmi inn í þessa umræðu, hæstv. ráðherra, ef á skortir að við fáum skýrar útlistanir frá hæstv. félmrh. og hv. talsmanni meiri hl. félmn. og útskýrði nánar fyrir okkur hvernig þessum markmiðum um minnkandi þenslu verður tryggilega náð samkvæmt ákvæðum frv. Að sjálfsögðu hefur hæstv. viðskrh. átt sinn hlut í að móta þetta mál innan ríkisstjórnar sem samflokksmaður hæstv. félmrh. að ég trúi.

Það segir að vísu í nál. frá fimmtudagskvöldi sl.: „Frá sjónarmiði almennrar efnahagsstjórnar er hér um mjög mikilvægt mál að ræða þótt hitt sé rétt að með þessu móti fá umsækjendur ekki jafnskjótt og áður örugga vissu um það hvenær þeir fá lán sín afgreidd.“ — Takið eftir orðalaginu, virðulegur þingheimur: „fá ekki örugga vissu“. Af hverju segja menn ekki „fá enga vissu“? Það er sá lagatexti sem liggur fyrir.

Og svo segir í nál. svo enn sé vitnað, með leyfi virðulegs forseta: „Það er galli sem þó vegur ekki upp kosti þessarar breytingar“. Það eru skáldleg tilþrif hjá virðulegum meiri hl. félmn. sem birtast í þessum orðum, en hæstv. viðskrh. hefur eflaust lagt sitt mat á þetta líka.

Ég ætla ekki að fara mjög mörgum orðum til viðbótar um þetta annars mjög merkilega álit sem var svo brýnt að mælt yrði fyrir alveg með afbrigðilegum hætti sl. fimmtudagskvöld, en það verður þó ekki hjá því komist að benda á hvað sagt er varðandi vaxtamun, sem er eitt af markmiðunum, sem talinn er meiri en kerfið þoli og eru nú ekki ný sannindi, og þar stendur og ég leyfi mér enn að vitna í textann:

„Raunar er brýnt að þegar“ — það er atviksorðið þegar í merkingunni strax — „verði gerðar ráðstafanir til að minnka þann mun sem er á teknum og veittum lánum Húsnæðisstofnunar. Ákvörðun um það er á valdi ríkisstjórnarinnar og kallar ekki á lagabreytingu.“

Og nú vona ég að hæstv. viðskrh. sé einhvers staðar nærri, og ég sé það, því að hann hefur með vissum hætti sem ráðamaður bankamála með þessi mál að gera, og nú bið ég um skýr svör: Með hvaða hætti ætlar ríkisstjórnin að leysa þetta mál eða hefur hún ákveðið að leysa þetta mál því það hlýtur að liggja fyrir lausn í þessu máli fyrst það er bókað í áliti meiri hl. félmn. að þetta sé á valdi ríkisstjórnarinnar og það þurfi þegar, í merkingunni strax, að taka á málinu? Við skulum trúa því að ekki verði látið skella á jólahlé þingsins áður en ríkisstjórnin verði búin að ganga frá þessu. Þetta hlýtur að liggja fyrir. Og það verður þá upplýst hér væntanlega. Þetta er bein fyrirspurn af minni hálfu sem ég óska eftir svörum við.

Svo vil ég aðeins vegna hinna stórfenglegu stíltilþrifa sem eru í þessu plaggi frá fimmtudeginum sl. vitna til orðalags sem var held ég lesið upp af hv. talsmanni meiri hl. félmn.:

„Jafnframt er rétt að kanna að nýju hugmyndir um að binda lán Húsnæðisstofnunar við einstaklinga í stað íbúða.“

Að kanna að nýju hugmyndir. — Ja, stórbrotin eru áformin. Og meiri hl. nefndarinnar leggur áherslu á að reglugerðir um framkvæmd þessarar lagabreytingar verði gefnar út jafnskjótt og auðið er eftir að lög þessi hafa verið samþykkt. Hvað merkir þetta orðalag nákvæmlega? Jafnskjótt og auðið er verða gefnar út reglugerðir. Hefur hæstv. félmrh. gert sér ljóst hvað í þessum orðum felst? Ég bið um svör. Hvenær verður auðið að ganga frá reglugerðum á grundvelli þessara laga, reglugerðum sem eiga að leysa úr mörgum spurningum sem er ósvarað í sambandi við þetta litla frv.? Hv. þm. Alexander Stefánsson orðaði það efnislega eitthvað á þá leið í máli sínu hér sl. fimmtudagskvöld að hann hljóp alveg yfir í máli sínu að skýra nokkuð brtt. Hann taldi þess nánast ekki þörf. En þær eru einfaldar og skýra sig sjálfar, sagði fyrrv. félmrh., hv. þm., og að sjálfsögðu þarf að setja um þær reglugerðir — jafnskjótt og auðið er, stendur í álitinu. Hvenær og hvers eðlis? Hvert er efni þessara reglugerða?

Ég rifja upp að við erum að fjalla um annað mál, sem er efnahagslega miklu stærra og allt annars eðlis en þetta, í þinginu, að vísu er það Ed., en sjútvn. beggja deilda hafa verið að fjalla um frv. til laga um stjórnun fiskveiða. Það er ríkisstjórnarmál þar sem á að byggja á reglugerðum um útfærslu á fjölmörgum atriðum. Hv. þm. Alexander Stefánsson kannast við þetta því hann hefur setið þessa fundi ásamt mér. Þar hefur sjútvrn. þó séð sóma sinn í því að leggja fyrir nefndina reglugerðartexta, útfærðar hugmyndir að reglugerðum, drög að reglugerðum. Það mætti ekki minna vera í máli eins og þessu, þessu litla máli, en að slíkar reglugerðir fylgi með til kynningar til nefndarinnar. Voru þær sýndar í nefnd? Lágu þær fyrir þingnefnd, hv. þm. Alexander Stefánsson? Lágu þessar reglugerðir þar fyrir? Voru þær kynntar? Þá ætti að vera auðvelt að upplýsa það hér. Og ég spyr: Hver eru ákvæðin og hvað felst í frestinum „jafnskjótt og auðið er“? — Varðandi nál. meiri hl. félmn. væri hægt að hafa allmörg fleiri orð en ég geri það ekki að sinni.

Ég vil taka undir með hv. ræðumönnum, sem skilað hafa sérálitum, varðandi spurninguna um lánsloforð sem tengist brtt. sem liggur fyrir varðandi frv. Rökin hljótum við að heyra hér.

Hæstv. núverandi félmrh. hefur, eins og ég hef rakið, flutt margar gagnmerkar ræður um húsnæðismál í hv. þingdeild á fyrri þingum. Ég hef eina fyrir framan mig. Hún var flutt 17. febr. 1987 og varðaði álit milliþinganefndar um húsnæðismál. Ræða hv. þáverandi þm., núverandi hæstv. ráðherra, þótti tíðindum sæta og flaug út á öldum ljósvakans þar sem verið var að draga fram marga þætti varðandi fjárhagsvanda húsnæðiskerfisins. Það er dregið fram í umræðuparti Alþingistíðinda hvernig hv. þm. leit þá á málin, sá hinn sami og nú er ráðherra þessara mála með fjmrh. úr sama flokki sér við hlið.

Ég ætla ekki að fara í langar tilvitnanir úr þessari ræðu, en ég leyfi mér þó að grípa hér niður, virðulegur forseti, þar sem segir m.a.:

„Miðað við þessar forsendur“, sem þm. þáv. rakti, „er ljóst að á þessu ári“, þ.e. 1987, „vantar um 1200–1700 millj. kr., en upphæðin ræðst af því hve margar umsóknir falla út og eru ekki lánshæfar skv. ákvæðum laganna og að mati Húsnæðisstofnunarinnar. Í annan stað er ljóst að þó að um varlega áætlun sé að ræða um fjölda umsókna á þessu ári er engu að síður ljóst að tvöfalda þarf fjármagn í húsnæðiskerfið á næsta ári ef biðtími á ekki að lengjast frá því sem nú er og er þá fjármagnsþörf næsta árs varlega áætluð um 8 milljarðar kr.“

Það er nú fróðlegt að líta á þetta í ljósi þeirra tillagna sem fyrir liggja í frv. til fjárlaga fyrir næsta ár og margt, margt fleira sem þarna kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra, þáv. þm., í þessum efnum.

Og ég vil aðeins víkja að þessari fjárhagsstöðu því að það er auðvitað inn í hana sem við þurfum að lýsa við þessa umræðu með fjárlagafrv. komandi til 2. umr. í þinginu. Hvað liggur fyrir í þessu frv. til fjárlaga varðandi byggingarsjóðina? Er það tvöföldun á fjármagni eða eitthvað þess háttar sem auðvitað veitti ekki af til þess að taka á því hrikalega dæmi sem þarna liggur fyrir? Nei, það er engin tvöföldun á fjármagni.

Ég vil ekkert vera að gera minna úr þeim tillögum sem þarna liggja fyrir en efni standa til. Samkvæmt jólabók hæstv. fjmrh., frv. til fjárlaga sem ráðherrann sjálfur lýsti sem einni hinni merkustu og að hún hlyti að verða á jólabókamarkaðnum, er raunhækkunin til beggja byggingarsjóðanna, Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna, metin 17%. Og það er við annan sjóðinn sem er gert þokkalega með tvöföldun á upphæð, þ.e. Byggingarsjóð verkamanna, en dæmið varðandi Byggingarsjóð ríkisins stendur ekki jafnglæsilega. Það liggur raunar fyrir að það er meiningin að slá að láni hátt í helminginn af þessari upphæð og frysta hann á næsta ári, eins og það heitir á nútíðarmáli, taka hann út úr, spara ríkinu þetta framlag í raun, láta lífeyrissjóðina borga það ef ég hef skilið málið rétt. Það er nú öll glæsimennskan í sambandi við fjárveitingarnar til byggingarsjóðanna á komandi ári samkvæmt tillögum hæstv. ráðherra Alþfl.

Ég held að ástæða sé til að nefna það hér að ég hygg að miðað við það sem kynnt var hér á Alþingi á vorþinginu 1986, þegar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins voru hér til umræðu og það samkomulag sem gert hafði verið milli aðila vinnumarkaðarins sem var undirstaðan að því lagafrv., vanti að líkindum hálfan til einn milljarð króna á að staðið sé við það sem lofað var á þeim tíma. Hvað segir hæstv. félmrh. um það? Er það rétt? Getur það verið að það skorti samkvæmt fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. á bilinu 500–800 millj. og kannski meira til þess að staðið sé við það samkomulag sem var undirstaðan að breytingum á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins á vorþinginu 1986? Og hvernig er staðan varðandi misgengishópinn? Hvernig er hún? Hæstv. félmrh. hlýtur að rekja það hér því að hann bar þetta mál sérstaklega fyrir brjósti í sambandi við afgreiðslu þessa máls eins og ég hef þegar rakið. Með hvaða hætti er komið til móts við, t.d. í fjárlagafrv., aftur í tímann, vandann frá 1980–1985. Hvernig birtist það okkur í tengslum við þau skattafrv. sem eru til umræðu uppi í hv. Ed.? Ég er ansi smeykur um að þær húsnæðisbætur sem þar er verið að leggja til séu heldur léttar á voginni fyrir þennan hóp sem þarna er um að ræða. En kannski hefur hæstv. félmrh. aðra skoðun á því og þá lýsir hann þeim bjargráðum hér fyrir okkur. Ég er ansi smeykur um að þar sé ekki að finna þær efndir sem Alþfl. kallaði eftir í aprílmánuði 1986 og haldandi nú um helstu ráðuneyti efnahagsmála, fjármála og viðskiptamála og kemur hér með frv. sem að vísu er til örlítilla bóta á meingölluðu kerfi en leysir engan vanda í reynd svo að heitið geti þó að við viljum greiða fyrir afgreiðslu málsins.

Til þess aðeins að Alþfl. sé minntur á fortíð sína í þessu máli nú þegar hann hefur völdin vil ég leyfa mér að minna á það að fulltrúi Alþfl. í milliþinganefnd um húsnæðismál sem starfaði í tíð fyrri ríkisstjórnar var hv. þáv. þm., fyrrum félmrh. einnig, Magnús H. Magnússon sem við söknum hér af þingbekkjum. Hann skrifaði undir sérálit minni hluta milliþinganefndar um húsnæðismál. Það er örstutt og ég vil rifja það upp fyrir þingheimi, með leyfi forseta, því það tekur enga stund. Þar segir:

„Nefndin hefur á engan hátt lokið þeim verkefnum sem henni voru falin. Hún átti m.a. að athuga fjármögnun íbúðalánakerfisins til frambúðar, ný félagsleg húsnæðisform og ráðstafanir til að koma enn frekar til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum.

Starf nefndarinnar undanfarna mánuði [og þetta er undirritað 22. jan. 1987] hefur verið í skugga fjárlagagerðarinnar. [Þetta skyldi nú ekki eiga við í dag?] Ríkisstjórnin hefur dregið stórlega úr framlögum til húsnæðislánakerfisins. Ríkisstjórnin hefur stungið undan söluskattsstiginu sem upphaflega var lagt á til að koma til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum. Ríkisstjórnin hefur í blóra við kjarasamninga lækkað framlög til Byggingarsjóðs verkamanna sem leiðir til þess að sjóðurinn á í erfiðleikum með að standa við gefin lánsloforð. Ekkert svigrúm er því til að mæta þörfinni fyrir aukið framboð og aukna fjölbreytni í hinu félagslega húsnæðiskerfi. Framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins er hættulega lágt, biðraðir eftir láni lengjast stöðugt svo að lágt hlutfall ríkisframlagsins af heildarútlánum leiðir til þess að sjóðurinn sligast á fáum árum. Í ljósi þessarar staðreyndar var þess ekki að vænta að fulltrúar stjórnarflokkanna hefðu það veganesti sem til þurfti til þess að taka til alvarlegrar umfjöllunar þær tillögur um eflingu félagslegra íbúðarbygginga og styrkari fjármögnun byggingarsjóðanna sem greint er frá í nál."

Undir þetta rituðu fulltrúar minni hl., Guðni Jóhannesson, Kristín Einarsdóttir, Magnús H. Magnússon. En Magnús H. Magnússon, þáv. hv. þm., hafði sérstaka viðaukabókun við þetta álit, svohljóðandi:

„Undirritaður telur forgangsverkefni“ — hæstv. félmrh. man þetta eflaust þannig að e.t.v. þarf hún ekki að leggja við hlustir. Það er bókun Magnúsar H. Magnússonar, sérbókun vegna skýrslu milliþinganefndar um húsnæðismál: „Undirritaður telur forgangsverkefni í húsnæðismálum vera að byggja upp traustan og varanlegan fjárhagsgrundvöll húsnæðislánakerfisins, að hugmyndir um kaupleiguíbúðir komist til framkvæmda, að jafna húsnæðiskostnað þeirra sem byggðu eða keyptu íbúð 19801985. Hann vísar til tillagna Alþfl. um þessi mál.“ Undir þetta ritar Magnús H. Magnússon.

Virðulegur forseti. Ég hef talið nauðsynlegt að minna á nokkra þætti húsnæðismálanna í tengslum við þetta frv. sem átt hefur sér svo afar sérkennilega sögu í þingsölum Alþingis í þessari hv. deild á þessu þingi. Og það væri ástæða til þess að fara ofan í marga fleiri þætti þessarar sögu því að hún er svo lærdómsrík í ljósi vanefnda núv. stjórnvalda í þessum málum og aðgerðarleysis en ég ætla að geyma mér það að sinni að taka frekar á því efni, t.d. að vitna til þeirra orðaskipta sem áttu sér stað 26. okt. sl. milli hæstv. félmrh. og hv. talsmanns meiri hl. félmn. þegar frv. sem við ræðum hér var lagt fram. Auðvitað á þessi saga sér enn lengri sögu. Hún á sér m.a. sögu í kosningastefnuskrám og yfirboðum Sjálfstfl. og Framsfl. fyrir kosningarnar 1983 þegar þessir flokkar voru í kapphlaupi um að yfirbjóða í húsnæðismálunum og Sjálfstfl. bókaði í kosningastefnuskrá m.a. að þeir sem eru að eignast sína fyrstu íbúð fái 80% lán með betri kjörum en aðrir og Framsfl. gat ekki haft það minna í sinni stefnuskrá: Húsnæðislán nemi 80% af byggingarkostnaði og verði til 42 ára. Þetta lásum við í kosningastefnuskránum og þetta ómaði yfir landslýðinn fyrir kosningarnar 1983. Svo að það er ekki bara Alþfl. sem á sér sögu í þessum málum.

Hv. þm. Alexander Stefánsson var í sporum félmrh. í fyrrv. ríkisstjórn og hann var að reyna svipað og núv. hæstv. félmrh. að ná ýmsu fram í þessum málaflokki. En böksulega gekk það og meira en það. Því miður reyndist engin innstæða vera á bak við orð hæstv. þáv. félmrh. í þessum efnum í umræðu eftir umræðu, m.a. við núv. hæstv. félmrh. um þessi efni, því að loforðin sem gefin voru og það sem átti að rætast innan skamms kom ekki. Ég er ekki að segja að það hafi verið viljaleysi viðkomandi ráðherra en það var a.m.k. ekki vilji hjá þáv. ríkisstjórn frekar en það virðist vera nú til þess að taka með skilmerkilegum hætti á þessum stóra málaflokki. Samt er verið að efna í lofskrif leiðara eftir leiðara í málgagni Framsfl., Tímanum, um afrek hæstv. fyrrv. félmrh., núv. hv. þm. Alexanders Stefánssonar í húsnæðismálum, frv. sem honum var fært hér í formi samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins frá febr. 1986 en strax var byrjað að vanefna þau loforð sem þar voru gefin, svo að ekki sé nú talað um þau loforð sem voru gefin í tengslum við afgreiðslu Alþingis á því máli.

Virðulegur forseti. Vegna þess að hér þurfa vafalaust margir að ræða þetta mál miklu frekar og ítarlegar fer ég, að sinni ekki frekar yfir þennan gilda málaflokk. Ég vil t.d. ekki fara að ræða hér tillögur sem liggja fyrir frá Borgaraflokknum í þessum málum, en formaður hans mun vera hér á mælendaskrá. Þar er býsna miklu lofað, þar eru býsna mörg fyrirheit og ég efast ekkert um góðan hug þeirra Borgaraflokksmanna í sambandi við þau efni. Mér sýnist þar vera talað um 90% lánsloforð gagnvart ýmsum hópum í þjóðfélaginu. Það er vonandi að það sé áhugi hjá þeim sem standa að þeim tillöguflutningi að afla tekna með skattlagningu m. a. eða skattlagningu þarf til að hluta eins og hv. talsmaður þessara brtt. kynnti hér því að hann tók það skýrt fram að byggingarsjóð á vegum ríkisins þyrfti að varðveita og þar þyrftu að vera gildir sjóðir. Ég geri því ráð fyrir að viðkomandi hv. þm. og Borgaraflokkurinn í heild átti sig á því að það þarf að taka á honum stóra sínum eigi eitthvað af þessum hugmyndum að ganga fram sem þarna eru fram settar og ég er alls ekkert að gera lítið úr og eru fullkomlega skoðunarefni eins og allar góðar hugmyndir, allar hugmyndir um þessi mál þó að ýmsa formlega vankanta megi sjá í þessum tillögum sem þarna liggja fyrir en ég geri alls ekki hér að umræðuefni. Við erum hér fyrst og fremst að ræða málin við hæstv. núv. ríkisstjórn, við þá ráðherra sem þar standa ábyrgir og eru með loforðin á bakinu. Ég ítreka það: Ég skal með glöðu geði stuðla hér að skynsamlegum breytingum þó í litlu sé á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, en ég vona að það sé meiri hluti hér í hv. deild til þess að taka undir þá brtt. sem hv. 12. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e. standa að því að það væri glappaskot, meira en lítið, að fara að efna í þau pappírsgögn sem lagt er til að gangi út frá Húsnæðisstofnun án nokkurra tengsla við endanlega afgreiðslu mála varðandi lánsloforð.