12.12.1987
Neðri deild: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Það hefur verið kvartað undan því hér að þegar mælt var fyrir nál. meiri hl. félmn. hefði verið frekar lítið rætt um efni frv. Ég vil segja að að sjálfsögðu var það með ráðum gert. Það er búið að ræða mikið þessi mál og frv., bæði í fjölmiðlum og hér á hv. Alþingi. Þær breytingar sem þar eru eru ekki svo viðamiklar að allir hv. þm. þurfi í raun og veru miklar umræður í þingdeild til að átta sig á hvað þar er á ferð.

Ég vil bæta því við að að sjálfsögðu hefði ekki þurft að skapa svo miklar umræður og óróa utan um þetta sérstaka mál ef hæstv. ríkisstjórn og þá sérstaklega hæstv. félmrh. hefði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, sem leggja til fjármagnið, um breytingar á lögunum sem þeir gætu fallist á við þessar aðstæður. Þá hefði verið líka meira tóm til að beita kröftum á hv. Alþingi í vetur til að endurskoða húsnæðislánakerfið í heild, sem kemur fram í nál. meiri hl. félmn., og ekki þá síst að taka til sérstakrar meðferðar félagslega kerfið sem allir flokkar og allir hv. alþm. eru sammála um að þurfi vissulega að hafa forgang við þær aðstæður sem eru í okkar þjóðfélagi því ljóst er að það almenna kerfi sem byggt var upp, og ég er einn af þeim sem telja að svo hafi verið, er merkilegt framtak hjá aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórn á þeim tíma og það hækkaði lánshlutfallið, svo að ég svari hv. 2. þm. Austurl., í almennum lánum, þegar þessi lög voru sett, úr tæpum 30% í tæp 70% og lán voru lengd í allt að 40 ár.

Mér finnst ástæða til að verða við þeim tilmælum sem hér hafa komið fram um að svara nokkrum spurningum sem talið er að nefndin hafi vanrækt að útskýra. Sem betur fer er hæstv. félmrh. hér til staðar og ég ætlast til þess, og veit raunar að svo hlýtur að verða, að hæstv. félmrh. svari efnisatriðum í sambandi við tilgang og það markmið sem frv. á þskj. 47 átti að svara og átti að leysa í sambandi við þessi mál. Ég sé því ekki ástæðu til að eyða tíma í að fara efnislega yfir það frv. eða þær brtt. sem liggja fyrir á þskj. 241.

2. gr. brtt. er hér gagnrýnd, eins og hv. 12. þm. Reykv. og raunar fleiri ræðumenn hafa gert, að það skyldi fallið frá þeim megintilgangi gildandi laga að þeir sem sækja um lán í þetta nýja kerfi fengju bindandi svar þannig að þeir gætu verið öruggir með þá lánafyrirgreiðslu sem þeir eiga að fá og sem er í gildandi lögum tiltekin upphæð sem breytist í samræmi við verðlagsvísitölu. Þetta var talið ákaflega mikilvægt í þessum lögum. Stór hluti af þeim tíma, það er óhætt að upplýsa það hér, sem félmn. eyddi í þetta mál miðað við allar þær umsagnir sem um málið bárust frá aðilum vinnumarkaðarins og ýmsum fleirum, fór einmitt í það atriði á hvern hátt væri hægt að leysa þetta til að fullnægja þeirri lánatryggingu sem aðilar vinnumarkaðarins lögðu mikla áherslu á að félagar í lífeyrissjóðum gætu verið sáttir við.

Ég leyni því ekki að miðað við þá þróun sem er í þessum málum, þ.e. þann gífurlega mikla umsóknafjölda sem hefur borist Húsnæðisstofnun í sambandi við Byggingarsjóð ríkisins, er þetta vissulega áhyggjuefni og varð til þess að það þurfti að gera einhverjar breytingar til að draga úr þeirri spennu sem myndaðist þegar um 6000 aðilar bíða eftir svörum og byggja á lögum sem gera ráð fyrir að þeir fái bindandi svar sem þeir geti nýtt sér.

Niðurstaðan varð hins vegar sú að fara að óskum ríkisstjórnarinnar í þessu máli, þ.e. niðurstaða meiri hl. félmn., og í staðinn fyrir bindandi svar að gefa þá það svar, sem er á þskj. 241, að innan þriggja mánaða frá því að umsókn var lögð fram fái þeir svar um hvort þeir eigi rétt á láni eða ekki, en þá er það auðvitað synjun. Það er tekið fram í þessari grein að í svari Húsnæðisstofnunar til umsækjanda skal koma fram að lánið sé háð því að lífeyrissjóður eða sjóðir sem umsækjandi er félagi í hafi fullnægt samningi við Húsnæðisstofnun um ráðstöfunarfé til Byggingarsjóðs ríkisins. Síðan komi að endanleg svör um afgreiðslutíma láns og lánsupphæð berist eigi síðar en einu ári áður en fyrsti hluti láns kemur til afgreiðslu. Hvort þetta losar um spennu er ekki hægt að fullyrða, en hins vegar mun þetta skýra a.m.k. afgreiðslu eða skort á afgreiðslu á lánum í stofnuninni þannig að það verði hægt að fara að skrifa út lánsloforðin sem liggja í stofnuninni.

Ég vil segja í sambandi við þetta mál að ég held að það sé rétt að upplýsa það, svo að menn rugli því ekki saman, að búið er að afgreiða rúmlega 6000 umsóknir. Það er búið að gefa út bindandi lánsloforð dagsett út allt þetta ár og út allt næsta ár og til upphafs næsta árs, þ.e. 1989, þannig að allir þeir sem eru með svör í höndunum eru með lánsloforð sem er peningur fyrir þá, öryggi fyrir því að þeir geti hafið framkvæmdir sem sjálfsagt margir hafa gert. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn átti sig á því í þessu sambandi að það sem við erum að tala um eru samningar við lífeyrissjóði um að koma með fjármagn fyrir árið 1989 og árið 1990. Þessu er nauðsynlegt að menn átti sig á. Við erum hér að tala um að gefa út lánsloforð fyrir árin 1989 og 1990 og það eru samningar við lífeyrissjóði sem voru gerðir á sl. hausti sem eiga að tryggja það fjármagn. Það sem þarf að gæta að í sambandi við svona viðkvæmt mal, sem byggist á samningum aðila vinnumarkaðarins við lífeyrissjóðina, er að við gerum ekki neinar breytingar á lögunum sem geta orsakað það að viðkomandi lífeyrissjóður, sem er stjórnað af aðilum vinnumarkaðarins, kippi að sér hendinni og standi ekki við þá samninga sem heildarsamtökin gerðu við ríkisstjórn á sl. hausti. Þetta er hættuatriði í þessu og þess vegna kemur fram í nál. meiri hl. félmn. að við höfum áhyggjur af þessari þróun. Þá get ég svarað um leið þeirri fyrirspurn sem hingað var beint um skort á upplýsingum um stöðu þessara mála í dag.

Ég hef hér bréf frá Húsnæðisstofnun frá því um síðustu mánaðamót og þar kemur í ljós að af lífeyrissjóðum landsins sem undirrita samninga um skuldabréfakaup fyrir árin 1989 og 1990 voru aðeins sextán lífeyrissjóðir búnir að undirrita skuldbindingar fyrir árið 1989 og árið 1990. En aðeins sex eingöngu fyrir árið 1989. Nú kann eitthvað að hafa bæst við á þessum tíma, þ.e. frá síðustu mánaðamótum, a.m.k. vona ég það, en ég hef ekki í höndunum nákvæmar upplýsingar um það. Það sem við erum að tala um er að þetta kerfi byggir á þessu fjármagni. Nær einvörðungu. Það vita hv. þm. sem þekkja þetta mál alveg inn og út eins og eðlilegt er.

Það væri kannski eðlilegt að upplýsa það í leiðinni að miðað við þann heildarumsóknafjölda sem lá fyrir 1. des. sl., þá hafa sótt um lán hjá stofnuninni frá 1. sept. 1986 til 1. des. 1987 11 756 aðilar. Af þeim hefur 581 verið synjað en fjöldi útgefinna lána sem eru fullgild og dagsett hvenær verða greidd, sem er alveg 100% öruggt eða hefur verið til þessa, er 5942. Fjárhæðin á þessu ári er 3,5 milljarðar kr. í þessi lán. Fjárhæðin á næsta ári er 5 milljarðar 35 milljónir og fjárhæðin 1989, þ.e. síðari hluti þessara lána, er 484 millj. kr. eða samtals um 9 milljarðar sem er búið að skuldbinda sjóðina við miðað við þá samninga sem lífeyrissjóðirnir allir hafa skuldbundið sig til og skrifað undir. Ég held að það sé nauðsynlegt að undirstrika þetta hér svo menn séu ekki alltaf að rugla því saman að við erum einvörðungu að tala um leiðréttingar eða lagfæringar á húsnæðislánakerfinu sem við búum við til þess að búa í haginn fyrir þá sem eiga að fá bindandi lánsloforð fyrir árið 1989 og 1990.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, 2. þm. Austurl., gerði mikið mál út af orðalagi á þessu nál. og ég ætla ekkert að fara að ræða það. En ég vil aðeins segja við hann í sambandi við það ákvæði sem hann sérstaklega vildi leggja áherslu á og var í sambandi við útgáfu reglugerða að auðvitað er það alveg hárrétt að við öll svona lög, ekki síst lög sem er kannski hægt að misskilja eða mistúlka, eiga reglugerðir að fylgja með viðkomandi frv. í meðferð þeirra nefnda sem um þau eiga að fjalla, þannig að hægt sé að gera sér fulla grein fyrir því hvernig stjórnvöld á hverjum tíma, þegar um stjfrv. er að ræða, hugsa sér að framkvæmdin fari fram. Ég verð að viðurkenna það hér og nú að það er galli á þessari afgreiðslu að slíkt skuli ekki vera fyrir hendi. En því miður tókst nefndinni ekki að fá fram nægjanlegar upplýsingar um það hvernig ríkisstjórn eða hæstv. félmrh. hyggst framfylgja þessu atriði. Þetta náðist ekki fram. Þess vegna þótti okkur nefndarmönnum ástæða til að setja í nál. þessa setningu, sem verið var að hártoga orðalagið á, þ.e.:

„Meiri hl. nefndarinnar leggur áherslu á að reglugerðir um framkvæmd þessarar lagabreytingar verði gefnar út jafnskjótt og auðið er“ — það er kannski heldur vægt, það má vel vera — „eftir að lög þessi hafa verið samþykkt.“

Ég tel að þetta sé undirstrikun á því sem hér hefur verið nefnt. Og ég tek undir það með hv. þm. að þetta er eitt af þeim atriðum sem Alþingi þarf í raun og veru að ganga miklu harðar eftir í sambandi við hin ýmsu lög, mikilvægu lög, sem Alþingi samþykkir, að vitað sé hvernig stjórnvöld í hverju tilfelli hugsa sér að framfylgja þessum lögum. Ég get bætt því við að þegar núgildandi lög um Húsnæðisstofnun ríkisins voru samþykkt þá var nefndinni, sem samdi það frv. undir forustu hagsýslustjóra, jafnhliða falið ásamt fulltrúum Húsnæðisstofnunar og félmrn. að ganga frá reglugerðinni í beinu samræmi við það sem lögin gáfu tilefni til. Það var gert og það hefur enginn gagnrýnt þá reglugerð.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða meira um þetta mál. Ég vísa rökstuðningi og því sem er reiknað með að ná fram með þessari lagasetningu sem hér er á ferð til hæstv. félmrh. og efast ekkert um að hæstv. ráðherra muni greina frá því. Það er rétt að nefndin taldi ástæðu til að gera brtt. við allar greinar frv. Það var af því að það voru ýmsir efnis- og áhersluþættir sem nefndin taldi ástæðu til að gera á þennan veg þar sem augljósir ágallar voru á frv. hæstv. ráðherra.

Í sambandi við vextina, af því að það hefur verið spurt um þá, þá vil ég segja að það var strax vitað að aðilar vinnumarkaðarins voru tortryggnir á þessa grein frv. og voru eindregið andvígir því að þetta ákvæði væri í frv. Og eins og kom fram við 1. umr. málsins hér á hv. Alþingi þá lýsti hæstv. félmrh. því yfir að til greina kæmi að taka þetta ákvæði til endurskoðunar. Niðurstaðan varð sú að nefndin ákvað að fella þetta niður og vísar þar í 30. gr. núgildandi laga, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins skulu vera breytilegir. Ríkisstjórn Íslands tekur ákvörðun um vexti af hverjum lánaflokki á hverjum tíma að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og umsögn Seðlabankans“ o.s.frv. eins og þar stendur. Þannig að þetta er í gildandi lögum og engin sérstök ástæða til að fara að hnýta þessa breytingu saman við þessar lagfæringar sem verið er að gera á núgildandi lögum.

Ég vil undirstrika það sem kemur fram í nál. meiri hl. félmn. að það er sammála álit að ekki sé verið að gera grundvallarbreytingar á húsnæðislánakerfi því sem komið var á vorið 1986 í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki verið að gera með þessum breytingum. Það sem við leggjum áherslu á er að hafist verði handa um að endurskoða húsnæðislánakerfið miðað við þær aðstæður sem hér hafa komið fram í þeirri gagnrýni sem hefur verið á þetta kerfi, og ýmsar ábendingar skynsamlegar sem hafa komið fram um þetta mál í þjóðfélaginu í öllum umræðunum, sem sjálfsagt er að skoða.

Og þá kem ég að því að svara aðeins vini mínum Albert Guðmundssyni, hv. 5. þm. Reykv., og þeim þm. Borgarafl. sem hafa lagt fram viðamikið frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég hélt nú satt að segja að það hefði verið miklu skynsamlegri aðferð að taka þetta frv. til meðferðar hér á hv. Alþingi sem sjálfstætt frv. og ræða það í botn með kostum þess og göllum, en ekki vera að blanda því saman sem brtt. við þetta litla frv. hér sem er aðeins lagfæring á kerfinu.

Í þessum önnum sem hér eru nú er óskynsamlegt finnst mér að fara að kryfja það til mergjar, sem þó er sjálfsagður hlutur því þetta er merkilegt frv. í alla staði. Það er margt í því sem ég gæti vel fallist á að láta skoða vel og vandlega því að ég hef sjálfur verið með þá hugmynd lengi að við ættum að skoða hugmyndina um húsnæðisbanka og allt það fjármagn sem lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er með í dag og kemur til með að margfaldast á næstu árum. Það hefði sannarlega verið ástæða til að skoða það hvort ekki væri hægt að búa til öflugan húsnæðisbanka út úr öllu saman. En það er bara seinnitímamál sem sjálfsagt er að skoða nánar við umfjöllun um svona stórt mál.

Ég vil svo aðeins svara hv. 5. þm. Reykv. að lokum. Auðvitað erum við sammála við hv. 5. þm. Reykv., og höfum verið það lengi, um að sú lánskjaravísitala sem við búum við væri meingölluð. Það er eðli hennar, hvernig sem menn tala um hana, að hún mælir alltaf á undan öllu öðru þær breytingar sem eru í efnahagskerfi þjóðarinnar. Það virðist vera óskráð lögmál. Ég ætla ekki að ræða um hana að öðru leyti en ég vil bara benda á að það hlýtur að vera eitthvað skrýtið við þetta kerfi hjá okkur að ef tóbak og brennivín hækkar eða kaffi hækkar frá Brasilíu þá skuli lánskjaravísitala þjóta upp og koma í hausinn á saklausum lántakendum hér, saklausu fólki sem býr við það að þurfa að greiða lán eftir svona breytingar. Þetta er augljóst mál og við höfum rætt þetta áður bæði í fyrrv. ríkisstjórn og síðar. Ég tek heils hugar undir það að við skulum sameinast um það að vita hvort ekki eru komin tímamót um það að taka þetta mál til rækilegrar skoðunar.

Mín skoðun er sú að ég tel að hv. þm. Borgarafl. ættu að draga þessa brtt. sína til baka en ræða hana sem sjálfstætt frv. hér á þinginu. Þá gæti hún haft bein áhrif á þá heildarendurskoðun á húsnæðiskerfinu sem flestir eru sammála um að þurfi að gera þó að menn hafi mismunandi áherslur fram að færa um það hvað eigi að leggja áherslu á en allir eru sammála um félagslega kerfið.