14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

1. mál, fjárlög 1988

Pálmi Jónsson:

Virðulegi forseti. Í upphafi þessarar umræðu gerði hv. 5. þm. Vestf., formaður fjvn., ítarlega grein fyrir því starfi sem unnið hefur verið af hálfu fjvn. síðustu vikur og, mánuði. Hann gerði einnig glögga grein fyrir áliti nefndarinnar og brtt. sem birtar eru á meðfylgjandi þingskjölum. Ég mun ekki fara ítarlega út í þessi efni enda ekki tilefni til. Mig langar þó eins og aðrir nefndarmenn sem hér hafa falað að flytja þakkir fyrir ágætt samstarf innan nefndarinnar, bæði til formanns nefndarinnar og eins einstakra nefndarmanna og það ekki síður til fulltrúa stjórnarandstöðunnar heldur en til fulltrúa stjórnarliða. Þetta samstarf er ákaflega mikilvægt því að starf nefndarinnar er það viðamikið að það yrði trauðla unnið ef ekki tekst að viðhalda því góða samstarfi sem jafnan hefur verið. Ég ítreka þær þakkir sem hafa þegar verið fluttar til starfsmanns nefndarinnar, Ásdísar Sigurjónsdóttur, og starfsliðs Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, en jafnframt fagna ég því að eftir að Ríkisendurskoðun var færð undir Alþingi hefur tekist um það samkomulag að vararíkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, starfaði með nefndinni og hefur það starf verið nefndinni ákaflega mikilvægt. Ég vænti mikils af því að þetta samstarf haldi áfram og að það muni létta störf fjvn. í framtíðinni og geta stuðlað að því að hún verði betur fær til þess að ráða við það viðfangsefni að annast raunveruleg hagsýsluverkefni á milli þinga.

Með fjárlagafrv. því sem hér er til 2. umr. er að því stefnt að afgreiða fjárlög fyrir næsta ár án rekstrarhalla. Þetta er meginmarkmið fjárlagafrv. og við það markmið höfum við reynt að miða okkar vinnu sem störfum á vegum ríkisstjórnarflokkanna í fjvn. Ég tel að það sé rétt mat hjá formanni nefndarinnar að miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir um þjóðhagshorfur sé þetta markmið nú enn brýnna en þegar frv. var lagt fram. Það er á hinn bóginn ekki með neinni fullri vissu hægt að segja fyrir um það hvort þetta markmið næst fyrr en fjárlög hafa verið afgreidd. Að mínum dómi er ótímabært að segja fyrir um það á þessari stundu hverjar niðurstöður fjárlaga verða eða spá um það hvort þetta markmið næst en að því munum við að sjálfsögðu stefna. Þó að hér hafi til að mynda hv. þm. Margrét Frímannsdóttir dáðst að okkur fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í fjvn. fyrir að vinna okkar verk þrátt fyrir þá aðstöðu sem hún telur okkur búa við er þessi aðstaða nú síst verri en oft hefur áður verið hjá fulltrúum stjórnarliðs í fjvn. Að þessu sinni liggja fyrir grófar upplýsingar um þjóðhagshorfur frá Þjóðhagsstofnun og breytingar á þjóðhagshorfum eins og formaður fjvn. hefur rakið. Að þessu sinni liggja líka fyrir breytingar á þjóðhagshorfum eins og formaður fjvn. hefur hér rakið. Að þessu sinni liggja líka fyrir, sem oft hefur ekki verið, lauslegar upplýsingar og lauslegir útreikningar um hvað tekjuhlið fjárlaga muni gefa miðað við þá tekjustofna sem nú eru í gildandi lögum og miðað við þær skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin hefur nú á prjónunum og verða væntanlega afgreiddar fyrir jólaleyfi þm. Þessar upplýsingar gefa því meiri vísbendingar nú en oft hefur áður verið við þessa umræðu. Því má líka bæta við að oft hefur staðan verið sú að við 2. umr. fjárlagafrv. hefur átt eftir að vinna upp nýjar verðlags- og launaforsendur frá því að frv. var lagt fram. Til að mynda við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár voru reiknaðar upp á milli 2. og 3. umr. nýjar verðlagsforsendur og nýjar launaforsendur sem tóku gildi þegar fjárlög voru endanlega afgreidd við 3. umr.

Ég mun ekki rekja þessar þjóðhagshorfur enda var það gert að nokkru af hálfu formanns nefndarinnar. Þær sýna þó versnandi stöðu miðað við það sem gert var ráð fyrir í þjóðhagsspá á haustdögum með versnandi viðskiptakjörum, stöðvun eða samdrætti þjóðartekna a næsta ári og að efnahagskerfið búi yfir tilhneigingu til aukinnar veltu sem muni þýða vaxandi viðskiptahalla og skuldasöfnun erlendis. Jafnframt að hagvaxtarskeiðið hafi a.m.k. hægt á sér eða jafnvel stöðvast. Það mun verða rætt frekar við 3. umr. hvernig áhrif þessara horfa koma fram í þjóðarbúskapnum og þá um leið í ríkisbúskapnum miðað við þær afgreiðslur sem við munum þá taka ákvarðanir um á hinu háa Alþingi.

Ég vil þó geta þess að þrátt fyrir að við þessa umræðu verði tekjuhlið fjárlagafrv. ekki tekin til afgreiðslu og þrátt fyrir að lauslegir útreikningar, sem eru í endurskoðun, hafi verið lagðir fram í fjvn. af hálfu Þjóðhagsstofnunar koma fram í nál. minni hl. fjvn. á þskj. 260 yfirlýsingar um skattamál sem tæplega fá staðist. Ég mun ekki rekja það nákvæmlega sem þó var gert í ræðu formanns nefndarinnar, en niðurstöður í áætluðum nýjum sköttum ríkisstjórnarflokkanna á næsta ári, sem fulltrúar minni hl. birta í þskj., segja að hér sé um að ræða í það heila tekið 8 milljarða 750 millj. kr. Þetta hygg ég að sé verulega oftalið. Miðað við þær forsendur sem ég hef séð og þá útreikninga sem fyrir mig hafa verið lagðir munu þessar tölur vera ofáætlaðar um a.m.k. 2 milljarða 750 millj. kr. Vera má að fulltrúar minni hl. hafi ekki tekið eftir því að hér er að hluta til um að ræða að ívilnun er á öðrum sviðum í tekjuöflunarkerfi ríkisins þó að annars staðar komi hækkanir á móti. Þetta liggur að sjálfsögðu allt mun betur fyrir þegar mál þetta kemur til 3. umr. og ég mun ekki fara ofan í það nánar hér. Það bíður síns tíma.

Í till. fjvn., sem nefndin stendur öll að, er gert ráð fyrir að útgjöld skv. 4. gr. frv. aukist um rúmlega 1 milljarð kr. Þetta er gert þrátt fyrir að við leitumst við að stefna að því markmiði, sem ríkisstjórnin hefur sett og stjórnarflokkarnir, að ná hallalausum rekstri á fjárlögum næsta árs. Fjárlagafrv. er að mínum dómi á þann máta í grófum dráttum úr garði gert að þar er býsna raunhæft áætlað eða rýmilega séð fyrir margháttuðum rekstrarliðum stofnana ríkisins og að þessu sinni hefur mun minna þurft að sinna hækkunarbeiðnum til rekstrar en oft hefur áður verið þó, sem eðlilegt má telja, að leiðréttingar geti verið á ýmsum liðum, svo sem hér hefur verið rakið og rækilega skýrt af formanni nefndarinnar, og það er ekkert nýtt. Á hinn bóginn ber frv. með sér að þar er fremur þrengt að framlögum til atvinnuvega og fjárfestingarliðir frv. eru naumar skammtaðir en ýmsir a.m.k. telja æskilegt. Þetta eru meginútlínur í frv. auk ýmissa kerfisbreytinga sem það byggir á og gerð hefur verið grein fyrir. Það er því í till. fjvn. tiltölulega lítið sem gerðar eru tillögur um að hækka rekstrarliði frv.

Á hinn bóginn vega þyngst í útgjaldaliðum t.a.m. liðlega 300 millj. kr. til landbúnaðarmála sem kemur til fjvn. sem samþykkt ríkisstjórnar. Það er óhætt að segja að meðferð á landbrn. sé með nokkuð óvenjulegum hætti í fjárlagafrv. og í þessari fjárlagavinnu og ég læt það koma fram sem mína skoðun að það vinnulag sé ekki til eftirbreytni. Ég tel að það eigi að vera hlutverk ráðherra í ríkisstjórn, hverjir sem hana skipa hverju sinni, að koma saman fjárlagafrv. sem ríkisstjórn í meginatriðum stendur að þótt það sé ekki neitt einsdæmi að fyrirvarar einstakra ráðherra séu við einstaka liði. En það er óvenjulegt og ekki til eftirbreytni að mínum dómi að í heilum málaflokki sé útgjaldaliðum á vegum eins ráðuneytis vísað til meðferðar Alþingis þannig að sá ráðherra sem þar stendur að hafi þar algeran fyrirvara um. Ef þetta vinnulag ætti að taka upp í fleiri ráðuneytum eða í önnur skipti mundi það án efa torvelda og þyngja mjög þá vinnu sem þarf að leggja í af hálfu Alþingis varðandi fjárlagagerðina og við því er ég að vara með þessum orðum.

Ég held að ég muni ekki fjalla í einstökum liðum um t.a.m. þennan málaflokk, það sem er á vegum landbrn., það mun væntanlega verða gert síðar, en ég læt það einnig koma fram að við í meiri hl. fjvn. teljum okkur hafa tryggingu fyrir því að staðið verði við þær yfirlýsingar og þá samninga sem gerðir hafa verið við einstaka bændur um bætur á þessu ári og það er nauðsynlegt vinnulag þrátt fyrir að tillögur sem byggt var á í þessum 300 millj. gæfu það ekki að fullu til kynna. Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt og við teljum okkur hafa tryggingu fyrir þessu á þessu ári og vonandi verður á þann máta einnig staðið að verki á hinu næsta.

Ég ætla í örfáum orðum að víkja að fjárfestingarliðum. Það er vitaskuld svo að löngum er þannig staðið að afgreiðslu fjárlaga að þm. kjósa að geta varið meira fé til fjárfestingarliða en svigrúm fjárlagadæmisins getur rúmað. Að þessu sinni stöndum við vitaskuld frammi fyrir því að í sumum fjárfestingarþáttum höfum við haldið svo spart á málum í mörg ár að vandi hefur hlaðist upp. Þessi vandi hittir okkur nú og mun hitta okkur á næstu árum.

Þetta á kannski ekki hvað síst við í hafnamálum, en í tvö ár voru að kalla felld niður framlög til hafnaframkvæmda sem voru þá aðeins örfáir tugir milljóna hvort árið um sig. Þetta kemur fram í því að við þurftum að bæta verulega úr í þessum lið á síðasta ári og enn meira nú að dómi okkar í meiri hl. fjvn., enda höfum við þar gert tillögur um verulega hækkun eða úr 250 millj. kr. upp í 398,5 millj. kr. Ef fylgt hefði verið hafnaáætlun, sem lögð var fyrir síðasta Alþingi, og nokkrum allra brýnustu úrbótum öðrum, sem til hafa komið síðan sú áætlunartillaga var lögð fram, hefði þurft 650 millj. kr. þannig að það er langt í frá, þrátt fyrir þá hækkun sem hér er gerð tillaga um, að þessum verkefnum sé sinnt eins og hafnaáætlunin gerði ráð fyrir. En við leitumst við að sigla þann meðalveg í þessum tillögum að geta staðið sæmilega að málum í verklegum efnum og flytja tillögur sem Alþingi sættir sig við að standa að en missa þó ekki sjónar af því heildarmarkmiði að ná fram afgreiðslu á fjárlögum án þess að um rekstrarhalla verði að ræða.

Þá vil ég geta þess í sambandi við fjárfestingarliði, sem fram kom einnig hjá formanni nefndarinnar, að til vegamála er gerð tillaga um að hækka liðinn í 50 millj. kr. sem skýrist af því að þá renni markaðir tekjustofnar af bensíngjaldi og þungaskatti til vegamála eins og gert er ráð fyrir í lögum, en önnur framlög til vegamála af hálfu ríkisins verða ekki. Ég tel afar nauðsynlegt að við þessi lög verði staðið og ég fagna því að við mælum hér fyrir till. sem staðfestir þessa reglu sem er í samræmi við fyrri yfirlýsingar, t.a.m. mínar sem fyrrv. formanns fjvn.

Ég lét þess getið við 1. umr. að þær breytingar sem ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar hafa á prjónunum um tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga væru spor í rétta átt. En ég hafði þá þegar fyrirvara varðandi það að við mundum vilja sjá á hvern máta fyrir hagsmunum hinna smærri aðila í þessum efnum, sveitarfélaga, yrði séð og ekki síst hvernig tryggðir yrðu hagsmunir einkaaðila sem hafa sinnt framkvæmdum á sviði íþróttamála, en það væru aðilar sem oft og tíðum væru óskyldir sveitarfélögunum. Það hefur orðið niðurstaðan, þó að um það sé ekki brtt. hér, að á fjárlögum verði áfram veitt sérstöku fé til framkvæmda í íþróttamálum, framkvæmda sem eru á vegum einkaaðila og félaga sem ekki eru beint í tengslum við sveitarfélögin. Þetta tel ég mikilvægt og ég tel afar mikilvægt að Alþingi haldi áfram að styðja hin frjálsu félagasamtök á sviði æskulýðs- og íþróttamála vegna þess hversu gífurlega mikilvægt starf er unnið á vegum þessara samtaka.

Ég er þó ekki að mæla með því að þessi samtök og gildi íþrótta sé sett undir einhverja rannsóknarnefnd svo sem ég sá í einhverju þskj. að gerðar hafa verið tillögur um á hinu háa Alþingi. Ég held að Alþingi geri sér grein fyrir gildi og þýðingu þessarar starfsemi og mikilvægi þessa malaflokks og að styðja einmitt hina frjálsu félagastarfsemi án þess að til þess þurfi einhverja sérstaka rannsókn. Og það er vissa fyrir því að þeir fjármunir, sem til þessa málaflokks renna, spara okkur ómælda fjármuni á öðrum sviðum á margan máta, bæði að því er varðar heilbrigðismál og uppeldi þjóðarinnar í víðara samhengi.

Herra forseti. Ég skal ekki grípa á mörgum fleiri atriðum. Ég sé þó að fluttar eru brtt. á þskj. 263 og 264 af tveimur hv. fulltrúum minni hl. í fjvn. við 4. gr. um ýmis verkefni í verklegum framkvæmdum. Ég vil láta þess getið í sambandi við þessa tillögugerð að fjvn. og þar á meðal minni hl. hefur haft gott samstarf um þær tillögur sem nefndin flytur. Að sjálfsögðu hefur minni hl. fyrirvara eins og jafnan hefur verið áður. En það er frekar óvenjulegt, held ég, að þeir fjárveitinganefndarmenn sem þannig hafa staðið að samstarfi um skiptingu fjár til verklegra framkvæmda flytji síðan brtt. um einstök verk. Auðvitað hafa þeir til þess rétt, en ég minnist þess ekki t.a.m. að sá þm. sem lengst hefur setið allra þm. í fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, hafi látið það eftir sér að flytja slíkar tillögur. Þetta finnst mér heldur miður í vinnulagi, enda þótt að sjálfsögðu hafi þessir ágætu þm. til þess fullan rétt að halda þannig á málum úr því að þeir sjálfir kjósa.

Ég vil að lokum segja að Alþingi afgreiðir að sjálfsögðu fjárlög við 3. umr. og það er hlutverk fjvn. að undirbúa þá afgreiðslu. Meðan þessi viðamikla vinna stendur yfir í fjvn. hefur jafnan verið leitast við að halda góðu sambandi á milli meiri hl. fjvn. og hæstv. ríkisstjórnar og þó einkum fjmrh. Svo hefur einnig verið haldið á málum að þessu sinni. En vegna yfirlýsinga, sem birst hafa í fjölmiðlum, þykir mér rétt að leggja á það áherslu að fjvn. eða meiri hl. hennar ræður sinni tillögugerð til Alþingis. Það er því ekki hlutverk annarra aðila, jafnvel ekki hæstv. fjmrh., að segja fyrir um niðurstöðu fjárlaga eða að fjvn. geti skipt einhverri tiltekinni fjárhæð hverju sinni áður en fjvn. skilar sínu verki. Þetta er hlutverk fjvn. og allar yfirlýsingar um þetta efni eru einnig að mínum dómi ótímabærar áður en tillögur fjvn. koma fram á hinu háa Alþingi.