14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

1. mál, fjárlög 1988

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls þakka samstarfsfólki í fjvn. fyrir gott samstarf á liðnum vikum. Sérstaklega vil ég þakka formanni, Sighvati Björgvinssyni, fyrir góða stjórn og góð samskipti. Þá vil ég ekki láta hjá líða að þakka ritara, Ásdísi Sigurjónsdóttur, fyrir dugnað, samviskusemi og einstaklega mikla lipurð við störf sín, svo og öllu starfsfólki í Þórshamri.

Þegar frv. til fjárlaga var lagt fram í byrjun þings höfðu margir, þar á meðal við kvennalistakonur, uppi efasemdir um að forsendur þessa frv. stæðust og nú er sýnt að allt er komið úr böndunum.

Já, við kvennalistakonur höfðum efasemdir um að forsendur frv. stæðust, enda er nú ljóst að þær hafa gjörbreyst bæði á tekju- og gjaldahlið og ekkert bendir til annars en þær gætu tekið eina kollsteypuna enn áður en 3. umr. fer fram. Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir frá Þjóðhagsstofnun um efnahagshorfur fyrir árið 1988 gefa enga sérstaka ástæðu til bjartsýni, auk þess sem óvissa ríkir um ýmsa mikilvæga þætti, svo sem væntanlegt aflamagn. Viðskiptakjör hafa farið versnandi í kjölfar gengislækkunar bandaríkjadollars og horfur eru á að þau versni enn á næsta ári. Mikil óvissa er um verð sjávarafurða, sem eru langstærsti þáttur í útflutningsverðmæti okkar, álverð hefur lækkað á heimsmarkaði, en álútflutningur einn sér nemur 10–12% af útflutningstekjum okkar.

Í þeirri áætlun sem fjárlagafrv. byggir á var gert ráð fyrir að viðskiptakjör héldust óbreytt milli áranna 1987 og 1988. Nú er sýnt að þau verða lakari. Viðskiptahalli er nú tvöfalt meiri en spáð var og útlit fyrir að hann tvöfaldist enn á næsta ári og þar sem reiknað er með að innflutningur aukist enn en útflutningstekjur dragist saman blasir við að sú forsenda, sem gefin var í fjárlagafrv., að halli á viðskiptum við útlönd yrði innan við 2% af landsframleiðslu, er farin veg allrar veraldar.

Ekki var samkomulag um gjaldahlið frv. innan ríkisstjórnarinnar, hvað þá að aðrir gætu sætt sig við þann samdrátt sem þar var boðaður. Hún hefur því tekið umtalsverðum breytingum og alls kyns gloppur myndast sem fylla varð með nýjum framlögum. Þær leiðir sem hæstv. fjmrh. hefur valið til tekjuöflunar til að fylla í þessar gloppur eru svo kapítuli út af fyrir sig og ef einhver hefur haldið að þar væri boðberi jafnaðarstefnunnar á ferð held ég að sá hinn sami ætti að hugsa málið betur. Sú leiðin var valin sem greiðust var og fljótförnust, beint í vasa almennings. Söluskatturinn ákvarðaður 25% á línuna. Ég hygg að þessi ákvörðun hafi verkað sem löðrungur í andlit landsmanna. Mánuðum saman hefur áætlunin um breikkaðan söluskattsstofn verið réttlætt af hálfu hæstv. fjmrh. með því að þá yrði söluskattsprósentan jafnframt lækkuð. Ýmsar tölur hafa verið hafðar eftir honum í því sambandi, 12%, 18% eða 20%, en nú reið höggið, 25% á flestallar neysluvörur. Þar af er matarskatturinn einn 5 milljarðar og 750 millj., gjöld sem leggjast á almenning umfram það sem áður hefur verið. Hefur nokkru sinni fyrr verið seilst svo djúpt í vasa landsmanna?

Jafnframt því sem söluskatturinn er ákveðinn 25% er boðaður 22% virðisaukaskattur um áramót 1988–1989. Ég vil í því sambandi minna hæstv. fjmrh. á orð sem hann lét falla hér í ræðustól fyrir ári. Þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég minntist áðan á virðisaukaskattinn og vara við því að þegar hann verður tekinn upp hafi stjórnvöld' ríkt aðhald þegar prósentan verði lækkuð og sjái um að hún verði í rauninni lækkuð nægilega mikið og freistingin ekki notuð til að auka skattheimtuna verulega.“

Ég minni hér á þetta vegna þess að í ljósi þess hvernig vinnubrögðin hafa verið við breytingu söluskattsins má búast við hverju sem er af hæstv. ríkisstjórn í sambandi við væntanlegan virðisaukaskatt ef henni þá endist örendið fram að öðrum áramótum héðan í frá.

Þegar svo litið er á þessa einföldu og skilvirku fjáröflunarleið hæstv. fjmrh. er ekki úr vegi að minna á hve oft hann hefur hamrað á að skattleggja beri hátekjur og stóreignamenn og uppræta skattsvik og boðað aðgerðir flokks síns í þeim efnum. Að vísu má búast við að söluskatturinn skili sér betur eftir að undanþágur eru felldar niður, en það réttlætir hins vegar engan veginn þá verðlagshækkun sem hann veldur og hvernig á að efna stóru orðin um að ná til þess fjármagns sem skotið er undan skatti? Það hefur þó verið áhugamál hæstv. fjmrh. um árabil. Hvar sést að taka eigi á þeim málum?

Hlutfall skatttekna af vergri landsframleiðslu verður hærra á næsta ári en verið hefur á síðustu áratugum og tekjuskattur sem hlutfall af launum greiðsluárs hækkar um 25%. Sömuleiðis munu útsvör hækka um 7–9%. Því má búast við að kaupmáttur launa rýrni á næsta ári og ráðstöfunartekjur heimilanna dragist verulega saman.

Ég vil enn benda á það ósamræmi sem er á markmiðum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar þar sem eitt meginmarkmið hennar er að draga úr verðbólgu en flestar aðgerðirnar eru verðbólguhvetjandi.

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar með hækkun vaxta virðast ekki enn hafa orðið til að minnka ásókn í lánsfé. Því hljóta þessir háu vextir að blása að verðbólgubálinu og aldrei hefur sannast að háir vextir leiddu til sparnaðar. Missi hæstv. ríkisstjórn tök á verðbólgunni er fjárlagafrv. orðið einskis nýtt.

Kvennalistakonur gera sér ljóst ekki síður en aðrir að afla verður tekna til að halda uppi nauðsynlegum rekstri og framkvæmdum. En við viljum fara aðrar leiðir til þess en farnar eru í þessu frv. Við viljum ná tekjunum þar sem þær eru mestar fyrir. Við viljum skattleggja vaxtatekjur, skattleggja hæstu tekjur umfram aðrar, hækka skatta á stóreignir og sækja fé til fyrirtækja, einkum í verslun og viðskiptum, sem mörg hver greiða óeðlilega lítið til samfélagsins þrátt fyrir gróðann í góðærinu. Og fyrst og fremst hefðum við viljað gera átak til þess að ná einhverju af milljörðunum sem hingað til hafa laumast fram hjá skattkerfinu beint út í neyslu og fjárfestingu og gert sitt til að auka á þensluna í þjóðfélaginu.

Við höfum harðlega mótmælt matarskattinum frá því hann fyrst kom til tals og ítrekum það enn. Þótt innheimta hans kunni að vera skilvirk þá er fjarri því að hann sé réttlátur. Hann leggst þyngst á barnmargar fjölskyldur og þá sem minnst hafa og fyrirheit ríkisstjórnarinnar um hækkaðan persónuafslátt og auknar barnabætur koma ekki ellilífeyrisþegum og öryrkjum að haldi og aldeilis furðulegt að svokallaðir jafnaðarmenn skuli hafa í frammi þvílíkar aðgerðir.

Svo sem rakið hefur verið á undan er tekjuhlið frv. komin nokkuð langt frá sínu upphaflega formi. Sama má segja um gjaldahliðina. Þar hafa orðið verulegar breytingar. Umtalsverð hækkun varð á framlögum til hafna, enda bágt að sjá hvernig nokkrum gat til hugar komið að hægt væri að sættast á þann lið eins og hann upphaflega var í frv. Hafnir landsins eru yfirleitt í því ásigkomulagi að við, sem eigum allt okkar undir fiskveiðum og flutningum á sjó, ættum að fyrirverða okkur. Um hafnir er oft talað í fjálglegum tón. Þær eru hjarta byggðarlagsins og slagæð atvinnulífsins. Því verður að sjá til þess að blóðið geti runnið um þessi mikilsverðu líffæri, annars er dauðinn vís. Undanfarin ár hafa framlög til hafna verið svo naum að stórátak þarf að koma til ef þær yfirleitt eiga að geta verið í því lagi sem verður að gera kröfu til að sé. Hafnamálastofnun hefur gert áætlun um uppbyggingu hafnanna og í framtíðinni verður að taka mið af því við fjárveitingar.

Mér verður tíðrætt um hafnirnar og ekki að ástæðulausu. Mér finnst of oft gleymast hvað það er sem gerir það að við getum yfirleitt lifað í þessu landi. Hingað til hefur undirstaðan í þjóðarbúskapnum verið fiskurinn í sjónum, og svo mun verða enn um hríð þó að fleira verði að koma til. Það gleymist líka stundum hverjir aðallega starfa að þessum atvinnuvegi og hvar. Það er fólkið á landsbyggðinni sem leggur þar fram drýgsta skerfinn, fólkið sem nú stendur höllum fæti atvinnulega séð og ber kvíða í brjósti vegna óvissu í efnahagsmálum, óvissu um fiskveiðistefnu og óvissu um sinn hag. Því vil ég minna hæstv. fjmrh. á að fyrir réttum 14 mánuðum stóð hann í þessum ræðustól og kynnti stefnu flokks síns, sennilega með væntanlega kosningabaráttu í huga. Þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta „að Alþfl. hefði tillögur um nýja atvinnustefnu bæði í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskvinnslu með nýja sókn í atvinnumálum landsbyggðarinnar að leiðarljósi.“

Ég vil leyfa mér að lýsa eftir þessari nýju atvinnustefnu hæstv. fjmrh. Ég sé hvergi örla á henni. Landbúnaðinum hefur nú verið lagt til meira fé en áformað var í upphafi, en spurning er um hvort allir eru sáttir við þær áherslur sem þar koma fram. Ég bendi þó á að þó að bætt hafi verið 8 millj. við Rannsóknastofnun landbúnaðarins dugar það engan veginn til að halda uppi eðlilegri starfsemi þeirra sex tilraunastöðva sem fyrirhugað var að leggja niður. Ég ítreka því enn að nú, þegar landbúnaðurinn á í þeim þrengingum sem allir vita, eru rannsóknir og tilraunastarfsemi sú sem farið hefur fram á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins lífsnauðsyn og ætti að vera algert forgangsverkefni. Vera má að þar þurfi að koma til endurskipulagning og hagræðing, en ekki síst vegna nýbúgreina og breytinga á búháttum er starfið nauðsyn.

Framlög til skólamannvirkja hækkuðu verulega og ber að fagna því, og vissulega hafa fjölmargir liðir verið færðir til betri vegar í meðferð fjvn. frá því sem upphaflega var ákveðið. En óneitanlega hefur það oft komið býsna flatt upp á nefndarmenn, svo ekki sé fastar að orðið kveðið, þegar ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar um tekjuöflun, breytingar og hækkanir á gjaldaliðum hafa birst í fjölmiðlum áður en þm. og fjvn. hafa litið þær augum. Ég held að þetta séu mjög óvenjuleg vinnubrögð og virðingarleysi í garð Alþingis.

Þó að ekki verði fjallað um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga við þessa umræðu verð ég að minna á það að þó að sveitarfélög vilji takast á hendur þau verkefni sem standa þeim næst þá er vandi að standa að þeim málum. Skuldastaða ríkisins vegna dagvistarheimila, sem þegar hafa verið byggð, var í júlí sl. 83,6 millj. kr. og vegna þeirra sem enn voru þá í byggingu í júlí 35,8 millj. kr., samtals 119,4 millj. kr. Þessar skuldir verða að greiðast þegar verkaskiptingin fer fram.

Þá má líka minna á það að Jöfnunarsjóður var og er eign sveitarfélaganna. Síðast liðin ár hefur hann orðið að sæta stórfelldum skerðingum og enn í ár verður hann skertur, þó að fyrir honum liggi umfangsmeiri verkefni en nokkru sinni fyrr. Smærri sveitarfélög, sem ekki hafa haft afl til uppbyggingar í samfélagslegum verkefnum í þeim mæli sem kröfur eru gerðar til og þarf, bera eðlilega kvíðboga fyrir því að sjóðnum verði ekki gert kleift að standa við þann hlut sem honum er skylt í þeim efnum.

Áformað er að sveitarfélögin taki algjörlega við tónlistarfræðslunni og ekki eru allir sáttir við þá tilhögun. Þar sem kennarar yfirleitt eru á launum hjá ríkinu er erfitt að sjá hvaða rök styðja það að svo eigi ekki að vera um tónlistarkennara. Það er átakanlegur vottur um það stefnuleysi sem ríkir í menntunarmálum að mönnum skuli yfirleitt detta í hug að vera að hringla með fyrirkomulagið á þessum málum.

Við kvennalistakonur erum sammála því að ríkissjóð beri að reka án halla. Við erum hins vegar ekki samþykkar því hvernig teknanna er aflað og hvernig þeim er ráðstafað og sannarlega höfum við margt við gjaldahliðina að athuga, sem ekki fékkst lagfært í meðförum nefndarinnar. Það dæmi er of stórt til að brjóta það allt upp og því gerum við aðeins fáar breytingartillögur og þá við þá liði sem okkur er mest í mun að fá leiðrétta.

Þær tillögur þurfa ekki að koma þeim á óvart sem þekkja stefnu Kvennalistans sem leggur megináherslu á bættan aðbúnað kvenna og barna, jöfnun aðstöðu milli dreifbýlis og þéttbýlis, umhverfisverndun og umhyggju fyrir menningu, menntun og listum. Þessar tillögur hafa verið lagðar fram á þingskjölum 257, 259, 261 og 267 og munu aðrar kvennalistakonur mæla fyrir þeim og rökstyðja þær.

Mönnum kann að þykja að þessar tillögur kosti háar upphæðir og ábyrgðarlaust sé að leggja til slíka útgjaldaaukningu. En ef menn vilja — og pólitík er að vilja, að sögn hæstv. fjmrh. — þá er hægt að ná inn tekjum með átaki í innheimtu álagðra skatta sem ekki hafa skilað sér og með breyttum álagningarreglum á fyrirtæki.

Vissulega erum við langt frá því sáttar við ýmsar þær áherslur sem frv. þetta ber með sér, en við viðurkennum þær lagfæringar sem orðið hafa, svo sem um hafnir og skóla, enda var engin leið að sættast á þær upphæðir sem lagðar voru til í upphafi.

Herra forseti. Einn lítill liður gleður kvennalistahjartað, það er framlag til kvennarannsókna. Kvennalistakonur börðust fyrir því fyrir tveim árum að fá það framlag inn og hlutu fyrir háð og spé í þingsölum. Í fyrra fékkst þetta framlag inn á fjárlög og aftur nú og ber að fagna því. Og þetta er eiginlega það eina í þessu 60 milljarða dæmi sem sýnir að örli á skilningi á því að styðja beri og styrkja konur í viðleitni þeirra til að öðlast jafnréttháan sess körlum í nútímasamfélagi.