14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

1. mál, fjárlög 1988

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Mönnum finnst það kannski vera að bera í bakkafullan lækinn að fara enn einu sinni nokkrum orðum um mikilvægi íþrótta fyrir þjóðarheildina. Ef mönnum finnst það er það rangt því að aldrei er góð vísa of oft kveðin þó að hægt sé að furða sig á því hversu illa gengur að fá ráðamenn til þess að hlusta á hana.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi öflugrar íþróttastarfsemi fyrir ekki aðeins einstaklinga heldur þjóðina alla, enda hefur skilningur alls þorra fólks á mikilvægi íþrótta farið mjög vaxandi á seinni árum þó að því miður sé ekki þannig komið hjá sumum hæstv. ráðherrum okkar.

Íþróttir eru ekki aðeins mikilvægar fyrir uppeldis- og æskulýðsmál, heldur spannar mikilvægi þeirra yfir alla aldurshópa, jafnt unga sem aldna, enda hefur hið svokallaða trimm loksins fengið að njóta sannmælis og er nú ekki lengur hlegið að þeim er sjást hlaupa á gangbrautum borgarinnar. Sífellt fleiri stunda heilsurækt og almenningur er farinn að hugsa betur um sjálfan sig en áður þekktist.

Íþróttir eru almenningseign. Þær eru bráðnauðsynlegar í nútímaþjóðfélagi. Þess vegna eiga stjórnvöld að bera gæfu til þess að standa við bakið á íþróttahreyfingunni í landinu með öllum hugsanlegum ráðum, ekki aðeins fjárhagslega heldur ekki síður lagalega, þ.e. við mótun á íþróttastefnu er taki mið af þörfum almenningsíþrótta og keppnisíþrótta.

Íþróttir eru ekki einkamál einstakra sveitarfélaga og mega ekki verða það. Því hef ég þegar lagt fram brtt. við frv. til laga á þskj. 224, um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þar sem ég geri það að tillögu minni að II. kafli, er fjallar um breytingu á íþróttalögum nr. 49/1956, verði felldur út. Við þær umræður lagði ég fyrir hæstv. forsrh. nokkrar spurningar um þennan þátt mála, en hann virti íþróttirnar að vettugi og svaraði engu.

Ég spurði hæstv. forsrh. og hafði reyndar áður spurt hæstv. fjmrh. sömu spurningar, hvernig gert væri ráð fyrir því með verkaskiptingunni þegar landssambönd færu út í byggingu íþróttamannvirkis og nefndi sem dæmi ef Handknattleikssamband Íslands færi út í byggingu íþróttahallar hér í Reykjavík, hallar sem væri til afnota fyrir handknattleik allra félaga í landinu. Hvaða sveitarfélag styrkir slíka framkvæmd? Varla er hægt að krefjast þess að Reykjavíkurborg ein standi að styrkveitingunni? Hverjir koma þá inn í myndina? Eru það sveitarfélög þar sem handknattleikur er stundaður? Og hvað ef þau vilja það ekki?

Nei, það er ekki nóg að sýna sig á stórleikjum og virðast vera ekkert nema góðvildin í garð íþróttanna á sama tíma og áættaður er niðurskurður á fjársveltandi íþróttahreyfingunni. Þetta kallar væntanlega ákveðinn hæstv. ráðherra að slá pólitískar keilur.

Þá má spyrja: Hvernig á að tryggja það að fjármagn fáist yfirleitt úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til íþróttamannvirkja þó að sérstök deild verði stofnuð innan sjóðsins? Hverjir eiga að tryggja það ef sérstök deild innan sjóðsins verður til þess að eyrnamerkja framlög til íþrótta? Hver er þá tilgangurinn yfir höfuð með verkefnatilfærslunni?

Hv. þm. Ellert Eiríksson staðhæfði í umræðum um verkaskiptinguna að knattspyrnufélagið Víðir, Garði, hefði aðeins fengið sem samsvarar 5% úr Íþróttasjóði vegna framkvæmda er það fór út í og taldi sig þar með sýna fram á hversu lítil not væru fyrir Íþróttasjóð. Ég vil hér með leiðrétta hv. þm. þar sem heildarkostnaður við framkvæmdir þær er hér um ræðir var gefinn upp 2 millj. 889 þús. kr. Af því hefur Íþróttasjóður þegar greitt 856 þús. og mun væntanlega greiða næsta ár 299 þús. kr. eða samtals 40%. Það er hins vegar rétt að Íþróttasjóður hefur fjögur ár til að greiða umsamin 40% og greiðir þau með jöfnum greiðslum, þ.e. 25% á ári. Hins vegar er hér um óverðtryggða samninga að ræða þannig að í rauninni skila 40% sér ekki að fullu.

Einn erfiðasti þáttur íþróttahreyfingarinnar er sá þáttur af starfi forustunnar og framámanna í félögum, héraðasamböndum og sérsamböndum sem mestur tíminn fer í, en það eru fjármálin. Á öllum sviðum skortir fjármagn til að standa straum af daglegum rekstri til undirbúnings og þátttöku íþróttamanna til keppni, bæði innan lands og utan til hróðurs og hylli íþróttamanna fyrir þá sjálfa og landið í heild. Fjármál íþróttahreyfingarinnar hafa verið mjög til umræðu nú að undanförnu, en eins og öllum er kunnugt stendur fjárskortur íþróttahreyfingarinnar öllu starfi verulega fyrir þrifum.

Með sívaxandi fjölda þeirra sem iðka íþróttir í einni eða annarri mynd hefur fjármagnsþörf íþróttahreyfingarinnar vaxið jafnt og þétt og hinn aukni fjöldi í íþróttum hefur einnig kallað á aukna og bætta íþróttaaðstöðu. Þá liggur það einnig fyrir að það kostar æ meira fjármagn að undirbúa íslensk keppnislið og afreksmenn ef von á að vera til þess að þeir standist erlendum keppinautum sínum, sem flestir búa við hin hagstæðustu skilyrði, snúning.

Margir af forráðamönnum íþróttahreyfingarinnar hafa látið til sín heyra að undanförnu og verið sammála um að við svo búið mætti ekki lengur standa ef ætlast er til þess á annað borð að íslenskir íþróttamenn séu gjaldgengir í keppni við erlenda íþróttamenn. Vilja þeir stóraukinn opinberan stuðning og benda á að íþróttahreyfingin hafi hingað til fjármagnað starfsemi sína að verulegu leyti á betlistarfi og nú sé svo komið að eigendur fyrirtækja og einstaklingar séu að verða þreyttir, bæði á því að standa í slíku starfi og eins að láta af hendi fjármagn, enda vegi allir í sama knérunn.

Starf Íþróttasambands Íslands verður æ umsvifameira með fjölgun íþróttaiðkenda og annarra þátttakenda í íþróttastarfinu, en tala virkra félagsbundinna þátttakenda í dag er yfir 100 þúsund manns. Ég hef oft verið spurður að því á hvern hátt ríkisvaldið geti best stutt við bakið á íþróttahreyfingunni. Svar mitt hefur verið: Eflið Íþróttasjóð ríkisins. Það hefur verið mín skoðun að til þess að frjálst íþróttalíf geti dafnað þurfi að efla íþrótta- og ungmennafélög um land allt enn meir en gert hefur verið, en það eru þau sem leggja fram grundvallarundirstöðu með þjálfun og þrotlausu starfi. Það er því eitt brýnasta verkefnið að efla Íþróttasjóð ríkisins verulega og hraða uppbyggingu íþróttamannvirkja. Sjóðurinn á að taka meiri þátt í kostnaði af íþróttakennslu, húsaleigu íþróttafélaga, rekstri íþróttamannvirkja og íþróttalegum samskiptum. Með því móti yrði íþróttafólkinu sköpuð betri æfingaaðstaða. Fyrir hendi yrðu jafnan góðir íþróttakennarar og þjálfarar og slíkt mundi auðvelda félögunum mjög róðurinn, svo og sérsamböndum og héraðssamböndum. Íþróttasjóður ríkisins hefur alls ekki staðið í stykkinu að þessu leyti og vil ég þar nefna framlög Íþróttasjóðs til styrktar íþróttakennslu og húsaleigu sem hefur verið á undanförnum árum aðeins 2–3% og jafnvel minna. Það er þessi þáttur sem hefur orðið sérstaklega út undan og sem ekki hefur vaxið með þeim fjárveitingum sem veittar hafa verið Íþróttasjóði ríkisins til uppbyggingar íþróttamannvirkja. Hver framvindan verður í þessum málum er undir fjárveitingavaldinu komið.

Á fundum íþróttamálaráðherra Evrópuráðsins, sem haldnir hafa verið á undanförnum árum, hafa m.a. verið gerðar eftirfarandi ályktanir:

1. Að hlutverk opinberra aðila væri fyrst og fremst að vera örvandi með því að styðja hina frjálsu starfsemi.

2. Að efla hvers kyns aðstöðu er hvetur sem flesta til þátttöku í íþróttum og stuðla að menntun og þjálfun hæfra starfskrafta.

3. Að tengja beri skólaíþróttir sterkari böndum við frjálsa íþróttaiðkun.

4. Að opinberum aðilum beri skylda til að veita frjálsri íþróttaiðkun margháttaða aðstoð.

5. Að vernda beri sjálfstæði íþrótta og íþróttaiðkenda.

Þessi úrdráttur úr ályktun ráðherrafundar Evrópuráðsins sýnir ljóslega hversu ráðandi aðilar í hinum ýmsu löndum leggja vaxandi áherslu á að efla almennt heilbrigði meðal þegna þjóðfélagsins með tilstyrk íþróttanna.

Því verður ekki á móti mælt að stefnumörkun opinberra aðila í íþróttamálum hefur ómæld áhrif á framlög þeirra til íþróttahreyfingarinnar. Stefnumörkun íþróttahreyfingarinnar sjálfrar hefur þar að sjálfsögðu einnig áhrif. Framlög ríkisvaldsins og framlög einstakra sveitarfélaga hér á landi eru miklu minni en gerast á hinum Norðurlöndunum ef miðað er við fjölda íþróttaiðkenda. Þegar þess er jafnframt gætt að sjálfstæðir tekjustofnar íþróttahreyfingarinnar vega miklu minna hér á landi en hjá bræðraþjóðum okkar er augljóst að fjáröflun tekur mun meiri tíma forustumanna í íþróttum en annars staðar þekkist.

Í stuttu máli má segja að í stefnuskrá stjórnmálaflokkanna sé hvergi að finna það sem kalla má heillega stefnumörkun í íþróttamálum. Þetta ber þó ekki að skilja þannig að allir stjórnmálaflokkar líti á sama hátt á þessi mál. Á íþróttir má líta frá ýmsum hliðum. Þær eru hollt tómstundagaman fyrir unglinga og þær eru stórkostleg auglýsing fyrir land og þjóð.

Með leyfi forseta langar mig að fá að grípa hér niður í merkilegan leiðara sem tekur á þessum málum og fyrrv. þm. Sjálfstfl. og formaður eins stærsta sérsambands ÍSÍ, Ellert B. Schram, skrifaði undir yfirskriftinni „Íþróttir til óþurftar.“ Þar segir m.a.:

„Í þjóðfélaginu fer hins vegar fram margvísleg starfsemi sem ekki gefur af sér arð í peningalegum skilningi. Listir, menning, menntun, líknarstarfsemi og íþrótta- og æskulýðsmál eru í þeim flokki, enda ber frv. það með sér að fjmrh. hefur hækkað fjárveitingar til slíkra málaflokka sem þurfa á opinberum stuðningi að halda.

Ein undantekning er þó hér á. Fjárveitingar til íþróttaæskunnar og samtaka hennar eru skornar niður. Hæst ber þar að fjárveiting til Íþróttasambands Íslands er skorin niður um tæpar 12 millj. eða úr 26 millj. í 14,4 millj. Framlag til Ungmennafélags Íslands lækkar úr 7 millj. kr. í 2,3 millj. Til að kóróna vinsamlegheitin gagnvart íþróttahreyfingunni eru framlög í íþróttasjóð hreinlega felld niður eins og þau leggja sig.

Skýringin í grg. frv. er sú að hliðsjón sé höfð af þeim tekjum sem íþróttahreyfingin hefur af svokölluðu lottói. Það er kunnara en frá þurfi að segja að íþróttahreyfingin hefur ekki verið ofhaldin af peningum. Starfsemi einstakra íþróttafélaga, bandalaga og sérsambanda hefur verið borin uppi af sníkjum, betli, auglýsingasöfnun og óverulegum styrkjum frá opinberum aðilum. Íþróttahreyfingin hefur innan sinna vébanda langstærsta hluta þeirrar æskulýðsstarfsemi sem fram fer í landinu. íþróttahreyfingin stendur að og stendur undir keppni íslenskra íþróttamanna í alþjóðakeppnum í öllum keppnisgreinum. Árangur íþróttamanna á leikvelli og uppskeran af starfi hreyfingarinnar í heilbrigðri æsku hefur ekki farið fram hjá neinum.

Enda þótt mestallt starf innan íþróttahreyfingarinnar sé unnið af sjálfboðaliðum án launa er auðvitað öllum ljóst að svo umfangsmikið starf fyrir tugþúsundir æskufólks kostar mikið fé. Lottóið var því kærkomin búbót og hefur á einu ári gefið nokkuð í aðra hönd. Það er hins vegar langur vegur frá því að þær tekjur mæti öllum útgjöldum og raunar lítið farið að skila sér inn í starfið sjálft vegna margvíslegs stofnkostnaðar sem fyrst þarf að greiða niður. Niðurskurður á fjárveitingum til íþróttahreyfingarinnar er köld kveðja, ekki aðeins til þeirra sem veita henni forustu, heldur til alls æskufólks sem leitar inn í hennar raðir. Ríkisvaldið er með þessum niðurskurði að refsa íþróttahreyfingunni fyrir að afla sér tekna með öðrum hætti en þeim að leita eingöngu á náðir ríkisins. Ríkisvaldið vill að íþróttahreyfingin gangi um með betlistaf í hendi og haldi uppi merki þjóðarinnar á þessum vettvangi af fullkomnum vanefnum.

Því verður ekki trúað að óreyndu að Alþingi Íslendinga vilji sýna þann hug til íþróttaæskunnar og afreka hennar að skera niður fjárveitingar og fjandskapast út í íþróttastarfið. Lottó er enn þá aðeins vonarpeningur og það er óskiljanlegt bráðlæti að nota lottóið sem átyllu til nánasarskapar í hennar garð.“

Svo mörg voru þau orð hv. fyrrv. þm. Sjálfstfl.

Hæstv. forseti. Þegar ég ræði um íþróttir ræði ég um þær fyrir bæði fatlaða sem ófatlaða, fyrir Íþróttasamband Íslands og Ungmennasamband Íslands. Þær brtt. er ég hér mæli fyrir eru í þágu þessara hópa, í þágu almennings í landinu sem ekki á það skilið að íþróttastarfseminni í landinu sé stefnt í voða. Tillögurnar eru einnig í þágu hins ótrúlega fórnfúsa sjálfboðaliðastarfs sem unnið hefur verið og á það ekki skilið að starf þeirra í þágu þjóðarheillar skuli að engu vera metið.

Því legg ég til eftirfarandi brtt. á þskj. 262 við 4. gr., kafla 2–989, lið 110 Íþróttasamband Íslands: Fyrir 14 380 þús. kr. komi: 26 258 þús. kr. Þarna er aðeins farið fram á að framlagið verði það sama og fyrir árið 1987 og hlýtur það að teljast vægast sagt sanngjörn krafa.

Við 4. gr., kafli 2–989, lið 113 Íþróttamál fatlaðra: Fyrir 2,3 millj. kr. komi 2,8 millj. kr. Það væri þingheimi til vansa að fella slíka tillögu.

Við 4. gr., kafla 2–989, lið 115 Íþróttastarfsemi, almennt: Fyrir 580 þús. kr. komi: 700 þús. kr. Þetta framlag er notað til fræðslu, kynningar og fyrir óvænt mál er koma upp í tengslum við íþróttasjóð.

Þar sem Íþróttasjóður er felldur út úr fjárlögum er nauðsynlegt að stofna nýjan flokk og nýja liði er málefni Íþróttasjóðs skuli falla undir. Sami flokkur og sömu liðir eru notaðir og gert var á fjárlögum ársins 1987.

Við 4. gr. bætist nýr flokkur, 2–986, og nýr liður, 110 Almennur rekstur, 3 millj. kr.

Við 4. gr. bætist nýr flokkur, 2–986, og nýr liður. 620 Bygging íþróttamannvirkja, 80 millj. kr.

Herra forseti. Þetta eru þær brtt. sem ég mæli fyrir á þessu stigi. Ég vil skora á þm. að láta flokkadrætti víkja fyrir góðum málum og veita mér lið með því að segja já í atkvæðagreiðslum.