14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

1. mál, fjárlög 1988

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér hér á þessum kvöldfundi að mæla fyrir brtt. sem ég flyt ásamt öðrum þm. Alþb. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1988, en jafnframt hafði ég hugsað mér að gera athugasemdir við almennar yfirlýsingar sem fram hafa komið frá talsmönnum fjvn. við umræðuna í dag varðandi skattahækkanir.

Í síðustu viku gerðist það að í Ed. komu fram upplýsingar hjá hæstv. fjmrh. um þær skattahækkanir sem þessi frv. öll, sem hér eru til meðferðar í raun og veru, skattafrumvörpin, gera ráð fyrir og hv. 1. þm. Norðurl. v. fullyrti að í nál. minni hl. fjvn. væru skattahækkanir verulega oftaldar og þær væru ofætlaðar um 2750 millj. kr. og sagði að þessar tölur væru svo háar vegna þess að stjórnarandstaðan hefði ekki tekið tillit til þeirra ívilnana sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að framkvæmdar verði t.d. með niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum o.fl.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, til þess að það sé ljóst að þingheimur tali út frá svipuðum talnagögnum, að fara nokkuð yfir þetta mál í Sþ. þó að það hafi reyndar verið gert í Ed. fyrir nokkrum dögum þegar skattafrv. um tolla, vörugjald og söluskatt voru þar til meðferðar. Það er best að athuga hvað er rangt í fullyrðingum minni hl. fjvn.

Í fyrsta lagi segir í nál. minni hl. fjvn. á þskj. 260 að það hafi verið ákveðið að leggja á skatta, þegar ríkisstjórnin tók við, að upphæð 3700 millj. kr. á heilu ári 1988 á verðlagi fjárlagafrv. Er þetta rangt? Nei, hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Vestf., aðaltalsmaður meiri hl. í fjvn., fallast á þessa tölu auðvitað. 3700 millj. kr. í beina skattlagningu.

Í öðru lagi segir í nál. minni hl., þskj. 260: Þegar fjárlagafrv. var lagt fram var bætt við um 2000 millj. kr. á verðlagi fjárlagafrv. Er þetta rangt? Nei, það er ekki rangt. Það liggja fyrir yfirlýsingar bæði frá hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Vestf. um að þessi tala sé rétt, 2000 millj. kr., sem þarna hafi verið bætt við þegar fjárlagafrv. var lagt fram í haust. Það eru engar deilur um þetta.

Í þriðja lagi segir í nál. minni hl. að það hafi verið bætt við 2050 millj. kr. núna við meðferð fjárlaga við 2. umr. á hinu virðulega Alþingi. Er þetta rangt? Ef þetta er rangt eru upplýsingar hæstv. fjmrh. í Ed. vitleysa að því er þetta varðar. Ég hygg að það sé ótvírætt að hér sé um að ræða hina réttu tölu og heildarskattlagningin sem ákveðin hafi verið nemi þess vegna 7750 millj. kr. Síðan bætast við í ríkissjóð í fyrsta lagi vegna veltubreytinga á milli áranna 1987 og 1988 600 millj. kr. 300 millj. koma fram núna við 2. umr. fjárlaga og 300 millj. komu fram áður. Og loks er gert ráð fyrir að betri innheimta söluskatts skili samtals 400 millj. kr. sem er að vísu ótrúlega lág fjárhæð miðað við þær yfirlýsingar sem Alþfl. gaf fyrir síðustu kosningar.

Samtals er um að ræða tekjuauka í ríkissjóð upp á 8750 millj. kr. Það er ómótmælanlegt. Það hefur enginn sýnt fram á það með rökum að hér sé farið með staðlausa stafi. En það er sagt á móti: Stjórnarandstaðan gleymir ívilnunum sem samþykktar hafa verið, niðurgreiðslum, hækkun barnabóta, ellilífeyri. Því er ekki gleymt. Að setja málin upp með þeim hætti sem stjórnarliðið gerir núna, það er það sem á íslensku heitir hundalógík. Samkvæmt þeirri uppsetningu er hægt að halda því fram að skattheimta ríkisins sé núll vegna þess að peningunum er eytt í eitthvað annað. Þeim er eytt í ellilífeyri, þeim er eytt í örorkulífeyri, þeim er eytt í framlög í Byggingarsjóð ríkisins, þeim er eytt í niðurgreiðslur, þeim er eytt í útflutningsuppbætur og þess vegna geti menn sagt að lokum: Þetta er engin skattlagning af því það verður ekkert eftir í ríkissjóði. Samkvæmt þessari kenningu hv. talsmanna fjvn. var það í raun og veru þannig í tíð fyrrv. hæstv. fjmrh. að skattheimtan var neikvæð vegna þess að ríkissjóður var alltaf öfugur í hans tíð. Það gengur ekki að setja málin upp með þessum hætti. Kjarninn er þessi: Skattahækkunin er upp á 8750 millj. kr. Svo er það þeirra mál hvernig þeir eyða því. En við skulum sameinast um það sem rétt er í talnagrunni fjárlagafrv.

Ég held að það sé líka óhjákvæmilegt í þessu sambandi, herra forseti, að benda á afskaplega athyglisverða talnameðferð opinberra stofnana undanfarna sólarhringa. Þegar ég bað Þjóðhagsstofnun um að reikna út skattbyrði ársins 1988 sagði Þjóðhagsstofnun: Skattbyrðin 1988 verður 24,7% af vergri landsframleiðslu og þar með hærri en hún var hæst í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens sem ég veit að margir þm. Sjálfstfl. vilja gjarnan miða sig við. — 24,7 %, en hæst komst hún í þeirri stjórn í 24,5%. Þetta er hæsta skatthlutfall af vergri landsframleiðslu í 19 ár.

En þetta líkar fjmrh. illa. Þjóðhagsstofnun er látin, ég sagði látin, herra forseti, framleiða aðrar tölur. Niðurstaðan þar er ekki 24,7% heldur 24,2% og hvernig er það fundið? Þá er búið að framreikna veltubreytingar milli ára 1987–1988 sem þó skila sér ekki í auknum skatttekjum en ættu að gera það líka. Menn bæta við en draga ekki frá. Síðan er það auðvitað þannig að ef menn ætla að taka veltubreytingar á milli áranna 1987–1988 verða þeir að taka hærri veltuskatta og muna að sömu menn eru að spá því að þjóðarframleiðslan minnki á árinu 1988 þannig að hlutfall skattanna af þjóðarframleiðslunni árið 1988 verður enn hærra en áður hafði verið talað um. Það er alveg kostulegt að horfa á þessa blessaða pilta uppi í Þjóðhagsstofnun, frændur mína suma jafnvel, koma með þessa texta vegna þess að hérna er verið að setja hlutina upp með algjörlega óeðlilegum hætti. Þó svo að þessar tölur kunni að vera deiluefni, hvort þetta eru 24,4 eða 24,6, vitum við líka hitt að þessar tölur, sem við höfum yfirleitt fengið í desembermánuði ár hvert um það leyti sem við erum að skrifa jólakortin, eru yfirleitt alltaf vitleysa þegar upp er staðið. Áætlanir opinberra stofnana á Íslandi eru nefnilega með þeim ósköpum gerðar að þær væru betur gerðar í lok árs en í upphafi árs því þær reynast yfirleitt alltaf vitlausar.

En ég nefni þetta hér, herra forseti, fyrst og fremst vegna þess að ég tel að uppsetning ríkisstjórnartalsmannanna á þessu máli sé röng, þeir séu að reyna að blekkja, vegna þess að bæði Alþfl. og Sjálfstfl. lofuðu því fyrir kosningar að það ætti að lækka skattana í landinu. Niðurstaðan er ekki sú að þeir hafi lækkað. Niðurstaðan er sú að skattarnir hafa hækkað. Þeir eru hærri en í tíð þeirrar stjórnar sem Sjálfstfl. og Alþfl. þykir verst að jafna sér við og er þá langt gengið, þ.e. íslenskra ríkisstjórna.

Varðandi fjárlagafrv. að öðru leyti hygg ég að hv. 4. þm. Suðurl. hafi sýnt betur fram á það en allir aðrir þm. í dag að reikniforsendur, verðbólguforsendur fjárlagafrv. standast ekki. Af hverju? Vegna þess að þar er gert ráð fyrir að framfærslukostnaður hækki um 10%, en kaupið um 7%. Og halda menn að málið standi þannig af hálfu samtaka launafólks að menn muni sætta sig við kaupmáttarskerðingu af þessu tagi? Auðvitað ekki. Sérstaklega þegar þess er gætt að eftir að þessar spár um 3% kaupmáttarskerðingu voru settar fram hafa komið fram upplýsingar um meiri verðbólgu en þarna er gert ráð fyrir og miklu meiri skattheimtu. Kaupmáttartalan sem þarna er verið að tala um að beri á milli er ekki 3%. Hún er mun meiri. Hver gæti hún verið?

Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í ræðu hv. 4. þm. Suðurl. í dag er sett upp það dæmi að ef kaupmáttur lægstu launa á að vera óbreyttur milli áranna 1987–1988 verða laun að hækka um 8–9% á hinum almenna vinnumarkaði núna um áramótin samkvæmt upplýsingum forseta Alþýðusambands Íslands og síðan verða þau að hækka á þriggja mánaða fresti um 7% þannig að lágmarkslaun sem eru í dag í kringum 30 000 verða að vera í lok ársins 40 000 til að vega upp þá verðbólgu sem fyrirsjáanleg er — þó með föstu gengi eins og það er nú stöðugt um þessar mundir. Verðlagsforsendur fjárlagafrv. standast því ekki. Þær standast engan veginn og það mun einnig koma í ljós.

Þess vegna held ég, herra forseti, að það sé nauðsynlegt fyrir hv. stjórnarliða að ræða í þessari virðulegu stofnun af fullri varkárni um þessi mál og setja tölur og spádóma fram með fyrirvörum vegna þess að bæði eru ríkisumsvifin meiri á næsta ári og hitt er líka ljóst að verðbólguspárnar standast ekki. Sem þýðir svo hvað? Sem þýðir það að veltuskattarnir munu á næsta ári skila miklu meiru í ríkissjóð en nú er spáð. Sem þýðir það, ef svo heldur fram sem horfir, að tekjur ríkissjóðs gætu orðið mun meiri en menn eru almennt að tala um vegna þess að hann að svo stórum hluta byggir sitt á veltusköttum.

Ég tel að það sé algjörlega óhjákvæmilegt, herra forseti, ef þessi umræða á að halda áfram í kvöld, sem er auðvitað engin ástæða til, að vera að þvæla þessu hér fram á nótt, en ef það er ætlunin að halda þessari umræðu áfram í kvöld er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. geri hið allra fyrsta í umræðunum grein fyrir því hvernig staðan er varðandi hlutfall skattanna af landsframleiðslu á næsta ári og hann verður líka að gera grein fyrir verðlagsforsendum fjárlaganna miklu betur en gert hefur verið.

Það er t.d. athyglisvert, herra forseti, að fyrir 2. umr. fjárlaga, sem oft hefur verið verri en núna, segir hv. þm. Pálmi Jónsson, en fyrir 2. umr. fjárlaga er staðan þannig núna að það liggja ekki fyrir tölur um uppsetningu þjóðhagsreiknings eins og hann er áætlaður fyrir árið 1988. Við höfum ævinlega haft þessi gögn fyrir framan okkur þegar farið hefur verið yfir fjárlögin, ítarlega uppsetningu þjóðhagsreiknings, spá um einkaneyslu, framleiðslu, fjárfestingu, samneyslu og svo að lokum viðskiptajöfnuð. Það skyldi þó ekki vera þannig, herra forseti, að menn hefðu ekki mikinn áhuga á að sýna strax tölurnar um viðskiptahallann á árinu 1988? Það skyldi þó ekki vera þannig að niðurstöðurnar úr vélunum í Þjóðhagsstofnun yrðu svipaðar og hafa verið að birtast frá ýmsum aðilum að undanförnu, niðurstöður upp á jafnvel 7, 8, 9 milljarða kr. eða tvisvar sinnum hærri tölur í viðskiptahalla á næsta ári en gert er ráð fyrir á þessu ári? Af hverju eru menn að fela þessar tölur? Af hverju eru menn að pukrast með þessa tölu núna? Vegna þess að hún er lykilstærð í þjóðarbúskapnum og það er í raun og veru ekki hægt að tala um þessa hluti mjög nákvæmlega nema þessi tala liggi fyrir. Hún er lykilstærð. Hún er lokastærðin þegar búið er að afla og eyða. Þá sést hver staðan er umfram það sem þjóðarbúið aflar. Það er nauðsynlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir og ég fer fram á það við hæstv. fjmrh. að hann upplýsi hver sé spá hans embættismanna um viðskiptahallann á árinu 1988.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja síðan að fáeinum brtt. sem ég flyt á þremur þskj. Það er fyrst að geta þess að við þm. Alþb. flytjum sameiginlega till. um skatta á fyrirtæki og stóreignir sem er í samræmi við þá till. sem við fluttum á síðasta þingi og þá var studd af Alþfl. þannig að hér er ekki um neina viðbót að ræða við það sem Alþfl. lagði til á síðasta og næstsíðasta þingi. Hér er um að ræða tillögur um skattlagningu sem vega alveg upp þau útgjöld sem við gerum tillögur um og rúmlega það.

Fyrsta till. sem ég ætla að mæla fyrir eru raunar tvær till. á þskj. 266. Þær flyt ég ásamt hv. 13. þm. Reykv. Guðrúnu Helgadóttur. Sú fyrri er um að það verði veittar til B-álmu Borgarspítalans á næsta ári 50 millj. kr. Ég sé í till. meiri hl. fjvn. að það er gert ráð fyrir að veita í þetta verkefni hvorki meira né minna en 9 millj. kr. á næsta ári sem segir ekki neitt. Ef þeim framkvæmdahraða verður haldið áfram sem 9 millj. kr. þýða í Borgarspítalann á næsta ári verður B-álmunni lokið upp úr aldamótum, sennilega um 2005. Það er of langur tími fyrir aldraða sem eru á biðlistum í Reykjavík og eru fleiri hundruð. Þeir biðlistar lengjast stöðugt vegna þess að það er ekki tekið á þessu máli af nægilegum myndugleika.

Úr því að hæstv. heilbr.- og trmrh. er hér í kvöld held ég að það sé óhjákvæmilegt að fá um það upplýsingar hver sé stefna hans í málefnum Borgarspítalans. Er hún sú að láta hér við sitja og gera ráð fyrir því að B-álman verði komin í gagnið árið 2005 eða hefur hæstv. ráðherra einhverja metnaðarmeiri stefnu í málefnum Borgarspítalans og Bálmunnar sérstaklega en fram kemur í till. meiri hl. fjvn.?

Í öðru lagi flytjum við hér, ég og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, till. um að það verði tekinn upp nýr liður í heilbrmrn. sem við köllum Til undirbúnings réttargeðlækningum, 10 millj. kr. Þessi till. er flutt hér í framhaldi af umræðu sem var á dögunum um vandamal þess fólks sem að réttu lagi ætti að vistast á réttargeðlækningadeild. Í þeim efnum hefur það fólk sem síst skyldi lent á milli stóla í kerfinu oft árum saman og mætti margt um það segja, en ég eyði ekki tíma í að ræða það ítarlegar hér. Hér er hugmynd um að ýta af stað þörfu og brýnu máli, sem ekki þarf að kosta svo mikla peninga miðað við ríkisútgjöld okkar í heild upp á 60 þús. millj. kr., en um er að ræða stórmál í raun andspænis þeim einstaklingum og fjölskyldum sem hér eiga hlut að máli. Það væri einnig fróðlegt ef hæstv. heilbr.- og trmrh. vildi vera svo vinsamlegur að skýra okkur frá því hvaða hugmyndir hann og ráðuneyti hans hafi í þessum efnum.

Á þskj. 268 flyt ég litla brtt. um Framkvæmdasjóð fatlaðra. Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur verið bitbein á Alþingi á undanförnum árum. Stundum hefur verið leyst sæmilega úr hans málum, stundum allvel, stundum illa eins og gengur. Í till. sem nú liggur fyrir er gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður fatlaðra fái 180 millj. kr. á næsta ári. Í brtt. sem ég flyt á þskj. 268 er gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóðurinn fái 202 millj. kr. á næsta ári. Það er í samræmi við hina þrengri skilgreiningu á framlögunum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, en samkvæmt þeirri skilgreiningu sem Öryrkjabandalagið og félmrn. styðjast við í þessum efnum er talið að framlög í sjóðinn á næsta ári eigi að vera 271 millj. kr. ef ég man rétt. Hér er sem sagt aðeins um að ræða lítið skref upp í þá hækkun sem samtök fatlaðra fara fram á, en væri engu að síður mikilsvert að staðfesta að sá skilningur sem þrátt fyrir allt liggur fyrir í fjmrn. komi fram við afgreiðslu fjárlaga. — Ég vil taka það fram í sambandi við þessa till. og e.t.v. fleiri sem ég er með að það getur verið að ég kjósi að draga einhverjar þeirra til baka til 3. umr. ef þess er nokkur von að á málum yrði tekið á milli umræðna.

Þá flyt ég loks till., herra forseti, á þskj. 271 varðandi yfirstjórn mannvirkjagerðar á Landspítalalóð, að fyrir 151,2 millj. komi 236,2 millj. Það er K-byggingin sem hér er verið að tala um, hjarta læknisfræðinnar á Íslandi eins og hún hefur verið kölluð. Við leggjum hér til, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að þessi tala verði hækkuð um 80 millj. kr., en það er sú tala sem talið er að þurfi í framkvæmdir við 1. og 2. áfanga K-byggingarinnar ef þar á að vinna að verkefnum svo sem ráðgert hafði verið. Ég hygg að það sé rétt að taka fram varðandi þessa till. að það getur vel verið að við köllum hana aftur til 3. umr. ef einhverjar upplýsingar koma fram um K-bygginguna sem benda til þess að ætlunin sé að taka á því máli með myndarlegum hætti og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrmrh. varðandi þessa till. einnig.

Ég vil þá einnig, herra forseti, víkja að einu máli enn sem ekki er flutt till. um. Það er Framkvæmdasjóður aldraðra. Framkvæmdasjóður aldraðra hefur fengið fé samkvæmt svokölluðum nefskatti, föstu gjaldi á hvern skattgreiðanda. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef úr heilbrmrn. er talið að áætlun til Framkvæmdasjóðs aldraðra sé of lág fyrir næsta ár miðað við það sem hefði verið að óbreyttu. Á þessu ári var breytt lögum um gjald til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Það gerðist með þeim hætti að gjaldið var fellt inn í alla beina skatta ríkisins og þess vegna er erfiðara núna að sjá Framkvæmdasjóð aldraðra í fjárlögum en verið hefur. Ég flutti um það brtt. við frv. um tekju- og eignarskatt sl. vetur að Framkvæmdasjóður aldraðra héldi nefskattinum því að þá væri miklu auðveldara að verja hann inni í skattlagningunni en ef hann væri hluti af hinum almennu tekju- og eignarsköttum. Þessi till. mín var þá felld, því miður, og árangurinn lætur ekki á sér standa. Strax í till. fyrir árið 1988 er minna fé til Framkvæmdasjóðs aldraðra en verið hefði að óbreyttum lögum og tekjustofnum.

Ég held að það sé hins vegar alveg óhjákvæmilegt þrátt fyrir þetta að fara fram á það við hæstv. fjmrh. og heilbrmrh. svo og fjvn. að það liggi fyrir og fáist um það upplýsingar áður en þessari umræðu lýkur hvernig er ætlunin að skipta Framkvæmdasjóði aldraðra. Hvaða tillögur eru uppi um það af hálfu stjórnar Framkvæmdasjóðsins því að það er nauðsynlegt að hafa þessar tillögur til að geta tekið afstöðu til annarra tillagna sem snerta hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða? Ég óska eftir því við formann fjvn., fjmrh. og hæstv. heilbrmrh. að það verði upplýst fyrir lok þessarar umræðu hvernig staðan er varðandi Framkvæmdasjóðinn og það verði stuðlað að því að upplýsingar um skiptingu hans komi hingað áður en meðferð fjárlaga lýkur fyrir jól. Það er nauðsynlegt að það gerist og ég óska eftir því við hv. þm. og hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum áttum við fund með borgarstjóranum í Reykjavík og embættismönnum hans og fulltrúum úr fjvn. um framkvæmdaframlög til Reykjavíkur á árinu 1988. Við erum ýmsu vön í Reykjavík og menn hafa ekki verið að gera miklar kröfur að því er varðar framlög ríkisins til verkefna. Hér er líka um að ræða eitt sterkasta sveitarfélag landsins. En það verður að segja eins og það er að ég hygg að öllum þm. Reykv., bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, hafi verið beinlínis brugðið þegar þeir sáu þær tölur sem ætlunin var að veita til skóla, sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva í Reykjavík á árinu 1988. Um þau mál hefur orðið nokkur almenn umræða síðustu sólarhringa og ætla ég engu við hana að bæta öðru en því að samkvæmt upplýsingum sem ég sé í Dagblaðinu Vísi í dag er gert ráð fyrir því að ákveðin úrlausn verði veitt heilsugæslumálum í Reykjavík á komandi árum núna við meðferð fjárlagafrv. Mun ég fylgjast með því máli og þess vegna flyt ég enga brtt. sérstaka um heilsugæsluna í Reykjavík.

Svo að lokum þetta, herra forseti. Fyrir ekki löngu sameinuðumst við um það, þm. úr mörgum flokkum, að leggja á skatt vegna byggingar þjóðarbókhlöðu. Samkvæmt þeim tillögum sem liggja fyrir í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að framlög til þjóðarbókhlöðu verði skert mjög verulega, tekjustofninn verði tekinn í ríkissjóð. Ég segi það fyrir mig að ég efast um að það standist lagalega að taka þennan tekjustofn í ríkissjóð með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Mér er næst að halda að það væri lögbrot nema jafnframt væri tekið fram í lánsfjárlögum eða öðrum hliðstæðum lögum að þennan tekjustofn ætti að skerða um sinn.

Mér hefur borist til eyrna að hæstv. menntmrh. hafi til meðferðar tillögu frá hæstv. fjmrh. um hvernig byggingarframkvæmdir við þjóðarbókhlöðuna verða fjármagnaðar á næstu 3–4 árum. Ég hygg að það sé nauðsynlegt, þar sem hér er um að ræða stórt verkefni sem Alþingi á að standa að af myndarskap, að hæstv. menntmrh. geri við þessar umræður grein fyrir því hvernig samningaviðræðum hans við hæstv. fjmrh. líður, hvenær þess er að vænta að niðurstaða liggi fyrir í þeim efnum.

Herra forseti. Það fjárlagafrv. sem hér liggur nú fyrir hefur sætt meiri umræðu í fjölmiðlum en flest fjárlagafrv. sem ég man eftir þau ár sem ég hef setið á Alþingi. Hæstv. fjmrh. hefur tekið upp þá nýlundu að greina fjölmiðlum jafnan frá því á undan Alþingi sem ákveðið er á hans borði, hvort sem um er að ræða stjórn eða stjórnarandstöðu. Þegar frv. var lagt fram í haust hafði það verið tekið upp með ákvörðun ríkisstjórnarinnar 8. okt. sl. Þá var talið að um væri að ræða svo að segja hið endanlega fullkomna fjárlagafrv. og menn áttu langar umræður, utan dagskrár m.a., um þessi mál í þessari virðulegu stofnun. Þá var því spáð að áður en jólin rynnu upp mundi þetta frv. verða tekið upp að nýju. Það hefur verið gert. Og nú skal því enn verða spáð að frv., verði það afgreitt á þeim verðlagsforsendum sem hér liggja fyrir, með þeim tölum sem er reiknað með varðandi verðlagsþróun og launaþróun á árinu 1988, verði að taka upp fljótt þegar líður á árið 1988. Hér er tjaldað til einnar nætur hið mesta. Allar forsendur þessa máls eru svo veikar.

Það er auðvitað mikilvægt að reka ríkissjóð í jafnvægi. Það er mín skoðun að það skipti miklu máli fyrir efnahagslífið í landinu. Deilurnar snúast ekki um það við Alþb. heldur um hitt hvaða leiðir eru farnar að markmiðinu. En um leið og ríkissjóður er rekinn í jafnvægi er ljóst að það er verulegt misvægi í öllu efnahagskerfinu að öðru leyti. Hallinn á frystingunni, útflutningsatvinnuvegunum í heild er verulegur. Vextir hafa aldrei verið hærri. Óvissa er á launamarkaði. Við blasir meiri viðskiptahalli en við höfum séð um langt árabil. Fastgengisstefnan er veik. að ekki sé meira sagt, stenst ekki, segir talsmaður ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Fastgengisstefnan er veik, stenst illa. Niðurstaðan er þess vegna sú að grunnurinn í heild er veikur. Þess vegna er umræðan hér um heildarstærðir í þessu fjárlagafrv. því miður öll meira og minna út í bláinn. En staðreyndin er þó hin og það stendur upp úr sem staðreynd hvað sem öllu öðru líður: Íslandsmetið í skattlagningu er í uppsiglingu.