14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2141 í B-deild Alþingistíðinda. (1509)

1. mál, fjárlög 1988

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Í athugasemdum við fjárlagafrv. segir að meginmarkmið þess sé að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum þegar á næsta ári. Þess vegna sé nauðsynlegt að gera ýmsar ráðstafanir til þess að efla innlendan sparnað, draga úr verðbólgu og minnka viðskiptahalla. Á þann veg verði lagður grundvöllur að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og ekki verður um það deilt að óhjákvæmilegt er að gæta jafnvægis svo sem kostur er í þessum efnum. Sú er reynslan að okkur Íslendingum virðist vera tamara að eyða um efni fram og láta skeika að sköpuðu en að gæta fyllsta hófs, hagsýni og sparnaðar í hvívetna.

Undanfarnar vikur hefur fjvn. setið að störfum og unnið að venjubundnum athugunum á fjárlagafrv. fyrir 2. umr. Að þessu sinni hefur óvenjumargt komið til álita sem snertir fjárlagagerðina beint og óbeint.

Má þar fyrst nefna endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Þar er tilgangurinn sagður vera að gera skattkerfið einfaldara, skilvirkara og um leið réttlátara. Að sjálfsögðu er gott og gagnlegt að hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi.

Að því er söluskattinn varðar, sem er ein helsta tekjulind ríkissjóðs, á að fækka undanþágum, helst afnema þær með öllu, að mér skilst, svo að allt verði þægilegra í meðförum. Þetta kerfi á þó ekki að vera varanlegt eða langlíft þar sem stefnt er að upptöku virðisaukaskatts í ársbyrjun 1989. Svipað má segja um launaskatt nema hvað svið hans er fært út og honum ætlað lengra líf. Þá er unnið að ýmsum breytingum, lækkun og samræmingu á tolltöxtum. Staðgreiðsla beinna skatta einstaklinga verður tekin upp frá næstu áramótum.

Loks er tekið svo til orða að fyrsta skref í átt til aukins fjárhagslegs sjálfstæðis sveitarfélaga verði stigið um næstu áramót með tilflutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Á gjaldahlið fjárlagafrv. eru ýmsar breytingar fyrirhugaðar svo sem sjá má af nokkrum frv. sem litið hafa dagsins ljós eða eru í vændum. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið sagt og öllum er kunnugt er brýnt að reyna að átta sig á hvert stefnir. Það er auðvitað deginum ljósara að samstjórn þriggja flokka hlýtur að byggja a málamiðlun á mörgum sviðum. Þm. stjórnarflokkanna, margir hverjir, hljóta því að ganga misjafnlega ánægðir til leiks þó að þeir láti ýmislegt yfir sig ganga til þess að þoka verkum áfram.

Það er ekki ætlunin að kryfja þessi mál til mergjar nú á skammri kvöldstund. Fjárlagagerðin öll er svo margslungin að þess er enginn kostur. En mér finnst ekki úr vegi að nefna nokkra þætti rétt í svip, hvort sem þeir færast endanlega til tekna eða gjalda. Það virðist vera ofarlega í hugum manna að gera alla hluti í tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs einfaldari og auðskildari. Þetta sjónarmið hefur oft verið haft á orði við endurskoðun t.d. skattalaga, svo að dæmi sé nefnt. Það er þó almennt talið að ákvæði þeirra laga hafi orðið æ flóknari með árunum og óaðgengilegri fyrir hinn venjulega skattborgara. Það er sjálfsagt eðlilegt og æskilegt að samræma tolltaxta og lækka aðflutningsgjöld á ýmsum varningi. Freistandi er að hugsa sem svo að við það muni fækka verslunarferðum Íslendinga til útlanda, verslunin færast meira inn í landið og verðlag lækka.

Frá mínu sjónarmiði skiptir þó miklu máli hver varan er. Meginreglan verður að vera sú að brýnustu lífsnauðsynjar hvers manns fáist á hóflegu verði, séu með öðrum orðum lausar við tolla og aðrar álögur svo sem frekast er unnt. Sé á hinn bóginn um ónauðsynlegan eða lítt nauðsynlegan varning að ræða er eðlilegt að tollar og aðrar álögur fari hækkandi, þeir borgi sem vilja og geta veitt sér slíkan munað ef svo má taka til orða.

Því má heldur ekki gleyma að innheimta gjalda af innflutningi er yfirleitt fljótvirk og örugg miðað við aðra innheimtu og ríkissjóður þarf á háum tekjum að halda, ekki veitir honum af. Hafa verður einnig hugfast að við verðum að gera okkur ljóst hvað við viljum og ætlum að framleiða í okkar eigin landi. Það nær ekki nokkurri átt að tefla innlendri framleiðslu, sem við viljum halda uppi, í tvísýnu með því að flytja inn erlenda vöru sömu gerðar eða svipaða, oft stórlega niðurgreidda í heimalandinu.

Um söluskattinn er það að segja að hægast er að um hann gildi einfaldar reglur. Að mínum dómi er þó útilokað að setja allan söluvarning undir sama hatt. Þar verða brýnustu nauðsynjar að vera undanþegnar, svo sem mjólk og mjólkurvörur, kjöt og fiskur. Á þessu er vaxandi skilningur sem betur fer.

Í grg. fjárlagafrv. segir að ýmsar aðgerðir séu í undirbúningi að því er varðar bætta framkvæmd skattalaga og aukið eftirlit. Um þessi atriði er allt gott að segja. Það er afar áríðandi að búa vel um hnútana svo að allir þegnar þjóðfélagsins og greiðendur opinberra gjalda hafi sem jafnasta aðstöðu, njóti þess réttar sem um er að ræða, ef um hann er að ræða, og geti ekki skotið sér undan þeim skyldum sem hver og einn verður að axla eftir efnum og ástæðum.

Hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin öll væntanlega leggur áherslu á að draga úr fjármagnstilfærslum til atvinnuvega og fyrirtækja. Bein framlög til atvinnuvega lækka, segir þar. Þetta er gott og blessað að leggja áherslu á að hver og einn verði að hjálpa sér sjálfur og standa á eigin fótum. Á hitt er að líta að engin menningarþjóð telur sér vanvirðu í því að hlaupa undir bagga með einstaklingum eða atvinnugreinum þegar svo ber undir. Alkunna er að þjóðirnar telja sér bæði rétt og skylt að styðja höfuðatvinnuvegi sína, svo sem landbúnað, sjávarútveg og iðnað, í blíðu og stríðu, sérstaklega þegar vanda ber að höndum og eitthvað bjátar á. Þar er víða um að ræða margþættan og stórkostlegan stuðning eins og dæmin sanna, gömul og ný.

Um þá verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem fyrirhuguð er mætti margt segja. Slíkar breytingar hafa að vísu legið lengi í loftinu og verið mjög umræddar á síðustu árum. Þarna er líka um að ræða mikið áhugamál margra forustumanna í sveitarstjórnarmálum um allt land. A.m.k. þarf að ganga tryggilega frá því að sveitarfélögin verði ekki verr sett en áður. Þess vegna tel ég rétt að flýta sér hægt í þessum efnum. Þetta mál hefur að sjálfsögðu verið mjög mikið í sviðsljósinu nú að undanförnu þó að öll kurl séu ekki komin til grafar enn á þeim vettvangi. Og þetta viðfangsefni hefur enn og aftur komið fram í hugann þegar fjallað hefur verið um skiptingu fjár til opinberra framkvæmda um gjörvalla landsbyggðina. Þar hefur nú, eins og oftast nær á liðnum árum, verið of lítið fé til skiptanna.

Fjvn. hefur þó gert tillögur um verulegar hækkanir, sérstaklega til skólamannvirkja og hafnargerða. Samt sem áður skortir mikið fé til þess að unnt sé að haga málum svo að hver fái haldið sínum hlut og náð rétti sínum. Sums staðar eiga sveitarfélög svo mikið inni hjá ríkinu af þessum sökum að til vandræða horfir. Við það verður ekki unað til langframa. Það dregur að skuldadögum innan tíðar vegna þess að sveitarfélag, þótt dugmikið sé og framsækið, fær ekki afborið að eiga margar milljónir inni hjá ríkinu árum saman. Þessi mál öll verður að taka til heildarskoðunar og skuldaskila sem allra fyrst.

Á hitt er að líta að það er mikið gleðiefni hve forráðamenn byggðanna um allt land eru bjartsýnir og framtakssamir. Þeir ættu það sannarlega skilið að hið opinbera stæði enn betur við bakið á þeim en raun hefur á orðið. Það eitt væri stórt framlag af hálfu ríkisins til byggðaþróunar í landinu.

Þrátt fyrir þetta sem nú hefur verið sagt er samstarf ríkis og sveitarfélaga að opinberum framkvæmdum einkar mikilvægt að minni hyggju. Ég held jafnvel að of rík áhersla hafi verið lögð á það í umræðunni að eitt og sama verk eða framkvæmd sé eða eigi að vera að öllu leyti annaðhvort á vegum ríkisins eða í höndum heimamanna.

Sumir sveitarstjórnarmenn kvarta yfir því að þurfa að ganga með betlistaf í hendi á fund fjvn. á hausti hverju. En ég hef svarað því til að enginn gangi við betlistaf sem leiti réttar síns. Menn geti því gengið hressilega uppréttir að þessu leyti þó að þeim finnist stundum naumt skammtað.

Ég vona að þróun þessara mála verði farsæl og að ekki þurfi að koma til þess í framtíðinni, ef af þessum verkefnaflutningi verður þegar heimamenn geta aðeins sótt fé í eigin kassa, að þeir segi sem svo: Ja, það var þó einhver munur hér áður fyrr þegar við gátum skroppið á fund fjvn. þó að við fengjum ekki alltaf það sem við vildum eða teldum okkur eiga fullan rétt á.

Einn þátt þessara mála vil ég nefna sérstaklega að því er varðar verkefnaflutning. Það eru tónlistarskólarnir. Ýmsir ræðumenn hafa vikið að þessu efni í kvöld og ég verð að segja að ég hlýt að taka undir margt í máli þeirra og get því stytt mál mitt að því er þetta varðar. En ég verð að segja það að nær allir tónlistarmenn, skólastjórar, kennarar og aðrir sem við mig hafa rætt um þessi mál hafa verið svo til einraddaður kór þess efnis að það sé ekki rétt að flytja þessi verkefni frá ríki til sveitarfélaga að svo komnu máli. Þetta þurfi að íhuga betur. Þeir hafa talið þá þróun mjög markvissa og farsæla sem byggist á lögunum frá 1985 um fjárhagslegan stuðning ríkisins við tónlistarskóla. Og ég get ekki stillt mig um annað, með leyfi hæstv. forseta, en að nefna örlítið dæmi þessu til styrktar. Það eru aðeins nokkrar línur sem ég leyfi mér að hafa yfir úr bréfi frá Samtökum tónlistarskólastjóra. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í litlum bæjarfélögum og þar sem nokkur smá og fjárvana hreppsfélög sameinast um rekstur eins tónlistarskóla er fyrirsjáanlegt að starfsemi skólans leggst niður. Áreiðanlegar upplýsingar liggja fyrir um að jafnvel stærri og efnaðri bæjarfélög muni ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa að rekstri tónlistarskóla af þeim myndarskap sem nú tíðkast. Til að mæta aukinni hlutdeild sveitarfélaga og þar af leiðandi auknum kostnaði þeirra verður óhjákvæmilegt að stórhækka námsgjöld. Afleiðingin verður sú að færri foreldrar hafa efni á að senda börn sín í tónlistarnám, þ.e. jafnrétti til náms verður skert.“

Þetta er allra alvarlegasta atriðið í mínum huga. Þetta er aðeins dæmi um það hvað þessi einraddaði kór hefur haft fram að færa í mín eyru. Þess vegna legg ég til að hv. alþm. íhugi þetta atriði betur.

Eins og að líkum lætur hefur eitt og annað færst til betri vegar í fjárlagagerðinni á liðnum vikum. Ég fagna því t.d. að nú mun gert ráð fyrir að iðnfulltrúar starfi áfram í svipuðu formi og verið hefur undangengin ár. Þar sem ég þekki til hafa störf iðnfulltrúa komið í góðar þarfir úti í héruðum landsins.

Eins og ýmsir hafa nefnt hefur fjvn. gert tillögur til hækkunar á fjárlagafrv. fyrir 2. umr. sem samtals nema rúmum milljarði kr. Þá er þess að geta að nefndin á eftir að fjalla um ýmis málefni fyrir 3. umr., íþróttamálefni m.a., málefni Íþróttasjóðs, svo sem siðvenja er og allir fulltrúar í fjvn. vita fullvel og allir þm. ættu að vita. En það vekur óneitanlega nokkra athygli að hv. stjórnarandstæðingar, sumir, láta nú dreifa og hafa gert í dag og kvöld brtt. sem mest þeir mega, jafnvel með nokkuð sérstökum hætti. Einn hv. fulltrúi í fjvn., 6. þm. Suðurl., lætur sig ekki muna um að fara í hringferð um landið til þess að nefna nokkru hærri tölur í sambandi við opinberar framkvæmdir en gert var í fjvn. Og hv. 7. þm. Reykn. flytur á þskj. 265 till. um að veita 15 millj, kr. til framkvæmda í heilsugæslumálum á Seltjarnarnesi. Fjvn. hafði gert till. um 6 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni, en þm. Reykn. samþykktu að flytja hana á aðra staði í kjördæminu með samkomulagi sín á milli að því er best verður vitað, svo sem tíðkanlegt er og þeir hafa fulla heimild til. Ég verð því að segja að þetta er nokkuð óvenjulegt í tillöguflutningi miðað við það sem við höfum vanist á undanförnum árum.

Að venju hefur fjvn. orðið að synja mörgu erindi sem vert hefði verið að styðja. Það er sama sagan ár frá ári. Um ýmislegt verður fjallað nánar fyrir 3. umr. og lokaafgreiðslu fjárlagafrv. Ég þakka hv. fulltrúum í fjvn. gott samstarf, svo og því ágæta fólki sem veitt hefur nefndinni margvíslega aðstoð.