14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1512)

1. mál, fjárlög 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Erindi mitt hingað er aðallega að mæla fyrir nokkrum brtt. sem ég flyt, ýmist einn sér eða með öðrum hv. þm., sem ekki hefur verið gerð sérstök grein fyrir enn þá, enda umræðan ekki orðin ýkja löng og nógur tími til að fjalla um það sem eftir er af slíku tagi. En það er nú eins og oftar að þegar maður er kominn hingað í ræðustólinn á annað borð þá vill maður leggja eitthvað almennt til málanna. Mig langar til að fara nokkrum orðum um fjárlagafrv. í heild sinni ekki síst með tilliti til þess að nú mun styttast fremur í það að virðulegur fjmrh. stígi í stólinn, hæstv., og tjái sig e.t.v, eitthvað um skattahlið frv.

Það hefur sem sé verið nefnt einstöku sinnum áður í umræðunni að þetta fjárlagafrv. sé allmikið skattafrv., boði mikla skattheimtu og hefur það verið að mínu mati rækilega sannað svo ekki verður um deilt af rökföstum mönnum að það stendur til að slá Íslandsmet í skattheimtu á næsta ári, taka hæsta hlutfall í ríkissjóð af landsframleiðslu nokkru sinni. Þá er rétt að muna að það er ekki verið að taka þetta háa hlutfall, 24,7% eða hvað það nákvæmlega er eða verður, af neinni smánarlandsframleiðslu heldur líklega einnig af Íslandsmetsframleiðslu á því sviði. Ef við verðum ekki fyrir neinum skakkaföllum eða skattaföllum að ráði á næstunni ætti verðmætasköpun hér a.m.k. að verða svipuð og hún var á þessu ári eða er á yfirstandandi ári, sem sagt hin mesta í sögunni. Það er því dável að verki staðið hjá þessari hæstv. ríkisstjórn að taka hæsta skattahlutfall sögunnar af mestu landsframleiðslu sögunnar.

Þetta hefur orðið mér tilefni til nokkurra hugleiðinga um mannleg örlög. Sérstaklega hefur mér orðið hugsað til hv. þm. Reykv. Eyjólfs Konráðs Jónssonar, sem mun vera 8. þm. Reykv. Þannig vill til að hann er hvort tveggja í senn stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og gegnum tíðina mikill áhugamaður um að ríkisbáknið þenjist ekki óskaplega út og taki ekki allt of mikið til sín.

Ég kom að máli við þennan hv. þm. fyrir nokkrum dögum og falaði hjá honum ritverk sem ég vissi að hann hafði gefið út eða komið hafði út með hans afrekum á ritvellinum. Þetta er hin skrautlegasta bók og heitir Út úr vítahringnum. Þar er að finna margar af helstu gullperlum þeirra manna í Sjálfstfl. sem mest hafa hatast gegn því að skattpeningum væri safnað í ríkissjóð. Ef hv. þm. hefði heiðrað okkur með nærveru sinni hefði ég glatt hann með því að vitna í ritverkið og sýna honum þannig að ég hef þegar haft góð afnot af gjöfinni.

Það var þannig að á árunum 1977–1978 hóf hv. þm. að setja fram í riti þá skoðun sína að nauðsynlegt væri að vinna þjóðina út úr verðbólguvítahringnum með því að reka ríkissjóð með umtalsverðum halla og skera niður skatttekjurnar, fjármagna reksturinn tímabundið með innlendum lántökum og þar með mundi verðbólgudraugurinn verða kveðinn niður og efnahagslífið taka hinn mesta fjörkipp. Og hann hafði uppi stór orð um þessar miklu tilhneigingar manna til að taka skatta og hefur sjálfsagt þótt nóg um skattagleði þeirrar ríkisstjórnar sem sat að völdum á árunum 1974–1978 því hann var þegar farinn að setja fram kenningar sínar, hv. þm., á þeim tíma. En ekki tók nú betra við þegar að völdum komust aðrar ríkisstjórnir, fyrst sú sem sat á árunum 1978–1979 og síðan sú sem sat á árunum 1980–1983, því þá þóttist hv. þm. hafa tækifæri til að kveða dálítið fast að orði um skattabrjálæðið og notaði ekki minni orð en svo, með leyfi forseta, að í grein sem birtist í Morgunblaðinu 4. okt. 1979 segir m.a. í 5. kafla, með leyfi forseta:

„Verðbólgan vörn gegn vinstra brjálæði“. — Og áfram: „Skattheimtubrjálæði vinstri stjórnarinnar er orðið með þeim hætti að nauðvörn fólksins er að hjálpa til við að reka verðbólgu áfram því að frekar er unnt að borga skattana ef krónan minnkar nógu ört. Alla viðbótarskatta vinstri stjórnar mun ný stjórn afnema þegar í stað, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn markað sér þá stefnu.“

Það mætti grípa víðar niður í þessari ágætu bók til marks um að hv. þm., höfundur bókarinnar Út úr vítahringnum, taldi sig, a.m.k. á þeim tíma, vera talsmann yfirlýstrar stefnu Sjálfstfl. Þannig segir í gagnmerkri ræðu sem birt er í bókinni og líka má finna í þingtíðindum því hún var flutt á Alþingi Íslendinga í Ed. 2. febr. 1981: „Ríkið verður að slaka á klónni“. — Og síðan segir á bls. 47, með leyfi forseta: „Ég skal nefna nokkur dæmi þess hvar skilur á milli stefnu Sjálfstfl. og ríkisstjórnarinnar“, segir hv. þm. „Ríkisstjórnin hækkar skatta í sífellu, bæði tekjuskatta, eignarskatta, fasteignaskatta og neysluskatta, nú síðast með því að falsa skattvísitölu og leggja gjaldið fræga á öl og sælgæti. Sjálfstfl. hefur margsinnis ályktað að hann vilji afnema alla vinstri skattana.“ (AG: Það gerir Borgarafl. núna.) Hv. þm. er þó enn í Sjálfstfl., sem skrifaði þessa bók. Nú liggur það hins vegar fyrir að Sjálfstfl. hefur verið í ríkisstjórn í hátt á fimmta ár. Mér er ekki kunnugt um að einn einasti skattur af þeim sem hér er verið að ræða um hafi verið afnuminn nema ef vera skyldu einhverjar álögur á bönkum og fjármagnseigendum sem hæstv. næstsíðasta ríkisstjórn afnam snemma á ferli sínum. En nú stendur til að bæta stórfelldum sköttum ofan á þá sem þarna var hamast gegn. Og það er von að Eyjólfi Konráði Jónssyni líði illa, hv. 8. þm. Reykv., og hafi haft um það heitingar fyrr á haustinu eða fyrr á vetrinum að hann teldi sig óbundinn af tekjuhlið fjárlaganna. Reyndar lýsti hann því yfir að allur Sjálfstfl, væri óbundinn af tekjuhlið fjárlaganna, en það var borið til baka.

Þetta er einstakur árangur hjá hæstv. ríkisstjórn og það er ástæða til að óska Sjálfstfl. alveg sérstaklega til hamingju með þetta. Það er dálítið athyglisvert hversu fámálir hv. þm. Sjálfstfl. og reyndar einnig Framsfl. hafa verið um þessa gífurlegu skattheimtu. Skyldi það eiga sér einhverjar sérstakar skýringar, virðulegi forseti, að þeir hafa kosið að skýla sér á bak við hinn klæðlitla Alþfl. í þessum efnum? Jú, ætli það sé ekki það að þá gruni að þetta sé ekki í fullu samræmi við ýmislegt það sem þeir hafa verið að boða og slá sig til riddara með. Hvað er t.d. að gerast í sambandi við tekjuskatt á Íslandi sem Alþingi Íslendinga var einu sinni búið að samþykkja með ályktun að afnema í sjálfu sér, tekjuskatt af öllum almennum launatekjum? Það verður ekki séð að hann sé neitt á förum, sá skattur, þegar verið er að leggja út í stórfelldar kerfisbreytingar til þess eins að innheimta þennan skatt með nýjum hætti. Varla væru menn að því ef menn byggjust við því að hann gufaði upp eða yrði aflagður á næstu árum.

En það kynni líka að vera önnur ástæða fyrir því að hv. þm. Sjálfstfl. og Framsfl. eru ekki mikið að æsa sig yfir þessum skattkerfisbreytingum og láta sér nægja að standa skáhallt aftan við Alþfl. í þessum efnum sú að þeir átti sig á því að það er e.t.v. ekkert endilega mjög klókt að gerast sérstakir talsmenn og varnaraðilar þess að slá Íslandsmet í skattheimtu. Sú ástæða er að þessa skatta á fyrst og fremst að taka af launafólki. Það á ekki að hrófla við þeim gullkálfum sem standa þessum flokkum hjarta næst, þá sem eiga hið raunverulega stórfjármagn í þjóðfélaginu. Og hver er sönnun mín fyrir því, virðulegi forseti, að hér sé verið að leggja á launamannaskatta? Jú, það er sú staðreynd að það á að stórbreikka skattstofna almennra neysluskatta í landinu og það á í tengslum við staðgreiðslukerfisskattbreytinguna, eftir því sem mér sýnist, að íþyngja einnig almenningi vegna þess að það er veruleg hætta á að þær ívilnandi aðgerðir, sem áformaðar voru og áttu að koma upp á móti öllum þeim undanþágum sem kippt var í burtu er staðgreiðslulögin og breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt voru gerðar í fyrra, skili ekki því sem þeim var ætlað, alla vega ekki þegar afkoma almennings er skoðuð í samhengi við þá neysluskatta eða óbeinu skattabreytingar sem einnig eiga að verða.

Hver er svo þátttaka atvinnurekenda, hver er þátttaka fjármagnseigenda, hvar er skatturinn á stóreignirnar? Jú, það læddist hérna inn á borð hv. þm. núna rétt fyrir miðnættið lítið frv. sem var alveg ágætt að fá í hendurnar í tengslum við þessa skattaumræðu. Það var frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75 frá 1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum. Og hvaða kafla þess frv. er verið að fjalla um? Jú, skattlagningu fyrirtækja. Nú hefur verið upplýst að það á að leggja á nýja skatta á næsta ári upp á 8750 millj. Og hver er þátttaka fyrirtækjanna í landinu í því? Jú, það kemur fram í þessum snepli sem kom hérna ljósritaður. Það var ekki einu sinni búið að prenta það. Það kom hérna í kvöld. Og þá geta menn farið yfir í almennar athugasemdir með því frv. Þar segir:

„Á fjárlögum fyrir árið 1988 er gert ráð fyrir að tekjuskattur fyrirtækja á því ári verði um 150 millj. kr. hærri en hann er áætlaður skv. óbreyttum skattalögum.“

Síðan er farið í það í grg. hvernig eigi að breyta skattareglum fyrirtækjanna. Það er þannig að það á að fella niður framlag í varasjóð. Þar gæti orðið um 118 millj. kr. skattstofn að ræða sem þýddi 53 millj. í skatta eða tekjur. Það á að breyta reglum um niðurfærslu vörubirgða þannig að það gæti skilað 297 millj. kr. til viðbótar. Og hvað gera snillingarnir þá? Jú, þeir sjá náttúrlega að þetta er allt of, allt of mikið. Það má ekki láta fyrirtækin sitja uppi með þessi auknu útgjöld á næsta ári. Og hvað er gert? Í þriðja lagi er skatthlutfall fyrirtækjanna fært niður úr 51% í 45, lækkun tekjuskattshlutfallsins hjá fyrirtækjunum til að draga til baka stóran hluta af þeirri útgjaldaaukningu sem fyrirtækin gætu orðið fyrir vegna hinna reglnanna. Og niðurstaðan er hver? 163 millj. kr. Rétt rúmlega þær 150 millj. sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Við skulum þá segja að þær 163 millj. séu inni í þeim pakka sem fjárlögin og síðari ráðstafanir hafa gert ráð fyrir í auknum skattaútgjöldum. Og hvað þýðir það þá? Það þýðir að þátttaka fyrirtækjanna í skattaukningunni upp á 8750 millj. kr. er 1,7%. 1,7% á að fara á þær breiðu herðar. Restina á í raun og veru að leggja fyrst og fremst á almenning því það bólar ekkert á öðrum sköttum, á öðrum álögum frá hæstv. fjmrh. Þetta er slík niðurstaða, ef þetta plagg hér á að verða allt og sumt sem við eigum að fá í hendur um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst taka á öðrum aðilum, öðrum en launamönnum, að greiðir varla götu þess, ég segi það fyrir mitt leyti a.m.k., að maður fari að greiða framgang þessara geysilegu nýju skattaálaga hér á Alþingi. Snautlegri magalendingu hef ég varla séð ef þetta er allt og sumt sem hæstv. fjmrh. eftir öll stóru orðin ætlar að sýna á þessu sviði. Það er heldur dapurlegt.

Virðulegur forseti. Það hefur verið margfarið yfir það hér á hversu veikum grunni allar forsendur fjárlaganna hvíla. Fyrsta ástæðan er sú að öll tekjuhlið fjárlaganna nánast eins og hún leggur sig er galopin, er í uppnámi. Hún er í vinnslu í höndunum á hv. alþm. á sama tíma og þeir eru að reyna að loka fjárlögunum. Þetta eru mjög sérkennileg vinnubrögð. Í staðinn fyrir að reyna fyrst að koma tekjustofnum ríkissjóðs á hreint með því að afgreiða þau mál í október eða nóvember og vinna síðan fjárlög á grundvelli þeirra laga, sem í gildi yrðu á næsta ári og skiluðu tekjum í ríkissjóð, eru menn að reyna að gera þetta allt í einu. Og hvernig á það eiginlega að ganga? Ég segi alveg eins og er að það er von að það liggi ýmislegt ekki fyrir þegar svoleiðis er að hlutunum staðið. Það má nefna það eitt, sem reyndar fleiri hafa komið inn á, að verðlagsforsendurnar allar eru þegar augljóslega út í loftið. Enn hefur ekkert birst annað en að skv. fjárlagafrv. og forsendum þess, þeirrar þjóðhagsáætlunar sem þar er byggt á, er gert ráð fyrir að munur milli verðlagsþróunar og kaupgjaldsþróunar verði 1% eða nálægt 1%, eins og reyndar hv. þm. Kjartan Jóhannsson réttilega minnti mig á á fundi fjh.- og viðskn. í kvöld. Ég fletti upp í fjárlagafrv., fremst í greinargerðinni, og það stendur heima. Og hvað eru menn þar að tala um? Að laun hækki um 16–17% á milli áranna 1987 og 1988, en verðlag að öðru leyti um 17–18%. Það er við aðstæður sem eru þannig að verðbólgan er um eða yfir 30% og engar sérstakar horfur á því að fróðra manna mati að hún hreyfist neitt, a.m.k. ekki niður á við. Þannig þarf eitthvað mikið að gerast og nánast kraftaverk ef þessar verðlagsforsendur eiga að geta staðist. Það þarf eitthvað mjög mikið og mjög gleðilegt að gerast. Og hvað þýðir það líka? Það þýðir líka að t.d. allar áætlanir um skattbyrði hanga meira og minna í lausu lofti þegar verið er að festa niður skattaprósentur og upphæðir persónufrádráttar og ýmsa slíka hluti.

Það vita allir hvaða áhrif t.d. gengisbreytingar geta haft á afkomu ríkissjóðs í gegnum innflutning til landsins, viðskiptahalla og fleira. Allt er þetta meira og minna í lausu lofti. Og ég held að þó að hæstv. fjmrh. sé ugglaust kjarkmikill maður hljóti að vera farnar að renna á hann tvær grímur um að þetta gangi allt upp hjá honum. Það væri að mínu mati nóg fyrir hæstv. fjmrh. að reyna að koma staðgreiðslugrunni tekjuskatta og útsvars á í landinu með sæmilega farsælum hætti og geyma sér aðrar kerfisbreytingar a.m.k. eitthvað fram eftir árinu ef ekki til næsta árs.

Ég hef ekki nokkra trú á því að það hefði skipt þeim sköpum þó breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs að öðru leyti hefðu verið látnar bíða, að það hefði munað meiru en því sem er hætt með því að gera alla þessa hluti í einu. Ég hefði talið að það hefði verið miklu farsælla bæði í bráð og lengd að leggja meiri vinnu og meiri natni við að koma staðgreiðslukerfisbreytingunni á með farsælum hætti. Það var mál og er mál sem naut mikils velvilja og stuðnings víða í þjóðfélaginu, bæði aðila vinnumarkaðarins, stjórnmálaflokkanna og fleiri aðila, og þar voru menn tilbúnir til að taka á saman og leggja á sig vinnu til að komast að sem sanngjarnastri niðurstöðu. Ég tel að hæstv. fjmrh. stefni þessu öllu meira og minna í voða með því að hleypa öllu tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs í uppnám á einu og sama haustinu.

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins til að nefna, eins og ég hef reyndar fyrr gert í umræðum um sérstakt þingmál þar að lútandi, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar er á ferðinni enn eitt málið sem á að drífa í gegn við þær aðstæður sem ég hef þegar rakið og er í sjálfu sér stórmál sem æskilegt hefði verið að hv. Alþingi og mörgum fleiri aðilum hefði gefist góður tími til að hugleiða. Þó að menn hafi lengi rætt um nauðsyn þess að gera hreinni skil í verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og nauðsyn vissrar endurskoðunar á þeim hlutum þýðir það ekki þar með að menn séu tilbúnir að gleypa nánast hvað sem er bara til að prófa það. Þó að það kerfi sem í gildi hefur verið hafi engan veginn verið neitt sérstaklega fullkomið vita menn þó hvað menn búa við þar. Ég óttast mjög að þær breytingar sem nú á að rjúka í séu á engan hátt nógu vel ígrundaðar og ég gæti fært fyrir því mörg rök. Ég læt mér nægja að gagnrýna hér, eins og ég hef reyndar gert áður, þá framkomu við sveitarfélögin að á sama tíma og ríkið er að taka til sín geysilega auknar tekjur eða breikka þá stofna sem standa undir tekjuöflun ríkisins er verkefnum velt yfir á sveitarfélögin upp á 200 millj. kr. eða eitthvað nálægt því. Og hvað fá þau í staðinn? Þau fá í staðinn minni skerðingu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem þau í raun eiga, tekjustofn sem er þeim lögum samkvæmt markaður en hefur verið stolið úr undanfarin ár. Þessi býtti eru alveg hraksmánarleg og mesta furða að sveitarfélögin skuli ekki bara af þeirri einu ástæðu, hvernig á að standa að þessu, mótmæla þessari ósvinnu, hversu mikill sem áhugi þeirra kynni að vera á því við eðlilegar aðstæður að taka til sín einhver verkefni á jafnréttisgrundvelli. Það sem ég mundi í því sambandi kalla jafnréttisgrundvöll væri að sveitarfélögin fengju þá sjálfstæða tekjustofna á móti fyllilega sambærilega við þær auknu byrðar sem þau öxluðu.

En virðulegi forseti. M.a. vegna þess að þetta mál á eftir að koma til ítarlegrar umræðu á hinu háa Alþingi get ég geymt mér út af fyrir sig það, en ég vildi ekki láta hjá líða að nefna þetta í framhjáhlaupi. Þá ætla ég aðeins að víkja beint að þeim brtt. sem ég flyt eða er meðflm. að. Þar er í fyrsta lagi brtt. á þskj. 272 og varðar 4. gr. fjárlaganna, lið 02203 Raunvísindastofnun Háskólans. Þar er ekki farið fram á ýkja stóra hluti, en engu að síður býsna mikilvæga að mínu mati. Ég legg þar til að aukið verði við fjárveitingar til jarðfræðistofu um 600 þús. kr. og vil gera nokkra grein fyrir því hvaða verkefni ég hef þar í huga.

Það er svo að þeir sem til þekkja á sviði grunnvatnsrannsókna á Íslandi hafa gert sér grein fyrir því, og sú umræða hefur einkum og sér í lagi verið uppi hin allra síðustu ár, að þekking manna á þeim hluta grunnvatnsins sem er kaldur eða volgur er til muna minni en æskilegt væri, ekki síst með hliðsjón af því að Íslendingar eru orðnir býsna vel að sér um allan sinn háhita og jarðhitasvæði og mega heita sérfræðingar á alþjóðamælikvarða á flestum sviðum sem nýtingu þeirra hluta tengjast. En áhugi manna hefur á síðustu árum farið mjög vaxandi fyrir því að vita meira um efnafræði- og eðliseiginleika grunnvatns, kalds vatns og lághitasvæða. Ástæðan er margþætt. Þar kemur fyrst og fremst til sú mikla hagnýta þýðing sem þekking á þessu sviði getur haft fyrir fiskeldi sem er mjög vaxandi atvinnugrein í landinu. Og þó að því verkefni sé sinnt af ýmsum aðilum, m.a. Orkustofnun eðli málsins samkvæmt, kemur það ekki í staðinn fyrir að við Háskóla Íslands eða Raunvísindastofnun sé unnt að stunda grunnþekkingaröflun og grunnrannsóknir á þessu sviði. Í því skyni hafa sérfræðingar á Raunvísindastofnun mjög mikinn áhuga á að unnt sé að sinna sýnatöku og úrvinnslu til að auka grunnþekkingu við Háskólann á þessu sviði sem síðan yrði miðlað, eins og venja er til um þekkingu sem þannig er aflað, innan hinnar akademísku stofnunar út til annarra aðila hvort sem það eru sjálfstæðir atvinnurekendur, sveitarfélög eða aðrar fræðistofnanir eins og Orkustofnun eða Líffræðistofnun Háskólans.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þetta verkefni komist á einhvern fastan grundvöll. Því hefur verið sinnt með framlögum úr Rannsóknasjóði og Vísindasjóði á undanförnum missirum, en það er öllum ljóst sem til þekkja að slíkt getur eðli málsins samkvæmt eingöngu verið tímabundin ráðstöfun. En það sýnir þó skilning þeirra manna sem þar ráða ferðinni á þörfum þessa verkefnis að til þessara þarfa hefur verið veitt umtalsverðum framlögum undanfarin ár.

Auðvitað eru mjög margar aðrar stöður, bæði innan Háskólans og mjög víða annars staðar, sem erfitt er að segja að séu ekki jafnþýðingarmiklar eða erfitt er að segja að eigi fremur að ganga fram hjá en þessu tiltekna verkefni og ég er í sjálfu sér ekki að gera það þó ég dragi það fram með þessum hætti. En ég legg sérstaka áherslu á að ég tel það faglega mjög skynsamlegt og ég tel það praktískt að þessu verkefni verði hrint af stað, t.d. með því að Raunvísindastofnun fái þarna einhverja hlutastöðu sem gæti komið á móti styrkjum til að sinna þessu verkefni. Ég get vitnað til bréfa sem hæstv. fjvn. mun hafa fengið þar sem fyrir liggur mikill áhugi fjöldamargra aðila sem tengjast fiskeldi, sem tengjast nýtingu grunnvatns, sem tengjast matvælaiðnaði. Öllum ber þar saman um að mikil nauðsyn sé á því að vitneskja aukist á þessu sviði.

Virðulegur forseti. Ég vil taka fram að ég vænti þess að hæstv. fjvn. og hæstv. fjmrh. íhugi þetta mál. Ég fer fram á það og er út af fyrir sig tilbúinn að kalla brtt. aftur til 3. umr. ef það mætti greiða fyrir því að sá tími sem þar með vinnst mætti greiða fyrir því að þetta mál yrði vendilega skoðað.

Síðan flyt ég á þskj. 273 nokkrar gamlar og kunnuglegar till., þar á meðal eina sem ég mun hafa flutt hvert einasta ár sem ég hef tekið þátt í afgreiðslu fjárlaga og lýtur að því að hækka framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu. Mér hafa frá upphafi vega þótt framlög okkar og frammistaða okkar á því sviði einstaklega smánarleg fyrir sjálfstæða og mjög ríka þjóð eins og við Íslendingar erum, að mestu leyti a.m.k., og hef aldrei séð nein rök fyrir því að við ættum öðrum þjóðum fremur á Vesturlöndum og meðal Norðurlandaþjóða að draga sérstaklega lappirnar í þessum efnum. Mörgum hefur þótt að fortíð okkar gæfi fremur tilefni til hins gagnstæða, að við hefðum á því jafnvel meiri skilning en ýmsir aðrir hversu nauðsynlegt getur verið að styðja við bakið á þjóðum sem eru e.t.v. nýbúnar að öðlast sjálfstæði sitt og eru að skrefa sig áfram til nokkurrar velmegunar og þroska, en þó hefur þetta verið þannig að við erum í hópi allra lægstu þjóða sem komist hafa sæmilega til bjargálna hvað framlög á þessu sviði snertir. Nú skortir ekki til að við getum ýmislegt lagt af mörkum fleira en peninga ef út í það er farið og hefur margoft verið rætt að hluti af slíkri aðstoð gæti falist í því að við aðstoðuðum aðrar þjóðir á þeim sviðum þar sem mest munar um okkur, til að mynda á sviði sjávarútvegs og við nýtingu jarðhita.

Ég legg til fremur hógværa hækkun á þessum lið, eins og ég hef reyndar gert, að þetta framlag hækki úr þeim 20 millj. sem settar voru nú inn í fjárlagafrv. af allri þeirri rausn sem vitnar um höfunda þess, umtalsverð lækkun frá fyrra ári. Legg ég til að það fari í 80 millj. kr. Mér skilst að fjvn. sé með einhverja lítilvæga hækkun í sínum till. og er allt gott um það að segja þó að það dragi auðvitað skammt.

Síðan hef ég tekið tvo liði sem ég tel óþarfa í fjárlagafrv. Það er í fyrsta lagi 13 millj. og 520 þús. kr. fjárveitingu til að við getum tekið þátt í hernaðarbandalaginu NATO. Ég tel að það dugi þar að veita 1000 kr. til að ganga frá þeim skjölum og póstleggja sem þarf til að segja sig úr klúbbnum og hef því lagt til að fjárveitingar á næsta ári í þetta verkefni verði 1000 kr. Þarf ég held ég ekki að rökstyðja það frekar.

Síðan er einn liður enn sem tengist utanríkismálum eða þeim málum sem heyra undir utanrrn. og það er liður sem mér hefur þótt sérstaklega hneykslanlegur og einstök lítilsvirðing við íslensku þjóðina. Það er sú aðferð, sem höfundum fjárlagafrv. á síðasta ári datt í hug, að færa rekstur ratsjárstöðva bandaríska hersins, sem skal alfarið kostaður af þeim aðilum upp á hverja einustu krónu, út og inn í gegnum íslensku fjárlögin. Nú er það eins og allir vita að rekstur þessara hernaðarmannvirkja er íslensku þjóðinni óviðkomandi, er algerlega kostaður af Bandaríkjamönnum og Atlantshafsbandalaginu og eru væntanlega ekki tillögur uppi eða hugmyndir uppi um annað. Þar af leiðandi tel ég það með öllu órökrétt, óviðeigandi og í raun og veru móðgun og lítilsvirðingu að færa þessi hernaðarútgjöld inn í íslensku fjárlögin. Þetta hljóta að vera fyrstu beinu útgjöldin í umsvifum af hernaðartagi sem þannig eru inn færð. Ég sé í raun og veru ekki neinar ástæður nema þá ef vera skyldi einhverjar misskildar pólitískar forsendur fyrir því að færa þarna út og inn nákvæmlega sömu töluna, þ.e. annars vegar útgjöld vegna rekstrar upp á tilteknar fjárhæðir, einhverja tugi milljóna ef ég man rétt, og hins vegar nákvæmlega sömu töluna inn sem framlag frá Bandaríkjamönnum eða Atlantshafsbandalaginu. Ég beini því til hæstv. fjmrh. hvort hann sem nýr maður í embætti væri fáanlegur til að taka það upp við hæstv. utanrrh., sem er mikill stuðningsmaður slökunar og vinsamlegrar sambúðar þjóða bæði í austri og vestri eins og við vitum, að fella þennan leiða lið út úr íslensku fjárlögunum. Ég sé ekki að það skipti nokkru máli þá Bandaríkjamenn hvort þeir greiða þetta með gegnumstreymi í gegnum íslensku fjárlögin eða ekki. Mér þætti til mikilla bóta ef þessi ljóti og leiðinlegi liður hyrfi í burtu, sé ekki að það ætti að vera útgjaldamikið fyrir hæstv. fjmrh. og utanrrh. að koma sér saman um að hafa það þannig.

Ég vil taka undir með Svavari Gestssyni, hv. 7. þm. Reykv. um nauðsyn þess að fjárveitingar til mannvirkjagerðar á landspítalalóðinni, nánar tiltekið til K-byggingarinnar, verði auknar. Ég hef setið, virðulegur forseti, í stjórnarnefnd ríkisspítalanna undanfarin fjögur ár og yfirgef nú þá ágætu nefnd um áramótin. Ég hef því haft ágætis tíma til að kynna mér stöðu mála á ríkisspítölunum og hef út af fyrir sig haft af því ánægju og mikið gagn að kynnast innviðum þeirrar miklu starfsemi sem þar er rekin. Ég vil leyfa mér að fullyrða við hv. alþm. að engir ein framkvæmd er jafnmikilvæg fyrir framþróun læknavísinda á Íslandi og sú að K-byggingunni miði með eðlilegum hætti þannig að sú miðstöð nútímalækninga sem þar á að staðsetja og færa inn á næstu árum með nýtísku tækjakosti til röntgen- og krabbameinslækninga og fleiri slíkra hluta komist áfram með eðlilegum hætti.

Það er einnig þannig að við gífurleg þrengsli er að búa á ríkisspítölunum yfir höfuð og allar þær úrlausnir sem horft er til með húsnæðismál tengjast þeirri rýmkun sem verður þegar tiltekin starfsemi flytur út í hina nýju K-byggingu. Ég óttast því mjög að ef sú áætlun sem hefur verið unnið eftir á undanförnum árum og gerir ráð fyrir ákveðnum verkáföngum verður brotin upp með ónógum fjárveitingum, eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, verði þar upplausnarástand og allt það samkomulag sem reynt hefur verið að ná um nýtingu húsnæðis og áfanga í þeim efnum verði fyrir bí.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim brtt. helstum sem ég flyt eða er meðflm. að. Ég vil segja að ég hef ekki farið út í þann hátt, sem ég sé að ýmsir aðrir hv. þm. gera, að flytja brtt. til hækkunar með e.t.v. einstaka framkvæmdaliði í mínu kjördæmi. Ég geri mun frekar og finnst það geðslegra vinnulag að gera frekar almennar athugasemdir við fjárveitingar í þá málaflokka sem ég tel að séu illa leiknir í frv. eða fyrirhuguðum fjárveitingum og tel þar með að ég geri grein fyrir því að ég sé og þekki og veit mjög vel að ýmis verkefni í mínu kjördæmi, jafnvel í minni heimabyggð fá ekki þær fjárveitingar sem nauðsynlegt væri og vert væri, en þannig hlýtur það einfaldlega að vera þegar of naumt er skammtað í heildina að þá verði margir óánægðir og þar með talið þm. einstakra kjördæma fyrir hönd sinna kjördæma. Ég tel þó betra og farsælla, ef menn geta, þrátt fyrir almenna fyrirvara af því tagi um það fjármagn sem til skiptanna er, að reyna að ná samkomulagi um þá útdeilingu sem verður að eiga sér stað á þeim fjármunum sem til skipta verða. Það hefur verið mitt vinnulag þann tíma sem ég hef tekið þátt í slíku og mun ég halda því áfram nema eitthvað mjög óvænt gerist. Ég hef því ekki flutt sérstakar brtt. um hækkun á einstökum framkvæmdaliðum í mínu kjördæmi heldur eingöngu tekið út úr nokkra almenna þætti sem ýmist tengjast staðbundnum verkefnum sem eru einstök eða með alveg sérstaka stöðu eða þá fjárveitingum til heilla málaflokka. Ég hefði átt létt með að útbúa ýmsar góðar brtt. um hafnir, skóla, sjúkrahús eða aðra slíka framkvæmdaliði hvort sem heldur væri í Norðurlandskjördæmi eystra eða þess vegna um land allt, en ég tel eðlilegra í sjálfu sér að menn ræði málaflokkana sem slíka, um þá þörf sem þar er í heild sinni frekar en einstaka staðbundna hluta þeirra.

Virðulegi forseti. Ég ætla þá að ljúka þessari umfjöllun minni við 2. umr. fjárlaga og geri ekki ráð fyrir að tala mikið oftar nema í þetta eina sinn. Ég verð að segja að það er ástæða til að óska hæstv. fjmrh. til hamingju með ýmislegt eins og skattametið. Ég tel það alveg sjálfsagt. Þetta er glæsilegur árangur í skattheimtu og fari að vonum og innheimtist og reytist þessir skattar inn með þeim hætti sem ætla má eða vænta má verður úr ýmsu að moða hjá hæstv. fjmrh. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hefði getað hugsað mér skiptingu þess fjár með nokkuð öðrum hætti, en þó geri ég það ekki að aðalatriði míns máls. Um slíkt má lengi þrasa. En það sem ég hefði viljað sjá miklu öðruvísi er hvaðan þessar tekjur koma. Það er að mínu mati alveg lykilatriði.

Ég er skattheimtumaður eins og hæstv. fjmrh. greinilega er og ég er ekki að agnúast í sjálfu sér við það að tekið sé inn í ríkissjóð fjármagn til samneyslu í landinu. Ég vil að það sé alveg morgunljóst þó hér sé komin nótt og rúmlega það að ég er ekki að gagnrýna þessa hluti mikið á þeim forsendum að það þurfi ekki peninga til að greiða hinar sameiginlegu þarfir. Það sem skiptir hins vegar miklu máli er að þeirra sé aflað með sanngjörnum hætti þeir beri byrðarnar sem hafa til þess burðarþol. Auðvitað á síðan að reyna að eyða tekjunum líka þannig að í því felist nokkur jöfnun. Þar get ég ekki óskað hæstv. fjmrh. né þjóðinni til hamingju, því miður. Ég tel að þessi mikla skattheimta, ekki í sjálfu sér stærðarinnar vegna heldur í ljósi þess hvernig fjárins er aflað, sé mjög dapurleg ef ekki sorgleg niðurstaða bæði fyrir þjóðina og fyrir hæstv. fjmrh.