14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (1516)

1. mál, fjárlög 1988

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var mikið að ráðherrann vaknaði. Það var rætt við hann snemma í kvöld um þau atriði sem hann fór hér nokkrum orðum um og það hefði auðvitað getað orðið til þess að flýta umræðunni ef hann hefði fyrr í kvöld komið hér upp og greint frá svörum sínum að því er þessi mál varðar og reyndar fleiri því það var fjölda-, fjöldamargt annað sem kom fram í þessum ítarlegu umræðum um fjárlögin í kvöld og í nótt sem hefði auðvitað verið ástæða til að fá sem kom fram í þessum ítarlegu umræðum um fjárlögin hér í kvöld og í nótt, sem hefði auðvitað verið ástæða til að fá svör við, bæði frá honum, hæstv. fjmrh., sömuleiðis frá hæstv. menntmrh., sem spurður var trúi ég, og hæstv. heilbr.- og trmrh. Og það væri auðvitað maklegt að farið væri fram á það að þeir væru ræstir út þannig að það mætti spyrja þá nokkru nánar og fá svör frá þeim.

Nú skulu menn ekki halda að þetta sé hótfyndni ein. Staðreyndin er sú að ef stjórnin hefur áhuga á því að ljúka þinginu og verkum þess einhvern tímann á næstu dögum, þá er nauðsynlegt að ráðherrar temji sér það, og ég tel það vera lágmarks mannasiði af þeirra hálfu, að svara spurningum sem stjórnarandstaðan eða aðrir þm. kunna að leggja fyrir þá. Þeim er engin vorkunn að sitja hér eins og hálfar nætur í umræðum ef þörf krefur vegna þess að það eru þeir sem eru að reka á eftir afgreiðslu mála en ekki við. Ég fullyrði að þessi framkoma stjórnarliðsins í kvöld og í nótt getur ekki greitt fyrir meðferð þingmála á næstu dögum. Úr því að þeir ekki nenna að hanga hér uppi þegar þörf krefur, þá náttúrlega hljótum við, sem vinnum hér nætur og daga í umræðum, bæði í þinginu og í nefndarstörfum, að ætla okkur eðlilegan hvíldartíma eftir því sem þörf krefur á þeim sólarhringum sem eftir hafa þar til hátíð gengur í garð.

Ég tel að þessi frammistaða núv. ríkisstjórnar sé með því allra lakasta sem ég man eftir af ráðherrum hér á undanförnum árum. Þeir hafa yfirleitt nennt að hanga hér uppi fram eftir kvöldum ef þörf hefur krafið eða ef þeir sjálfir hafa óskað eftir því að umræðunni ljúki. En það gengur ekki svo í þetta skiptið og það er hin aumasta frammistaða því að til þess að hægt sé að ljúka þingstörfum með eðlilegum hætti, þá verður stjórn og stjórnarandstaða að taka höndum saman og það greiðir ekki fyrir meðferð mála að spurningar og ábendingar sem bornar eru fram séu hundsaðar með þeim hætti sem hér hefur gerst í kvöld.

Ég segi fyrir mig, ég hef setið nefndarfundi frá því í rauða býtið á morgnana núna undanfarna sólarhringa þar sem gerð hefur verið krafa til þess að við myndum okkur skoðanir á rammflóknum tollafrumvörpum sem sumir, eins og Verslunarráðið, hafa fengið að hafa til meðferðar í þrjár til fjórar vikur, sem alþm. sáu fyrst fyrir nokkrum dögum, sem verkalýðshreyfingin sá þá fyrst líka og Samband ísl. samvinnufélaga. Þessir aðilar hafa ekki haft langan tíma til að skoða málið, en ríkisstjórnin hefur setið í löngum samningaviðræðum við Verslunarráðið og Félag stórkaupmanna um þessi mál. Það er verið að biðja um það að við afgreiðum þetta á handahlaupum á örfáum dögum, lögð á það ofuráhersla, nema það megi skilja svaraleysi stjórnarliðsins hér í nótt þannig að áhugi þeirra á því að ljúka þessum málum fyrir hátíðar sé þorrinn, þeir geri sér nú ljóst að það er ekki framkvæmanlegt að ljúka þessum málum með eðlilegum hætti fyrir jól og svaraleysið sé til marks um það að þeir hugsi sér að taka sér góðan tíma í þessi mál, enda er nú ekki hundrað í hættunni þó að þau fái að bíða fram yfir áramót og taka gildi þegar líður á vetur og komið væri fram á útmánuði t.d. Það er sagt að þjóðin hafi beðið eftir nýjum tollalögum í 14 ár, segir Víglundur, sem er einn af heilunum á bak við þessa snilld, kannski 15 ár, og ég hygg að menn gætu borið það af sér þó að þeir biðu í fáeinar vikur í viðbót miðað við það sem á undan er gengið í því þó að enginn hafi fyrr en hæstv. viðskrh. nefnt aldir í þessu sambandi, sem náttúrlega undirstrikar enn frekar hvað það er fáránlegt að vera að reka á eftir þessu á nokkrum sólarhringum.

Varðandi tekjuöflunina sem ríkisstjórnin og sérstaklega fjmrh. er óttalega ræfilslegur með alltaf, hann er einlægt að koma hér upp með einhverjar tölur í ræðustólinn. Og það er svo merkilegt með þessar tölur að tölurnar sem hann er að mótmæla reynast alltaf vera réttar. Reyndar notar hann sömu tölurnar og þær sem hann er að mótmæla. Þetta er auðvitað mjög sérkennileg aðferð við umræður, rökrænar umræður, að reyna að svara rökum með sömu rökum en ekki gagnrökum. Þetta þótti mikil snilld hér forðum í Hólaskóla þar sem menn stunduðu kappræðulist, discutatia, en þetta kann mjög litlum tilgangi að þjóna miðað við það að við erum hér að reyna að bera okkur saman um staðreyndir. Og hvernig lítur þetta nú út, hæstv. forseti, í sjöunda eða áttunda sinn? Það lítur þannig út, að í sumar lagði hæstv. fjmrh. á 3700 millj. kr. miðað við árið 1988. Það segir hann, það segir stjórnarandstaðan, það segja Hagtölur mánaðarins, það segir Þjóðhagsstofnun. Amen og hallelúja. Það er ljóst. Hann segir að vísu: Við eyddum af þessu 560 millj. kr. í ýmsa þarfa og góða hluti. Þá voru bara eftir 3140 millj. kr. Síðan lögðum við á 600 millj. kr. + 1400 millj. kr. og þá er heildarskattlagningin orðin 3700 + 600 + 1400 eða alls 5700 millj. kr. mínus 560, ef á að draga frá ellilífeyrishækkun og barnabóta, niðurstaða 5140. Og svo er kerfis- og tollabreytingin og tekjuaukinn af henni. Hver er hann? Hann er 2050 millj. kr. Og að segja þetta átta eða tuttugu sinnum hér í þessum ræðustólum í báðum deildum þingsins og í Sþ. líka.

Og í hvað fara þessar 2050 millj.? Jú, þær fara í niðurgreiðslur, 1250 millj. Þær fara í ellilífeyri, 280 millj. Þær fara í barnabætur, 320 millj. og afgangurinn upp í 2050 millj. fer í endurgreiðslu á kjarnfóðurgjaldi. Samtals gerir þetta 7750 millj. kr. í skattlagningu og til viðbótar hefur hæstv. fjmrh. upplýst að 600 millj. kr. komi aukalega í ríkissjóð vegna veltubreytinga milli áranna 1987 og 1988 og vegna betri innheimtu á söluskatti. Þá er þetta komið í 8750 millj. kr. En ríkisstjórnin er svo almennileg við alþýðuna, segir hæstv. fjmrh., að hún eyðir þessu í ýmsa gagnlega hluti. Hún eyðir þessu í niðurgreiðslur, hún eyðir þessu í barnabætur, hún eyðir þessu í ellilífeyri og þess vegna eru þetta í raun og veru engir skattar, engir skattar sem ríkisstjórnin er að leggja á. Niðurstaðan af þessari leikfimi er aftur á móti sú að samkvæmt þessum rökum leggur ríkið ekki á neina skatta vegna þess að þeim er öllum eytt. Niðurstaðan er núll. Og eins og ég benti á hér í ræðu minni fyrr í kvöld þá var það þannig í tíð hæstv. fyrrv. fjmrh. Þorsteins Pálssonar að ríkissjóður var öfugur þannig að það voru í raun og veru lagðir á neikvæðir skattar því að ríkissjóður var alltaf neikvæður og alltaf á hausnum. Þessi uppsetning hæstv. fjmrh. er svo ræfilsleg að það er eiginlega alveg dæmalaust að jafnágætur maður og greindur og hæstv. fjmrh. skuli aftur og aftur fara með þetta upp í stólinn. Látum vera þó að hann geri þetta einu sinni eða kannski tvisvar, en tíu sinnum! Og láta svo Sighvat, hv. 5. þm. Vestf., tyggja þetta líka. Þetta er vitlaust! Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og Jóns Baldvins hefur lagt á þjóðina 8750 millj. kr. í nýja skatta og það hafa þeir viðurkennt 30 sinnum þó að þeir segi að þeir eyði því í ýmsa góða hluti. Það er nú svo einfalt.

Hitt er svo það, sem ég þarf að fara hér nokkrum orðum um og það er skattahlutfallið. Og þá er best ég reki þetta mál nokkuð nákvæmlega því nú er nógur tíminn. Við eigum ekki að mæta á nefndarfundum fyrr en kl. sjö og átta til að koma í gegn þessum málum sem fjmrh. er að biðja okkur um að koma í gegnum þingið. Nógur er tíminn. Þá fara þeir kannski að vakna þessir jólasveinar eða húskarlar sem eru með honum í Stjórnarráði Íslands. Þá er hægt að tala við þá í fyrramálið um það leyti sem við göngum héðan út. (Dómsmrh.: Útsofna menn.) Útsofna menn. Já, já. Taka þá nývaknaða. Það er skynsamlegt, hæstv. viðskrh.

En hvernig er þetta mál með hlutfallið? Þannig var að á fimmtudaginn var bað ég Þjóðhagsstofnun um að láta mig hafa yfirlit um skattabyrði, þ.e. skatta og tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af því sem heitir á þessu latínumáli sem enginn skilur vergri þjóðarframleiðslu, hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Ég bað Þjóðhagsstofnun um að láta mig hafa þetta. Og Þjóðhagsstofnun lét mig hafa þetta á sínum haus: Þjóðhagsstofnun. Og ég var svo forsjáll að ég ljósritaði þetta sjálfur og dreifði því til nefndarmanna í fjh.- og viðskn. Ed. Þar kemur fram að skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á næsta ári verða samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar 24,7% eða 0,2% hærra en var í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem ég veit að hæstv. fjmrh. vill helst líkja sér við. 24,5% í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens sem ég sat í líka á árinu 1982. Þessi tala kemur frá Þjóðhagsstofnun. Síðan eigum við í fjh.og viðskn. Ed. viðræður við fulltrúa Þjóðhagsstofnunar og fjmrn. um þessi mál. Þá koma fram athugasemdir frá fjmrn. við þessar tölur. Þær séu nú kannski ekki alveg rétt upp settar hjá Þjóðhagsstofnun. Þjóðhagsstofnun hefur hins vegar ekki dregið sínar tillögur til baka að ég best veit, enda veit ég ekki til þess að hæstv. fjmrh. hafi húsbóndavald yfir Þjóðhagsstofnun þó svo að hæstv. viðskrh. kunni að eiga innangengt í þá stöð enn þá.

Og nú kemur hæstv. ráðherra með nýjar tölur um þetta margfræga hlutfall sem er nú rétt eins og deilan um skeggsídd okkar hæstv. fjmrh. og breytir í raun og veru sáralitlu en sýnir hvað það er í raun og veru orðin veik staða hjá ráðherranum þegar hann er að röfla um þetta nætur og daga hér í þinginu þegar menn ættu nú að hafa einhverju þarfara að sinna.

Þegar hæstv. ráðherra las upp þessar tölur hérna áðan þá leyfði ég mér að kalla fram í, sem ég geri sárasjaldan eins og forseti veit og ég sé að hann viðurkennir, ég leyfði mér að kalla fram í og spyrja: Hvaðan hefur ráðherrann þessar tölur? Hver bjó til þessar tölur? Og svaraði hann? Því nú er hann ekki orðstirður maður, þessi. Nei. Svaraði hann? Eða er hann ávarpsfeiminn, þessi hæstv. ráðherra? (Fjmrh.: Ég gríp svo sjaldan fram í.) Er hann ávarpsfeiminn? Hrekkur hann undan ávörpum? Nei, hann er djarfur til máls. En hann svaraði ekki þessari spurningu: Hver bjó til seinni töfluna fyrir hann? Þá er kannski komið að lausninni á gátunni hvað hét hundur karls. Það er nefnilega akkúrat fjmrn. sem býr til þessa töflu, m.ö.o., ráðherrann sjálfur að teknu tilliti til allra þessara breytinga á veltu og þjóðhagsstærðum milli áranna 1987 og 1988, sem hann var hér að rekja, m.a. vegna þess að skattarnir hækka svo mikið í ríkissjóð, þá hækkar þjóðarframleiðslutalan og þar af leiðandi verður hlutfallið lægra. Hins vegar upplýsti hann það ekki hvað minnkandi þjóðarframleiðsla gæti þýtt í þessum efnum varðandi þá tölu sem upp úr kössunum kann að koma að lokum.

Af hverju skyldu menn nú vera að rekja þetta svona nákvæmlega, herra forseti? Það er í fyrsta lagi vegna þess að ráðherrar eiga að venja sig á það að vera nákvæmir í talnameðferð. Í öðru lagi eiga þeir að venja sig á það að fá tölur frá öðrum en sjálfum sér. Og í þriðja lagi vegna þess að þetta sýnir hvað það er í raun og veru lítið sem þeir hafa að hanga á. Það eru núll komma eitthvað prósent minna en var mest í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Ja, til hvers var verið að kjósa og setja þessa menn í ríkisstjórnarstóla, ef þetta er nú allur metnaðurinn? Og allt afrekið og allur árangurinn, sem fram kemur með þessum hætti. Ætli það endi í 0,0001%, sem verði það einasta eina sem þeir hafi til að hæla sér af, þessir sveinar.

Nei. Aðalatriðið í þessu, herra forseti, er auðvitað að menn átti sig á því að allt er þetta byggt á mjög veikum grunni. Gengisforsendur eru óvissar. Verðlagsforsendur eru óvissar. Viðskiptahallinn, ráðherrann svaraði ekki þeirri spurningu hvað talið er líklegt að viðskiptahallinn verði á næsta ári. Þá spurningu bar ég fram fyrir hann hér í kvöld og hann svaraði því ekki. Eitt af mörgu sem ég lagði fram í minni ræðu fyrir utan alla þá fjölmörgu aðra þm. sem hér töluðu og eiga auðvitað fullan rétt á svörum. Hann svaraði því engu. Allt er þetta byggt á mjög veikum grunni. Og þegar menn eru þannig lagað holdi klætt rökþrotabú að þeir eiga ekkert eftir annað en kannski 0,2 sem þeir búa til sjálfir á hnjánum á sér uppi í fjmrn., þá er kannski ástæðulaust að halda þessari umræðu mikið lengur áfram, herra forseti.