14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

1. mál, fjárlög 1988

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér og ekki búist við því að ráðherra gæfi tilefni til þess að umræður héldu áfram hér í nótt. En ég sé að það stefnir allt í morgunfund hér og þar sem þetta er nú í annað sinn sem ég tala í málinu og ég þekki forseta að því að vera ákaflega nákvæmur og geri þess vegna ekki ráð fyrir því að hafa tækifæri til að koma hér aftur upp nema ég leggi fram þá till. sem ég var að gera, svona til að hafa hana tilbúna, að leggja hana hér fram skriflega þannig að ég geti þá fengið að tala fyrir henni og forseti kalli þá út liðið til þess að ná henni á dagskrá með afbrigðum þannig að hún megi koma á dagskrá eins og aðrar tillögur sem hafa komið fram á fundinum.

En ég verð að taka undir það með hv. 7. þm. Reykv. að það er sjaldan, afskaplega sjaldan sem maður verður var við það að ráðherra, sem hefur fagfólk allt í kringum sig til þess að skapa sér rök, standi uppi gjörsamlega rökþrota og noti alla sína þekkingu til þess að raða þeim orðum sem fyrst komu í hugann svona sæmilega til þess að úr því verði einhvers konar tal, einhver ræða án raka, og jafnvel án þess að tala um málin sem á dagskrá eru.

Ég segi eins og hv. 7. þm. Reykv.: Það er margt óafgreitt í þinginu. Við vitum að tollalögin ein taka líklega það sem eftir er af þessum stutta tíma sem er til jóla. Þau eru illa gerð. Ég veit ekki af hverju. Þar eiga sér stað sömu blekkingar og skjalafals og í fjárlögunum sjálfum. Bara sem dæmi, það eru vörur sem ekki eru framleiddar á Íslandi, settar í lága tolla bara til þess að geta sagt að þær séu í lækkandi tollum, en bera svo vörugjald til viðbótar sem er ekkert annað en tollur vegna þess að þær eru ekki í neinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Af hverju að vera með tolla og vörugjald af slíku? Af hverju ekki bara viðurkenna að það er eitt innflutningsgjald, þ.e. tollur, ekkert vörugjald. Við eigum eftir að eyða mjög miklum tíma í að ræða þau mál. Því það er alveg ljóst að þar hefur ekki verið leitað upplýsinga hjá þeim sem vildu ráðuneytinu vel. Ráðherra segir að stjórnarandstaðan lýsi sig óábyrga með tillöguflutningi sínum. Ég veit ekki til þess að ráðherra hafi nokkurn tíma lýst því yfir að stjórnarandstaðan eigi að vera ábyrg með því að gera ekki neitt, með því að koma hingað og sitja og taka á móti tölum, vélrituðum á blað-sem er útbýtt í deildinni og segja ekki neitt og hafa engar meiningar. Eru það stjórnmál? Er það ábyrg stjórnarandstaða? Ætlast ráðherra til þess að við hv. 7. þm. Reykv., sem stendur fyrir sinn flokk, höfum engar meiningar? Ekki var ráðherra það ábyrgur að hann segði við stjórnarandstöðuna: Ég ætla svigrúm í fjárlagagerðinni fyrir hugsanlegar tillögur stjórnarandstöðunnar. Því að stjórnarandstaðan er kjörin af fólkinu í landinu eins og við sem erum í meiri hluta, sem erum þó í meiri hluta sem hver um sig tapaði fylgi í síðustu kosningum. Sú ábyrgð kom ekki fram hjá hæstv. fjmrh. við fjárlagagerðina. Hann kemur svo hingað í ræðustól um hánótt þegar ég hafði nú haldið að hæstv. ráðherra vildi gjarnan fara að losna við okkur — ég efast ekkert um það að hann er fullur af vilja til þess- og segir að stjórnarandstaðan lýsi sig óábyrga með því að hafa meiningar um fjárlögin og fjárlagagerðina.

Talsmaður Alþb., hv. 7. þm. Reykv., flutti hér frábærlega góða ræðu, enda tvímælalaust einn besti ræðumaðurinn á þinginu. Í þessari ræðu gerði hann grein fyrir því að allar tillögurnar sem alþýðubandalagsmenn flytja, a.m.k. allar þær tillögur sem hann talaði fyrir, eru nákvæmlega þær tillögur sem Alþfl. undir forustu hæstv. fjmrh. hefur flutt áður og oftar en einu sinni og ekki hærri upphæðir en fjmrh. þess tíma hafði gert ráð fyrir að fá frá Alþfl. Ég minnist þess ekki að nokkur fjmrh. hafi bent alþýðuflokksforustunni, núv. hæstv. fjmrh., á það að hann væri óábyrgur vegna þess að hann hefði flutt tillögurnar. Ég skal ekkert útiloka að ég gæti tekið undir það að það hafi verið óábyrgt af Alþfl. að flytja þessar tillögur á sínum tíma. Það er kannski enn þá óábyrgara núna að taka þær upp og gera Alþfl. þann greiða að flytja hans eigin tillögur. Og það er kannski enn þá óábyrgara af Alþfl. að samþykkja sínar eigin tillögur.

Hæstv. ráðherra minntist á dagblaðsfrétt, sem hann vitnaði í og virðist hafa farið í taugarnar á honum, að ekki væri góð þjónusta við almenning. Ég veit ekki betur en flestar af þeim fréttum sem komið hafa frá fjárlagagerðinni eða flest af því sem borist hefur stjórnarandstöðunni um fjárlögin hafi fyrst komið frá blöðunum, DV o.fl.. frá fjmrh. áður en fjárlögin sáu dagsins ljós hér á Alþingi, áður en þau voru kynnt fyrir alþm. Ég veit ekki til þess að fjmrh. hafi gert neitt í því að leiðrétta þessar fréttir sem DV hefur borið, hvort heldur frá honum eða frá þeirra eigin útreikningum. Þær standa óhaggaðar enn þá. Ég lít á þær sem raunverulega réttar þangað til ráðherra hefur beðið Dagblaðið um að leiðrétta þær.

Nei, hæstv. fjmrh., það er ekki hægt að vera með kaffihúsapólitík á Alþingi Íslendinga. Það er hægt að vera með það á Múlakaffi. Einhver gárungi sagði að það væri búið að skíra það kaffi upp, það væri kallað túlakaffi. Það er kannski réttara nafn úr því sem komið er. Ég skal ekki segja um það. En þessi málflutningur á ekki rétt á sér.

Það er ágætt að heyra aftur og aftur og það náttúrlega þreytist aldrei neinn í stjórnarandstöðunni að heyra sagt frá því aftur og aftur hvernig núv. hæstv. fjmrh. fór í aðgerðir sem dugðu til þess að rétta um 5–6 þús. millj. kr. halla á ríkissjóði strax eftir að hann tók við embætti. Hann er alltaf að kenna forvera sínum um ástand í fjmrn., hvernig hann þurfti að brúa bil, gera ráðstafanir sem voru mjög mikið íþyngjandi. Það er ekki góður leikur. Það er ekki heiðarlegur leikur. En ég er ekki alveg viss um að ég skilji hæstv. fjmrh. þegar hann er að miða tilkostnaðinn við þjóðarframleiðslu. Prósentulega séð getur kostnaðurinn hoppað upp eða dottið niður eftir því hvað þjóðarframleiðslan er mikil, svo það segir ekki nokkurn skapaðan hlut hver kostnaðurinn er miðað við þjóðarframleiðslu. Hver er þjóðarframleiðslan?

Og svo annað. Í góðæri eins og undanfarinn nokkurn tíma og í góðæri eins og stendur yfir núna vill kostnaður fara upp, hann vill aukast. Ég t.d. hafði engan blaðafulltrúa í fjmrn. Mér skilst að það séu komnir þrír eða fjórir nýir aðilar í fjmrn., stöðugildi sem ekki voru til þegar ég var þar. Og er þó ekki langt síðan ég var þar. Það er náttúrlega kostnaður sem blífur að einhverju leyti þegar ráðið er fólk. Ef það er ekki aðstoðarmaður ráðherra eða eitthvað slíkt, þá blífur hann sem starfsmaður og þessi kostnaður situr eftir og reiknast inn prósentulega þó svo að þjóðarframleiðslan minnki frá því sem hún er núna, þannig að það segir ekkert til um stöðu mála, og jafnvel ekki gang mála, hver prósentan er af því sent færist til tímabundið hér og tímabundið þar.

Einu sinni spurði ég sem ráðherra tvo af fremstu fagmönnum þjóðarinnar, sem voru þá ekki sama sinnis og ég, um ákveðið mál, um þau mál sem mér hafði verið trúað fyrir, þ.e. fjmrn. Bendið þið mér á eina áætlun, bara eina áætlun, annar hvor ykkar, sem þið hafið gert og hefur staðist. Hvorugur þessara manna benti á áætlun, sem þeir höfðu gert í gegnum árin og hafði staðist. Það getur verið að þeir hefðu getað gert það en þeir gerðu það ekki. En það var þó ósk frá ráðherra á ríkisstjórnarfundi. Þannig eru nú málin stundum.

Ég er ansi hræddur um að hæstv. fjmrh. sé ekki eins heppinn og ég var. Ég tók ekki við góðu búi, en ég var heppinn sem fjmrh. að því leytinu til að ég gat notað svo margt af því sem forveri minn var að gera og ég notaði það þrátt fyrir það að við værum mjög miklir andstæðingar í stjórnmálum. Lífsskoðanir okkar fóru ekki saman. En ég viðurkenndi hann sem ágætan starfsmann. Það var mér að mörgu leyti til mikils gagns hvernig hann vann og gat nýst hvaða manni sem tók við af honum.

Hitt er svo annað mál, hann var óheppinn og þar kem ég að því að ég held að hæstv. núv. fjmrh. sigli inn í sama ástand, hann var óheppinn að því leytinu til að fjárlögin sem hann vann með voru byggð á fölskum forsendum. Forsendurnar gerðu ráð fyrir 41% verðbólgu þegar verðbólgan var komin hærra, hún var komin miklu hærra, sem þýddi það að fyrirtæki og stofnanir voru orðin fjárvana um mitt ár. Það var orðið þannig að það voru ekki peningar fyrir hita, rafmagni, akstri o.fl. fyrir börn í skólum út um land allt o.s.frv. þannig að við þurftum þá að taka upp aðferð sem mér var afskaplega ógeðfelld. Við þurftum seinni partinn á því ári að nota aukafjárveitingar. Það var ekki um annað að ræða en aukafjárveitingar til þess að halda skólum og stofnunum gangandi, m.a.s. til að halda ráðuneytunum sjálfum gangandi frá degi til dags. Það var vegna þess að verðbólguforsendur fjárlaga voru ekki réttar. Ég er ansi hræddur um að við séum að sigla inn í sams konar fjárlög núna með opnum augum vegna þess að við erum að blekkja okkur, við vitum núna hvað við erum að gera. Ég held að þeir hafi ekki áttað sig á því þá, sem varð svo til þess að við fyrstu fjárlagagerð eftir að við tókum við 1983, þá þurftum við að gera fjárlögin tvisvar og það var enginn fagnaðarboðskapur sem ég þurfti þá að boða við gerð fjárlaga, að ég mundi taka þau upp aftur í byrjun árs, en ég gerði það. Og þess vegna var það sem fjárlögin í lok þess árs voru með tekjuafgangi en ekki tapi.

En svo kem ég að því tímabili sem hæstv. núv. fjmrh. þykist hafa verið að brúa með sérstökum ráðstöfunum þegar hann tók við. Á tólf mánuðum eftir að ég skilaði fjárlögum með tekjuafgangi var hallinn orðinn 1,6 milljarðar + tekjuafgangurinn voru það tæpir tveir milljarðar.

Hæstv. forseti. Áður en ég fer úr ræðustól mundi ég gjarnan vilja fá yðar svar við því hvernig þingsköp taka brtt. sem ég hef hugsað mér að leggja fram núna. (Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. að þetta mál er í athugun að minni beiðni.) Þá ætla ég að bíða í ræðustól. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að bíða meðan málið er rannsakað.) Já, þá ætla ég að gera það. Sjálfur reikna ég með að komi fram brtt. sem ég hafði nú hugsað mér að flytja, þá verði menn ræstir út og afbrigða leitað, en ég vil þó vera það heiðarlegur að það er ekki áhugi fyrir brtt. heldur áhugi fyrir því að hafa aðgang að því að koma hér upp aftur ef hæstv. fjmrh. gefur mér tilefni til. Ég reikna með að hann taki til máls að mínu máli loknu. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann gæti fallist á að flytja brtt. sína við 3. umr.) Ég hafði hugsað mér að halda áfram að ræða málið í nótt þannig að ég get sætt mig við að fresta umræðunni, að fresta fundi. En það segir sig sjálft að ef ég kem með brtt., þá verður að leita afbrigða svo menn geti rætt tillöguna. (Forseti: Hv. þm. er að sjálfsögðu ljóst að afbrigði nást ekki eins og nú er komið málum. Hér í þinghúsinu eru nú staddir tólf hv. þm. og þá yrði annaðhvort að kalla út þingheim eða fresta fundi til morguns. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann getur ekki sætt sig við að þessi tillaga komi fram við 3. umr.) Ég er alveg reiðubúinn til þess að taka því að fundi verði frestað. Annars veit virðulegur forseti vel að það er oftar en einu sinni sem við höfum bæði verið kölluð út um miðjar nætur, kölluð jafnvel frá veislum með útlendingum o.fl. En við skulum láta reyna á það. Þó að ég ljúki máli mínu nú, þá get ég lagt fram brtt. áður en þessum fundi er slitið, þó að ég tali ekki lengur að sinni.