20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Suðurl. kom inn á margt af því sem ég ætlaði að vekja athygli á, en ég held þar áfram.

Þetta svæði, sem hér um ræðir, Vestur-Barðastrandarsýsla, hefur orðið fyrir barðinu á riðuveiki. Þar hefur verið skorinn niður gífurlegur fjöldi fjár. Fyrir bragðið er þar ekki nema lítið brot þess fjár sem gæti að skaðlausu gengið þar á landi. Því fer fjarri að á þessu svæði sé um nokkra ofbeit að ræða eða ágang sauðfjár á land. Þarna eru góðir kostir fyrir sauðfé og nægilegt beitarland. Það má ætla að ef sauðfjárbúskapur yrði á þessu svæði eins og hann var mestur mundi tæpast eitt sláturhús nægja til að sinna þeirri slátrun sem þyrfti að gera á skömmum tíma.

Þau áform um fækkun sláturhúsa, sem eru sett fram með þeim hætti sem gert hefur verið, eru e.t.v. góðra gjalda verð, en ég held að einmitt mörg af þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram þurfi að hafa ríkulega í huga. Það eru hagsmunir einstakra bænda, einstakra byggðarlaga í því sambandi að fá slátrað á þeim stöðum þar sem aðstæður leyfa.

Ég fullyrði, eins og komið er fram hér áður, að það hefur fyllilega verið farið eftir þeim kröfum sem gerðar hafa verið um hreinlætisaðstöðu. Ég þekki vel til þeirrar vatnsveitu sem um ræðir. Ég veit að hún var byggð 1963 og átti reyndar ekki að vera þannig úr garði gerð að hún tæki yfirborðsvatn heldur var um hönnunargalla að ræða svo að slíkt gerðist þrátt fyrir það þegar þannig viðrar. En þetta hefur verið notað til fiskvinnslu, til rækjuframleiðslu, til manneldis og í öll hús á Bíldudal. Klórblanda hefur verið í fiskvinnslunni en ekki í íbúðarhús og ég stend hér eins og Matthías við sæmilega heilsu þó að ég hafi lifað á þessu vatni í meira en áratug.

En ég held að þarna vanti afskaplega lítið á. Þetta hús er tilbúið til starfa. Þeir vilja ekki hefja slátrun fyrr en leyfi fást, sem eðlilegt er, og munu ekki gera það. Það sem vantar á er að hægt verði að veita heimild af hálfu ráðuneytis. Það eru þarna margir menn með kjötmatsréttindi og ég tel að undir eftirliti dýralæknis, sem mér skilst að verði tilbúinn til að annast þetta, megi sem best leysa þetta á farsælan hátt. Ég skora á landbrh. að beita sér fyrir því að þessi mál verði leyst á farsælan hátt nú á næstunni.