20.10.1987
Sameinað þing: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

Sláturleyfi sláturhússins á Bíldudal

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það var síðsumars og haustið 1978 sem ég kynntist vinnubrögðum sem ég hélt að þekktust ekki á Íslandi. Ef ég segði allan sannleikann um viðureign skagfirskra bænda við SÍS-veldið á þeim tíma mundi enginn maður trúa mér og segja að ég væri ofstækisfullur ofbeldismaður sem væri að fara með lygasögu.

En hvað er að gerast nú, að vísu ekki jafnskætt og þá var þegar yfirdýralæknir var lokaður inni í húsi kaupfélagsstjórans? Ég fékk ekki að tala við hann einu sinni í síma daginn sem hann hafði lofað að koma og skoða hús Sláturfélags Skagfirðinga. Af því að hann var að borða! Ég fékk því ekki að tala við hann í síma og síðan var hann keyrður úr bænum, passað upp á að hann fengi ekki að skoða eitt eða neitt.

Það var ekki fyrr en ég sagði að ég mundi sjálfur skjóta fyrsta hrútinn og fór norður til þess sem þessir menn gáfu sig. Og þá var hægt að senda dýralækni og þá var hægt að gefa leyfi. Þá var allt löglegt, en áður hafði það verið ólöglegt. Þeir héldu að ég væri að fremja einhver lögbrot af því að ég laug því að einum blaðamanni að ég hefði ekki byssuleyfi. Ég vissi ekki til þess að það væri ólöglegt að ljúga að Páli Heiðari. Öll önnur lög hafði ég látið grandskoða og það var allt saman löglegt sem við gerðum, en allt ólöglegt sem SÍS-valdið og landbúnaðarmafían var að gera. Og það var engin tregða embættismannaliðsins. Þessum mönnum er stjórnað af þessari mafíu enn þann dag í dag. Og ef hæstv. landbrh. skortir einhverjar lagalegar heimildir er áreiðanlega nægilegur meiri hluti í hv. Alþingi til að afgreiða þau lög, sem hann telur skorta, í dag í gegnum báðar deildir með öllum afbrigðum. Það er ég sannfærður um.

Svona ofbeldi er ekki hægt að líða. Þetta er ekkert annað en ofbeldi sem þekkist ekki annars staðar en í einræðis- og kúgunarlöndum. Við eigum að uppræta þetta í eitt skipti fyrir öll, láta ekki níðast á borgurunum með þessum hætti. Þessir bændur hafa fullan rétt á að slátra sínum 3 eða 4 þúsund kindum og Alþingi á að sjá til þess að sá réttur sé virtur og ekki láta menn komast upp með að brjóta bæði siðferði og öll lög í þessu landi. Það geta ekki verið lög að það sé ekki hægt að fá lækni til að skoða húsin og það geta heldur ekki verið lög að það eigi að framfylgja einhverri skýrslu um sláturhús þar sem tveir þriðju þeirra eiga bara að hverfa og það sé eitthvert embættismannavald sem ákveði hvaða hús eigi að hverfa. Í stjórnarskránni er atvinnufrelsið helgað. Það eru almennar reglur sem á að hlíta. Það eru mörg sláturhús sem eru miklu verr búin en það sem hér um ræðir og hafa fengið leyfi og allir brosað út í munnvikin af því að þau hús voru á vegum SÍS. Við eigum að uppræta þetta ofbeldi í eitt skipti fyrir öll.