15.12.1987
Sameinað þing: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

1. mál, fjárlög 1988

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Nokkur umræða hefur orðið á undanförnum vikum um málefni D-álmu sjúkrahússins í Keflavík og m.a. komið inn á borð hjá mér í heilbr.og trmrn. Ég hef þar gert heimamönnum grein fyrir því hver skoðun mín væri á því máli og hvernig standa ætti að framkvæmdum sem þessum og þær yrðu auðvitað fyrst og fremst að byggjast á fjárveitingum. Hins vegar hafði verið gefið út bréf í ráðuneytinu þar sem heimilað var fyrir hönd heilbrmrn. að lán yrði tekið til framkvæmda. Til að skýra viðhorf mín til málsins ritaði ég 11. nóv. bréf til stjórnar sjúkrahúss Keflavíkur og með leyfi hæstv. forseta langar mig að fá að lesa tvær málsgr. upp úr þessu bréfi. Þar segir:

„Eins og fram kemur í þeim bréfum féllst fjmrn. ekki á það sl. vor að heimila að heimamenn útveguðu lánsfjármagn til þess að flýta framkvæmdum umfram það sem fjárlög marka. Fyrrv. heilbrmrh. sá hins vegar ekki ástæðu til fyrir sitt leyti að standa í vegi fyrir því að heimamenn tækju lán í þessu skyni færi framkvæmdin að öðru leyti eftir þeim reglum sem um það gilda, m.a. að ríkið hefur ekki viðurkennt fjármagnskostnað sem styrkhæfan byggingarkostnað og því ekki tahð sér skylt að greiða 85% af slíkum kostnaði nema heimild til slíkrar lántöku sé á fjárlögum óskilyrt. Núv. heilbrmrh. hefur ekki hugsað sér að breyta á neinn hátt ákvörðun fyrrv. heilbrmrh. hvað varðar afstöðu heilbrmrn. til málsins. Ráðuneytið áréttar hins vegar að fram kom á fyrrnefndum fundi ... (Forseti: Hæstv. ráðherra er áminntur um það að þegar menn gera grein fyrir atkvæði sínu í miðri atkvæðagreiðslu verður að vera hóf á efnislegum umræðum.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti, þessari tilvitnun í umrætt bréf, ef ég má bara klára tvær línur, og þá hljóðar það svo:

„Ráðuneytið áréttar hins vegar það sem fram kom á fyrrnefndum fundi sl. föstudag áður en lengra er haldið að nauðsynlegt er að það liggi fyrir hvort heimamenn vilji einir bera þann aukakostnað sem leiðir af lántöku til að flýta byggingu D-álmu sjúkrahússins í Keflavíkurlæknishéraði. Að lokum vill heilbrmrn. taka fram að það telur eðlilegt að heimild fjmrh. fyrir lántöku liggi fyrir áður en framkvæmdir hefjast.“

Nú er það svo að í till. frá meiri hl. fjvn., sem hér liggja fyrir, er gert ráð fyrir því að veita framlag til framkvæmda við þessa umræddu álmu við sjúkrahúsið. Ég segi því nei við þessari till.